Frumvarp um innleiðingu óþýddrar tilskipunar
10.7.2015 | 14:16
Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur birt drög að frumvarpi um innleiðingu Tilskipunar 2014/17/ESB um lánssamninga fyrir neytendur í tengslum við íbúðarhúsnæði, eða svokallaðrar fasteignaveðlánatilskipunar. Ekki er þó allt með felldu við þetta mál, en hér verður fyrst og fremst tæpt á atriðum sem eru sláandi við fyrstu skoðun.
Í fyrsta lagi er um að ræða löggjöf á sviði neytendaverndar og það skýtur því afar skökku við að í nefndinni sem samdi frumvarpið sat fulltrúi Samtaka fjármálafyrirtækja, en enginn fulltrúi samtaka neytenda, eins og kom fram í svari ráðherra við fyrirspurn á nýafstöðnu þingi. Ekki nóg með það heldur kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að auk þess hafi forstjóri stærsta lánveitandans á þessu sviði tekið sæti í nefndinni fljótlega eftir að hún tók til starfa. Jafnframt hafi starfað "með nefndinni" fleiri fulltrúar þessara sömu aðila þ.e. SFF og ÍLS, en enginn fyrir hönd neytenda eða samtaka þeirra.
Í öðru lagi þá hefur tilskipunin ekki enn verið tekin upp í EES-samninginn, og er því óskiljanlegur sá asi sem hafður er á innleiðingu hennar. Ekki síst í ljósi þess að hér á landi eru nú þegar í gildi almenn lög um neytendalán sem fela í sér innleiðingu á tilskipun ESB um neytendalán, en allt frá síðustu aldamótum hefur það verið vilji löggjafans að hún nái einnig yfir fasteignalán einstaklinga. Hér því um breytingu á löggjafarstefnu að ræða, sem hefur hvergi verið rædd opinberlega, heldur aðeins á lokuðum vettvangi nefndar sem skipuð er embættismönnum og fulltrúum lánveitenda.
Í þriðja lagi, þar sem tilskipunin hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn, hefur ekki heldur verið gerð opinber löggild íslensk þýðing hennar og birt á EES-vef utanríkisráðuneytisins. Hér er því um að ræða tilraun til innleiðingar á erlendum texta en í fréttatilkynningu ráðuneytisins er aðeins tengill á enska útgáfu tilskipunarinnar. Það er hinsvegar regla bæði á Alþingi og í dómstólum hér á landi, að þingmálið sé íslenska, enda er það opinbert tungumál íslenska ríkisins.
Í fjórða lagi er gerður er fyrirvari um breytingar á ákvæðum frumvarpsins um lán í erlendum gjaldmiðlum og segir um það: "Sérákvæði þar um voru rædd á yfirstandandi löggjafarþingi, mál nr. 561, en ekki samþykkt og eru þau enn í vinnslu." Þessi framsetning er hrein blekking því það mál sem vísað er til sneri ekki aðeins að lánum í erlendum gjaldmiðlum sem eru lögleg hér á landi. Þvert á móti var eitt af meginatriðum þess frumvarps, tilraun til þess að lögleiða gengistryggð lán í íslenskum krónum, sem hafa þó verið ólögleg allt frá árinu 2001 hér á landi, og það af góðum ástæðum. Það var ekki síst vegna kröftugrar andstöðu umsagnaraðila við þá fyrirætlan sem og alvarlegra galla á umræddu frumvarpi, að það hlaut ekki afgreiðslu á nýafstöðnu þingi.
Í fimmta lagi telur frumvarpið 65 lagagreinar sem þekja 25 blaðsíður auk greinargerðar upp á 44 blaðsíður, eða samtals 69 blaðsíður! Til samanburðar þá gátu eldri lög um neytendalán frá 1994 rúmast á fjórum blaðsíðum. Svona mikið textafargan og flækjustig þjónar engan veginn hagsmunum neytenda, heldur er þvert á móti til þess fallið að villa um fyrir þeim og skapa glufur sem skerða réttarstöðu þeirra. Sé litið til þess hverjir eru meðal höfunda frumvarpsins, er þetta sérstaklega mikið áhyggjuefni.
Hér að ofan eru talin fimm atriði sem varða tilurð þessa máls og framsetningu, og á þó enn eftir að skoða nánar innihald og efni frumvarpsins. Umsagnarfrestur ráðuneytisins er til 21. ágúst og er rétt að hvetja alla sem láta málið sig varða til þess að nýta sér þann möguleika og koma á framfæri umsögn samkvæmt leiðbeiningum í tilkynningu ráðuneytisins.
Breyta lögum um fasteignalán | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkar: Gengistrygging, Stjórnmál og samfélag, Verðtrygging | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.