Hvar í veröldinni er Katrín Jakobsdóttir?

Í flokknum "ferðalög" á mbl.is birtist í dag mannlífspistillinn: Katrín í útlöndum

Þar er greint frá því að Katrín Jakobsdóttir fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra sé stödd í útlöndum ef marka má mynd sem hún deildi af sér og vin­kon­um sín­um á In­sta­gram. Upphaflega var sagt í pistlinum að þær virtust vera í evrópskri borg en að öðru leyti óljóst hvar þær væru nákvæmlega staddar á myndinni. (Seinna var heiti borgarinnar svo bætt við textann.)

Katrín Jakobsdóttir, Bergþóra Bene­dikts­dótt­ir fyrr­ver­andi aðstoðarmaður Katrín­ar, Anna Lísa Björns­dótt­ir aðstoðarmaður rík­is­stjórn­ar­inn­ar og Lára Björg Björns­dótt­ir fyrrverandi aðstoðarmaður Katrín­ar

Þar sem höfundur er áhugamaður um landafræði og hefur gaman af myndagátum var hér komin upp skemmtileg gestaþraut: að finna út hvar myndin var tekin.

Höskuldarviðvörun: þeim sem vilja spreyta sig sjálf er ráðlagt að lesa ekki lengra.

Fyrst var athugað hvort að skráin með myndinni innihéldi upplýsingar um staðsetningu eins og flestir snjallsímar vista ef kveikt er á GPS staðsetningarbúnaði. Gátan var þó ekki svo auðleyst því myndin á mbl.is reyndist vera skjáskot en ekki sjálf frummyndin.

Næsta skref var þá að rýna í götumyndina og reyna að bera kennsl á einhver kennileiti. Byggingarstíll eldri húsa við götuna gaf strax ákveðna skírskotun til frönskumælandi hluta Evrópu. Ekki síst umbúnaður í kringum "frönsku" svalirnar á annarri hæð byggingarinnar á götuhorninu fyrir aftan þær vinkonur.

Mest áberandi kennileitið er samt háhýsið sem sést í bakgrunni við enda götunnar. Það minnti strax á Montparnasse turninn sem er hæsta bygging Parísar og var reyndar hæsta bygging Frakklands þegar hún var reist. Það vill svo til að höfundur hefur heimsótt þá byggingu en á efstu hæð hennar er útsýnispallur hvaðan sést vel til allra átta yfir borgina. Smá leit á netinu staðfesti þetta fyrsta hugboð sem þrengdi strax leitina talsvert.

Með því að klippa út efri hluta myndarinnar þar sem sést í byggingarnar í kring og keyra hana þannig breytta inn í myndaleitarvél Google leiddi það slóðina að fasteignafélaginu Vastned en á heimasíðu þess má finna mynd sem virðist vera tekin á nákvæmlega sama götuhorninu. Fyrirtækið er til húsa við götuna Rue Rivoli í París en hún er ekki í nágrenni við Montparnasse heldur í öðru hverfi handan árinnar Signu. Á stuttu rápi um þá götu á Google Street View fannst ekkert götuhorn sem líktist þessu og slóðin kulnaði.

Eftir allt saman reyndist þó besta vísbendingin leynast í vefslóðinni fnac.com sem glittir í á auglýsingaskilti fyrir ofan búðarglugga hægra megin á myndinni. Með smá leit á netinu kom fljótt í ljós að um er að ræða verslanakeðju sem selur afþreyingarefni og raftæki og svipar að því leyti nokkuð til ELKO. Nokkrar verslanir í þeirri keðju eru víðsvegar um París en ein þeirra í nágrenni við Montparnasse, nánar til tekið í húsi númer 136 við götuna Rue de Rennes á horninu við götuna Rue Blaise Desgoffe. Á jarðhæðinni í hornhúsinu númer 140 með frönsku svölunum handan við Rue Blaise Desgoffe, beint fyrir aftan þær vinkonur á myndinni, er ein af mörgum verslunum tískukeðjunnar Zara.

Með hjálp Google Street View var fljótlegt að sannreyna að myndin af þeim vinkonum var einmitt tekin þarna, eins og má sjá með því að smella hér.

Katrín Jakobsdóttir á það sameiginlegt með Carmen Sandiego að með því að rekja sig eftir vísbendingum og kennileitum er hægt að komast að því hvar hún er niður komin.

Rue de Rennes 140, París, Frakklandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Vel gert! :)

Wilhelm Emilsson, 30.6.2024 kl. 22:28

2 Smámynd: Birgir Loftsson

Í atvinnuleit?

Birgir Loftsson, 1.7.2024 kl. 17:33

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Eða bara í verslunarferð í heimsborginni París.

Er ekki vinnumiðlun evrópskra stjórnmálamanna í Brüssel?

Guðmundur Ásgeirsson, 1.7.2024 kl. 21:01

4 Smámynd: Birgir Loftsson

Stutt á milli, getur gert bæði!

Birgir Loftsson, 2.7.2024 kl. 09:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband