Þversagnir stjórnvalda um neytendalán
19.7.2014 | 01:16
1955: Alþingi setur lög um húsnæðismál, þar sem m.a. er heimilað að binda greiðslur afborgana og vaxta húsnæðislána við vísitölu framfærslukostnaðar.
1966: Alþingi setur lög um verðtryggingu fjárskuldbindinga, sem heimila m.a. að greiðslur af lánum, þar með taldir vextir, skuli breytast í hlutfalli við breytingar á vísitölum.
1979: Alþingi setur lög um stjórn efnahagsmála, sem heimila almenna verðtryggingu, þ.á.m. til bráðabirgða þannig að sérstakur verðbótaþáttur vaxta, sem sé tengdur verðlagsbreytingum með formlegum hætti, leggist við höfuðstól láns eða sé hluti forvaxta.
1987: Með nýjum vaxtalögum er bráðabirgðaheimild til að færa verðbótaþátt á höfuðstól láns, felld brott. Lánveitendur halda þrátt fyrir það áfram að notast við slíka skilmála.
1991: Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands gerir greinargerð um upplýsingaskyldu vegna lánveitinga þar sem mælst er til þess að lántakendum verði framvegis veittar ítarlegar upplýsingar um margvísleg atriði áður en til lánveitingar kæmi. Þar á meðal voru virkir vextir (árleg hlutfallstala kostnaðar) og áætluð greiðsluþörf vegna afborgana, vaxta, verðbóta og annara kostnaðarliða.
1993: Alþingi lögfestir aðild Íslands að EES og hefur innleiðingu tilskipana sem undir hann falla, þar á meðal tilskipun 87/102/EBE um neytendalán. Á Alþingi er flutt frumvarp til laga um neytendalán, þar sem meðal annars er kveðið á um að upplýsingar um lánskostnað skuli reikna út miðað við þá forsendu að kostnaður vé sá sami og við upphaf lánstíma og haldist óbreyttur til loka hans.
Samkvæmt tillögum í umsögn seðlabankans leggur efnahags og viðskiptanefnd í nefndaráliti til að við frumvarpið bætist ákvæði um að vísitölubinding og verðlagsviðmiðun skuli teljast til vaxtagjalda þegar árleg hlutfallstala kostnaðar sé reiknuð út. Með þeirri breytingu er frumvarpið svo samþykkt og verður að lögum.
1994: Lögin um neytendalán endurskoðuð, í frumvarpi til breytinga á þeim er gert ráð fyrir að reikna skuli árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld verði óbreytt til loka lánstímans. Í athugasemdum með frumvarpinu segir að með þessu sé lagt til að orðalag ákvæðisins verði gert skýrara, en hugtakið verðtrygging sé notað í víðtækri merkingu þannig að það nái til hvers konar verðtryggingar sem heimiluð sé hér á landi
1998: Alþingi setur lög um húsnæðismál þar sem innheimtar verðbætur eru skilgreindar sem hluti af tekjum Íbúðalánasjóðs á sama hátt og vextir.
2003: Alþingi setur lög um tekjuskatt, þar sem með vöxtum teljast áfallnar verðbætur á höfuðstól og eru skilgreindar sem fjármagnstekjur.
2003: Fjármálaeftirlitið setur reglur um reikningsskil lánastofnana þar sem verðbætur eru skilgreindar sem vaxtatekjur.
2013: Lög um neytendalán eru endurskoðuð í ljósi nýrrar tilskipunar og frumvarp lagt fram á Alþingi þar sem ákvæði um útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar eru óbreytt frá eldri lögum. Efnahags- og viðskiptanefnd gerir breytingartillögur, meðal annars um að bætt verði við ákvæði sem taki af öll tvímæli um að miða skuli við verðbólgu undanfarinna 12 mánaða þegar árleg hlutfallstala sé reiknuð út.
Um svipað leyti upplýsist að eins og ýmsir aðilar, þar á meðal Hagsmunasamtök heimilanna, hafa um allnokkurt skeið vakið athygli á, að framkvæmd verðtryggðra lánveitinga íslenskra lánastofnana hefur almennt verið með þeim hætti fram til þessa að útreikningur árlegrar hlutfallstölu kostnaðar og upplýsinga um lánskostnað hefur miðast við 0% verðbólgu, eða í sumum tilfellum hefur slík upplýsingaskylda jafnvel alfarið verið vanrækt. Þar með hafa lántakendum ekki verið veittar neinar raunverulegar upplýsingar um kostnað við verðtrygginguna.
2013: Ný ríkisstjórn er mynduð fyrir tilstilli meirihluta tveggja flokka sem næst ekki síst á grundvelli kosningaloforða um afnám verðtryggingar og leiðréttingu húsnæðislána.
2014: Neytendastofa kemst að þeirri niðurstöðu í ákvörðun sinni að það hafi brotið gegn upplýsingaskyldu um neytendalán að miða við 0% verðbólgu forsendur í framsetningu á útreikningum heildarlántökukostnaðar, greiðsluáætlunar og árlegrar hlutfallstölu.
Árlega hlutfallstalan á ekki að gera annað en að endurspegla kostnaðinn með prósentutölu og jafnframt er eina leiðin til að reikna hana að reikna fyrst út greiðsluáætlunina. Þannig er ljóst að ekki verður undan því komist að veita upplýsingar um heildarlántökukostnað og greiðsluáætlun öðruvísi en að verðbótum inniföldum. Ekki er hægt að reikna árlega hlutfallstölu kostnaðar á neinum öðrum grundvelli svo hún endurspegli sama kostnað.
Ef árleg hlutfallstala er hinsvegar reiknuð á þeirri forsendu að undanskilja kostnað vegna verðtryggingar yrði hún ekki í neinu samræmi við hin tvö atriðin sem skylt er að upplýsa um, þ.e. heildarlántökukostnað og fjárhæðir einstakra gjalddaga. Það er bersýnilega órökrétt, en eina rökrétta niðurstaðan fæst þegar allar þessar upplýsingar um kostnað eru reiknaðar miðað við sömu forsendur.
2014: Íslensk stjórnvöld halda því fram í málaferlum um ráðgefandi álit hjá EFTA dómstólnum gegn tveimur bönkum, að það hafi allan tímann verið meiningin að leyfa þeim að undanskilja kostnað vegna verðtryggingar við útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar. Þetta fer þvert gegn öllu sem að framan greinir.
Aftur á móti er í málatilbúnaði íslenskra stjórnvalda hvergi fjallað um þá ótvíræðu skyldu í íslenskum lögum um neytendalán að auk árlegrar hlutfallstölu er skylt að upplýsa um heildarlántökukostnað í krónum að meðtöldum öllum kostnaðarliðum, og hvernig greiðslur þess kostnaðar skiptast niður á einstaka gjalddaga (greiðsluáætlun), en verðbætur eru hvergi undanskildar í þeim lagaákvæðum þar sem þetta kemur fram.
2014: Upplýsingafulltrúi ríkisstjórnar Íslands sendir frá sér tilkynningu þar sem reynt er að firra hana ábyrgð á þessum þversagnakennda málflutningi, með því að kenna EFTA dómstólnum um að hafa farið rangt með þýðingu á orðunum "Government of Iceland".
Ætli það sé kannski líka út af tungumálaörðugleikum sem málflutningurinn virðist alveg jafn þversagnakenndur þegar reifun hans á íslensku er lesin á vef EFTA dómstólsins?
Í andstöðu við hagsmuni stjórnvalda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Verðtrygging | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt 22.7.2014 kl. 04:36 | Facebook
Athugasemdir
Þess má til gamans geta að einn af þremur dómurum EFTA dómstólsins er íslenskur og álíka hátt hlutfall annara starfsmanna hans eru íslenskir.
Það er því svolítið undarlegt að reynt hafi verið að halda því fram að allt þetta blessaða fólk viti ekki hvað "ríkisstjórn Íslands" þýðir.
Það er svona eins og reyna að byggja á þeirri kenningu að dómstólinn sé skipaður fávitum, sem er sambærilegt því þegar deilt er við dómarann.
Það er ekki til fyrirmyndar að deila við dómarann. Í fjölmiðlum.
Guðmundur Ásgeirsson, 20.7.2014 kl. 12:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.