Verðbólguhvetjandi vaxtahækkanir

Geta vaxtahækkanir aukið verðbólgu? Skoðum málið.

„Það sem maður er orðinn mjög hugsi yfir er það hvernig reiknaða húsa­leig­an hef­ur áhrif á verðbólg­una eins og hún mæl­ist í dag. En okk­ur sýn­ist að rúmt pró­sent af þess­ari átta pró­senta verðbólgu­mæl­ingu leiði af reiknaðri húsa­leigu sem að aft­ur end­ur­spegl­ar vaxtahækk­an­ir,“ seg­ir Bjarni [Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra] við mbl.is eftir rík­is­stjórn­ar­fund í dag.

Spurður nán­ar um þetta seg­ir hann að vinna við að end­ur­skoða hús­næðisliðinn hafi staðið yfir. „Það er að mínu áliti orðið mjög brýnt að við ljúk­um þeirri end­ur­skoðun. Þar sem mér sýn­ist sú aðferð sem notuð er í dag til að kom­ast að niður­stöðu um hina reiknuðu húsa­leigu sé að valda ákveðinni bjög­un í verðbólgu­mæl­ingu.“

Með öðrum orðum er hækkun á einum af undirliðum vísitölu neysluverðs að endurspegla vaxtahækkanir og valda ákveðinni bjögun í verðbólgumælingum. Þessi undirliður heitir "reiknuð húsaleiga" en hann samanstendur af annars vegar húsnæðisverði og hins vegar svokölluðum vaxtaþætti sem tekur mið af því hversu háa vexti heimilin þurfa að greiða af húsnæðislánum sínum.

Þessu ummæli eru athyglisverð í ljósi þess að ýmsir talsmenn hagsmuna almennings og heimilanna hafa í langan tíma verið að benda á að miklar vaxtahækkanir séu beinlínis til þess fallnar að kynda undir verðbólgubálinu. Fyrirtæki sem standa frammi fyrir auknum vaxtakostnaði eru jú líkleg til að velta þeim aukna kostnaði út í vöruverð sem veldur því að verðbólga mælist hærri en ella.

Þessu hafa talsmenn peningastefnunnar og varðhundar fjármagnsaflanna hafnað og vísað því á bug að vaxtahækkanir geti verið verðbólguhvetjandi.

Nýlega fóru svo sjónir málsmetandi aðila að beinast í auknum mæli að þessum umrædda lið í verðbólgumælingum sem kallast "vaxtaþáttur reiknaðrar húsaleigu". Á mannamáli er hægt að útskýra þetta þannig að húsnæðisliðurinn í vísitölu neysluverðs er samansettur af annars vegar greiddri húsaleigu (leiguverði) og hins vegar fyrrnefndri reiknaðri húsaleigu sem inniheldur umræddan vaxtaþátt. Það þýðir að þegar vextir hækka hafa þeir beinlínis áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverð sem í daglegu tali er kallað verðbólga.

Tilvitnuð ummæli fjármála- og efnahagsráðherra eru ekki eina staðfestingin sem hefur komið fram nýlega á því að miklar vaxtahækkanir séu beinlínis að ýta undir verðbólguna. Grípum niður í Korn Íslandsbanka frá því í gær 28. september 2023:

"Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,35% í september samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. ..."

"Það helsta sem vegur til hækkunar í septembermánuði er húsnæðisliðurinn. Liðurinn í heild hækkar um 0,7% (0,21% áhrif á VNV) þar sem greidd húsaleiga hækkar um 0,9% (0,03% áhrif á VNV) og reiknuð um 0,9% (0,16% áhrif á VNV). Innan reiknuðu húsaleigunnar er það markaðsverð íbúðarhúsnæðis sem hækkar um 0,3% og vaxtaþátturinn um 0,6%."

Með öðrum orðum voru 45,7% af hækkun vísitölunnar (0,16% af 0,35%) vegna reiknaðrar húsaleigu og tveir þriðju hlutar af því (0,6% af 0,9%) beinlínis vegna vaxtaþáttarins, eða um 30,5% af þeirri hækkun sem varð á vísitölunni.

Þessi áhrif mátti reyndar sjá nokkuð vel í Hagsjá Landsbankans 28. júní síðastliðinn, en þar kom fram myndrit sem sýnir glögglega að framlag vaxtabreytinga hefur beinlínis valdið auknum hækkunum á vísitölu neysluverðs í hverjum mánuði frá því í september í fyrra.

Til að taka þetta saman þá hafa vaxtahækkanir undanfarið ár beinlínis verið að valda aukinni verðbólgu, þvert gegn þeim yfirlýstu markmiðum þeirra að þær eigi að vera til að draga úr verðbólgu!

Alveg sama hvað sértrúarsöfnuðurinn í seðlabankanum reynir að afneita þessari staðreynd liggur þetta ljóst fyrir í opinberri tölfræði.

Ef við gefum okkur að 30% af mældri ársverðbólgu megi rekja til vaxtahækkana (sem er vissulega gróft mat því þetta sveiflast milli mánaða) þá ætti mæld verðbólga að vera mun lægri eða jafnvel ekki nema 5,6% í stað 8% ef leiðrétt væri fyrir vaxtaþættinum

Það er þó ánægjulegt að fjármála- og efnahagsráðherra virðist vera núna fyrst að átta sig á þessu. Spurningin er bara hvað mun hann gera í því? Ætlar hann að beina þeim tilmælum til seðlabankans að láta af vaxtabrjálæðinu og lækka vexti til að lækka vaxtaþáttinn í vísitölu neysluverðs og slá þannig á verðbólguna? Ætlar hann að bæta heimilunum þann skaða sem þau hafa hlotið af þessum hagstjórnarmistökum með einhverjum hætti?

Svör óskast.


mbl.is Sér ekki fram á vaxtalækkun strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

 Ég er viss um að þeir eru viljandi að búa til verðbólgu.

Það er eina skýringin.

Þetta er gert hægt, og á þann hátt að þessi 30% fólks sem eru of vitlaus til þess að geta lært skilji ekki hvað er að gerast eða hvernig.

Ásgrímur Hartmannsson, 29.9.2023 kl. 17:52

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Tek undir með Ásgrími, -og það er með ólíkindum að fólk sem telur sig vera málssvara skuldugra heimila skuli ekki hafa fattað hvað er í gangi með klækjabrögðunum í kringum vextina fyrir ár og öld síðan, og sé að flækja sig í útreikningum um útútsnúninga.

Magnús Sigurðsson, 29.9.2023 kl. 19:49

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Ásgrímur.

Það er ekki langsóttasta kenning sem til er, að kannski sé viljandi verið að búa til verðbólgu. Þá er spurning hverjir eru bæði í stöðu til þess að gera það og geta grætt á því.

Guðmundur Ásgeirsson, 29.9.2023 kl. 23:49

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Magnús.

Ég átta mig ekki alveg á því hvað þú ert að fara með þessari athugasemd, eða hvað það er sem þú heldur að málsvarar heimilanna hafi ekki fattað að sé í gangi. Pistill fjallar einmitt um hvað er í gangi, en þó aðeins hluta af því, enda er ekki hægt að gera grein fyrir því öllu í einum stuttum pistli.

Guðmundur Ásgeirsson, 29.9.2023 kl. 23:51

5 Smámynd: Magnús Jónsson

Sæll Guðmundur og haf þökk fyrir þessa ábendingu, ber að skilja það sem þú skrifar sem svo að starfsmen Seðlabankans kunni ekki að reikna, hagfræðileg dæmi, eða gera þeir það vísvitandi??, hvorugt er gott en það síðarnefnda er glæpsamlegt, ef raunveruleg verðbólga er 5% en ekki 8% vegna skorts á reiknikunnáttu, þá eru allir starfsmen og stjórnendur bankans vanhæfir, ef ekki þá er um aðför að almeningi að ræða, eða er ég að misskylja að sem skrifað var?.

Magnús Jónsson, 30.9.2023 kl. 21:23

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Magnús.

Það athugist að Hagstofan reiknar út vísitölu neysluverðs sem verðbólgan miðast við, en ekki seðlabankinn. Aftur á móti tekur seðlabankinn mið af verðbólgu við ákvarðanir sínar og treystir á að Hagstofan standi rétt að verki við útreikninga sína.

Ég treysti mér ekki að fullyrða hversu góða þekkingu sérfræðingar í seðlabankanum hafa á því sem ég var að skrifa um eða hversu vel þeir eru meðvitaðir um allar skekkjur og bjaga í útreikningum vísitölu neysluverðs. Ef ég ætti að giska væri það beggja blands, sumir vita kannski lítið um það og aðrir meira.

Vandamálið sem ég er fyrst og fremst að benda á er að vaxtahækkanir eru sjálfar farnar að valda hærri verðbólgu en ella, samkvæmt þeim almenna mælikvarða sem Hagstofan birtir, þó að yfirlýst markmið þeirra sé að draga úr henni. Það er ákveðin þversögn.

Ég tek undir með þér að hvort sem um er að ræða vankunnáttu eða vísvitandi gjörninga er hvorugt gott.

Guðmundur Ásgeirsson, 30.9.2023 kl. 21:41

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ragnar Þór Ingólfsson skrifar á facebook:

Hærri stýrivextir, hærri verðbólga!

Verðbólga síðustu 12 mánuði hefur verið 8% af þessum 8 prósentum er 1,7% vegna reiknaðrar húsaleigu sem er kostnaður við að búa í eigin húsnæði. Reiknuð húsleiga skiptist niður í breytingar á markaðsverði húsnæðis og breytingar á vöxtum. Ef vextir hækka þá hækkar reiknuð húsaleiga í VNV.

Reiknuð húsaleiga hefur hækkað á tímabilinu um 9,19% þar af er hækkun á fasteignaverði 2,26% mismunrinn þarna á milli eru hækkaðir vextir eða 6,93%.

Vægi reiknaðrar húsaleigu í vísitölu neysluverðs er 18,58% og þannig framlag í VNV 1,7% þar af hækkun vegna markaðsverðs á húsnæði 0,42% og hækkun vegna vaxta 1,287%

Ef vextir hefðu ekki hækkað á tímabilinu þá væri verðbólgan ekki 8% heldur 6,7%

Guðmundur Ásgeirsson, 2.10.2023 kl. 15:14

8 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Jafnvel seðlabankastjóri sjálfur virðist vera að átta sig á því að hugsanlega sé ákveðin þversögn fólgin í því að reyna að berjast við verðbólgu með ákvörðunum sem hækka hana.

„Mjög ó­þægi­legt“ að hærri vextir séu að hafa á­hrif til hækkunar á verð­bólgu - Innherji

"Þótt sú aðferð að innihalda áhrif vaxtabreytinga á reiknaða húsaleigu við mælingu verðbólgu kunni að vera „fræðilega rétt“ þá hefur hún óheppileg áhrif núna þegar vextir Seðlabankans fara hækkandi, að sögn seðlabankastjóra. Árstaktur verðbólgunnar væri umtalsvert lægri um þessar mundir ef vaxtaþátturinn væri undanskilin í húsnæðisliðnum í vísitölu neysluverðs."

Spurningin er þá bara hvað hann ætlar að gera í því?

Þegar fræðin hafa misst tengsl við raunveruleikann...

Guðmundur Ásgeirsson, 12.10.2023 kl. 23:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband