Nauðsynleg og réttmæt leiðrétting
29.5.2015 | 17:34
Allir sem hafa starfað við almannatengsl á netinu og vefstjórn af einhverju viti þekkja tilvik þar sem upplýsingar á vefsíðum eru orðnar úreltar og þar af leiðandi ekki lengur réttar. Þess vegna eru líka flestar vefsíður, allavega þær sem eru af vandaðri gerð, þannig útbúnar að á hverri síðu er tengill sem hægt er að smella á og senda vefstjóra póst til að láta vita um rangar upplýsingar eða efni á vefsíðu sem á ekki heima þar.
Þessi möguleiki er einnig til staðar á vef Evrópusambandsins, og var nýttur þann 27. apríl síðastliðinn eða fyrir um mánuði síðan, til þess að senda vefstjóra ESB ábendingu um að upplýsingar á síðu um "umsóknarríki" væru orðnar úreltar þar sem Ísland ætti ekki lengur að vera á þeim lista. Svo virðist sem að ábendingin hafi skilað sér á endanum og þær upplýsingar verið uppfærðar, því nú er Ísland ekki lengur á lista umsækjenda.
Það er auðvitað mikið fagnaðarefni að þessar röngu upplýsingar skuli loksins hafa verið leiðréttar. Á sama tíma er hinsvegar umhugsunarefni, að það skuli hafa tekið vefstjóra ESB heilan mánuð að framkvæma eðlilega leiðréttingu á röngum upplýsingum sem hefði ekki þurft að taka meira en örfáar mínútur að leiðrétta. Ekki þurfti að skrifa neinn nýjan texta eða bæta neinu við, heldur einfaldlega að eyða út ákveðnum upplýsingum með því að ýta nokkrum sinnum á "delete" takkann á lyklaborðinu.
Þessi viðbragðstími sem er í raun óralangur þegar internetið er annars vegar, segir margt um það hvers svifaseint og óskilvirkt þetta gamaldags skrifræðisbákn er í raun og veru. Ísland er hinsvegar nútímalegt land sem er orðið vant því að haga seglum eftir vindi og sveigjanleiki er einn helsti kostur þjóðfélagsins. Þess vegna rennir þessi atburðarás bara enn frekari stoðum undir það að Ísland eigi í raun ekkert erindi í slíkt samband.
Það er samt mjög ánægjulegt að þessar staðreyndir skuli loksins hafa verið viðurkenndar af Evrópusambandinu sjálfu. Það er alltaf vont þegar fólk vill ekki horfast í augu við raunveruleikann og enn verra þegar stofnanir þráast við. Það eina sem hefst upp úr því að berja hausnum við steininn er nefninlega bara hausverkur, jafnvel heilahristingur, og ef nógu lengi er haldið áfram getur það leitt til örkumlunar og dauða viðkomandi.
Batnandi fólki er hinsvegar best að lifa.
Góða helgi og gleðilegt sumar!
Ísland af lista yfir umsóknarríki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Vefurinn | Breytt 3.6.2015 kl. 00:42 | Facebook
Athugasemdir
Til hamingju Ísland
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.5.2015 kl. 19:18
Ég flagga í tilefni dagsins:
Guðmundur Ásgeirsson, 29.5.2015 kl. 23:27
Þetta eru heimsfréttir og við eigum að flykkjast niður á austurvöll og hrópa Húrra, húrra, húrra...
Valdimar Samúelsson, 30.5.2015 kl. 05:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.