Ekki króna úr ríkissjóði vegna Icesave

Samkvæmt frétt á vef slitastjórnar gamla Landsbankans, voru síðustu eftirstöðvar forgangskrafna í slitabú bankans vegna Icesave, greiddar að fullu í gær. Þar með liggur fyrir að ekki ein króna hefur verið lögð á herðar skattgreiðenda vegna málsins og mun það aldrei gerast úr þessu. Öll upphæðin sem um er að tefla hefur nú verið greidd af slitabúi gamla bankans, fyrir utan 20 milljarða sem hafa verið greiddir af sjálfseignarstofnuninni Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta.

Þessar málalyktir eru nákvæmlega þær sem stefnt var að með undirskriftasöfnun kjósum.is þar sem skorað var á forseta Íslands að hafna lögum um ríkisábyrgð vegna Icesave, í konsingabaráttu sömu aðila í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu um ákvörðun forseta, og málsvörn Íslands gegn Eftirlitsstofnun EFTA fyrir EFTA-dómstólnum þar sem fullnaðarsigur vannst fyrir hönd Íslands.

Þau málsrök sem urðu til þess að málið vannst að lokum voru að mestu leyti þau sömu og færð höfðu verið af aðstandendum þeirra hreyfinga sem stóðu að undirskriftasöfnuninni og sem mæltu gegn ríkisábyrgð í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Það má því segja að íslenskar grasrótarhreyfingar hafi haft betur, ekki aðeins gegn Bretum og Hollendingum, heldur einnig Eftirlitsstofnun EFTA sem höfðaði málið og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sem stefndi sér inn í málið til meðalgöngu í fyrsta skipti í sögu EFTA-dómstólsins gagngert í því skyni að taka undir málstað andstæðinga Íslands.

Fyrir utan það að vera afar merkileg útkoma í lögfræðilegum skilningi, er fyrst og fremst ánægjulegt að málinu sé lokið á farsælan hátt. Það gæti jafnvel verið tilefni til að halda upp á daginn með því að kveikja á kertum.


mbl.is Icesave greitt að fullu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvað hefði almenningur þurft að borga ef Svavarssamningurinn hefði farið í gegn? og þetta eru gleðilegar fréttir og Herra Ólafur Ragnar Grímsson bjargaði okkur enn og aftur.

Sævar Einarsson (IP-tala skráð) 12.1.2016 kl. 15:04

2 identicon

Niðurstaðan er nefnilega þessi, að það stóð aldrei neitt annað til en að borga ICESAVE skuldirnar upp í topp, með vöxtum og öllum kostnaði eins og samið var um síðasta sumar, þó að það hafi ekki farið hátt.

Svafarssamningurinn hljóðaði uppá það líka, að borga ICESAVE upp í topp með vöxtum og öllum kostnaði, bara á lengri tíma og ef ekkert hefði fengist fyrir eignir Landsbankans þá stæði ríkissjóður uppi með skuldirnar, EN það hefði líka gerst hjá núverandi stjórnvöldum en sem betur fer fyrir okkur öll, þá duga eignir Landsbankans fyrir þessu öllu.

Það sorglega er að stór hluti almennings hafði ekki hugmynd út á hvað ICESAVE kosningin gekk út á, margir héldu að þeir væru að segja nei við að borga ICESAVE og eru ábyggilega forundrandi á að sjá þessa frétt að búið sé að borga ICESAVE upp í topp.

Hún er líka sorgleg sögufölsunin sem búið er að koma inn hjá þjóðinni, að "góða fólkið" vinstrihjörðin eins og sumir kalla það, hafi ætlað að binda þjóðina skuldaklöfum með Svafarssamningunum og því hafi riddarinn á hvíta hestinum(Ólafur Ragnar) bjargað þjóðinni frá "góða fólkinu", þvílíkar lygar.

Staðreyndin er þessi, Svafarssamningurinn hefði kostað okkur jafn mikið og raunin varð, jafnvel minna því að það má vel færa rök fyrir því að hefðum við gengið til samninga strax, þá hefðu sparast miklir fjármunir sem urðu vegna tafa sem þýddi aukin fjármagnskostnað og óhagræðis og lokanir á lánalínur hagstæðara lána.

Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 12.1.2016 kl. 15:15

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Góð og sérstaklega málefnaleg greein hjá þér.  Hafðu bestu þakkir fyrir.

Jóhann Elíasson, 12.1.2016 kl. 15:17

4 identicon

Ég á seint eftir að skilja hvernig menn geta komist að þeirri niðurstöðu sem sést í athugasemd 2.

ls (IP-tala skráð) 12.1.2016 kl. 15:23

5 identicon

Takk Jóhann minn.

Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 12.1.2016 kl. 15:32

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sævar. Það getur verið erfitt að setja nákvæma tölu á það hversu mikið hefði fallið á ríkissjóð. Þær tölur sem ég man eftir að hafa heyrt nefndar um Svavarssamninginn voru 200-300 milljarðar. Þær tölur sem ég hef heyrt nefndar um Buchheit samninginn voru á bilinu 80-100 milljarðar, en í grein á Vísindavef Háskóla Íslands þar sem leitast er við að svara spurningunni er talan sögð ver um 67 milljarðar: Vísindavefurinn: Hvað hefði Lee Buchheit-samningurinn kostað ef hann hefði verið samþykktur?

Annað sem er vert að hafa í huga, hvað sem upphæðinni líður, er að hún var ekki það allra versta við samningana. Stærsti áhættuþátturinn var sá að þeir kváðu á um greiðlu í erlendum gjaldmiðlum (pundum og evrum). Sá gjaldeyrir var hinsvegar aldrei og hefur aldrei verið til í ríkissjóði, og íslenska ríkið hefi því lent í greiðslufalli strax á fyrsta gjalddaga hefði einhver af þessum samningum tekið gildi. Þáverandi fjármálaráðherra var einhverntíma spurður út í þetta, þ.e. hvernig og með hverju hann hyggðist greiða þetta, og stóð þá gjörsamlega á gati, sem sýnir í hnotskurn hversu vanhugsað þetta var af hálfu þeirrar ríkisstjórnar sem þá var.

Við það greiðslufall hefðu svo orðið virk ákvæði samninganna sem hefðu heimilað Bretum og Hollendingum að ganga að eignum íslenska ríkisins og taka þær upp í kröfuna, til að mynda hafnir, flugstöðvar, veitustofnanir og jafnvel Landsvirkjun. Við þessu er ekkert sem íslenska ríkið hefði getað gert, þar sem í samningunum voru líka ákvæði um að þeir féllu ekki einu sinni undir íslenska lögsögu heldur breska, og að ágreiningur um þá kæmi til úrlausnar fyrir dómstól í Hollandi, með öðrum orðum samkvæmt reglum andstæðinganna í málinu og á þeirra heimavelli.

Þetta framsal ríkisvalds, þ.e. dómsvaldsins sem og lögsögu Alþingis fól í raun í sér brot gegn stjórnarskrárbundnu fullveldi Íslands, sem var meginástæðan fyrir því að minnsta kosti ég sjálfur var frá upphafi andvígur samningunum. Þessi hlið málsins hefur hinsvegar ekki farið eins hátt í umræðu um málið, enda vilja þeir sem beittu sér fyrir samningunum tæplega vera þekktir fyrir landráð og hafa því lagst á eitt um að reyna að þagga þetta ákveðna atriði niður.

Hvort að Ólafur Ragnar okkar ágæti forseti hafi "bjargað málinu" skal ósagt látið. Hann kom til að mynda hvergi að málsvörninni fyrir EFTA-dómstólnum, heldur var hún að flestu leyti byggð á þeim málsrökum sem andstæðingar ríkisábyrgðar höfðu teflt fram í sinni baráttu, eftir að þáverandi stjórnvöld höfðu gefist upp og ákváðu að leita til þeirra aftir málsvarnarrökum, og á grundvelli þeirra röksemda vannst málið svo að lokum. En vissulega hefði þetta ekki komist á þann stað nema fyrir atbeina forsetans. Rétt er að hafa það svo vel í huga í vor þegar gengið verður til kosninga um nýjan forseta, hvort við viljum skrauthúfu í embættið eða aðila sem væri tilbúinn að beita valdi embættisins ef þörf krefur.

Guðmundur Ásgeirsson, 12.1.2016 kl. 15:46

7 Smámynd: Jóhann Elíasson

Helgi, ég átti EKKI við þitt innlegg en það var nokkuð augljóst ÖLLUM nema þér, sem augljóslega átt við einhvern andlegan "krankleika" að stríða.

Jóhann Elíasson, 12.1.2016 kl. 15:49

8 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Helgi Jónsson (ef það er þá raunverulega nafn þitt). Þetta er nú meiri tröllaskapurinn. Ef eitthvað er sögufölsun þá er það sá málflutningur sem þú setur fram í athugasemd nr. 2.

Eins og allir vita sem kynntu sér þetta mál yfir höfuð, þá snerist það aldrei um hvort ætti að borga forgangskröfurnar í slitabú gamla Landsbankans, heldur hver ætti að borga þær og með hvaða vöxtum. Þeir sem lögðust gegn ríkisábyrgð gerðu það einmitt á þeirri forsendu að þetta væri skuld bankans og kæmi hvorki ríkissjóði né skattgreiðendum við, sem hún gerði alls ekki eins og var staðfest af EFTA-dómstólnum, heldur ætti bankinn að borga þetta þ.e.a.s. slitabúið.

Annað veigamikið atriði er að samningarnir kváðu á um að greiða skyldi vexti af fjárhæð samninganna, og þegar þeir hefðu fallið á ríkið, þá hefðu ekki verið hægt að gera endurkröfu fyrir þeim í slitabúið þar sem kröfur um vexti eru ekki forgangskröfur líkt og kröfur vegna innstæðnanna sjálfra. Skattgreiðendur hefðu því setið uppi með þann reikning alveg sama hvað tautar og raular.

Loks er rétt að halda því til haga, sem þú og aðrir borgunarsinnar virðist annaðhvort ekki ennþá hafa áttað ykkur á eða viljið hreinlega ekki viðurkenna og reynið að bægja frá ykkur með útúrsnúningum eins og þessari athugasemd þinni. Það er sú staðreynd að tilskipunin um innstæðutryggingar sem var í gildi á þessu tíma, bannaði alla ríkisábyrgð á innstæðutryggingum. Ríkisábyrgðin var því aldrei leyfileg, og allar tilraunir til þess fólu því ekki aðeins í sér stjórnarskrárbrot heldur einnig þá fyrirætlan að brjóta EES-samninginn. Allt tal um hvort það hefði verið hagstæðara að samþykkja samninganna og vangaveltur um áhrif þess á lánshæfismat og "aðgang að erlendum fjármálamörkuðum" skiptir einfaldlega engu máli, því þetta var bannað. Til samanburðar má nefna að það er bannað að fara yfir á rauðu ljósi í umferðinni, og þá skiptir engu máli hvort það sé hagkvæmara að fara yfir á rauðu til að spara bensín á því að stoppa ekki, því þetta eru einfaldlega reglur sem löghlýðið fólk fylgir.

Þetta síðastnefnda um bannið við ríkisábyrgð er ekki síst athyglisvert í ljósi þess að flestir borgunarsinnarnir voru jafnframt Evrópusinnar, þ.e. að þeir sem eru hvað ákfastir um að Ísland gangi í Evrópusambandið skuli hafa gert það að sérstöku keppikefli sínu að þverbrjóta reglur þess og gera Ísland að hinum brotlega aðila, þegar það voru í raun Bretar og Hollendingar sem gerðust brotlegir þegar þeir veittu fé úr sínum ríkissjóðum til þess að greiða innstæðueigendum og lögðu þannig á ríkisábyrgð í verki. Hátterni þeirra gagnvart Íslandi í málinu var ef eitthvað er til þess fallin að beina athyglinni frá þeirra eigin brotum, sem útskýrir líklega hversu hart þeir gengu fram í því.

Guðmundur Ásgeirsson, 12.1.2016 kl. 16:13

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Jóhann. Þakka þér fyrir, og láttu ekki á þig fá þennan útúrsnúning hjá nettröllinu sem kallar sig Helga Jónsson. Hann er því miður ekki sá eini sem stundar svona sóðaskap á annara manna síðum. Ég hef það hinsvegar fyrir (óskráða) reglu að eyða aldrei athugasemdum á mínu bloggi, sama hversu rætnar þær eru, heldur læt þær mun fremur standa, þeim sem þannig skrifa til ævarandi háðungar.

Guðmundur Ásgeirsson, 12.1.2016 kl. 16:19

10 identicon

Ef skattgreiðendur sluppu við skrekkinn að þessu leyti, hvað er það þá sem olli verðhækkunum hér og þar á landinu ? Aulinn ég hélt að ríkið (ég, meðal annara) væri að reyna að ná peningum frá mér (sem er saklaus af öllu sem tengist þessu einkamáli auðmanna) með einum eða öðrum hætti til að borga einhverjum mér óviðkomandi sem fyrst ? Var ,,skyndileg" verðhækkun á hinu og þessu bara grín ? Það þarf ekki langskólagenginn, hámenntaðan ,,hagfræðing" til að átta sig á því að íslenska ríkið á nóg af peningum. Ráðherrar og þingmenn gætu borgað þetta sjálfir. Þeir eru í nánari tengslum við glæpamennina en ég. Syndir annara hafa legið á sakleysingjum.

Morgan (IP-tala skráð) 12.1.2016 kl. 18:25

11 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Morgan. Hvaða verðhækkanir ertu að tala um og á hverju?

"Aulinn ég hélt að ríkið (ég, meðal annara) væri að reyna að ná peningum frá mér (sem er saklaus af öllu sem tengist þessu einkamáli auðmanna) með einum eða öðrum hætti til að borga einhverjum mér óviðkomandi sem fyrst ?"

Þetta er alls enginn aulaskapur heldur alveg rétt sem þú hélst. Kjarni Icesave málsins snerist einmitt um það að nota almannafé til að greiða einkaskuldir, sem í þessu tilviki var ekki heimilt.

"Það þarf ekki langskólagenginn, hámenntaðan ,,hagfræðing" til að átta sig á því að íslenska ríkið á nóg af peningum."

Íslenska ríkið getur prentað eins mikið af krónum og því sýnist, það er engin hætta á skorti á krónum á Íslandi og mun aldrei verða á meðan ríkið heldur fullveldi sínu, þar með töldu lögeyrisvaldi.

Af hliðstæðum ástæðum má ríkið hinsvegar ekki prenta lögeyri annarra ríkja. Þess vegna hefði það aldrei með löglegum hætti getað borgað kröfurnar samkvæmt ríkisábyrgðarsamningunum og hefði farið lóðbeint á hausinn. Upphæðin breytir engu þar um því enginn getur afhent neitt sem hann á ekkert af, það eru einföld sannindi.

"Syndir annara hafa legið á sakleysingjum."

Hjartanlega sammála þessum lokaorðum.

Guðmundur Ásgeirsson, 12.1.2016 kl. 21:33

12 identicon

Sæll Guðmundur, það er nú óþarfi að vera með skæting í minn garð þó að við Jóhann séum að hnýta í hvorn annan, ef að þú kynntir þér tilsvör Jóhanns í minn garð sem eru á þann veg að vart er hægt að fara með, þá myndir þú kannski skylja pirring minn á honum.

En annars grunar mig að þessi skætingur þinn í minn garð sé ekki vegna skeitasendinga milli okkar Jóhanns, heldur vegna athugasemda minna no 2 sem virðist hafa komið við kaunin á þér

En við skulum ekki staldra of mikið við það, heldur langar mig að vita hvort að þú vitir hvort búið sé að fullreikna það hvað Svafarssamningurinn hefði kostað að endingu og svo hver heildar uppgreiðsla ICESAVE varð að lokum..??

Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 13.1.2016 kl. 16:22

13 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Athugasemd nr. 2 kom ekkert við nein kaun heldur var hún einfaldlega efnislega röng og þarfnaðist leiðréttingar.

Varðandi kostnaðinn ríkisins af Svavarssamningnum, þá hljóðaði kostnaðarmat fjármálaráðuneytisins upp á 248 milljarða. Hliðstætt kostnaðarmat á Buchheitsamningnum var upp á 67 milljarða. Eftir á hefur svo verið reiknað út að miðað við hvernig raunstærðir hafa þróast síðan þá hefði þessi kostnaður jafnvel orðið enn meiri.

Þú spyrð svo hver heildar uppgreiðsla vegna Icesave hafi orðið að lokum? Svarið við þeirri spurningu kom fram strax í fyrirsögn færslunnar hér að ofan, núll krónur úr ríkissjóði.

Augljóslega var síðastnefnda útkoman sú besta fyrir ríkið.

Annars er frekar merkingarlaust að tala um þessar kostnaðartölur vegna tveggja einfaldra staðreynda. Í fyrsta lagi var aldrei neinn gjaldeyrir í ríkissjóði til að borga þetta með, sama hvora upphæðina er miðað við, og ríkið hefði því farið lóðbeint á hausinn þegar fyrsti gjalddaginn hefði runnið sitt skeið. Í öðru lagi þá bannar tilskipun 94/19/EB ríkisábyrgð á innstæðutryggingakerfinu.

