Talandi um almannahagsmuni
18.6.2014 | 18:44
Hagsmunasamtök heimilanna sendu í dag frá sér svohljóðandi tilkynningu:
Þar sem Alþingi kemur saman í dag þrátt fyrir þinghlé vilja Hagsmunasamtök heimilanna skora á þingmenn að nýta tækifærið í þágu þeirra fjölmörgu fjölskyldna sem standa frammi fyrir nauðungarsölum á heimilum sínum.
Þann 19. desember síðastliðinn samþykkti Alþingi bráðabirgðarákvæði við lög um nauðungarsölur (nr. 90/1991) sem kveður á um tímabundna frestun á nauðungarsölum og framlengingu á samþykkisfresti, fram yfir 1. september 2014. Hagsmunasamtök heimilanna skora á Alþingi að framlenga þennan frest til 1. janúar 2015. Ef ekkert verður að gert er hætt við að nauðungarsölur hefjist að nýju með fullum þunga þann 1. september, áður en Alþingi kemur saman á haustþingi, ásamt því að búast má við því að sýslumenn gangi frá uppgjöri á nauðungarsölum sem þegar hafa farið fram en eru á samþykkisfresti. Miklar líkur eru á að slíkt muni leiða til aukins húsnæðisvanda og félagslegrar upplausnar.
Framlenging á frestun nauðungarsalna er afar mikilvæg í ljósi þess að umsóknarfrestur um leiðréttingar vegna verðtryggðra fasteignalána rennur ekki út fyrr en þann 1. september og munu niðurstöður umsókna ekki verða ljósar fyrr en að þeim tíma liðnum. Einnig er vert að hafa í huga að beðið er ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í tveimur málum sem rekin eru fyrir dómstólum um lögmæti útfærslu verðtryggðra neytendalána, auk þess sem svipað mál vegna íbúðaláns er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Verði niðurstaða einhverra þessara dómsmála neytendum í hag getur það breytt verulega stöðu lántakenda, jafnvel á þann veg að þeir sem annars stæðu frammi fyrir nauðungarsölu geti staðið við skuldbindingar sínar og þar með haldið heimilum sínum.
Með vísan til ályktunar aðalfundar HH þann 15. maí 2014:
Aðalfundur Hagsmunasamtaka heimilanna fimmtudagskvöldið 15. maí 2014 skorar á Alþingi að grípa til ráðstafana áður en þing fer í sumarfrí og framlengja án tafar frestun á nauðungarsölum og framlengdum samþykkisfresti sem samþykkt var með bráðabirgðarákvæði við lög um nauðungarsölu (nr. 90/1991) þann 19. desember síðastliðinn. Mikilvægt er að fresturinn verði framlengdur, einkum þar sem enn er óljóst hvenær heimilin fái þær leiðréttingar sem þau vænta. Ef ekkert verður að gert er hætta á því að nauðungarsölur hefjist að nýju með fullum þunga þann 1. september áður en Alþingi kemur saman að nýju á haustþingi, sem líkur eru á að muni leiða til aukins húsnæðisvanda og félagslegar upplausnar.
Þjónar ekki hagsmunum almennings | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.