Vaxtalækkanir skila sér seint og illa
8.4.2020 | 11:56
Þegar Seðlabanki Íslands hóf vaxtalækkunarferli sitt í maí 2019 voru stýrivextir 4,50%. Síðan þá hafa þeir í skrefum verið lækkaðir niður í 1,75%, eða um 61%.
Þegar vaxtalækkunarferlið hófst voru lægstu óverðtryggðir vextir íbúðalána hjá bönkunum 6,00% en hafa síðan þá lækkað niður í 4,90% miðað við þá mælingu sem gildir fyrir apríl mánuð, eða um einungis 18%.
Frá síðustu mælingu hefur Landsbankinn lækkað vexti tvisvar og tilkynnti í gær um þriðju lækkunina, niður í 4,00% frá og með 14. apríl næstkomandi, en sú lækkun mun ekki skila sér inn í mælingu seðlabankans fyrr en í maí í fyrsta lagi.
Ef óverðtryggðir bankavextir hefðu hins vegar þróast á sama hátt og stýrivextir og lækkað um 61% ættu þeir núna að vera komnir niður í 2,33%.
Verðbólga er nú 2,1% þannig að ef verðtryggðir vextir endurspegluðu sama raunvaxtastig og þeir óverðtryggðu ættu vextir verðtryggðra íbúðalána að vera komnir niður í um 0,23%, en eru nú lægstir 2,40% hjá bönkunum.
Samkvæmt þessum forsendum eiga heimilin ennþá inni hjá bönkunum enn frekari vaxtalækkanir upp á a.m.k. 1,77-2,17 prósentustig. Neytendur hljóta að gera þá kröfu til stjórnvalda að þau sjái til þess að sú lækkun nái strax fram að ganga. Enda er ólíðandi að bankarnir stingi mismuninum í eigin vasa, ekki síst í núverandi árferði.
Landsbankinn lækkar útlánsvexti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Verðtrygging | Facebook
Athugasemdir
Skrítið að þetta skeður líka hjá olíufélögunum.
Er þetta eitthvað lögmál sem viðgengst á Íslandi
að ávallt skal snuða Jón og Gunnu..??
Sigurður Kristján Hjaltested, 8.4.2020 kl. 12:25
Innstæðuvextir á veltureikningum eru komnir í 0.05%. Segðu svo að vextir hafi hvergi lækkað. :)
Kolbrún Hilmars, 8.4.2020 kl. 15:44
Kolbrún. Pistillinn fjallar um útlánavexti.
Innstæður á veltureikningum þjóna ekki þeim tilgangi að fá ávöxtun á peninga heldur til að eiga þá inni á debetkortinu til að nota þegar farið er út í búð að versla.
Guðmundur Ásgeirsson, 8.4.2020 kl. 15:50
Þarna er samt samhengi, Guðmundur. Eða hvaðan fá bankar peningana til útlána?
Kolbrún Hilmars, 9.4.2020 kl. 10:09
Góð spurning Kolbrún því það vill svo til að ég veit svarið við henni og þarf ekki að "halda" neitt um það.
Bankar fá "peninga" til útlána einfaldlega með því að búa þá til. Það gerist þannig að þegar lánsumsókn hefur verið samþykkt er tala sem jafngildir fjárhæð lánsins slegin inn í tölvu og við það myndast ný innstæða sömu fjárhæðar á innlánsreikningi lántakandans. Þannig myndast langstærstur hluti allra innlána.
Samhengið þar á milli er því alveg öfugt við það sem margir halda. Innlán verða ekki að útlánum heldur verða útlán að innlánum. Það er samhengið þar á milli.
Samhengið á milli vaxta á innlánum og vaxta á útlánum felst í því að til lengri tíma getur banki ekki greitt hærri vexti af innlánum en hann fær í vaxtatekjur af útlánum, án þess að ganga á eigið fé sitt sem er takmarkað. Hversu mikill munur er á vöxtum innlána og útlána fer svo eftir því hversu mikinn afgang bankinn vill eiga af vaxtatekjum sínum eftir greiðslu vaxta af innlánum.
Ef innlánsvextir eru lágir ætti þar af leiðandi ekkert að vera því til fyrirstöðu að hafa útlánsvexti lága líka.
Guðmundur Ásgeirsson, 9.4.2020 kl. 15:04
Hvert er samhengið almennt á milli þessara skammtímavaxta Seðlabankans og vaxta á langtímalánum til einstaklinga?
Þorsteinn Siglaugsson, 9.4.2020 kl. 15:42
Einmitt, það þarf fyrst að lækka innlánsvexti áður en kemur að lækkun útlánavaxta. Mismuninn þarf bankastofnunin alltaf til eigin rekstrar. Og arðgreiðslna í árslok.
Bankakerfið hefur gulltryggt sér veltureikningana hverjir sem vextirnir eru af þeim - eða hver getur rekið fyrirtæki í dag án milligöngu bankans? Einstaklingar geta þó hugsanlega tekið allt sitt út ef ávöxtunin undir koddanum er sú sama og hjá bankanum.
Kolbrún Hilmars, 9.4.2020 kl. 15:57
Fræddu okkur endilega um það Þorsteinn.
Guðmundur Ásgeirsson, 9.4.2020 kl. 16:02
Ég hef ekki hugmynd Guðmundur. Ekkert skoðað það. En var að vona að þú hefðir kannski gert það.
Þorsteinn Siglaugsson, 10.4.2020 kl. 10:28
Þorsteinn. Ég hélt þú hefðir lesið pistilinn, því hann fjallar einmitt um það samhengi.
Á vef Seðlabanka Íslands kemur fram að "meginvextir" hans eins og þeir kallast nú, eigi að hafa áhrif á vaxtamyndun á markaði.
Eins og ég rakti í pistlinum virðast þau áhrif þó vera takmörkuð þar sem vextir á markaði hafa lækkað mun minna en stýrivextir frá því að byrjað var að lækka þá í maí 2019.
Guðmundur Ásgeirsson, 10.4.2020 kl. 16:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.