Hofsvallagötumálið breiðist til útlanda!
6.9.2013 | 17:36
Reykvíkingum er líklega í fersku minni umræða um skræpóttar merkingar og skringilegan frágang hjólreiðastíga við Hofsvallagötu og nánasta umhverfis þeirra.
Málið tók svo algjörlega óvænta stefnu þegar framtakssamir borgarstarfsmenn hófu að háþrýstiþvo veggjakrotið af Hofsvallagötunni, en fengu við því blendnar viðtökur. Á meðan sumir fögnuðu ákaft brugðust yfirvöld í borginni við með því að stöðva hreinsunarátakið.
Skýringar á þessu öllu hafa svo sem verið gefnar, og hljóma þær misjafnlega skynsamlega, sem ýmsir gárungar hafa gengið á lagið og gantast með. Ein tillagan var til dæmis sú að beitt yrði sömu aðferðafræði við Reykjavíkurflugvöll.
Þetta súrrealíska mál vatt svo enn upp á sig því nú hefur frést af því að húmoristar erlendis hafi orðið fyrir innblæstri af húmoristunum í Reykjavík. Framtakssamur íbúi eða íbúar í Osló virðast hafa tekið sig til og málað einfaldlega hjólreiðastíg á eina götuna.
Væntanlega er hinn framtakssami hjólreiðamaður íbúi við götuna eða sem á þar oft leið um og vill geta hjólað greiðlega framhjá, aðskilinn frá umferð gangandi og akandi vegfarenda. Eftir að upp komst um málið hafa borgaryfirvöld í Osló hinsvegar ákveðið að senda skuli háþrýstisprautur á vettvang og afmá "götulistaverkið", jafnvel þó það hafi verið nógu vel úr garði gert til standast í það minnsta umferðarlög. Ástæðan: rannsókn málsins leiddi í ljós að hjólastíg var hvergi að finna í opinberlega samþykktu borgarskipulagi viðkomandi götu og braut verkið þar af leiðandi í bága við skipulagslög.
Borgaryfirvöld í Osló virðast sem sé hafa talsvert minni þolinmæði fyrir skipulagsslysum heldur en húmoristarnir sem eru við völd í Reykjavík.
Góða helgi.
Tóku málin í sínar eigin hendur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Spaugilegt | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:38 | Facebook
Athugasemdir
Stærsta skipulagsslys Óslóar er á ábyrgð borgaryfirvalda. Vegna einhverrar duldrar kenndar merkja þeir eingöngu bílastæði sem hafa gjaldskyldu og hanga svo í þeirri vitleysu að ekki megi leggja bifreið nær gatnamótum, gangbraut, göngustígum og öðrum gjörningum en sem nemur fimm metrum frá þar sem gangstéttarkantur byrjar að beygja eða einhverrar óreglu í honum sé að finna.
Þetta eiga allir að sjá sem réttindi hafa til að aka sjálfrennireið,...nema þeir sem sjá um að sekta "illa lagðar" bifreiðar, þeir þurfa að notast við málband.
Einnig finnst þeim vera óhugsandi að taka á sig kostnað vegna umferðarskilta. Biðskylda og stöðvunarskylda er nærri óþekkt fyrirbæri í heimi skiltanna, varúð til hægri er mun kostnaðarminni og tilvalin fyrir þá sem eiga erfitt um sölu sinnar bifreiðar, sérstaklega er lítil 20km gata á rétt gegn 70km götu þó svo að ekki hægt að sjá mun á bifreið sem kemur úr innkeyrslu eða þeirrar sem á rétt.
Einnig eru merkingar hraðahindrana kapítuli fyrir sig...
Vei þeim, sem taka merkingar í sínar eigin hendur!
Jón Páll Garðarsson (IP-tala skráð) 7.9.2013 kl. 07:52
Skipulagsyfirvöld í Osló gera semsagt ráð fyrir að þeir sem eru með bílpróf kunni umferðarreglurnar, og komist þess vegna vel af án að hafa þær teiknaðar á öll umferðarmannvirki í umhverfinu.
Engin forheimskun í gangi þar greinilega.
Guðmundur Ásgeirsson, 8.9.2013 kl. 13:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.