Auglýst eftir verðtryggðum lífeyrisþegum

Hagsmunasamtök heimilanna hafa mörgum sinnum auglýst eftir lífeyrisþegum sem hafa fengið allar greiðslur sínar í lífeyrissjóð til baka í ellinni með 3,5% verðtryggðri ávöxtun samkvæmt kenningum lífeyrissjóðanna um svokallaða "raunávöxtunarkröfu".

Hingað til hefur enginn gefið sig fram, hvorki slíkur lífeyrisþegi í eigin persónu, né hafa lífeyrissjóðir boðið fram slíkar upplýsingar um neina af sínum sjóðfélögum. Er þessi auglýsing því ítrekuð hér aftur, og viðkomandi aðilar beðnir um að setja sig í samband við Hagsmunasamtök heimilanna (heimilin@heimilin.is).

Þangað til slíkar upplýsingar berast er ekki hægt að ganga út frá öðru en að fullyrðingar um verðtryggðan lífeyri, séu þjóðsögur einar.

Til dæmis liggur fyrir sú staðreynd að lífeyrissjóðirnir töpuðu hundrum milljarða á snarbiluðum fjárfestingum í útrásar- og fjármálafyrirtækjum sem urðu að engu við hrunið 2008. Jafnframt liggur fyrir að eignir þeirra séu langt frá því að duga fyrir skuldbindingum þeirra um framtíðar lífeyrisgreiðslur.

Ætlar einhver að reyna að halda því fram að þetta sé verðtryggt? Nei, því miður er lífeyrir landsmanna alls ekkert verðtryggður, og ef það er svo í einhverjum tilfellum er um sárafáar undantekningar að ræða. Raunávöxtunarkrafan er nefninlega ekkert annað en reiknistærð við ársuppgjör og hefur enga beina tengingu við raunverulega réttindi sjóðfélaga.

Góðu fréttirnar eru hinsvegar þær að afnám verðtryggingar hefur þar af leiðandi engin áhrif á lífeyrisréttindi þar sem þau eru alls ekki verðtryggð. Lífeyrisþegum er því óhætt að láta tilhæfulausar tröllasögur sjóðsstjórnenda sem vind um eyru þjóta, og geta sofið fullkomlega rólegir yfir afnámi verðtryggingar neytendalána.

Skerðingar lífeyris eiga sér stað vegna (misgóðra) ákvarðana sjóðsstjórnendanna sjálfra, og hafa lítið sem ekkert með verðtryggingu neytendalána að gera. Vilji einhver afsanna þá fullyrðingu er viðkomandi hinsvegar velkomið að verða við ofangreindri áskorun, og leiða fram raundæmi um lífeyrisþega sem fengið hefur óskerta 3,5% raunávöxtun.


mbl.is Vara við afnámi verðtryggingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikt Helgason

Fékk yfirlit frá svissneska lífeyrissjóðnum mínum um daginn. Á yfirlitinu er lífeyrir minn við 65 ára aldur áætlaður miðað við tvær öfgar í ávöxtun; annars vegar að nafnávöxtun verði 0% og hins vegar að nafnávöxtun verði 2%.

Ég hitti svo fyrir tilviljun gamlan vinnufélaga sem vinnur núna við áhættustýringu hjá svissneskum lífeyrissjóði sem er með ca. 3 íslenskar þjóðarframleiðslur í ávöxtun.  Ég þurfti að stafa það fyrir hann þrisvar að íslenska lífeyrirsjóðsmódelið miðast við 3.5% raunávöxtun eða ca. 7.5% nafnávöxtun.

Þessari séríslensku vitfirringu verður að fara að ljúka. Það er ekki hægt að búa til lífeyri með því að rukka bara lífeyrisþegana um nógu háa vexti í gegnum sjóðsfélagalán og íbúðabréf ÍBLS. Við það myndast engin verðmæti, þau færast bara til á milli kynslóðana.  Það er miklu nær að færa niður vextina og hækka inngreiðslurnar annað hvort inn í sjóðina eða inn á fasteignalán fólks í formi lægri vaxta og hraðari eiginfjármyndun.

Þess má geta að inngreiðslur inn í minn svissneska lífeyrissjóð þessi árin (framlag vinnuveitanda og mitt framlag) nemur um 26% af launum.  Þessar greiðslur eru vissulega í hámarki núna í 5 ár en þetta endurspeglar engu að síður þá sýn að lífeyrir mun ekki duga nema að greiðslur inn í sjóðina séu umtalsverðar þegar tekið er mið af raunhæfri áxöxtun. 

Benedikt Helgason, 10.8.2014 kl. 19:07

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ég held því fram að maður sem væri í dag að hefja lífeyrisaldur eftir að vera búinn að vinna á meðallaunum alla ævi og greiða samviskusamlega lögboðið hlutfall í lífeyrissjóð, ef hann ætti það allt í lífeyrissjóðnum núna með áfallinni verðtryggingu og 3,5% vöxtum þá væri sá maður nógu ríkur til að kaupa Ísland. Hinsvegar væri þá ekkert eftir handa okkur hinum, sem segir það bara að þetta getur ekki gengið upp.

Verðtrygging skuldabréfa var fyrst lögleidd í Massachusets ríki 1747 og þá tók það einungis fimm ár fyrir það kerfi að fara á hliðina, eins og lesa má um á vef bandaríska seðlabankans í Richmond:

http://www.richmondfed.org/publications/research/economic_review/1974/er600601.cfm

Verðtrygging var líka innleidd í Argentínu, en síðan þá er landið búið að fara á hausinn minnst þrisvar ef ekki oftar.

Verðtrygging er og hefur alltaf verið ávísun á gjaldþrot.

Guðmundur Ásgeirsson, 10.8.2014 kl. 22:07

3 identicon

Ég er hlynntur því, að ekki einungis verði verðtryggingin afnumin í skyndi, heldur verði skylduaðild að lífeyrissjóði afnumin líka hið snarasta. Það eru glæpamenn sem stjórna íslenzku lífeyrissjóðunum, margir af þeim sem eyddu milljörðum í aðra glæpamenn fyrir hrun, sitja enn í stjórnum sjóðanna og maka krókinn.

Í Danmörku er engin verðtrygging, þegar ég keypti íbúð þar á níunda áratugnum á föstum vöxtum, þá fékk ég yfirlit með öllum mánaðarlegum greiðslum næstu 20 árin. Greiðslurnar voru alltaf þær sömu, 4000 dkr. á mánuði (sem þá voru tæpar 50 þús. ísl.), einungis hlutfallið milli vaxtahluta og afborganahluta breyttist smám saman, en höfuðstóllinn var sá sami eftir 20 ár og hann hafði verið í byrjun. Engar verðlagsbreytingar annars staðar í þjóðfélaginu hafði nein áhrif á samning minn við fasteignalánasjóðinn, sem mig minnir að hafi verið Realkredit Danmark.

Þar var engin skylda að greiða í lífeyrissjóð, nema sjóð ríkisins, ATP, sem fjármagnar ellilífeyrisgreiðslur. Síðan gat hver sem vildi greitt í lífeyrissparnað til einkarekinna lífeyrissjóða eða bankastofnanna af frjálsum vilja.

Að hrægammarnir hjá lífeyrissjóðunum séu að berjast gegn afnámi verðtryggingar er líkt og þegar hergagnaiðnaður berzt gegn niðurskurði á ríkisstyrktri vopnaframleiðslu til útflutnings með þeim rökum að þannig niðurskurður ógni friði.

Pétur D. (IP-tala skráð) 11.8.2014 kl. 12:45

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Tek undir afnám skylduaðildar að lífeyrissjóðum.

Það er ekkert annað en einkavædd skattheimta.

Þeir sem hirða þann skatt eyða honum svo í vitleysu.

Ef skerðingin á lífeyrinum næði líka til lánanna, þá væri kannski hægt að tala um einhverja sanngirni í þessu, en svo er þó ekki.

Guðmundur Ásgeirsson, 13.8.2014 kl. 01:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband