Fasteignagjöld hækka um 21,7% í Reykjavík

Fyrirsögn viðtengdrar fréttar er vægast sagt villandi ef ekki röng, en af henni mætti ráða að fasteignagjöld í Reykjavík verði óbreytt á næsta ári frá því sem nú er.

Hið rétta kemur ekki í ljós nema lesið sé lengra inn í fréttina, að vegna mikillar hækkunar á fasteignamati um næstu áramót, sem álagning fasteignagjalda tekur mið af, munu fasteignagjöld hækka um hér um bil 20%. Nánar til tekið 21,6% að meðaltali, en hærra eða lægra eftir svæðum. Sem dæmi má nefna matssvæði 20 sem nær yfir stærstan hluta póstnúmers 101 frá Reykjavíkurtjörn að Snorrabraut, en þar mun fasteignamat og þar með fasteignagjöld íbúða í fjölbýli hækka um 29% um næstu áramót.

Mörg sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa brugðist við hinum gríðarlegu hækkunum fasteignamats með því að lækka álagningarhlutfallið á móti svo hækkun gjalda verði ekki eins mikil í krónum talið og ef hlutfallið héldist óbreytt, en ekki Reykjavíkurborg.

Margir hafa kallað eftir því að brugðist verði við með sama móti í Reykjavík. Borgarfulltrúi Flokks fólksins, Kolbrún Baldursdóttir, lagði því fram eftirfarandi tillögu í borgarstjórn.

Tillaga Flokks fólksins um álagningu fasteignaskatta fyrir árið 2023

Mikil hækkun fasteignaskatta kemur verst við fólkið sem hefur minnst milli handanna, hvort sem það eru láglaunafólk eða leigjendur. Það á meðal annars rætur sínar að rekja til þess að launatekjur láglaunafólks hafa ekki hækkað samhliða. Leita ætti fyrst leiða til aukins svigrúms með því að fara betur með núverandi tekjur borgarinnar áður en farið er að auka skattheimtu. Þess vegna leggur fulltrúi Flokks fólksins til að á árinu 2023 verði álagningarhlutfall fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði 0,15% af fasteignamati húss og lóðar en lóðarleiga íbúðarhúsnæðis 0,165% af lóðarmati. Með því móti myndi meðalfjárhæð fasteignaskatts aðeins hækka næstu áramót um 1,4% og meðalfjárhæð lóðarleigu um 0,4%.

Greinargerð

Samkvæmt nýbirtu fasteignamati 2023 mun fasteignamat íbúðarhúsnæðis í Reykjavík hækka að meðaltali um 21,7% milli áranna 2022 og 2023. Að óbreyttu álagningarhlutfalli fasteignaskatts myndi þessi hækkun fasteignamats valda hlutfallslega jafn mikilli hækkun fasteignaskatta og lóðarleigu íbúðarhúsnæðis. Til að mæta þeirri hækkun og tryggja að umrædd gjöld hækki sem minnst að krónutölu hafa mörg nágrannasveitarfélög lýst því yfir að álagningarhlutfall fasteignaskatts verði lækkað til móts við hækkun gjaldstofnsins. Því til samræmis er lagt til að um næstu áramót lækki álagningarhlutfall fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði í Reykjavík (A-flokkur) úr 0,18% í 0,15% og lóðarleiga íbúðarhúsnæðis lækki úr 0,20% í 0,165%. Með því móti myndi meðalfjárhæð fasteignaskatts aðeins hækka næstu áramót um 1,4% og meðalfjárhæð lóðarleigu um 0,4%.

Skemmst er frá því að segja að tillagan var felld.

Var ekki bara best að kjósa Framsókn? - Svar: Ekki ef þú átt húsnæði í Reykjavík!

Við þetta má bæta að þingflokkur Flokks fólksins hefur einnig lagt fram frumvarp þar sem er lagt til að gjaldstofni fasteignaskatts verði breytt þannig að hætt verði að miða við fasteignamat heldur verði framvegis miðað við fastan og fyrirsjáanlegan mælikvarða, þ.e. fermetrafjölda húsnæðis. Skattar eiga nefnilega aldrei að hækka sjálfkrafa heldur á það alltaf að þarfnast sérstakrar ákvörðunar, svo að kjörnir fulltrúar verði að axla á því pólitíska ábyrgð gagnvart kjósendum ef þeir ákveða að hækka skatta.

63/153 frumvarp: tekjustofnar sveitarfélaga | Þingtíðindi | Alþingi

Frumvarpið bíður þess nú að komast til umræðu í þinginu.


mbl.is Óbreytt álagning fasteignagjalda í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ekki frá og með næstu áramótum.

Guðmundur Ásgeirsson, 1.11.2022 kl. 16:33

3 Smámynd: Sigurður Antonsson

Sæll Guðmundur

Hvað hefur borið okkur af leið? Er þá góðærið búið? Nær hundrað milljóna fjárlagahalli. Um 20% fjölgun opinbera starfa. Sirkusinn búinn í Englandi og öll Evrópa í viðbragðsstöðu. Á Ítalíu Meloni, einstæð móðir talar fyrir heimilin og fjölskylduna.

Sigurður Antonsson, 2.11.2022 kl. 06:08

4 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Þvílík snilld - sósíalistar sanna allar greiningar yðar einlægs.

Guðjón E. Hreinberg, 2.11.2022 kl. 18:44

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Fyrir utan að vera bein skattahækkun er þetta líka verðbólguaukandi, því húsnæðiskostnaður er inni í vísitölu neysluverðs.

Guðmundur Ásgeirsson, 2.11.2022 kl. 19:44

7 identicon

Loksins kom fjáróreiða Dags B og hans Hyskis í dagsljósið.

Kanski Einar í Framsókn sé farin að sjá eftir greiðanum.

Birgir Örn Guðjónsson (IP-tala skráð) 7.11.2022 kl. 20:53

8 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

"Loksins" ???

Varstu að koma til baka eftir langa dvöl á Suðurskautslandinu?

Guðmundur Ásgeirsson, 7.11.2022 kl. 20:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband