Vilja Íslendingar stofna banka í Kína?

Utanríkisráðherra hefur lagt fram þingsályktunartillögu um fullgildingu stofnsamnings um Innviðafjárfestingabanka Asíu. Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að Ísland leggi til 17,6 milljónir Bandaríkjadala eða 0,0179% af stofnfé bankans sem samsvarar um 2,3 milljörðum króna. Þeim fjármunum er semsagt lagt til að verja í uppbyggingu innviða í fjarlægum löndum frekar en uppbyggingar innviða hér á landi sem þó er full þörf fyrir.

Eftir þá miklu (og óþyrmilegu) reynslu sem fengist hefur af íslenskum bankaútrásum, skýtur það afar skökku við að nú séu slíkar fyrirætlanir uppi á ný, og þess þá heldur að fjármagna eigi ævintýrið á kostnað og áhættu skattgreiðenda. Það mætti halda að þeir sem að tiltækinu standa hafi gleymt því að íslenska þjóðin hefur í tvígang hafnað því að axla ábyrgð á og áhættu af bankastarfsemi í erlendum ríkjum utan íslenskrar lögsögu.

Vissulega er um öðruvísi starfsemi að ræða en venjulegan einkarekinn banka. Það eitt og sér er þó varla nóg til að réttlæta hugmyndina án þess að skoða vel forsendurnar. Fjármálaráðherra hefur í umræðum á Alþingi tekið undir hugmyndina með þeim rökum að virði fjárfestingarinnar geti vaxið, eða með öðrum orðum að íslenska ríkið geti hagnast á þáttöku sinni. Það er samt aðeins fugl í skógi en ekki í hendi. Auk þess kemur það engan veginn heim og saman við áskilnað stofnsamþykkta bankans um að eignarhlutir verði ekki framseljanlegir nema til hans sjálfs og þá aðeins á bókfærðu virði eigin fjár.

Annað sem vekur furðu við þessa afstöðu fjármálaráðherra er að hann hefur ítrekað lýst yfir efasemdum sínum um hugmyndir sem hafa verið til umræðu að undanförnu um rekstur samfélagsbanka. Samkvæmt stofnsáttmála asíska bankans er markmið hans nefninlega ekki að hámarka arðsemi hluthafanna, heldur að efla innviði í ríkjum Asíu og Eyjaálfu. Þetta er með öðrum orðum samfélagsbanki. Þannig virðist því sem fjármálaráðherra sé andvígur starfsemi samfélagsbanka á Íslandi, en samt fylgjandi því að verja fé úr ríkissjóði til slíkrar starfsemi hinumegin á jörðinni, sem er vægast sagt undarleg þversögn.

Tillagan virðist hafa orðið til í kyrrþey, hún hefur ekki verið kynnt formlega fyrir almenningi og hlotið litla sem enga opinbera umræðu. Að fenginni reynslu vekja slík vinnubrögð sjálfkrafa tortryggni, sem komið hefur í ljós að á fullan rétt á sér. Stofnsáttmáli bankans hefur nefninlega ýmislegt varhugavert að geyma, eins og Frosti Sigurjónsson formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis bendir á í pistli á vefsíðu sinni:

"Í samþykktum IFBA er farið fram á mjög sérstakar heimildir og fríðindi til handa bankanum og starfsfólki hans. IFBA greiðir enga skatta, né starfsmenn hans eða ráðgjafar í fullu starfi (50. gr. og 51gr.) IFBA fær að hafa reikning í Seðlabankanum (33.2. gr.). Bannað verður að rannsaka starfshætti bankans (46.1.gr.). Bannað að haldleggja eignir bankans (47.1 gr.). Bannað að hindra millifærslur á vegum IFBA (19.1. gr.)"

Samkvæmt þessu er ætlunin að starfsemin verði undanþegin sköttum, og hafin yfir lög, til að mynda verði bannað að rannsaka bankann eða hindra fjármagnsflutninga á hans vegum. Slíkt samræmist þó vart stjórnarskrárbundnu fullveldi Íslands, en 2. gr. stjórnarskrárinnar veitir enga heimild til að víkja frá því, hvað þá með þingsályktun einni saman.

Jafnframt brýtur ákvæðið um skattfrelsi í bága við 77. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að skattamálum skuli skipað með lögum og ekki mega fela stjórnvöldum ákvörðunarvald um skattlagningu. Innan þess rúmast hvorki þingsályktanir né stjórnvaldsákvarðanir, og enn síður samþykktir erlendra fyrirtækja og stofnana. Loks kann slík undanþága að brjóta gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður á um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum óháð uppruna þeirra, stétt og stöðu að öðru leyti.

Auk þess að vera snargalin og þversagnakennd, er hin umrædda tillaga beinlínis ólögleg þar sem hún fer þvert gegn stjórnarskrá Íslands. Reyndar fæst alls ekki séð að tillagan sé yfir höfuð þingtæk, enda myndi samþykkt hennar fela í sér brot viðkomandi þingmanna gegn drengskaparheiti þeirra að stjórnarskránni samkvæmt 47. gr. hennar. Jafnframt gæti aðild ráðherra að slíku broti varðað ráðherraábyrgð samkvæmt 14. gr og skapað þannig grundvöll fyrir kæru til landsdóms. Það réttasta í stöðunni væri því að utanríkisráðherra myndi draga tillöguna til baka og leggja þess í stað fram afsökunarbeiðni til þings og þjóðar.


mbl.is Telur 2,3 milljörðum illa varið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Antonsson

Merkileg lesning og spurningar um "innviðafjárfestingabanka?" Var ekki verið að leggja niður þróunaraðstoð ríkisins í Afríku. Landi þar sem tekjurnar eru langt undir $ 5000 á íbúa. Hvaða löndum á þessi banki að þjóna með höfuðstöðvar í Kína?

Aðeins fá lönd í Asíu eru með tekjur undir $ 5000 á íbúa. Aðeins Burma, en Laos, Víetnam og Filippseyjar eitthvað með hærri tekjur. Aftur á móti eru mörg lönd í Mið-Afríku sárafátæk, undir 2000 $ markinu. Þá má spyrja hvort stofnendur bankans telji arðvænlegra að þróa Asíuþjóðir til velmegunar en Afríkuríki. Hvað segja Grænleningar t.d. þegar næstu nágranar fara hjáleið.

Sigurður Antonsson, 27.12.2015 kl. 21:30

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þessi banki með höfuðstöðvar í Peking, á að fjárfesta í löndum Asíu ásamt Ástralíu. athyglisvert að þú skyldir nefna Afríku, því samtök Afríkuríkja hafa einmitt ákveðið að stofna sambærilegan banka, African Investment Bank. Mér er hinsvegar ekki kunnugt um að komið hafi fram tillögur um þáttöku Íslands í þeim rekstri.

Guðmundur Ásgeirsson, 27.12.2015 kl. 21:40

3 Smámynd: Ægir Óskar Hallgrímsson

Maður spyr sig...er Íslenska ríkið orðið eitthvert ehf....farið að sýsla með fjármuni Íslenska ríkissins....þetta getur ekki verið löglegt.

Ægir Óskar Hallgrímsson, 27.12.2015 kl. 21:50

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ég hef allavega miklar efasemdir um það.

Guðmundur Ásgeirsson, 27.12.2015 kl. 21:58

5 Smámynd: Jón Þórhallsson

Nei=Við eigum ekkert  að vera að hengja okkur of mikið í gula drekann meira en nauðsynlegt er.

Jón Þórhallsson, 27.12.2015 kl. 23:56

6 Smámynd: Ómar Gíslason

Allt of mikið framsal, þurfa ekki allar stofanir og bankar að þola skoðun og eftirlit? Samkvæmt þessu getur hann verið kóngur í ríki sínu án afskipta af nokkur tagi hvert þessir peningar fara.

Íslensk stjórnskipan aðhyllist svokallaða „Tvíeðliskenningu (e. Dualismum)" þ.e.a.s. að þjóðréttur er eitt réttarkerfi og landsréttur er annað réttarkerfi.

Þjóðréttarsamningar eru yfirleitt samningar á milli tveggja eða fleiri ríkja eða milli eins eða fleiri ríkja og alþjóðlegra stofnana. Dæmi um Þjóðréttasamning er fríverslunarsamningur Íslands og Kína. Landsréttur eru þau lög sem gilda í hverju ríki.

Í Tvíeðliskenningunni þá þarf að lögfesta reglur þjóðréttarsamnings svo þegnar ríkis geti byggt á reglum hans í innbyrðis lögskiptum þeirra og lögskiptum þeirra við hið opinbera. Það er gert með tvennum hætti a) Adoption en þá er samningur lögfestur í heild eða að hluta eins og hann er, dæmi: lög 62/1994 Mannréttindasáttmála Evrópu eða lög nr. 66/2004 um lögfestingu Norðurlandasamnings um almannatryggingar, b)Transformation en þá er samningurinn eða einstök ákvæði hans innleidd í landsrétt.

Samkvæmt þessu til að samningur þessi öðlist gildi hér á landi þá þarf líka að breyta þeim lögum eins og t.d. skattalögum. Mér finnst það stórfurðulegt að ef við viljum hafa allt upp á borði skulum ganga í batterí sem vill hafa allt lokað.  


Ómar Gíslason, 28.12.2015 kl. 12:00

7 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Stutt og laggott Nei við spurningu þinni í yfirskrift pistilsins, Guðmundur, hvað mig varðar. Þú bendir á ýmis haldbær rök fyrir því svari.

Kristinn Snævar Jónsson, 28.12.2015 kl. 15:24

8 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Svarið er NEI! Þvílík dómsdagsgeggjun, af hálfu stjórnvalda, að taka þátt í þessu. Tvöþúsundogþrjúhundruðmilljónir 00/100, eins og ritað var á ávísanir, hér í den. Nú, þegar hyllir undir að botninum sé náð og von á ögn skárri tíð er vaðið í svona dauðans dellu og það af stjórnvöldum! Var að vonast til búið væri að loka svona sveimhuga flesta inni á Kvíabryggju, en sú virðist ekki raunin, því miður. Það ganga greinilega framtíðarbanksterar lausir á meðal vor, enn þann dag í dag og það innan stjórnsýslunnar. 

Góðar stundir, gleðilegt nýtt ár, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 29.12.2015 kl. 23:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband