Sambærileg ákvæði nú þegar í íslenskum lögum
31.1.2016 | 14:05
Þingflokkur VG gagnrýnir nýlega danska löggjöf um útlendingamál, sem felur það meðal annars í sér að heimilt sé að krefja innflytjendur sem hafa ráð á því um að greiða hluta þess kostnaðar sem fellur á danska skattgreiðendur vegna málsmeðferðar og aðstoðar sem innflytjendur fá við þá málsmeðferð.
Í ályktun þingflokksins segir meðal annars: Þingflokkur VG tekur undir með þeim sem hafa fordæmt löggjöfina og leggur áherslu á að sambærileg ákvæði rati aldrei í íslenska löggjöf... Þannig fordæmir þingflokkurinn annars vegar dönsku löggjöfina, og hinsvegar mælir hann gegn því að sambærileg ákvæði verði færð í íslensk lög en því miður fyrir þingflokkinn er það of seint.
Lög nr. 96/2002 um útlendinga hafa meðal annars að geyma eftirfarandi ákvæði:
2. málsl. 4. mgr. 34. gr. (Réttaraðstoð): "Krefja skal útlending um endurgreiðslu kostnaðar af réttaraðstoð að hluta til eða að öllu leyti ef hann hefur ráð á því."
3. mgr. 47. gr. b. (Réttarstaða hælisleitanda): "Ef í ljós kemur að hælisleitandi hafði ekki þörf fyrir þá fyrirgreiðslu sem veitt var getur Útlendingastofnun krafið hann um endurgreiðslu kostnaðar að hluta eða öllu leyti."
1. mgr. 56. gr. (Ábyrgð á kostnaði): "Útlendingur, sem færður er úr landi samkvæmt lögunum, skal greiða kostnað af brottför sinni. Útlendingurinn skal einnig greiða kostnað af gæslu þegar hennar er þörf vegna þess að útlendingurinn fer ekki úr landi af sjálfsdáðum. Krafan er aðfararhæf og hún getur auk þess verið grundvöllur frávísunar við síðari komu til landsins, sbr. h-lið 1. mgr. 18. gr. Lögreglunni er heimilt að leggja hald á farseðla sem finnast í fórum útlendingsins til notkunar við brottför. Sama gildir um fjármuni til greiðslu á kröfu vegna kostnaðar við brottför og gæslu samkvæmt ákvæði þessu."
1. mgr. 18. gr. (Frávísun við komu til landsins): "Heimilt er að vísa útlendingi frá landi við komu til landsins eða allt að sjö sólarhringum frá komu ef ... [h.] hann hefur ekki greitt kostnað hins opinbera við fyrri færslu hans úr landi, sbr. 1. mgr. 56. gr."
Af framangreindu verður að teljast ljóst að ályktun þingflokks VG gegn því að sambærileg ákvæði rati í íslenska löggjöf, er ekki aðeins markleysa, heldur beinist hún að atriðum sem hafa verið í íslenskum lögum í meira en áratug og er því fullseint í rassinn gripið.
Gagnrýni þingflokks VG hlýtur enn fremur að verða að skoða í ljósi þess að 9. september 2010, þegar VG var í stjórnarmeirihluta, voru samþykkt lög nr. 115/2010 um breyting á lögum um útlendinga, þar sem framangreindri 47. gr. b. var bætt við löggjöfina, og voru þau lög samþykkt án breytinga á hinum eldri ákvæðum laganna sem hér vísast til.
Það hlýtur að skjóta skökku við að þingflokkur sem er nú í stjórnarandstöðu, skuli í raun álykta gegn tilteknum ákvæðum íslenskra laga, þegar engar slíkar breytingar voru gerðar á þeim lögum þegar sami þingflokkur var í stjórnarmeirihluta, heldur var þvert á móti aukið við fjölda ákvæða af því tagi sem gagnrýnin beinist að.
Vissulega verður einnig að skoða málið í ljósi þess að VG hafði ekki hreinan meirihluta á síðasta kjörtímabili, heldur var sá meirihluti myndaður af VG og Samfylkingu. Það væri því kannski vert að upplýsa hvers vegna þessum ákvæðum var ekki breytt til samræmis við vilja VG á síðasta kjörtímabili, hvort um sé að kenna rænuleysi þingmanna VG eða andstöðu Samfylkingar við áherslur VG í þessum málaflokki?
Það skal að endingu tekið skýrt fram að með framangreindum athugasemdum er höfundur ekki að tjá neina sérstaka afstöðu í útlendingamálum, eða hvort ákvæði á borð við þau sem um ræðir eigi heima í íslenskum lögum eða ekki. Hér er aðeins ætlunin að draga fram þá staðreynd að um árabil hafa verið heimildir í íslenskum lögum til að krefja útlendinga sem hingað koma um greiðslu kostnaðar við þá málsmeðferð og aðstoð sem stjórnvöld veita þeim, ásamt því að ganga að eignum þeirra til innheimtu slíkra krafna.
VG fordæmir dönsku lögin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:32 | Facebook
Athugasemdir
ég geri bara ráð fyrir því að sú ríkisstjórn hafi ekki komist yfir það. Auk þess að það var aðkallandi á þeim tíma þar lítið var um flóttafólk á þeim tíma.
Kristbjörn Árnason, 31.1.2016 kl. 15:04
Það hlýtur þó að verða að teljast merkilegt að íslenskur þingflokkur skuli beina gagnrýni sinni að Danmörku fyrir að lögfesta ákvæði sem hafa átt sér hliðstæðu í íslenskum lögum um langt árabil. Ekki síst þar sem allir viðstaddir þingmenn sama flokks greiddu atkvæði með því árið 2010 að fjölga slíkum ákvæðum í viðkomandi löggjöf.
Alþingi 138. löggjafarþing. 154. fundur. Atkvæðagreiðsla 43202 507. mál. útlendingar
Guðmundur Ásgeirsson, 31.1.2016 kl. 15:44
Í tíð v-stjórnarinnar var mikið að gera og ekki verið að leita uppi viðfangsefni beinlínis utan við hrunmálin.
En samt að sú viðleitni sem farið var í náði alls ekki nógu langt og líklegt að ekki hafi náðst samstaða um meiri framfarir.
En ég er á þeirri skoðun að VG- menn hefðu viljað taka á þessum málum á sínum tíma og eru sammála þér væntanlega um það. Ég held einnig að flestir innan SAM séu það líka.
Nú nýlega hafa V- flokkarnir á Norðurlöndunum gert sterka ályktun um þetta efni sem er leiðarljósið núna.
Síðan eru að verða svo róttækar breytingar á þessu sviði í Evrópu sem virðist kalla á alveg nýja nálgun í þessum efnum.
Það virðist ljóst að íslendingar geti jafnvel ekki til frambúðar varið landið fyrir erlendu fólki einfaldlega vegna landrýmisins hér.Því eru öll næstu skref ákaflega vandasöm. Það verður að vera stefna sem sátt er um og einkennist af mannúð. Einnig verður að ríkja skilningur á íslenskri stefnu út fyrir landsteinanna.
A.m.k. gengur ekki upp gamla stefnan á Íslandi sem var uppfærð á dögum Björns Bjarnasonar ekki gengið til lengdar.
Sú var tíðin í Reykjavík að maður heyrði nánast aldrei neinn tala á erlendu tungumáli. Þ.e.a.s. eftir að bandarísku hermennirnir hættu að koma vikulega í bæinn með rútum í Lækjagötuna þar sem þeir voru síðar sóttir.
Kristbjörn Árnason, 31.1.2016 kl. 17:55
"Í tíð v-stjórnarinnar var mikið að gera og ekki verið að leita uppi viðfangsefni beinlínis utan við hrunmálin."
Það kom samt ekki í veg fyrir þá breytingu sem var gerð með ofangreindum lögum nr. 115/2010 þar sem var ekki dregið úr heimildum til að endurkrefja útlendinga um kostnað, heldur var þvert á móti aukið við slíkar heimildir í útlendingalögum.
Guðmundur Ásgeirsson, 31.1.2016 kl. 18:07
Þetta er nú með aulalegri fordæmingum, sem lagðar hafa verið fram af fylgisfólki Þistilfjarðarkúvendingsins. Ekki verið að eyða óþarfa tíma í að kynna sér málin, heldur vaðið af stað með stóryrðum og ekkert hirt um hvort innistæða sé fyrir gagnrýninni. Populismi af alverstu gerð, en hittir jafnframt þá sem gaspra svona hugsunarlaust út í loftið, ansi illa í andlitið. Að þau hafi greitt atkvæði með auknum innheimtuaðgerðum, á hendur þeim sem enfi hafa á, kórónar síðan smánina. Ef þetta er ekki að gera illilega í brók, þá veit ég ekki hvað. Undarlegt að skuli finnast aðilar sem ætla síðan að afsaka þessa þvælu með yfirklóri og afsökunum. Afsakanir finnast aungvar, fyrir svona husunarlausu gaspri og rugli. Ekki einu sinni með Hruninu.
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 31.1.2016 kl. 19:32
Já þetta er ansi neyðarlegt hjá VG!
Ekki síður en afstaðan til Drekasvæðisins!
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 1.2.2016 kl. 00:19
Ahverju að taka VG sérstaklega útfyrir sviga þarna? Jú jú, vissulega er þarna fordæmig formleg, - en flestallir íslendingar hafa fordæmt þetta undanfarið, - nema ég. Vegna þess að ég kynnti mér málið sem er óvenjulegt í íslensku samhengi.
Álíka lög eru sennilega hjá flestum ríkjum með einum eða öðrum hætti, þ.e. heimildin. En svo er misjafnt hvernig framkvæmdin er eins og gengur og gerist.
Þýskaland, Noregur, Sviss, Ísland, öll með svipaðar heimildir.
Lögin per se þurfa ekkert að vera svo fráleit. Það er hvernig þau eru svo framkvæmd sem er vafaatriðið.
Það er eins og íslendingar lesi ekki erlenda fréttamiðla og kynni sér aldrei neitt, - nema ef þeir finna einhverja hatursgrein gagvart ESB. Þá lesa þeir.
Eins og bent hefur verið á erlendis, þá er afar ósennilegt að einhver flóttamður falli undir þessi lög, - vegna þess einfaldlega að þeir eiga oftast ekki neitt, - en eins og danski forsætisráðherrann benti á, - þá gæti það alveg gerst.
Gagnrýni varðandi flóttamenn hefur m.a. byggst á því, að í Danmörku fær flóttafólk sem fær formlega stöðu flóttamanna og er tekið inní kerfið, mikla þjónustu og stuðning o.s.frv., - og sumir hafa gagnrýnt að ekkert bakgrunnstjékk sé á fjármálum til að athuga hvort þeir yfirhöfuð þurfi einhvern stuðning fjárhagslega.
Danir voru bara að bregðast við þessu og fylla uppí ákveðin göt í lögunum. Það var hugsunin.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 1.2.2016 kl. 11:28
Ástæða þess að VG er neftn er að þingflokkur VG var að álykta um þetta. Það er engin önnur ástæða fyrir því.
"flestallir íslendingar hafa fordæmt þetta undanfarið, - nema ég. Vegna þess að ég kynnti mér málið sem er óvenjulegt í íslensku samhengi."
Gott að þú hafir tekið upp þann sið. Batnandi fólki er best að lifa.
Guðmundur Ásgeirsson, 1.2.2016 kl. 12:32
Þetta varð rétt í þessu ennþá neyðarlegra:
http://bofs.blog.is/blog/bofs/entry/2165186/
Guðmundur Ásgeirsson, 1.2.2016 kl. 17:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.