Sá sem á ekki gjaldeyri getur ekki borgað neina fjárhæð í gjaldeyri alveg sama hver sú fjárhæð er. Það sem er bannað er bannað og skiptir engu máli hver kostnaðurinn við að brjóta bannið er.

Af þessu tilefni langar mig að spyrja á móti: Veist þú hvort lagt hefur verið mat á það hver viðbótakostnaður ríkisins hefði getað orðið vegna skaðabótaskyldu fyrir brot gegn EES-samningnum, hefðu fyrirætlanirnar um óheimila ríkisábyrgð náð fram að ganga?

Guðmundur Ásgeirsson, 13.1.2016 kl. 17:19

14 identicon

Nei ég veit ekki til þess að það hafi verið lagt mat á það, það þyrfti kannski að gera það ásamt því að reikna út hver heildarupphæð ICESAVE hefði orðið sem þú ert ekki enn búinn að svara, ef Svafarssamningurinn hefði verið samþykktur og hver heildarupphæð ICESAVE er núna sem þú ert ekki heldur búinn að svara.

Ég er ekki að spyrja þig hvað hefði lagst á ríkissjóð, heldur að spyrja þig um heildarupphæðir þessara tveggja kosta, það er alveg ljóst að ef ekkert hefði fengist út úr eignum Landsbankans þá hefði ICESAVE lent á ríkissjóði með einum eða öðrum hætti eins og einn ágætur maður hefði orðað það.

Jóhanna og Steingrímur(góða fólkið) vissu ekki frekar en við hvað fengist út úr Landsbankanum 2008-2009, þau héldu eins og margir aðrir að ICESAVE myndi hugsanlega lenda að hluta eða jafnvel allt á ríkissjóði og voru undir ógnvægilegri pressu að semja um þetta.

En að þessu leiti vann tíminn með okkur, eignir Landsbankans urðu verðmætari og verðmætari og það kaldhæðnislega er að það voru fyrst og fremst fyrirtæki sem áður voru í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar sem Landsbankinn eignaðist síðar, sem að stórum hluta borguðu ICESAVE

En Guðmundur, finnst þér ekki tímabært að það sé teiknuð upp nokkurs konar leikmynd af því hvernig útkoman hefði orðið ef Svafarssamningurinn hefði verið samþykktur og það svo borið saman við núverandi niðurstöðu svo hægt sé að ræða þetta að einhverju viti, og þá er ég að tala um að allt sé með í reikningnum, tafirnar sem orsökuðust af neitun undirskriftar forsetans, hvaða áhrif það hafði á ríkissjóð og lánakjör.

Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 14.1.2016 kl. 08:43

15 identicon

Merkilegt hvað mörgum þykir vænt um þrotabú Landsbankans gamla, svífandi í sæluvímu af því að það átti fyrir forgangskröfum (eins og Björgúlfur Thor hélt reyndar fram í upphafi að væri). Það er hins vegar rétt að halda því til haga að þó svo hefði ekki verið hefði ekki fallið króna á Ríkissjóð.  Okkur má hins vegar flestum vera nokk sama hvort þrotabúið ætti fyrir þessari kröfunni eða hinni.

Svo skil ég ekki hvað Svavar hefur gert Helga til að hann misriti nafn hans endalaust.

ls (IP-tala skráð) 14.1.2016 kl. 09:52

16 identicon

Afsakaðu Svavar minn, Svavar átti þetta auðvitað að vera.

Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 14.1.2016 kl. 10:09

17 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Helgi Jónsson.

"Ég er ekki að spyrja þig hvað hefði lagst á ríkissjóð, heldur að spyrja þig um heildarupphæðir þessara tveggja kosta, það er alveg ljóst að ef ekkert hefði fengist út úr eignum Landsbankans þá hefði ICESAVE lent á ríkissjóði með einum eða öðrum hætti"

Spurningin er rökleysa eins og þú leggur hana upp. Gagnvart skattgreiðendum snerist málið aldrei um annað en að taka ekki á sig ríkisábyrgð á skuldum einkafyrirtækis. Skiptir þá engu máli hversu háar þær skuldir væru. Eini mælikvarðinn sem skiptir máli fyrir skattgreiðendur eru hversu mikið hefði lagst á þá vegna ríkisábyrgðar, en ekki hversu mikið Landsbankinn þarf að borga, það er bara hans mál og varðar almenning lítið um.

Svo er það alrangt sem þú virðist halda fram að ef eignir Landsbankans hefðu ekki dugað fyrir forgangskröfum þá hefði mismunurinn lagst á ríkið. Eins og ég er margoft búinn að reyna að koma þér í skilning um þá var það bannað samkvæmt tilskipuninni. Með dómi EFTA-dómstólsins var svo staðfest að ríkið ber enga greiðsluskyldu. Með því að falla í fyrra frá öllum frekari málaferlum gegn tryggingasjóðnum viðurkenndu svo Bretar og Hollendingar í verki að þeir gætu ekki krafist meira úr tryggingasjóðnum en hann innihélt, og restina gætu þeir sótt á slitabú Landsbankans, sem þeir hafa gert og fengið greitt. Þannig hefur verið viðurkennt af öllum aðilum málsins og EFTA-dómstólnum líka, að ekkert fellur á ríkið og hefði aldrei átt að gera. Þeir einu sem ennþá berja hausnum við steinninn með því að reyna að halda hinum gagnstæða fram, eru aðilar eins og þú, sem annaðhvort skilja ekki þessi einföldu sannindi eða vilja það ekki.

Til fróðleiks má þó geta þess að forgangskröfur vegna innstæðna í slitabú Landsbankans sem hafa nú verið fullgreiddar af slitabúi Landsbankans, námu jafnvirði rúmlega 1.300 milljarða króna, en mig minnir að nákvæm tala hafa verið 1.319. Það er endanleg heildarfjárhæð sem Landsbankinn þurfti að greiða og er núna búinn að greiða að fullu. Hefði Svavarssamningurinn tekið gildi þá hefðu þessu til viðbótar fallið 285 milljarðar, ekki á Landsbankann, heldur ríkissjóð sem hefði ekki getað endurheimt þá fjárhæð úr slitabúinu þar sem kröfur um vexti eru eftirstæðar. Með Buchheit samningnum hefðu með sama hætti fallið a.m.k. 67 milljarðar á ríkissjóð aukalega, sem hefði ekki verið hægt að endurheimta. Með þeirri niðurstöðu sem nú er fengin er sú tala núll.

Ég endurtekt samt það sem áður sagði, að þessi talnaleikfimi er merkingarlaus, því ríkisábyrgð var allan tímann óheimil, og um það snerist málið frá sjónarhóli skattgreiðenda. Að ekki yrðu lagðar á þá byrðar sem þeim hvorki bar að axla né var heimilt að láta þá axla. Það er alveg óháð því hvort Landsbankinn átti fyrir öllum forgangskröfum eða ekki þar sem vextirnir hefðu í báðum tilvikum lagst á skattgreiðendur óskiptir og ekki fengist til baka.

Reyndu nú að átta þig á því Helgi, að það mátti aldrei leggja þessar byrðar á almenning, heldur átti Landsbankinn allan tímann að axla þær sjálfur. Það er eina rétta niðurstaðan og sem núna hefur verið viðurkennd af öllum hlutaðeigandi, nema af þeim sem haldnir eru sömu þráhyggju og þú virðist vera haldinn. Hér er ráðlegging: ef þig langar ennþá til að borga Bretum og Hollendingum vexti af skuld gamla Landsbankans við þá, skaltu endilega bara senda þeim ávísun. Ég efast um að þeir myndu hafna frjálsum framlögum, þó slíkt sé reyndar algjör óþarfi.

Guðmundur Ásgeirsson, 14.1.2016 kl. 11:58

18 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Jæja, núna er komið nýtt mat á þeim kostnaði sem hefði fallið á ríkið vegna Svavarssamningsins, á Vísindavef Háskóla Íslands. Höfundurinn er Hersir Sigurgeirsson, sá sami og hafði áður gert mat á Buchheitsamningnum fyrir Vísindavefinn:

http://www.visindavefur.is/svar.php?id=70473

Niðurstaða hans er í stuttu máli sú að: "Ef Icesave-samningarnir, sem kenndir eru við Svavar Gestsson, hefðu verið samþykktir árið 2009 hefðu eftirstöðvar þeirra hinn 5. júní næstkomandi numið tæpum 208 milljörðum króna, að gefnu óbreyttu gengi punds og evru, eða um 8,8% af áætlaðri vergri landsframleiðslu ársins 2016."

Guðmundur Ásgeirsson, 9.2.2016 kl. 12:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband