Lækkið þá vextina!
8.2.2023 | 22:08
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur frá kynningu nýjustu vaxtahækkunar í morgun tönnlast á því í viðtölum við fjölmiðla að hann hefði viljað sjá meiri sparnað hjá almenningi. Því miður datt engum fjölmiðlamanni að fylgja því eftir og spyrja hann hvernig fólk með meðaltekjur eða minna eigi að fara að því um þessar mundir?
Þetta er svo öfugsnúið því þegar allt sem áður var afgangs af ráðstöfunartekjum fer nú í vaxtahítina er ekkert eftir til að leggja fyrir. Margir þurfa núna jafnvel að ganga á sparifé til að fóðra vaxtagreiðslurnar og þannig draga vaxtahækkanir beinlínis úr sparnaði.
Ef snillingarnir í Seðlabankanum vilja raunverulega að við spörum ættu þau miklu frekar að lækka vextina svo við eigum þá eitthvað afgangs til að spara og þurfum ekki að minnka þann sparnað sem sum okkar áttu fyrir!
Forsætisráðherra hélt því líka fram nýlega í skriflegu svari við fyrirspurn á Alþingi að hækkun vaxta hvetji til sparnaðar og dragi þannig úr peningamagni í umferð.
Þvílík della að sparnaður launafólks dragi úr peningamagni í umferð. Peningamagn í umferð innheldur nefnilega bankainnstæður. Þegar laun eru greidd færist bankainnstæða bara af einu reikningsnúmeri yfir á annað og það hefur því nákvæmlega engin áhrif á peningamagn í umferð, hvorki til að draga úr því né auka það.
Fleira er athugavert við svarið, en meðal þess sem var spurt um var hversu mikið nýtt peningamagn hefði orðið til af völdum verðtryggingar útlána frá mars 2021. Því var svarað með þeim orðum að "Hækkun á stofni verðtryggðra útlána vegna verðbóta leiðir ekki beint til þess að nýtt peningamagn myndast."
Jú ef til vill ekki "beint" heldur gerist það í árslok við uppgjör bankans á þeim verðbótum sem hafa fallið á eftirstöðvar útistandandi lána og eru taldar sem hagnaður þó ekki sé búið að greiða þann hagnað inn í bankann. Við það verður til ný innstæða á eigin reikningi bankans sem hann notar svo til að greiða laun og annan kostnað og þannig kemst nýtt peningamagn í umferð. Svarið er því hártogun og engin tilraun var gerð til að svara því efnislega hversu mikil aukningin var.
Jafnframt kemur fram í sama svari að stjórnvöld hafa nákvæmlega ekkert gert til þess að draga úr peningamagni í umferð frá því að verðbólga fór yfir efri vikmörk opinbers verðbólgumarkmiðs í mars 2021. Þvert á móti hefur það síðan þá aukist um 22%, sem útskýrir betur en nokkuð annað þá háu verðbólgu sem nú blasir við.
Meira en fimmta hver króna í umferð var "prentuð" á síðustu tveimur árum!
Þegar fólk sem er ekki betur að sér um einfaldar staðreyndir heldur en raun ber vitni fer með stjórn efnahagsmála kemur kannski lítið á óvart að hagkerfið sé komið á vonarvöl.
Hefðum viljað sjá meiri sparnað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkar: Peningamál, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:25 | Facebook
Athugasemdir
Snilldar pistill Guðmundur og svo sannur.
Takk fyrir.
Sigurður Kristján Hjaltested, 9.2.2023 kl. 17:34
Skrif þín minna mig á Rothbard og skrif hans þegar hann smíðaði hugtakið "True Money Supply".
Nokkuð sem þeir hjá Mises Institute nota ítrekað til að greina markaðinn:
https://mises.org/wire/true-money-supply-flashing-red
https://mises.org/search-mises?search=true%20money%20supply
Geir Ágústsson, 11.3.2023 kl. 21:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.