Sjálfstæði stjórnarmanna lífeyrissjóða
24.7.2020 | 14:17
...er sagt þurfa að tryggja betur. Seðlabankinn hyggst kalla eftir lagabreytingum þess efnis. Góðu fréttirnar eru að slíkt mál hefur þegar verið lagt fram á Alþingi og er ekkert að vanbúnaði að samþykkja það.
Tillaga til þingsályktunar um aukið lýðræði og gagnsæi í lífeyrissjóðum
Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram lagafrumvarp fyrir árslok 2020 sem hafi það að markmiði að auka lýðræði og gagnsæi í lífeyrissjóðum. Frumvarpið feli m.a. í sér ákvæði sem tryggi að:
a. sjóðfélagar fari með æðsta vald í málefnum lífeyrissjóða með því m.a. að stjórn lífeyrissjóða boði til félagsfunda í samræmi við samþykktir sjóðanna og atkvæðisréttur sjóðfélaga á félagsfundi fari eftir áunnum og framreiknuðum iðgjöldum sjóðfélaga eftir nánari ákvæðum í samþykktum sjóðanna,
b. stjórnir lífeyrissjóða séu kosnar ár hvert á ársfundi sjóðs,
c. stjórnarmenn og framkvæmdastjórar í lífeyrissjóðum megi ekki eiga eignarhlut eða stunda viðskipti fyrir eigin reikning í fyrirtækjum sem lífeyrissjóðurinn á hlut í eða í þeim fyrirtækjum sem sjá um fjárfestingar fyrir hönd lífeyrissjóðs,
d. Fjármálaeftirlitið haldi skrá um fjárhagslega hagsmuni og trúnaðarstörf stjórnarmanna og framkvæmdastjóra lífeyrissjóða,
e. Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með því hvort hagsmunir stjórnarmanna og framkvæmdastjóra lífeyrissjóða samrýmist þeim reglum sem gilda um störf þeirra.
Segir FME þurfa öflugri heimildir til inngripa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Þingmál | Breytt s.d. kl. 14:30 | Facebook
Athugasemdir
sem sagt þeir geta sóað lifeyrissparnaði okkar....
Gvendur44 (IP-tala skráð) 24.7.2020 kl. 16:07
Lausnin á því vandamáli er að sjóðfélagar fái að kjósa stjórnendur sem sóa ekki lífeyrissparnaði þeirra í vitleysu.
Guðmundur Ásgeirsson, 24.7.2020 kl. 16:21
Ekki alveg svona einfalt. Sjóðirnir eru einfaldlega orðnir of stórir. Sjóðfélagar dreifðir og misáhugasamir.
Hvernig ættu sjóðfélagar svo að velja stjórnendur? Þá sem hafa hæst og auglýsa sig mest? Yrði þannig tryggt að þeir hæfustu yrðu kjörnir?
Það þarf að finna annað og betra fyrirkomulag en er nú. Þótt ákveðið aðhald sé í núverandi mynd þegar tveir "andstæðir" pólar eru í forsvari er greinilegt að það þarf að stokka upp allt kerfið.
Hvernig er svo spurningin.
Kolbrún Hilmars, 24.7.2020 kl. 17:02
Svarið kemur fram í tillögunni. Sjóðfélagar velji sér stjórnendur með því að kjósa þá á ársfundi lífeyrissjóðs.
Það er nákvæmlega þannig sem launþegar velja sér stjórnendur verkalýðsfélaga, með því að kjósa þá úr sínum eigin röðum.
Þess vegna eru t.d. engir fulltrúar atvinnurekenda í stjórnum verkalýðsfélaga og það sama ætti að gilda um lífeyrissjóði.
Guðmundur Ásgeirsson, 24.7.2020 kl. 17:11
Auðvitað eiga sjóðfélagar að kjósa sjóðunum stjórnir. Rétt eins og hluthafar í almenningshlutafélögum kjósa stjórnir. Mér finnst þetta segja sig sjálft.
