Afnemum verðtryggingu námslána

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra og nýr formaður VG hefur lagt fram nýtt frumvarp um Lánasjóð íslenskra námsmanna, þar sem engin tilraun er gerð til að afnema verðtryggingu námslána. Nýlega hefur þó komið fram í máli Seðlabankastjóra á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar að viðskiptalíkan sem byggir alfarið á verðtryggingu gangi ekki upp, með vísan til vanda Íbúðalánasjóðs. Stjórn sjóðsins hefur tekið undir þetta álit, enda verður því ekki leynt að sjóðurinn er í raun farinn á hausinn.

Frumvarp Katrínar verður því að skoðast í ljósi þess að ekkert liggur fyrir um að viðskiptalíkan Lánasjóðs íslenskra námsmanna geti frekar gengið upp með verðtryggingu. Það gerir það reyndar alls ekki því viðskiptalíkan sem byggir á síhækkandi skuldum sem skuldararnir hafa ekki getu til að greiða getur augljóslega aldrei gengið upp til lengdar. Enda er reiknað með að leggja þurfi LÍN til um tvo milljarða á ári verði frumvarpið að lögum.

Væri ekki skynsamlegri hugmynd að nota tækfærið og útfæra sjálfbært viðskiptalíkan? 

Til þess að milda áhrifin á námsmenn er þó lagt til í frumvarpinu að einhver útvalinn hópur námsmanna (eins og það sé ekki ávísun sundrungu) eigi kost á því að fá hluta námslána sinna felldan niður. Þessar hugmyndir eru svosem í anda þeirra úrræða sem heimilum landsmanna hafa verið boðin og hafa falist í því að leyfa skuldum fólks að hækka og fella svo niður það sem fer umfram veðrými og greiðslugetu, en gera hinsvegar ekkkert til að útrýma orsökum vandans.

Væri ekki skynsamlegri hugmynd að afnema verðtryggingu námslána?

Athygli skal einnig vakin á því að samkvæmt nýju frumvarpi til laga um neytendalán eru námslán ekki skilgreind sem slík. Með öðrum orðum þá er ekki litið svo á að námsmenn séu neytendur þegar þeira taka lán til að fjárfesta í menntun, en þeir eru það aftur á móti þegar þeir kaupa bíl, tjaldvagn, skemmtibát eða sumarbústað. Slíkar þversagnir eru svo sem í ætt við flestar ráðstafanir sem gripið hefur verið til undanfarin misseri í skuldamálum einstaklinga og heimila, og er nærtækast að nefna hina margumræddu skjaldborg en hugtakið hefur fyrir löngu snúist upp í háðsandhverfu sína.

Væri ekki skynsamlegri hugmynd að námsmenn njóti neytendaverndar? 

Samkvæmt nýjustu rannsóknum sem gerðar hafa verið einmitt innan menntakerfisins hefur verðtrygging skaðleg efnahagsleg áhrif. Þetta er mikilvægt að verði rætt af alvöru áður en ný lög verði sett sem heimila eða viðhalda verðtryggingu. Hagsmunasamtök heimilanna hafa útbúið frumvarp um afnám almennrar verðtryggingar neytendalána og nær það einnig til námslána, enda með öllu ótækt að undanskilja þann hóp sérstaklega.

Væri ekki skynsamlegri hugmynd að útrýma skaðvaldinum?

Unnið er að því að fá frumvarpið lagt fram en fréttir af því munu að sjálfsögðu verða sagðar þegar þær berast. Jafnframt er mikilvægt að fólk hafi samband við sína þingmenn, skrifi í fjölmiðla og láti almennt í sér heyra sem víðast um það mikilvæga hagsmunamál langsflestra Íslendinga að afnema verðtryggingu neytendalána. 


mbl.is LÌN-frumvarp mun kosta 2 milljarða á ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Tökum upp verðtryggingu á laun, námslán og atvinnuleysisbætur. Jöfnum aðstöðumuninn.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 2.3.2013 kl. 18:08

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Myndi það ekki orsaka verðbólgu?

Guðmundur Ásgeirsson, 2.3.2013 kl. 20:55

3 identicon

Eflaust.

Sigurður Sigurðarson (IP-tala skráð) 2.3.2013 kl. 21:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband