Lýsing bauð sjálf neikvæða vexti !
7.7.2014 | 17:00
Upplýsingafulltrúi Lýsingar heldur því fram að kröfur sem Lýsingu berist um leiðréttingar bílasamninga eða í dómsmálum um þá, snúist í sumum tilfellum jafnvel um að fá neikvæða vexti á lán. Það þýðir ekki einungis það að þeir sem kröfurnar hafa uppi vilji ókeypis lán og greiða ekkert endurgjald fyrir þau heldur vilja þeir fá borgað með þeim. Það er eðlilegt að fjármálafyrirtæki spyrni við fótum þegar slíkar kröfur koma fram, segir hann.
Gott og vel, en þá er kannski rétt að líta til þess hverskonar kjör Lýsing var sjálf að bjóða á gengistryggðum bílasamningum af því tagi sem hér er um er að ræða. Nú vill þannig til að greinarhöfundur sá er þetta skrifar fær reglulega inn á borð sitt mál til skoðunar vegna lánasamninga. Þeir bílasamningar sem "lentu hvað verst í hruninu" ef svo má segja og hækkuðu þá mikið vegna gengisfalls krónunnar, er algengast að hafi verið gerðir á árabilinu frá 2005-2008. Skýrist það af því að lánstími bílasamninga er yfirleitt stuttur og að hámarki sjö ár að frádregnum aldri ökutækisins, eða á bilinu 3-7 ár.
Samt sem áður var einhver fjöldi slíkra samninga gerður fyrir þennan tíma, og nýlegt dæmi sem kom fyrir augu greinarhöfundar er yfirlit bílasamnings til fimm ára sem gerður var við Lýsingu árið 2001, aðeins nokkrum mánuðum eftir að gengistrygging var bönnuð með lögum. Allir innheimtir gjalddagar voru greiddir samkvæmt innheimtuseðlum Lýsingar og taldist samningurinn því uppgreiddur í lok samningstímans síðla árs 2006, eða rúmu ári áður en hóf að fjara undan gengi krónunnar í aðdraganda bankahrunsins.
Þróun gengis krónunnar á þessu tímabili frá 2001 til 2006 var hinsvegar þannig að þrátt fyrir einhverjar sveiflur þá styrktist það talsvert að jafnaði. Vegna gengistryggingarinnar hafði það í för með sér verulega lækkun á fjárhæð lánsins í íslenskum krónum, og þar með urðu bæði afborganir og vextir að lægri fjárhæðum í krónum heldur en ef sama lánið hefði verið tekið óverðtryggt (án gengisviðmiðs) en á sömu vöxtum (þ.e. m.v. LIBOR).
Þar með er reyndar ekki öll sagan sögð, því gengisstyrkingin á umræddu tímabili var nokkuð meiri en sem nam hinum tiltölulega lágu vöxtum sem giltu á þeim tíma samkvæmt gjaldskrá eða vaxtatöflu Lýsingar. Það leiddi til þess að heildarendurgreiðsla í krónum talið, með vöxtum og öllum öðrum áföllnum kostnaði, reyndist þegar upp var staðið vera lægri en upphafleg fjárhæð lánsins. Lántakandinn þurfti með öðrum orðum að borga minna til baka en hann hafði fengið að láni í krónum talið.
Það var ekkert óvenjulegt við þennan samning, hann var nákvæmlega eins og þeir stöðluðu samningar með gengistryggingu sem Lýsing hélt áfram að nota allt fram að bankahruninu 2008. Reiknuð ávöxtun af þessum samningi var neikvæð um ca. -1,5% að nafnvirði. Hagspekingum hér á landi er hinsvegar mjög tamt að miða við raunvirði, þ.e. að teknu tilliti til verðbólgu sbr. verðtryggðu lánin. Á þessu tímabili var meðalársveðbólga yfir 4% og raunávöxtun lánsins reiknast því hafa verið neikvæð um ca. -16,7%.
Þetta er ekki eitthvað einangrað jaðartilvik eða frávik frá hinu venjulega, heldur er eins og áður sagði um að ræða nákvæmlega eins myntkörfusamning og þá sem Lýsing átti síðar eftir að gera og urðu umdeildir í kjölfar bankahrunsins. Tugþúsundir slíkra samninga voru gerðir og má segja að Lýsing hafi byggt stóran ef ekki stærstan hluta starfsemi sinnar á umræddu tímabili á slíkum lánveitingum og með sambærilegum lánskjörum.
Jafnframt er augljóst að þessi afar hagstæðu lánskjör voru beinlínis ástæða þess að lántakendur sóttust eftir slíkum lánum, líka þeir sem gerðu það síðar og áttu eftir að lenda í hinum miklu hækkunum vegna gengishrunsins. Samt getur Lýsing í tilfellum eins og því sem hér er notað sem dæmi, alls ekki krafist viðbótagreiðslu þó að greiddir vextir hafi í raun verið neikvæðir og það haft eitthvað með ólögmætt gengisviðmið að gera, heldur gilda fullnaðarkvittanir fyrir þeim greiðslum samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar.
Í ljósi þess að Lýsing bauð sjálf upp á lánskjör sem jafngilda neikvæðum vöxtum á lánsfé í íslenskum krónum, og byggði jafnframt starfsemi sína og rekstur á slíkum lánveitingum lengst af, skýtur það óneitanlega skökku við að nú síðar eftir að fyrirtækið hefur orðið uppvíst að því að stunda ólöglega starfsemi um árabil, skuli talsmaður þess halda því fram að eitthvað sé óeðlilegt við að lántakendur krefjist þess að hin umsömdu kjör skuli gilda!
Krefja Lýsingu um neikvæða vexti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Gengistrygging | Aukaflokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt 8.7.2014 kl. 02:07 | Facebook
Athugasemdir
http://www.visir.is/lysing-hefur-leidrett-fyrir-20-milljarda/article/2014140709001
Og er ennþá ekki farin á hausinn?
Skáldskapur í bókhaldinu??? !!!
Guðmundur Ásgeirsson, 8.7.2014 kl. 22:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.