Það tryggir samt ekki endilega að sjóðunum sé vel stýrt, ekkert frekar en aðalfundir stórra almenningshlutafélaga tryggja að þeim sé vel stýrt. Ég hef einu sinni mætt á aðalfund lífeyrissjóðs þar sem sjóðfélagar kjósa stjórn. Þessi sjóður var, og er, rekinn af banka. Ólíkt mörgum sjóðum stundar sjóðurinn virkar fjárfestingar í stað þess að fjárfesta í sjóðum sem endurspegla markaðinn. Hann greiðir því miklu meira fyrir umsjónina og það er bankinn sem nýtur góðs af því. Sjóðurinn hefur líka fjárfest í vafasömum verkefnum. Hann fjárfesti til dæmis töluvert í vítisverksmiðju suður í Keflavík sem enginn vill sjá, en sem vildi svo til að bankinn hafði lánað mikið fé. Á aðalfundinum var fjöldi manns. Nokkuð margir tóku til máls. Í flestum tilfellum lýsti málflutningurinn engum skilningi á því hvað er vel rekinn lífeyrissjóður og hvað er illa rekinn lífeyrissjóður. Ég hugsa að það eigi við um flesta sjóðfélaga að þeir botna ekkert í rekstri svona sjóða og hafa ekki hugmynd um hvenær verið er að svindla á þeim.
Það breytir ekki því að mér finnst sjálfsagt að sjóðfélagar kjósi stjórn. Og það verða að vera sjóðfélagarnir beint, ekki einhverjir verkalýðsforkólfar. En það er líka mikilvægt að til staðar sé öflug eftirlitsstofnun sem fylgist með því að sjóðirnir séu ekki misnotaðir.
Þorsteinn Siglaugsson, 24.7.2020 kl. 22:00
Þú átt væntanlega við Almenna lífeyrissjóðinn.
Að sjálfsögðu er það engin trygging fyrir því að sjóðum sé vel stýrt þó sjóðfélagar kjósi stjórn. Svo lengi sem sjóðfélagarnir kjósa fólk úr sínum röðum er það þó hindrun fyrir því að atvinnurekendur komist með skítugar krumlurnar í eignir þeirra.
Mér finnst reyndar óskiljanlegt að sjóðfélagar í Almenna sætti sig við stjórnarmenn sem fela Arion banka (af öllum) umsjón með eignum sínum. En svo lengi sem það er þeirra vilji er ekki mitt að hafa vitið fyrir þeim frekar en öðrum.
Guðmundur Ásgeirsson, 24.7.2020 kl. 22:13
Það þarf fyrst og fremst að afnema skylduaðild að lífeyrissjóðum, hún er lögbundin þjófnaður.
Það er nóg að vera skuldbundinn ríkinu alla ævi, sú skuldbinding á að vera gagnkvæm, þannig er það í flestum siðuðum samfélögum.
Svo geta þeir sem það vilja, látið hlutfall launa sinna renna með ívilnunum til svo kallaðra lífeyrissjóða og kosið stjórnendur.
Magnús Sigurðsson, 25.7.2020 kl. 06:51
Guðmundur, það er galli í ofangreindum tillögum, í a)lið, að kosningaréttur fari efir áunnum + framreiknuðum iðgjöldum. Nær væri að miða við árafjöldann, því annars verða lægra launaðir alltaf undir en hálaunamenn yfir. Ekkert lýðræði í því - eða hvað?
Kolbrún Hilmars, 25.7.2020 kl. 10:34
Þetta er reyndar ekki Almenni heldur Frjálsi Guðmundur. Ég er sammála þér um að þetta fyrirkomulag er óskiljanlegt. Það er reyndar búið að reyna oftar en einu sinni að koma á breytingum, en vandamálið er að bankinn safnar umboðum og hefur því alltaf yfirhöndina á aðalfundum. Þess vegna er svolítið kjánalegt að þetta heiti Frjálsi lífeyrissjóðurinn, því hann er rígbundinn bankanum og bara alls ekkert frjáls!
Það að sjóðfélagar kjósi stjórn getur að einhverju leyti staðið í veginum fyrir því að utanaðkomandi aðilar komist með skítugar krumlurnar í sjóðina. Það á jafnt við um hagsmunaaðila úr röðum atvinnurekenda og verkalýðsrekenda.
Í Frjálsa fer atkvæðamagnið eftir inneign líkt og í þessum tillögum. Ég hef í sjálfu sér ekki myndað mér skoðun á hvort það er besta fyrirkomulagið, eða hvort fara ætti eftir árafjölda eins og Kolbrún leggur til, eða jafnvel bara einn maður eitt atkvæði. Eflaust kostir og gallar við hvert fyrirkomulag, en ég er ekki sannfærður um að það skipti miklu nákvæmlega hvert fyrirkomulagið er. Meginatriðið er að sjóðfélagar kjósi stjórn í beinni kosningu. Og ég skil raunar ekki hvers vegna ekki er löngu búið að koma því fyrirkomulagi á.
Þorsteinn Siglaugsson, 25.7.2020 kl. 11:02
Kosið er í stjórn verkalýðsfélaga en öfgahægrikarlar og -kerlingar gapa sífellt um "verkalýðsrekendur".
Flestir launþegar nenna hins vegar ekki að kjósa í þeim kosningum, vilja láta aðra gera allt fyrir sig, og það sama er uppi á teningnum í lífeyrissjóðum.
Ef launþegar legðu ekki fyrir í lífeyrissjóðum myndu þeir fyrst og fremst leggja sparifé sitt fyrir í bönkunum og láta aðra sýsla með verðbréf og hlutabréf fyrir sig en auðvitað vilja sumir ekki borga fyrir það.
Margir myndu hins vegar ekki leggja eina mörlenska krónu fyrir til elliáranna eða vegna mögulegrar örorku í framtíðinni, annað hvort vegna þess að þeir teldu sig ekki hafa efni á því eða vegna fyrirhyggjuleysis í fjármálum, sem er landlægt hér á Klakanum.
Og lífeyrisgreiðslur Tryggingastofnunar koma úr ríkissjóði, frá atvinnurekendum og launþegum.
Þorsteinn Briem, 25.7.2020 kl. 13:28
Hugmyndin á bak við að láta atkvæðavægi fara eftir réttindum í sjóði byggist sennilega á svipuðum forsendum og að láta atkvæðavægi í hlutafélögum endurspegla eignarhlut viðkomandi. Svo má alveg hafa skoðun á því hvort hafa eigi annað fyrirkomulag.
Persónulega finnst mér hver og einn sjóður eiga að ráða því. Þannig gætu t.d. sósíalistar haft sinn sjóð þar sem væri eitt atkvæði á mann, hvort sem sá maður hefur lagt lítið eða mikið af mörkum. Sjálfstæðismenn gætu svo haft sinn eigin sjóð þar sem Samherji færi með öll atkvæðin. Framsóknarmenn með sinn sjóð í skúffu á skrifstofu Kaupfélags Skagafjarðar. Og svo framvegis.
Aðalatriðið í mínum huga er að sjóðfélagarnir ráði þessu sjálfir, bæði hvernig reglur þeir setja sjóðnum og svo hverja þeir kjósa til að stjórna samkvæmt þeim reglum. Það felur líka í sér að sá sem vil ekki vera í sjóði með öðrum ráði því þá sjálfur hvað hann geri við peninginn í sínum eigin sjóði.
Guðmundur Ásgeirsson, 25.7.2020 kl. 13:50
Þegar ég sagði að lífeyrissjóðirnir væru orðnir of "stórir", átti ég aðeins við skyldulífeyrissjóðina, framlag til þeirra er nú 15,5% af launum.
Ef við miðum við 7 milljóna árstekjur að meðaltali fyrir 170 þúsund launþega, þýðir það framlag til sjóðanna sem nemur 185 milljörðum á ári. (Ofangreindar tölur eru bara dæmi og varlega áætlaðar).
Sjóðunum er svo gert að ávaxta þessa fjármuni með uþb 3,5% árlegri ávöxtun.
Spyrja má: HVAR? og AF HVERJUM?
Kolbrún Hilmars, 26.7.2020 kl. 10:52
Sammála því að best er að sjóðirnir ráði þessu sjálfir, það er að segja sjóðfélagarnir. Það er líka mjög mikilvægt að kosningar séu rafrænar. Það hefur verið áherslumál gagnrýnisraddanna í Frjálsa að koma slíku fyrirkomulagi á, enda aldrei nema brot af sjóðfélögunum sem mæta á ársfundi. En gegn þessu hefur bankinn vitanlega staðið. Rafrænar kosningar eða póstkosningar ættu að vera skilyrði í lögum um lífeyrissjóði, en ákvörðun um atkvæðavægi tekin af hverjum sjóði fyrir sig. Prinsippið á að vera alger skil milli lífeyrissjóða annars vegar og atvinnurekendafélaga, verkalýðsfélaga og banka hins vegar.
Þorsteinn Siglaugsson, 26.7.2020 kl. 12:11
Og, svo því sé bætt við: Er í rauninni einhver sérstök ástæða til að greiðsla í lífeyrissjóði sé lagaskylda? Þessar greiðslur eru orðnar afar hátt hlutfall af launum. Fyrir ungt fólk sem er að fjárfesta í húsnæði getur það munað töluverðu að geta sett sparnaðinn í húsnæðið fremur en í lífeyrissjóði meðan þunginn af þeirri fjárfestingu gengur yfir. Og margir sem hafa vit á fjárfestingum myndu eflaust fremur vilja sjá sjálfir um sinn sparnað en láta misvitra stjórnendur lífeyrissjóða höndla með hann. Sér í lagi þegar byrjað er að láta önnur sjónarmið en arðsemi ráða, til dæmis atvinnusköpun eða "almannahagsmuni" og setja peningana í hæpin fjárfestingaverkefni á borð við kísilverksmiðjuna í Helguvík eða jafnvel pólitísk spillingarverkefni eins og Vaðlaheiðargöng.
Þorsteinn Siglaugsson, 26.7.2020 kl. 12:16
Kolbrún. Það er mýta að á lífeyrissjóðum hvíli einhver skylda til að ná 3,5% raunávöxtun. Hið rétta er að þetta er uppgjörsviðmið sem er lagt til grundvallar við bókhaldslegt uppgjör.
Spurt er hvar og hjá hverjum eigi að ná ávöxtun á lífeyrinn? Þorsteinn kemur með nokkuð gott svar við því í athugasemd #14. Hjá okkur sjálfum. Ef einstaklingar gætu nýtt lífeyrissparnað sinn að vild til að fjárfesta (beint) í íbúðarhúsnæði. Þá væri það á sama vegasalti hvort þeir fá góða ávöxtun á lífeyrinn á annan bóginn eða lága vexti á fjármögnunina á hinn bóginn. Í báðum tilfellum nýtur einstaklingurinn gott af hagnaðinum.
Guðmundur Ásgeirsson, 26.7.2020 kl. 12:25
Guðmundur, ég hef einmitt verið hlynnt þeirri (nýlegu) stefnu lífeyrissjóðanna að "fjárfesta" í húsnæðislánum til sjóðfélaga.
Öruggasta fjárfesting sem til er.
En það mætti spara sjóðfélögum vaxtakostnaðinn ef þeir fengju að leggja aurana sína beint í húsnæðið. Sennilega einn af mögulegum kostum, áður en lífeyrissjóðirnir kikna undan eigin þunga.
Kolbrún Hilmars, 26.7.2020 kl. 13:01
Hjartanlega sammála.
Ef við fengjum að nýta lífeyrissparnaðinn í beina íbúðafjárfestingu án viðkomu í lífeyrissjóði, væri útrýmt óþarfa millilið og öllum þeim óheyrilega rekstrarkostnaði sem honum fylgir.
Guðmundur Ásgeirsson, 26.7.2020 kl. 13:13
Ég er sjóðfelagi í þeim Frjálsa, ég hef aldrei fengið tilkynningu um aðalfund sjóðsins, er það ekki skylda sjóðstjórnenda að allir sjóðsfélagar fái aðalfundar tilkynningu?
Ef aðalfundir eru eru ekki tilkynntir þá er engin furða að örfáir sjóðsfélagar komi á fundinn.
Var eigandi að hlutabréfum i mörgum stórfyrirtækjum og fékk alltaf aðalfundar tilkynningu og atkvæðaseðil um málefni og fyrir þá sem voru i framboði og gat líka sent inn atkvæði fyrir þeim sem mér leist vel a og voru í framboði.
Svo hætti ég að vera með fyrirtækjahlutabréf fyrir sex árum siðan og þurfti að Hörgá fjárfestinga fyrirtækjum allt að 2% af því fé sem eg fjárfesti hjá þeim, skipti ekki máli hvert eg hafði hagnað eða ekki. Nú stjórna ég mínum lífeyrissjóðum hér í USA sjálfur, gengur bara vel er með 13% til 18% hagnað af því fé sem ég fjárfesti, kostnaður er sama og enginn, engir hrægammar í kringum mínar fjárfestingar.
Kveðja frá Montgomery Texas
Jóhann Kristinsson, 26.7.2020 kl. 14:52
Í raun og veru er engin þörf á rekstrarkostnaði í kringum fjárfestingar lífeyrissjóða. Það er margsannað mál að til lengri tíma er skynsamlegast að fjárfesta í sjóðum sem fylgja markaðnum. Kostnaður við slíkt er sáralítill. Það eina sem lífeyrissjóðurinn þarf að gera er að passa upp á að eiga ávallt hæfilegt lausafé fyrir útgreiðslum.
Eina ástæðan fyrir því að eignastýringafyrirtæki komast upp með að rukka 2% á ári er sú að mjög margt fólk getur ekki lært af reynslunni. Það er sama orsök fyrir því að fólk eyðir peningum í fjárhættuspil.
Þorsteinn Siglaugsson, 27.7.2020 kl. 21:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.