Gjaldþrot af völdum verðtryggingar
18.10.2013 | 21:19
Íbúðalánasjóður er gjaldþrota, það hefur loksins verið viðurkennt. Þessi staðar er uppi þrátt fyrir viðskiptamódel byggt alfarið og eingöngu á verðtryggingu, sem að mati sumra íslenskra hagfræðinga er ein besta uppfinningin síðan niðursneitt brauð varð fáanlegt innpakkað í verslunum.
Forstjóri Fjármálaeftirlitsins hefur núna kveðið upp úr um að þetta verðtryggða viðskiptamódel sé í raun ósjálfbært. Batnandi fólki er svo sannarlega best að lifa og má segja að Unnur hafi vaxið talsvert í starfi við þessa yfirlýsingu, og fagnaðarefni að FME muni eftir hana varla standa í vegi fyrir afnámi verðtryggingar útlána bankakerfisins.
Íbúðalánasjóður og neikvæð staða hans eru semsagt lifandi sönnun þess að til langs tíma getur enginn lifað á verðtryggingu einni saman. Hún getur til dæmis aldrei komið í stað skynsamlegrar eignastýringar. Áhrif hennar á fórnalömbin þ.e. lántakendur eru vel þekkt, enda er það yfirlýst meginmarkmið núverandi ríkisstjórnar að takast á við slíkar afleiðingar.
Það sem gerir vanda Íbúðalánasjóðs þeim mun erfiðari viðfangs er, að eftir að hafa þurft að takast á við afleiðingar hans fyrir fjárhag heimila, standa sömu heimili nú mögulega frammi fyrir því sem skattgreiðendur, að þurfa að taka á sig skellin af gjaldþroti hans. Þannig er raunverulega hætta á því að verðtryggingin grafi undan fjármálastöðugleika heimilanna báðum megin frá, og þá verður ekkert eftir sem styður við hann.
Sem betur fer þá er fyrirhugað að afnema verðtryggingu af neytendalánum, og er gaman að geta sagt frá að sérfræðingahópur ríkisstjórnarinnar hefur fengið afhent drög að frumvarpi þar að lútandi. Frumvarpið er það sama og var flutt á 141. löggjafarþingi af þeim Lilju Mósesdóttur og Margréti Tryggvadóttur, og hefur verið uppfært með hliðsjón af nýjum lögum um neytendalán sem taka gildi um næstu mánaðamót.
Vonandi verður frumvarpið lagt fram strax í nóvember enda ekkert því til fyrirstöðu, og hlýtur skjóta afgreiðslu gegnum þingið. Þannig er vel hægt að afnema verðtryggingu neytendasamninga fyrir jól.
Það væri samt ekki nægilegt nema kannski í skóinn á aðventunni, en stóri jólapakkinn er allur eftir, það er að segja leiðrétting á höfuðstól fasteignalána heimila, sem hefur stökkbreyst með hætti sem brýtur allar forsendur, auk þess að vera hugsanlega ólögmætur.
Núna síðast hefur þó leiðtogi annars stjórnarflokksins gefið í skyn að þessu muni seinka eitthvað fram á nýárið. Hann ætlar vonandi ekki að verða þekktur fyrir að stela jólunum?
Vill skoða sameiningu Landsbankans og ÍLS | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Verðtrygging | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:26 | Facebook
Athugasemdir
Ertu til í að kanna fyrir mig hvað erlendar skuldir Bandaríkjanna hækkuðu mikið í dag? Flott væri ef þú gætir komið með það í krónum?
Ég veit ég treyst á þig...
Davíð, 18.10.2013 kl. 21:36
"Gjaldþrot af völdum verðtryggingar" - þetta er ekki rétt hjá þér
Rafn Guðmundsson, 18.10.2013 kl. 22:26
Bjartsýni þín er aðdáunarverð Guðmundur.,
Takk annars fyrir ágæta grein.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 19.10.2013 kl. 07:47
Ég greiddi afgjald af ábúðarjörð minni alla tíð með ákveðinum fjölda dilka í innlegg og var það svo nákvæmt að miða átti við meðaltal það haustið í þyngd þannig að landsdrottinn skaðaðist ekki.
Ég veit um dæmi á þeim tíma þegar engin verðtrygging var að þá var bóndi sem var búinn að hýsa jörð sína og taka lán úr Stofnlánadeild landbúnaðarins að borga einhverja hundraðkalla af lánunum. Þetta þótti okkur frumbýlingum afar ósanngjarnt, þegar við vorum að basla við að eignast bústofn og dráttarvéar og farið var að verðtryggja lán.
Þorsteinn H. Gunnarsson, 19.10.2013 kl. 10:03
Ef verðránstrygging væri afnumin, myndu vextir hækka á móti. Það væri skömminni skárra. Þeim er hægt að stjórna.
http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Olaf_MArgeirsson/verdtrygging-eilifdarvelin-sem-brast
Þjóðólfur bóndi (IP-tala skráð) 19.10.2013 kl. 10:32
Í raun er verðtryggingin kynslóðamismunun. Það er að mínu mati eðlilegt að greiða það sem maður hefur fengið lánað í sömu verðmætum.
Aftur á móti hafa ákvenar kynslóðir eignast íverustaði og framleiðslutæki sem ekki hefur þurft að borga vegna þess að lánin sem tekin voru til að afla verðmætanna gufuðu upp.
Þetta misgengi hefur lengi verið deilumál og verður tæplega leiðrétt nema í geng um skttakerfið og á löngum tíma og með greiðslu einhverskonar jöfnunargjalds til þeirra sem hafa ekki notið þessarar ívilnunar. Ef öllu réttlæti á að vera fullnægt.
Þorsteinn H. Gunnarsson, 19.10.2013 kl. 11:39
Auðvitað verða allir að greiða til baka það sem þeir fá að láni Þorsteinn, um það deilir enginn.
En ertu að segja að bóndi sem tók verðtryggt lán árið 2005 sé að borga af því láni í dag jafngildi innleggs að sama fjölda dilka og við upphaf láns?
Ég leifi mér að efast stórlega um að það sé rétt, er reyndar viss um að svo er ekki.
Við hrun bankanna varð hér mikil gengisfelling. Þá féll allt í verði, nema lánin í bömkunum. Það er sennilegt að fyrir hverja tíu dilka sem dugðu fyrir afborgun af láni 2005, þurfi nú nærri tuttugu dilka til að greiða af sama láni.
Menn eru gjarnir á að nefna ástandið eins og það var hér síðustu ár fyrir verðtryggingu, þegar lán nánast hurfu sem dögg fyrir sólu. Það réttlætir þó ekki verðtrygginguna.
Þeir sem nenna að skoða söguna komast fljótt að því að verðtryggingin kom ekki böndum á verðbólguna, þvert á móti.
Síðustu ár fyrir verðtryggingu hafði verðbólgan verið að hlaupa frá 20 upp í 40%. Þegar verðtrygging hafði verið við lýði í þrjú ár var verðbólgan komin yfir 100%. Þá var verðtrygging launa afnumin en verðtrygging lána látin halda sér. Við þetta náðist að koma verðbólgunni á sama plan og síðustu ár fyrir verðtryggingu. Það var ekki fyrr en við gerð þjóðarsáttarinnar sem loks tókst að koma böndum á verðbólguna. Þessar upplýsingar liggja öllum opnar hjá Hagstofunni, fyrir þá sem nenna að skoða þær.
Þessar staðreyndir segja manni að verðtrygging er sem olía á elld verðbólgunnar en stöðugleiki á vinnumarkaði og samvinna allra aðila um að halda verðlagi stöðugu, er leið út úr verðbólgubáli.
Því miður er langt í að sátt náist aftur í þjóðfélaginu, þar sem sjálftökufólkið er ekki tilbúið til að koma að slíkri sátt . Það dregur alla aðra á eftir sér og meðan svo er mun verða útilokað að eiga við drauginn.
Afnám verðtryggingar væri þó stórt skref í rétta átt. Það væri þá búið að útrýma einu eldsneyti verðbólgudraugsins.
Gunnar Heiðarsson, 19.10.2013 kl. 13:59
Já, ef þú lánar lamb viltu fá lamb. En fólk er svipt jörðinni í dag fyrir þetta lamb. Svo er annað mál að Eyfellingar tækju ekki í mál að fá lamb úr Mýrdalnum fyrir eitt sitt. Þá þyrfti eina mýrdælska á, loðna og lembda.
Þjóðólfur (IP-tala skráð) 19.10.2013 kl. 14:02
,,En ertu að segja að bóndi sem tók verðtryggt lán árið 2005 sé að borga af því láni í dag jafngildi innleggs að sama fjölda dilka og við upphaf láns?" segir Gunnar Heiðarsson. Hér er einhver ruglingur á ferða. Ég segi þetta hvergi.
Aðeins innskot um að ég hafi alltaf greitt leigu af bújörð minni með innleggi. Og svo smá innlegg um að þeir sem tóku lán til að fjármagna byggingar sínar hafi þegar upp er staðið aldrei þurft að borga til baka sömu verðmæti. Verðtryggingin byrjar um það leiti sem ég hef búskap um 1976 og þá var í einhver ár hálf verðtrygging.
Besta afkoma sparifjáreigenda var þegar fólk fékk skattafslátt þegar það var að kaupa ríkisskuldabréf o.þ.h.
Tek það fram að ég hef aldrei fengið lán sem hefur gufað upp, er reyndar nú þessa dagana að kaupa mér í fyrstaskipti nýja íbúð.
Finn reyndar mikið til með fólki sem er að glíma við þessi mál og veit að þau eru fólki erfið. Einu ráðin sem hægt er að gefa fólki er að vera með skipulögð samtök um sína hagsmuni og hamra járnið á meðan það er heitt og gefa stjórnmálsamtökum aldrei frið fyrr en þau hafa gert eitthvað í málunum.
Ég hef lokið máli mínu.
Þorsteinn H. Gunnarsson, 19.10.2013 kl. 18:36
Davíð Örn, hérna geturðu fylgst með því í beinni sjálfur:
http://www.usdebtclock.org/
Hér er gengisskráningin:
http://www.sedlabanki.is/default.aspx?pageid=4695b8f3-cd54-4435-8812-5179369c410a
Samkvæmt henni er dalurinn á ca. 120 kr.
Annars er þetta algjörlega utan við efni færslunnar.
Rafn Guðmundsson, hvað er ekki rétt?
Viðskiptamódel Íbúðalánasjóðs er ósjálfbært, það ætti öllum að vera orðið ljóst. Þetta viðskiptamódel byggist alfarið á verðtryggðum útlánum, það hefur legið fyrir frá því að sjóðurinn hóf starfsemi. Vegna þess að þetta viðskiptamódel, byggt á verðtryggingu, er ekki sjálfbært, hefur það leitt til þess að sjóðurinn er núna hvínandi gjaldþrota.
Endilega deildu vizku þinni og segðu mér hvað er ekki rétt???
Guðmundur Ásgeirsson, 19.10.2013 kl. 22:44
Þjóðólfur bóndi:
Já, ef þú lánar lamb viltu fá lamb.
Vek athygli á því að enginn þeirra lántakenda sem eru nú í vanda fékk lánuð lömb eða annan búfénað. Þeir fengu allir lánaðar krónur.
Samkvæmt þeim boðskap að gjalda eigi jafnt fyrir jafnt, er það auðvitað fullkomin ónáttúra að krefja þá um fjór- til áttfalt fleiri krónur til baka.
Þennan "hagnað" er bankarnir búnir að leysa út, jafnvel þó að ljóst liggi fyrir að þeir muni aldrei nokkurntíma geta innheimt hann. Hvergi nema í öfugsnúna landi er hægt að leysa út hagnað án þess að innheimta hann.
Guðmundur Ásgeirsson, 19.10.2013 kl. 22:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.