Takmarka þarf breytilegan lánskostnað
12.8.2014 | 20:44
Stjórnvöld í Svíþjóð skoða nú þann möguleika vandlega að takmarka fasteignalán með breytilegum vöxtum í þeirri viðleitni að auka stöðugleika fjármálakerfisins þar í landi. Þetta er fyrirmynd sem íslensk stjórnvöld ættu að hafa í huga, þegar kemur að umræðunni um verðtrygginguna, sem er líka breytilegur kostnaðarliður í flestum húsnæðislánum.
Athygli vekur að helstu rökin fyrir takmörkun á breytilegum kostnaði í Svíþjóð er að hún sé mikilvæg fyrir stöðugleika fjármálakerfisins. Þannig er ekki aðeins byggt á því að það séu hagsmunir heimilanna sjálfra, heldur að þeir fari að þessu leyti saman með hagsmunum lánveitenda og annarra þáttakenda í fjármálakerfinu.
Þetta er fullkomlega rökrétt, því lán sem eru síbreytileg, og eins og þau íslensku að hækka sífellt eða taka skyndilegum stökkbreytingum, geta eingöngu leitt greiðslufalls hjá stórum hluta lántakenda. Fjármálakerfi sem er uppfullt af undirmálslánum er alls ekki stöðugt.
Þetta kom bersýnilega í ljós þegar húsnæðislánakreppa byrjaði í Bandaríkjunum 2007 einmitt vegna skyndilegra hækkana breytilegra vaxta á húsnæðislánum, en það leiddi svo til alþjóðlega fjármálahrunsins sem við erum enn að glíma við.
Verðtrygging er í raun ekkert annað en breytilegur kostnaðarliður, og er meira að segja reiknuð með hlutfallareikningi alveg eins og vextirnir, það er að segja prósenta sem eftirstöðvar lánsins eru margfaldaðar með.
Eins og íslensk fjármálafyrirtæki iðka hana í reynd er hún þó að því leyti verri en breytilegir vextir, að eftirstöðvar lánsins eru fyrst margfaldaðar með hlutfallslegri hækkun vísitölu neysluverðs, og svo aftur með vöxtunum, þannig að útkoman verður ekki vextir plús verðbólga eins og er eðlilegt þegar um er að ræða vísitölutengingu lána annarsstaðar í heiminum, heldur verður útkoman vextir sinnum verðbólga.
Allir sem hafa lokið grunnskóla ættu að vita hvort gefur hærri niðurstöðu, samlagning eða margföldun, tökum dæmi: 6+6 = 12, en 6*6 = 36. Útkoman er í þessu tilviki þrisvar sinnum stærri úr margföldun tveggja talna heldur en með samlagningu þeirra. Eftir því sem tölurnar eru stærri verður þessi munur enn meiri og vex sífellt hraðar.
Fyrri hækkunin er línuleg en sú síðari sem er lýsandi fyrir íslenska verðtryggingu, lýsir í raun fyrirbæri sem kallast veldisvöxtur. Hann getur aldrei verið sjálfbær undir náttúrulegum kringumstæðum, en það lögmál er álíka ófrávíkjanlegt grundvallaratriði í vistfræði eins og hámarkshraði ljóssins er í eðlisfræðinni.
Þessi séríslenska framkvæmd er ekki aðeins meginorsök skuldavanda heimilanna sem var aðal kosningamál síðust þingkosninga, heldur er hún einnig meðal helstu orsaka sjálfs bankahrunsins sem varð hér á landi haustið 2008.
Eins og sænsk stjórnvöld virðast hafa áttað sig á og er kominn tími til að íslensk stjórnvöld átti sig á er fátt sem grefur meira undan fjármálastöðugleika heldur en lán sem skyndilega springa í loft upp framan í lántakendurna, því öllum sprengingum fylgir bakslag. Þegar slíkt bakslag verður vegna lána sem springa óvænt í loft upp þá lendir það óhjákvæmilega á lánveitandanum sem situr þá uppi með stór lánasöfn í ruslflokki.*
* Slík lánasöfn hafa verið kölluð "eitraðar eignir" e. toxic assets.
Það er því ekki aðeins útfrá einkahagsmunum lántakenda sem er réttmætt að afnema verðtryggingu neytendalána, heldur er það einnig í þágu fjármálastöðugleika sem varðar hagsmuni banka og annarra fjármálafyrirtækja, og jafnframt í þágu þjóðhagslegs stöðugleika sem varðar almannahagsmuni.
Hér má lesa niðurstöður vísindarannsóknar þar sem því er lýst í smáatriðum hvernig þessi séríslenska tegund verðtryggingar, grefur beinlínis undan stöðugleika krónunnar og kyndir hið landlæga verðbólgubál með stórskaðlegum vítahring stjórnlausrar peningaprentunar:
http://arxiv.org/abs/1302.4112
Vilji íslensk stjórnvöld telja sig í hópi stjórnvalda siðmenntaðra þjóða, verða þau nú þegar að leggja fortakslaust bann við hverskonar veldisvaxandi fyrirbærum í fjármálakerfinu.
Sérstaklega þarf að fella brott þá undanþágu frá almennu banni við verðtryggingu sem fram til þessa hefur gert lánveitendum kleift að nota hana á neytendalán til venjulegra heimila sem kæra sig fæst um að vera þvinguð til þáttöku í slíku fjárhættuspili.
Takmarki lán með breytilegum vöxtum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Verðtrygging | Breytt 13.8.2014 kl. 01:41 | Facebook
Athugasemdir
Hef einmitt bent á þetta samhengi stöðugleika vaxta og lágra vanskila. Reikna þó með því að hvorki stjórnvöld né fjármálakerfið átti sig á þessu.
Marinó G. Njálsson, 12.8.2014 kl. 22:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.