Leiðrétting á bókhaldsbrellum

Samkvæmt meðfylgjandi frétt þar sem vitnað er í greiningu IFS eru kostnaðarhlutföll íslensku bankanna sögð of há vegna endurútreikninga og endurskipulagningar lána. Aftur á móti hafi virðis­breyt­ing út­lána þó hækkað tekj­urn­ar og þar með lækkað kostnaðar­hlut­föll­in.

Með öðrum orðum þegar bankar veiti ólögleg lán sem stökkbreytast þá sé það "kostnaður" þegar þeir geri eins og þeim er skylt og leiðrétti hina ólöglegu stökkbreytingu, en þau lán sem þeir fengu á hálfvirði en komist upp með að leiðrétta ekki geti þeir uppfært í bókum sínum og það teljist þá í það skiptið vera hagnaður.

Ef við leiðréttum nú aðeins öfugsnúninginn og fjarlægjum hina augljósu þversögn úr þessu skringilega orðalagi, þá er það raunverulega hagnaður bankanna sem er allt of hár, þar sem við útreikning hans hefur verið litið framhjá því að um illa fenginn gróða er að ræða á grundvelli ólöglegra lána sem í flestum tilvikum hefur ekki verið búið að leiðrétta.

Þannig var aldrei um raunverulegan hagnað að ræða, heldur bara tilbúna froðu sem er eins og hver önnur bókhaldsbrella. Eða hvernig gætu þeir annars verið að skila methagnaði í bullandi kreppu? Eins og sagan um það þegar þrír stærstu bændurnir í sveitinni skiluðu allir metuppskeru í brakandi þurrkatíð, sem er augljóslega lygasaga.

Hvað svo sem IFS greining heldur að þá gilda lögmál skammtafræðinnar ekki um skipulagða glæpastarfsemi bankanna, þannig að þýfið getur ekki verið bæði hagnaður og kostnaður eftir því hvernig litið er á það heldur er það alltaf bara þýfi. Að stela þýfinu er ekki hagnaður og að skila því er þar af leiðandi ekki kostnaður heldur leiðrétting.

Þeirri leiðréttingu er hér með komið á framfæri.


mbl.is Of mikill kostnaður bankanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Óskarsson

Það er mjög vafasamt ársuppgjör og villandi framsetning eiginfjárstöðu fjármálafyrirtækja þegar uppreiknuð verðtryggð lán eru færð sem eign og reiknaðar en óinnheimtar verðbætur eru bókfærðar sem tekjur.  Á sama hátt er í uppgjöri til að mynda lífeyrissjóða alls ekki fullkomlega eðlilegt að eignfæra hlutabréf á markaðsvirði og tekjufæra algjörlega óinnleystan og óþekktan gengishagnað bréfanna.   Eðlilegt væri að sýna þessar uppfærðu tölur sem áhættufjármuni og færa skuldamegin á móti skuldbindingu vegna áhættu.   Tekjufærsla kæmi því einungis til við innlausn eigna reynist "raunhagnaður" hafa myndast.    Rétt er að taka fram að ársreikningur og skattskil sýna ekki endilega sömu niðurstöður.   Hjá lífeyrissjóðunum er mjög óeðlilegt við tryggingafræðilega úttekt að reiknaðar tekjur séu teknar með, en ekki einungis rauntekjur.   Slíkt blekkir sjóðfélaga og aðra þá sem á uppgjörin treysta.

Jón Óskarsson, 20.6.2014 kl. 14:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband