Ólögmæti Landsbankabréfa staðfest (Icesave IV)
16.6.2015 | 14:20
Þegar þáverandi stjórnvöld sömdu árið 2009 við kröfuhafa föllnu bankanna um að afhenda slitabúum þeirra eignarhluti í nýju bönkunum, var farin önnur leið í tilviki Landsbankans heldur en hinna bankanna tveggja. Í stað hlutabréfa var nýji bankinn látinn gefa út skuldabréf til slitastjórnar gamla bankans að andvirði tæplega 300 milljarða króna í erlendum gjaldeyri, án þess að nokkurntíma hafi verið almennilega útskýrt hvers vegna.
Því hefur verið haldið fram að þetta hafi verið gert að kröfu Breta og Hollendinga til þess að skapa slitabúinu gjaldeyristekjur sem ætti svo að nota til að greiða þeim forgangskröfur vegna Icesave innstæðna. Sú skýring rímar við þær kröfur sem einnig voru hafðar uppi um ríkisábyrgð í þeim samningum sem var hafnað í þrígang. Síðan þá hefur hinsvegar verið upplýst að eignir gamla bankans duga vel fyrir forgangskröfum og gott betur en það eða 218 milljarða umfram þær, sem er hærra en eftirstöðvar umræddra bréfa og því eru þau alls ekki nauðsynleg svo slitastjórnin geti gert upp við forgangskröfuhafa.
Því hefur einnig verið haldið fram að útgáfa skuldabréfanna hafi verið nauðsynleg til að greiða endurgjald fyrir tiltekin lánasöfn í erlendum gjaldmiðlum sem keypt hafi verið úr gamla bankanum yfir í þann nýja. Nú hafa hinsvegar borist upplýsingar frá bankanum sem koma fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi, en þar segir að bankinn hafi lokið við að endurreikna og leiðrétta að fullu öll lán í íslenskum krónum sem voru ólöglega gengistryggð og fyrir vikið hafi engin gengislán verið bókfærð hjá bankanum í árslok 2014. Með öðrum orðum þá voru samkvæmt því sem kemur fram í svarinu aldrei keypt nein lánasöfn í erlendum gjaldmiðlum heldur eingöngu lánasöfn í íslenskum krónum.
Hvaða máli skiptir þetta? Jú þetta skiptir verulega miklu máli, vegna þess að umrædd skuldabréf eru í raun stærsti einstaki bitinn í hinni svokölluðu snjóhengju, sem nú stendur til að hleypa lausri með undanþágum frá fjármagnshöftum fyrir slitabúin. Í viljayfirlýsingu frá helstu kröfuhöfum gamla Landsbankans (Bretum) er tekið sérstaklega fram að þessi skuldabréf séu undanskilin frá þeim krónueignum sem slitabúið bjóðist til að afhenda ríkissjóði til þess að uppfylla svokölluð "stöðugleikaskilyrði" sem er þó enn óljóst hver séu nákvæmlega. Í öðru bréfi frá sömu kröfuhöfum kemur einnig fram að þeir ætli að beita sér fyrir því að þessi gengistryggðu skuldabréf verði endurfjármögnuð í evrum!
Þannig er tilboð kröfuhafanna sett fram með þeim hætti að á yfirborðinu lætur það mjög vel í eyrum, þ.e. að þeir leggi til að slitabúið láti af hendi allar krónueignir sínar gegn því að fá undanþágu frá höftum. Þegar lengra er lesið kemur hinsvegar í ljós að það á ekki við um þessi skuldabréf heldur að veitt verði undanþága vegna þeirra, ásamt eignum sem taldar eru "innleysanlegar" í erlendum gjaldeyri. Landsbankabréfin verða svo auðvitað innleysanleg í gjaldeyri ef leyft verður að endurfjármagna þau í evrum og ef það fær að gerast mun þessi stærsti einstaki ísklumpur í snjóhengjunni aldrei verða bræddur.
Það væri glapræði af íslenskum stjórnvöldum að samþykkja þetta tilboð og leyfa þannig erlendum kröfuhöfum að njóta ávinnings af ólöglegum gjörningi. Umrædd lán voru nefninlega aldrei "greidd út" í erlendum gjaldeyri heldur með afhendingu lánasafna í íslenskum krónum, eins og svar fjármálaráðherra staðfestir. Viðmiðun á endurgreiðslu lánveitinga í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla er hinsvegar ólögleg eins og alkunnugt er orðið í kjölfar aragrúa Hæstaréttardóma þar að lútandi. Jafnframt braut þessi gjörningur gegn reglum um stærð einstakra áhættuskuldbindinga fjármálafyrirtækja og lán til tengdra aðila, auk þess sem aldrei voru neinar heimildir fyrir hendi á fjárlögum til slíkrar ráðstöfunar mörg ár fram í tímann á eignum ríkisfyrirtækisins NBI hf.
Hættan sem Ísland stendur nú frammi fyrir er sú að í meðvirkni með helstu kröfuhöfum gamla Landsbankans (Bretum) gætu stjórnvöld tekið upp á því að samþykkja þetta tilboð þeirra og veita undanþágu frá fjármagnshöftum sem gæti umsvifalaust verið notuð til að koma illa fengnum ágóðanum úr landi með verulega neikvæðum áhrifum fyrir þjóðarbúið. Sú staðreynd að samið virðist hafa verið um þetta fyrirfram með liðsinni sama aðila og var fenginn til að gera síðasta samning um Icesave sem var felldur, er síst til þess fallin að eyða tortryggni. EFTA-dómstóllinn hefur kveðið upp dóm sinn um að ríkinu sé ekki einungis óskylt heldur beinlínis óheimilt að ábyrgjast innstæðutryggingakerfið. Íslensk stjórnvöld hafa raunverulega enga heimild til að fara gegn þeim dómi, hvað þá að leggja blessun sína yfir ráðstöfun á eignum ríkisins án heimildar til þess á fjárlögum.
Síðasti samningur um Icesave hefur jafnan verið kallaður Icesave III.
Það sem virðist nú í uppsiglingu mætti samkvæmt því kalla Icesave IV.
Mikilvægt er að þing og þjóð standi saman um að hafna þessu tilboði!
Arion og Íslandsbanki vildu ekki svara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkar: Gengistrygging, IceSave, Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.6.2015 kl. 19:48 | Facebook
Athugasemdir
Góður.
Benedikt Helgason, 16.6.2015 kl. 14:36
Guðmundur. Í landsdómi kom fram að fjármálaeftirlit með ICESAVE var hjá Hollenska fjármálaeftirlitinu? En ekki hjá fjármálaeftirliti Íslands?
Og Bretastjórn neitaði að setja ISECAVE í dótturfélag þegar hrunið átti sér stað, eins og lofað var fyrir hrun? Bretastjórn dró til baka sitt loforð um ábyrgt dótturfélag, þegar Límanna Brothers féll?
Það kom líka fram í Landsdómi, í vitnisburði Sigurðar Einarssonar, að það væri ekki hægt að útskýra sjávarútveginn á Íslandi í vitnalyfheyrslunum? Hvers vegna ekki?
Hvað segir þetta okkur almenningi, sem ekki erum talin skilja annað en svokallað leikarahannað "mannamál" fjölmiðlahirðfífla-fréttanna dauðadæmdu?
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 16.6.2015 kl. 20:12
Guðmundur. Hver sér um fjármálaeftirlitið á Íslandi í dag? Við berum öll ábyrgð á að svara þessu eftir bestu vitund hverju sinni, og getu.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 16.6.2015 kl. 20:16
Anna Sigríður.
Eftirlit með starfsemi Icesave í Hollandi var vissulega á höndum hollenska fjármálaeftirlitsins og í Bretlandi á höndum FSA.
Það var löngu fyrir hrun sem Bretar neituðu að heimila Landsbankanum að setja Icesave í þarlent dótturfélag, nema að vissum skilyrðum uppfylltum, meðal annars þeim að fúlgur fjár í erlendum gjaldeyri yrðu fluttar frá Íslandi til Bretlands. Reyndar fer tvennum sögum af því, Landsbankamenn hafa haldið því fram að þeir hafi staðið skil á þessu en Bretar hafa ekki viljað kannast við það. Hvað varð um þá peninga þurfa hlutaðeigandi aðilar að þurfa að svara fyrir.
Þegar Lehman hrundi varð svo ekkert aftur snúið, hvorki með Icesave né annað sem fylgdi í kjölfarið. Svo er það stórmerkilegt að þó svo að Bandaríkjamenn hafi gert það nákvæmlega sama í Lehman málinu, þ.e. leyft þeim að tæma London útibúið og skilja kröfuhafa þess eftir í grænum sjó, þá beittu þeir aldrei hryðjuverkalögum gegn USA heldur eingöngu gegn Íslandi. Jafnræðisregla var þar þverbrotin!
Fjármálaeftirlit á Íslandi er í dag á höndum Fjármálaeftirlitsins, rétt eins og það hefur alltaf verið. Hinsvegar eru uppi fyrirætlanir af hálfu EFTA að fela eftirlitsstofnun sinni (ESA) að hafa eftirlit með fjármálastarfsemi milli landa innan EES. Það er til að mæta þeim reglum sem Evrópusambandið hefur sett en vegna þess að Ísland er fullvalda ríki leyfir stjórnarskráin ekki framsal ríkisvalds til þeirra yfirþjóðlegu eftirlitsstofnana sem ESB hefur komið á fót í kjölfar fjármálakrísunnar og eru nokkurskonar alræðisbákn. Ef slík stofnun hefði haft vald yfir Íslandi í hruninu hefðum við verið látin borga Icesave með blóði okkar, svita og tárum því stofnanir ESB virðast ekki þekkja muninn á einkaskuldum og ríkisskuldum.
Þetta svarar vonandi flestum spurningum þínum.
Guðmundur Ásgeirsson, 16.6.2015 kl. 21:30
Guðmundur. Er fjármálaeftirlit Íslands, ekki fjármálaeftirlit Íslands?
Þú svarar sumu af mínum spurningum, en ekki því, að Sigurður Einarsson og fleiri sögðu í landsdómi, að fjármálaeftirlitið hefði verið í Hollandi í sambandi við Icesave, og það væri ekki hægt að útskýra sjávarútveginn í samfléttunni við Kaupþing-banka á Íslandi?
Ég er bara föst í þessu hálf-ósvaraða sjávarútvegsdæmi, og Landsbanka-Icesavedæmi?
Ég skil þetta ekki?
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 16.6.2015 kl. 23:23
Jú FME er Fjármálaeftirlit Íslands.
Eftirlit með útibúum á erlendri grundu var hinsvegar á höndum sambærilegra stofnana í viðkomandi löndum.
Ég kann ekki skýringar á ummælum stjórnanda Kaupþings um sjávarútveg, enda eru þau þessu máli algjörlega óviðkomandi.
Guðmundur Ásgeirsson, 16.6.2015 kl. 23:27
Það er nú meira ruglið sem fram kemur í þessari grein. Það er einfalelga rangt að það hafi aldrei komið fram af hverju Landsbankabréfið var í erlendum gjaldmiðlum. Það hefur meðal annars komið fram í greinagerð til Alþingis og hefur einnig komið fram í blaðahgreinum til dæmis þessari hér.
http://kjarninn.is/2015/02/hvers-vegna-thurfti-ad-lengja-i-landsbankabrefinu/
Það er í lið 2 sem þetta er útskýrt.
Í stuttu máli er ástæðan sú að mun meirar var um erlendar eignir en erlendar skuldir sem fluttar voru yfir í nýja Landsbankan úr þrotabúi gamla Landsbankans. Það stafar af því að stór hluti íslenskra útflutningsfyrirtækja voru með lán í erlendum gjaldmiðlum vegna þess að þau voru með tekjur sínar í erlendum gjaldmiðlum og það því eðlileg áhættustýring að hafa skuldirnar í sömu gjaldmiðlum og þau höðfu tekjur í. Það leiddi hins vegar til þessa mikla ójafnvægis í gjaldeyrirsjöfnuði bankans þegar bara íslenskar eignir og íslenskar skuldir voru fluttar yfir. Hefði skuldabréfið sem gefið var út vegna þess að mun meiri eignir en skuldir voru fluttar yfir hefði það leitt til mjög mikils mismunar á gjaldeyrisstöðu bankans.
Þessi munur hefði í fyrsta lagi verið það mikill að ekki hefði verið hægt að veita nýja Landsbankanum starfsleyfi samkvæmt lögum sem eru nauðsynleg til að gæta hagsmuna innlánseigenda banka. En í öðru lagi og kannski mikilvægasta ástæðan er sú að með þessum mikla ójöfnuðu hefði verið tekin gríðarleg áhætta með þá 120 milljarða sem ríkissjóður lagði fram sem eigin fé. Ef íslenska krónan styrktist um 35% hefði allt þetta eigið fé ríkisins veri gufað upp með 120 milljarða tapi fyrir ríkissjóð og þar með skattgreiðendur. 10% hækkun á gengi krónunnar hefði valdioð því að 30% eða 36 milljarðar hefðu gufað upp á kostnað skattgreiðenda.
Þar sem gengi íslensku krónunnar var óeölilega lágt á þessum tíma var ljóst að meiri líkur en minni væru á styrkingu hennar enda hefur hún styrkst talsvert frá þessum tíma.
Það er farið vel yfir það í greininni af hverju aðrir kostir til að jafna gjaldeyrisstöðu Landsbankans voru ófærir eða óskynsamlegir.
En bara til að hrekja þá fullyrðingu að það hafi verið slæmur kostur að hafa skuldabéfið í erlendum gjaldmiðlum þá má benda á það að sú styrking em hefur orðið á íslensku krónunni frá þessum tíma hefur leitt til þess að skuldabréfið hefði verið í íslenskum krónum þá skuldaði nýji Landsbankinn núna hærri upphæð til þrotabúanna en varð vegna þess að bréfið var í erlendum gjalmdiðlum sem hafa lækkað í verði auk þess sem nýji Landsbankinn hefði þurft að greiða hærri vexti allan tíman vegna þess að vextir í íslenskum krónum eru hærri en í þeim gjaldmiðlum sem bréfið er í.
Það er því einföld staðreynd að það var vegna hagsmuna íslenska ríkisins og þar með íslenskra skattgreiðenda í huga sem nauðsynlegt var að hafa skuldabréfið í erlendum gjaldmiðlum. Það var ekki til að þóknast kröfuhöfum. ESB eða AGS sem þetta var gert með þessum hætti. Þess vegna er þessi grein algert bull rétt eins og öll önnur svikabrigsl gegn Steinrími J. Sigfrússyni og öðrum sem að þessu komu eru. Þetta var allt gert sakvæmr ráðleggingu helstu serfræðinga og með ýtrustu hagsmuni íslensks þjóðfélags og íslensks almennings í huga. Vissulega eru einhver atriði sem eftirá má sjá að hefði hugsanlega verið betra að gera með öðrum hætti en það á ekki við um þá ákvörðun að hafa þetta tiltekna skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum.
Sigurður M Grétarsson, 17.6.2015 kl. 07:22
Sæll Sigurður.
Þú virðist ekki hafa lesið greinina.
Í henni er hvergi fullyrt að aldrei hafi komið fram skýringar á því hvers vegna Landsbankabréfin eru í erlendum gjaldmiðlum, heldur aðeins að aldrei hafi komið fram almennilegar skýringar á því. Ég held svo áfram og rek tvær þeirra sem helst hafa verið nefndar.
Þar á meðal er sú sem þú nefnir sérstaklega, að þetta hafi verið endurgjald fyrir "erlendar" eða "gjaldeyris-" eignir, eða eins og þú orðar það: nauðsynlegt til skapa bankanum jafnvægi í gjaldeyrisjöfnuði. Með því ferðu algjörlega á mis við að meginumfjöllunarefni pistilsins eru nýjar upplýsingar frá Landsbankanum sjálfum sem staðfesta að þessi kenning þín er tóm vitleysa, það voru engar "erlendar" eignir eða "gjaldeyriseignir" keyptar yfir! Allt sem á eftir því kemur í þessu innleggi þínu, felur því um sjálft þig þar sem það byggist í því að það hafi verið einhverjar gjaldeyriseignir en svo var ekki í raun og veru.
Svo er ekki hér um nein svikabrigsl að ræða. Þú virðist ekki heldur hafa lesið greinina nógu vel til að sjá að hún fjallar eingöngu um atburðarás en nafngreinir enga þáttakendur í þeirri atburðarás. Það er því algjörlega frá þér komið að vera að fjalla um þetta á þeim nótum, og nafngreining þín á tilteknum aðila í síðustu málsgrein innleggs þíns afhjúpar það vel úr hvaða átt þessi varnarræða þín kemur og verður því að skoðast sem slík og ekkert annað.
Mundu: Það voru aldrei neinar gjaldeyriseignir.
Góðar stundir.
Guðmundur Ásgeirsson, 17.6.2015 kl. 14:56
Guðmundur. Þú ert geinilega bæði að misskilja þessar upplýsingar frá Landsbankanum og að sem ég skrifaði. Ég fullyrit ekki að um erlendar eignir hafi verið að ræða heldur innlendar eignir í erlendum myntum. Þetta voru lán til innlendra fyrirtækja í útflutningsgreinum sem voru í erlendum gjaldmiðlum. Þá er ég ekki að tala um ólögleg gengistryggð lán heldur lán í erlendum gjaldmiðlum sem voru dæmd lögleg. Þetta voru því inneignir hjá íslenskum aðilum í erlendum gjalmiðlum.
Þessi skýring er því ALMENNILEG skýring og það hefði verið allt of stór áhætta að hafa þennan ójöfnuð í bankanum og hefði reyndar ekki staðist lög og því hefði Fjármálaefntirlitið ekki getað veitt bankanum starfsleyfi hefði skuldabréfið verið í íslenskum kronum öðruvísi en að útflutningsmfyrirtækin hefðu verið neydd til að breyta sínum lánum yfir í íslenskar krónur með tilheyrandi aukinni áhættu í sínum rekstr.
Og eis stendur það sem ég sagði að ef skuldabréfið hefði verið í íslenskum krónum þá væri skuld nýja Landsbankans við þrotabú gamla Landsbankans hærri en hún er í dag vegna þess að gengi erlendu gjaldmiðlanna hefur lækkað síðan skuldabréfið var gefið út og auk þess hefði þurft að greiða hærri vexti af láin í íslenskum krónum. Því væri snjóhengjuvandinn meiri en hann er í dag ef skuldabréfið væri í íslenskum krónum.
Staðreyndin er sú að á öllum stigum og í öllum ákvörðunum varðand endurreisn bankakerfisins var fari eftir árðleggingum sérfræðinga og alltaf framkvæmt það sem þeir töldu vera best fyrir hagsmuni Íslendinga.Samt fá menn eins og Víglundur Þorsteinsson að vaða uppi með kjafætði sem stenst einga skoðun í fjömiðlum aftur og aftur og meira segja taka sumir þingmenn og réðherrar Framsóknarflokksins undir það kjafætði þó þeir viti betur.
Sigurður M Grétarsson, 17.6.2015 kl. 23:12
Sigurður. Ég er ekki að misskilja neitt.
Það varst þú sjálfur sem skrifaðir:
Í stuttu máli er ástæðan sú að mun meirar var um erlendar eignir en erlendar skuldir sem fluttar voru yfir í nýja Landsbankan úr þrotabúi gamla Landsbankans. Það stafar af því að stór hluti íslenskra útflutningsfyrirtækja voru með lán í erlendum gjaldmiðlum...
Þannig fullyrtir þú að "erlendu eignirnar" væru "lán í erlendum gjaldmiðlum" til íslenskra útflutningsfyrirtækja. Þetta er ekki eitthvað sem ég fann upp á, í pistlinum talaði ég reyndar hvergi um "erlendar eignir", heldur "gengislán", "gjaldeyrislán", og notaði líka hugtakið "eignir innleysanlegar í erlendum gjaldeyri".
Það skiptir engu máli hvort þetta eru kallaðar erlendar eignir eða gjaldeyrislán, því eins og kemur fram í svari Landsbankans var það hvorugt, heldur voru það allt saman lán í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu. Það er engin leið að skilja svar Landsbankans öðruvísi, enda kemur fram að slík lán hafi öll verið endurreiknuð þar sem þú hafi verið talin vera ólöglega gengistryggð. Þetta er lykilatriði því tilboð kröfuhafa gamla Landsbankans felur í sér afhendingu krónueigna, og ef þessar krónueignir væru felldar þar undir gæti stærsti biti snjóhengjunnar bráðnað.
Annars er ég orðinn forvitinn um af hverju þú vilt leggja öndverðan skilning í þetta. Viltu að endurheimturnar verði minni en þær ella gætu orðið? Hvers vegna í veröldinni myndi einhver vilja það? Ertu ekki hlynntur því að ríkissjóður hagnist og þar með við öll? Ég verð að viðurkenna að ég á afar erfitt með að skilja slíkt viðhorf, en þú getur kannski útskýrt það? Varla ertu einn af þessum leigupennum sem hefur verið haldið fram að starfi hér á vegum erlendra kröfuhafa?
Guðmundur Ásgeirsson, 18.6.2015 kl. 00:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.