Hvenær er óheimilt að skrá vanskil?
13.8.2022 | 19:17
Viðtengd frétt fjallar um óréttmæta innheimtu ferðaskrifstofu á eldsneytisgjaldi vegna útskriftarferðar, sem búið var að úrskurða ólöglegt. Haft er eftir föður eins viðkomandi útskriftarnemenda að hann hafi áhyggjur af afleiðingum þess fyrir svo ungt fólk að lenda á vanskilaskrá, sem gætu vissulega verið slæmar ef svo ber undir.
Faðirinn og aðrir hlutaðeigandi geta þó andað rólega og einfaldlega sleppt því að greiða hinar óréttmætu kröfur. Skoðum nánar hvaða reglur gilda um vanskilaskrá í tilvikum sem þessum, samkvæmt skilmálum starfsleyfis Creditinfo sem er gefið út af Persónuvernd.
- Skilyrði skráningar á vanskilaskrá er að löginnheimta sé hafin gegn hinum skráða. Ekki er því nóg að kröfuhafi haldi því fram að um vanskil sé að ræða eða hafi jafnvel sent innheimtubréf, heldur verður hann að hafa gripið til lagalegra úrræða til að innheimta kröfuna, svo sem með atbeina dómstóla eða sýslumanns. Fyrir því eru ströng skilyrði og skuldari nýtur andmælaréttar svo sem ef krafan er óréttmæt eins og liggur fyrir í þessu tilviki. Ef slík krafa færi fyrir dóm og skuldarinn tæki til varna yrði hann sýknaður og því ekki um nein vanskil að ræða.
- Óheimil er skráning og miðlun upplýsinga um umdeildar kröfur. Í þessu tilviki liggur ekki aðeins fyrir að kröfurnar eru umdeildar, heldur er beinlínis búið að skera úr um að þær séu ólögmætar. Þær má því ekki skrá á vanskilaskrá
- Óheimilt er að skrá vanskil vegna krafna sem eru undir 60.000 kr. að höfuðstól, en fram kemur í fréttinni að viðkomandi kröfur séu að fjárhæð 15.000 kr. og þá þegar er því óheimilt að skrá þær á vanskilaskrá.
Jafnframt má nefna að samkvæmt sömu reglum ber Creditinfo að tilkynna (meintum) skuldara um fyrirhugaða skráningu á vanskilaskrá og gefa a.m.k. 14 daga andmælafrest. Mikilvægt er að neytendur sem fá slíka tilkynningu bregðist við og kanni réttarstöðu sína strax og beri fram mótmæli innan frestsins ef skráningin á ekki rétt á sér.
Hafi neytandi efasemdir um réttmæti fyrirhugaðrar skráningar á vanskilaskrá er meðal annars hægt að leita eftir ráðgjöf hjá Hagsmunasamtökum heimilanna sem búa yfir mikilli reynslu og þekkingu á slíku og tilheyrandi regluverki, ekki síst hvað varðar húsnæðislán og önnur neytendalán. Ef um er að ræða álitaefni vegna annars konar neytendasamninga er einnig hægt að leita til Neytendasamtakanna.
Faðir æfur yfir innheimtuaðgerðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt 14.8.2022 kl. 01:34 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.