Meintar "vinsældir" verðtryggðra lána
5.4.2023 | 17:14
Á forsíðu Viðskiptamoggans í dag kemur fram eftirfarandi fullyrðing:
"Vinsældir verðtryggðra lána hafa farið vaxandi frá því í byrjun síðasta árs."
Sambærilegar fullyrðingar um meintar "vinsældir" verðtryggðra lána komu fram á málþingi á vegum Hagfræðideildar Háskóla Íslands fyrir allnokkrum árum síðan.
Það er orðið hvimleitt að þurfa að leiðrétta slíka vitleysu. Þetta óhagstæðasta lánsform á byggðu bóli er ekki "vinsælt". Enginn sem veit betur tekur slíkt lán ótilneyddur.
Fram til ársins 2011 voru verðtryggð húsnæðislán ráðandi á markaðnum. Það stafaði ekki af "vinsældum" þeirra heldur var einfaldlega ekkert annað í boði.
Síðan þá hafa óverðtryggð lán rutt sér til rúms í vaxandi mæli og voru á síðasta ári komin í meirihluta. Neytendur höfðu þannig í stórum stíl afnumið verðtryggingu á skuldbindingum sínum. Enda gerði ríkisstjórnin það ekki þrátt fyrir að hafa lofað því í tengslum við lífskjarasamninga árið 2019.
Fram til ársins 2020 var ekki heldur í boði að taka námslán nema með verðtryggingu.
Aukin ásókn í verðtryggð húsnæðislán upp á síðkastið er ekki til komin vegna "vinsælda" þeirra, heldur vegna þess að margir neyðast nú til að taka slík lán.
Fólk með óverðtryggð lán ræður margt ekki lengur við stökkbreytta vaxtabyrði og neyðist því til að flýja yfir í verðtryggð lán svo það lendi ekki í vanskilum, þó það sé reyndar aðeins skammgóður vermir eins og að pissa í skóna sína.
Fyrstu kaupendur standast ekki heldur greiðslumat fyrir óverðtryggðum lánum nema þeir séu á ofurlaunum sem á í fæstum tilvikum við um fólk úr þeim hópi. Vilji þau koma þaki yfir höfuðið neyðast þau því til að taka verðtryggð lán.
Þetta er dapurlegt og vinnur beinlínis gegn öllum aðgerðum til að sporna við verðbólgunni, því eins og sýnt hefur verið fram á stuðlar mikil útbreiðsla verðtryggða lána að meiri verðbólgu og harkalegri hækkunum stýrivaxta en ef þau væru ekki fyrir hendi.
Nauðung er ekki til merkis um vinsældir.
Verðtryggð lán taka yfir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkur: Verðtrygging | Breytt s.d. kl. 22:35 | Facebook
Athugasemdir
Vel mælt Guðmundur.
Þrælahald í nýjum búning.(verðtrygging)
Sigurður Kristján Hjaltested, 7.4.2023 kl. 16:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.