(Þ)röng túlkun ákvörðunarorða

Í fréttatilkynningu frá Íslandsbanka vegna ákvörðunar Neytendastofu nr. 8/2014 segir að bankinn sé efnislega ósammála Neytendastofu hvað varðar þá niðurstöðu að það verklag sem viðhaft var, þar sem gert var ráð fyrir óbreyttu verðlagi við útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar í greiðsluáætlun, brjóti í bága við 12. grein laga um neytendalán frá 1994 og sömuleiðis 6. grein sömu laga auk 5. greinar laga nr. 57/2005 um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

Þá segir þar að fyrir gildistöku nýrra laga um Neytendalán árið 2013 hafi Íslandsbanki byggt framkvæmd sína við veitingu verðtryggðra lána á þeirri túlkun orðanna „óbreytt verðlag“ í 12. grein laga um neytendalán að gera ætti ráð fyrir óbreyttri vísitölu neysluverðs. Í ákvörðun sinni túlkar Neytendastofa fyrirmæli greinarinnar þannig að gera skuli ráð fyrir sömu verðbólgu og var þann mánuð sem lánið var veitt. Þeirri túlkun er bankinn ósammála. Tvennt vekur strax athygli við þessa tilkynningu bankans:

1) Bankinn viðurkennir að það hafi verið viðtekin framkvæmd hjá sér allt fram til síðasta árs að undanskilja verðbætur frá útreikningi árlegrar hlutfallstölu kostnaðar. Það er ágætt, þá þarf þetta ekki að lenda í sama grautnum og gengislánin sem bankinn heldur því fram að séu sum lögleg og önnur ekki. Í þessu tilviki hér virðist strax liggja fyrir að samskonar brotalamir séu á öllum samningum bankans um verðtryggð neytendalán.

2) Bankinn setur fram þá túlkun í tilkynningu sinni að orðalagið "óbreytt verðlag" í 12. gr. laga um neytendalán megi skilja þannig að ganga skuli útfrá því að verðbólga verði engin eða 0%. Þetta er bersýnilega óraunhæf forsenda og er slík túlkun því hæpin í besta falli. Reyndar er þessi túlkun í beinu ósamræmi við lögfræðilegt álit frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins á því hvort reikna skuli með verðbótum þegar gefin er upp kostnaður við verðtryggð lán, sem tekur af skarið með að það skuli einmitt gera. Einnig má vísa til umsagnar bankaeftirlits Seðlabanka Íslands við upphaflega frumvarpið til laganna, þar sem kemur skýrt fram sú tillaga bankans sem tekin var upp í lögin, að gera skuli ráð fyrir verðbótum í upplýsingum um lánskostnað.

Loks er þriðja atriðið sem skautað er framhjá í tilkynningu Íslandsbanka, sem er að ákvörðun Neytendastofu er þríþætt. Ásamt því að brotið hafi verið gegn 12. gr. eins og bankinn vísar helst til að hann sé ósammála, er auk þess litið svo á með ákvörðuninni að brotið hafi verið gegn bæði 4. og 7. töluliðum 1. mgr. 6. laganna um neytendalán. Þeir kveða annars vegar á um að reikna skuli greiðsluáætun, og hinsvegar heildarlántökukostnað samkvæmt 7. gr. þar sem segir að heildarlántökukostnaður feli í sér allan kostnað af láninu, þar með talda vexti og önnur gjöld sem neytandi skuli greiða af því.

Varla er hægt að líta á orðalagið "allan kostnað..., þar með talda vexti og önnur gjöld" öðruvísi en að það hljóti að innifela kostnað vegna verðbóta, burtséð frá því hvort þær teljist vera ígildi vaxta, eða önnur gjöld. Í þessum ákvæðum er hvergi að finna neitt um það hvaða verðlagsþróun skuli miða við, heldur einfaldlega að gera skuli grein fyrir öllum kostnaði með tæmandi hætti. Þar sem slík gjöld hljóta að innifela verðbætur, hlýtur árleg hlutfallstala kostnaðar skv. 12. gr. að eiga að gera það líka, enda væri önnur túlkun órökrétt og í ósamræmi við hin ákvæðin. Þar sem algengasti mælikvarði verðbólgu er tólf mánaða hækkun vísitölu neysluverðs er eðlileg að miða við það, enda er það í samræmi við vexti sem er einnig venja fyrir því að gefa upp sem ársvexti.

Í nýjum lögum um neytendalán nr. 33/2013 sem tóku gildi í fyrra tók löggjafinn af skarið með þetta og bætti þeirri skýringu við sambærilegt ákvæði þeirra laga, að miða skyldi útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar við ársverðbólgu á þeim tíma sem útreikningurinn er gerður. Að öðru leyti er orðalag þess ákvæðis hinsvegar það sama og í eldri lögunum. Þannig er alveg skýrt hvað það þýðir, þ.e. að taka skuli kostnaðinn við verðtrygginguna með í útreikninginn.

En nú fer þetta mál væntanlega til frekari úrlausnar hjá áfrýjunarnefnd neytendamála, og verður vafalaust áhugavert að fylgjast nánar með framgangi þess og útkomu.


mbl.is Segist engin lög hafa brotið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Guðmundur: Því miður er þetta hugtak, árleg hlutfallstala kostnaðar, í mikilli móðu hjá neytendum. Margir vita ekki hvað þetta er og meira segja hafa lögfræðingar Landsbankans hváð þegar ég fór að tala um hana og hvaða þýðingu hún hefur fyrir neytendalán. 

Er einhvers staðar til reiknivél (eða Excelskjal) þar sem hægt er að setja inn heildargreiðslur og uppgefnar eftirstöðvar láns til að reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar á láni, eins og það stendur í dag, til samanburðar við þá ÁHK sem kynnt var við lántöku? Það er ansi flókið fyrir venjulegan neytanda að reikna þetta út og bankar skorast undan því að endurreikna og upplýsa uppfærða ÁHK ef óskað er eftir því. Getur HH birt svona reiknivél á heimasíðunni sinni?

Erlingur Alfreð Jónsson, 1.3.2014 kl. 01:56

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Veit ekki hvort það svarar spurningunni fyllilega, en vefreiknivélar bankanna reikna allar árlega hlutfallstölu kostnaðar, miðað við þær forsendur sem settar eru inn í útreikninginn. Þá er reiknað samkvæmt formúlu sem er lýst í reglugerð nr. 965/2013:

2. gr.

Útreikningur á árlegri hlutfallstölu kostnaðar.

Árleg hlutfallstala kostnaðar skal reiknuð út í samræmi við eftirfarandi stærðfræðijöfnu:

Jafna sem sýnir árlega hlutfallstölu kostnaðar

... og svo framvegis (merking stafa og tákna er útskýrð í reglugerðinni).

Þessi aðgerð er innbyggð í Google Spreadsheets (sennilega Excel líka).

Að búa til staðlaða lausn til að reikna samkvæmt þessu og sem hægt væri að birta á vefsíðu virðist þó ekki vera áhlaupsverk fyrst enginn er búinn að gera það og bjóða hana fram til afnota fyrir almenning. Það væri samt alveg hægt að ráða forritara til verksins ef einhver væri að bjóða fram þær fjárhæðir sem það myndi kosta. Því miður hefur ekki verið mikið framboð á slíku heldur en ef breytinging yrði þar á myndu HH eflaust fagna því mikið.

Samtökin hafa hinsvegar verið að bjóða upp á að hlutast til um framkvæmd endurútreikninga á neytendalánum gegn hóflegu gjaldi, sem byggist á þessum aðferðum og er sérsniðin eftir atvikum fyrir greiðslusögu viðkomandi lána. Hér má sjá nánari upplýsingar um þá þjónustu:

http://www.heimilin.is/varnarthing/frettirhagsmunasamtokin/item/1674

Guðmundur Ásgeirsson, 1.3.2014 kl. 13:26

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Athygli vekur að enginn hefur gert tilraun til að hrekja þesssa færslu. Ég tek það sem jákvæð skilaboð. ;)

Guðmundur Ásgeirsson, 4.3.2014 kl. 23:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband