Fyrirheit um hálfvelgju í þágu heimilanna

Hér eru í heild sinni þeir hlutar landsfundarályktunar Sjálfstæðisflokksins um efnahags- og viðskiptamál er varða neytendalán, lesendum til glöggvunar.

Verðtrygging

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar á fyrsta starfsári verði markviss og tímasett áætlun um að verðtryggð húsnæðis- og neytendalán verði ekki almenn regla líkt og verið hefur.

Skuldavandi heimila

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar verði markvissar aðgerðir til að bregðast við greiðslu- og skuldavanda heimilanna með almennum aðgerðum Þessi aðgerð er mikilvæg forsenda fyrir auknum hagvexti og framtíðaruppbyggingu íslensks þjóðfélags. Framtíðarskipan húsnæðis- og neytendalána þarf að taka mið af ríkjandi neytendaverndarreglum innan EES sem Ísland hefur þegar lögleitt. Tryggja verður virka samkeppni á lánamarkaði vegna húsnæðikaupa sem getur leitt til þess að vextir og gjaldtaka lánastofnana verði með svipuðum hætti og í nágrannalöndum okkar. Mikilvægt er að afnema stimpilgjald til að auka samkeppni á fjármálamarkaði og jafnræði milli neytenda og fjármálastofnana.

Landsfundur telur að til að létta greiðslubyrði og auðvelda fjölskyldum að lækka húsnæðisskuldir skuli veita skattaafslátt vegna afborgana af lánum til eigin íbúðarkaupa. Jafnframt telur landsfundur að veita eigi þeim fasteignaeigendum sem kjósa frekar að greiða inn á höfuðstól íbúðalána sinna, en að leggja fyrir til séreignasparnaðar, rétt til að njóta sama skattaafsláttar og fylgir nú séreignarsparnaði. Sá skattaafsláttur verði varanlegur samkvæmt nánari útfærslu. Þar með er stuðlað að því að fólk eignist fyrr fasteignir sínar og eigi betri möguleika á því að ráða við afborganir

Sú stefna stjórnvalda undanfarinna áratuga að hvetja fólk til óhóflegrar skuldsetningar í stað þess að leggja áherslu á sparnað og eignamyndun hefur reynst bæði þjóðinni og ríkinu dýrkeypt. Nauðsynlegt er að snúa af þessari óheillabraut og afnema kerfislæga hvata til skuldsetningar. Landsfundur vill að fólki séu auðvelduð fyrstu íbúðarkaup með skattalegum hvötum til sparnaðar. Endurskipuleggja þarf íbúðalánakerfið með það fyrir augum að tryggja fólki val. Markmiðið er að veita sambærileg lán og hjá nágrannaþjóðum okkar með sanngjörnum vöxtum til langs tíma, án verðtryggingar. Efnahagslegur stöðugleiki er nauðsynleg forsenda þess að breytingar af þessu tagi geti náð fram að ganga.

Landsfundur telur nauðsynlegt að dregið sé úr afleiðingum gjaldþrots fyrir einstaklinga. Það er hvorki réttlátt né hagkvæmt að fólk, sem lendir í tímabundnum fjárhagsvandræðum, þurfi að glíma við þann vanda stærstan hluta starfsævi sinnar. Sjálfstæðisflokkurinn telur eðlilegt að þeir sem ekki geta staðið undir húsnæðisskuldum sínum hafi þann valkost að afsala eign sinni til lánveitenda án þess að til gjaldþrots komi að uppfylltum skilyrðum.

Landsfundur telur mikilvægt að koma í veg fyrir keðjuverkandi áhrif greiðsluþrots einstaklinga. Ungt fólk hefur á undanförnum árum fengið að veðsetja eignir vandamanna, með svokölluðum lánsveðum, vegna fjárfestinga í íbúðarhúsnæði. Bankastofnanir gerðu með sér samkomulag um að falla frá lánsveðum hafi ekki verið fyrirliggjandi greiðslumat lántakanda. Eftir standa lánsveð lífeyrissjóða. Landsfundur telur eðlilegt að jafnræði ríki meðal lánsveðsveitenda óháð eðli fjármálafyrirtækis.

Samantekt á efnislegum fyrirheitum:

1. Markviss og tímasett áætlun um að verðtryggð húsnæðis- og neytendalán verði ekki almenn regla.

Athugasemd: Þessu markmiði hefur verið náð nú þegar, allit lánveitendur bjóða nú óverðtryggð lán eða stefna markvisst að því að hefja veitingu þeirra á næstunni, en 86% nýrra lána eru nú óverðtryggð.

2. Almennar aðgerðir til að bregðast við skuldavanda heimila, en ekkert kemur fram um í hverju þær skuli felast.

Athugasemd: Loðið, óljóst og loftkennt. Enginn markviss tímasett áætlun.

3. Tekið verði mið af neytendaverndarreglum EES sem Ísland hefur þegar lögleitt.

Athugasemd: Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að fara að lögum. Ánægjulegt, en þeir hefðu mátt byrja á því að leggja bílunum sínum löglega fyrir utan fundarstaðinn. Sorry, þessu fólki er varla treystandi til að vita hvað það er að fara að lögum, og er nóg að vísa til formannsins og almennum stuðningi flokksmanna við hann í þeim efnum.

4. Stuðlað verði að aukinni samkeppni á lánamarkaði með afnámi stimpilgjalda.

Athugasemd: Þetta er skilyrði sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur sett fyrir þeirri ríkisaðstoð sem reidd var fram við endurreisn bankakerfisins. Aftur er það ánægjulegt ef Sjálfstæðismenn ætla að virða settar reglur, en jafnframt spurning hversu vel það muni ganga hjá þeim. Til að gæta sannmælis þá hafa þau nú reyndar lagt fram prýðilegt frumvarp í þessa veru, en samt er engan veginn hægt að halda því fram að afnám stimpilgjalda verði Sjálfstæðisflokknum að þakka. Hann mun samt reyna að láta þakka sér fyrir það.

5. Skattaafsláttur á móti afborgunum af lánum til húsnæðikaupa.

Athugasemd: Skattaafsláttur á móti afborgunum húsnæðislána = vaxtabætur. Það eru svo sem ágætar fréttir að Sjálfstæðisflokkurinn ætli ekki að afnema þær að svo stöddu, en að sama skapi allsérstætt að gera eitthvað að framboðsstefnu sem felur í raun ekki í sér neina breytingu. Reyndar þykir bönkunum það eflaust líka góðar fréttir að Sjálfstæðisflokkurinn ætli að halda áfram að niðurgreiða vextina þeirra úr ríkissjóði svo þeir geti okrað meira og reynt að telja fólki trú um að það hafi bara víst efni á svona háum vöxtum.

6. Horfið verði frá hvata til mikillar skuldsetningar vegna húsnæðiskaupa.

Athugasemd: Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að sjá til þess að húsnæði verði á viðráðanlegu verði og að fólk muni á fyrstu æviárunum eiga afgang af tekjum sínum til að leggja fyrir eigið fé til húsnæðiskaupa. Þetta myndi kalla á grundvallarbreytingu á núverndi fyrirkomulagi efnahagsmála, þess vegna vekur sérstaka athygli að ekki fylgir þessu neitt um hvernig það verði útfært, og engin markviss, tímasett áætlun heldur.

7. Lyklafrumvarpið, þ.e. takmörkun húsnæðisskulda við veðandlag.

Athugasemd: Lyklafrumvarp Lilju Mósesdóttur er nauðsynlegt á meðan verðtrygging er enn við lýði, en væri í raun óþarft ef farið væri að lögum, lánin leiðrétt samkvæmt þeim, og verðtrygging afnumin til framtíðar. Sjálfstæðisflokkurinn þorir ekki að ganga alla leið og ætlar því einungis að fara hálfa leið.

8. Lífeyrissjóðir verði látnir falla frá lánsveðum.

Athugasemd: Lífeyrissjóðirnir hafa fram að þessu hafnað alfarið nokkurri eftirgjöf lánsveða og borið því fyrir sig að þeim sé slíkt ekki heimilt samkvæmt lögum. Þannig virðist sem Sjálfstæðisflokkurinn sé að boða málaferli fyrir dómstólum við lífeyrissjóðina, ætli hann að halda þessu loforði til streitu.

Dæmi nú hver fyrir sig hversu þunnur þrettándinn er...


mbl.is Fyrirheit „í þágu heimilanna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Eru það ekki sjóðsfélagar en ekki stjórnmálaflokkar sem eru í raun eigendur lífeyrissjóðanna. Það þarf að setja skýrari lög um það hverju stjórnmálaflokkar mega hafa skipta sér af með beinum eða óbeinum hætti.

Stöndum vörð um lífeyrinn og lífeyrissjóðina.

Hleypum ekki auðvisunum og umboðsmönnum þeirra í sjóði almennings. Aldrei aftur!

Ómar Bjarki Smárason, 24.2.2013 kl. 22:02

2 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Ekki var þetta nein sérstök og tilfiningarík tilaga um verðtryggingar vandan.

Og með svona lítilfjölegri tilögu missti (S) dampinn og kemur til með að verða í stjórnarandstöðu næsta kjörtímabil.

Til hamingju Sigmundur Davíð með Forsetaráðuneytið, til hamingju Árni Páll með Utanríkisráðuneytið og til hamingju Guðmundur Steingrímsson með Alherjarráðuneytið.

Þið megið vera þakklátir með ráðherastólana og ættuð að þakka (S) fyirir þá af því að þessir stólar voru þeirra þangað til þeir komu með þessa lélegu vertryggingar tillögu.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekkert nema gamlar gúngur innanborðs og þorir ekki að standa upp á móti auðmanna elítuni frekar en (VG) og (SF).

Kveðja frá London Gatwick.

Jóhann Kristinsson, 25.2.2013 kl. 00:16

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sjálfstæðisflokkurinn ætlar ekki að afnema verðtrygginguna.

Samfylkingin ætlar ekki að leiðrétta skuldir heimila. 

Vinstri græn ætla ekki að hætta ESB aðildarferlinu.

Björt framtíð ætlar ekki neitt nema í ESB.

Það fækkar sífellt valkostunum.

Guðmundur Ásgeirsson, 25.2.2013 kl. 00:51

4 Smámynd: Óskar

Ekki oft sem ég kem sjöllum til varnar en ég geri það hér.  Þar á bæ skilja menn að niðurfærsla lána og afnmám verðtryggingar er ekki framkvæmanleg eða réttara sagt gerir lítið annað en að pissa í skóinn því einhver þarf að borga fyrir þetta og á endanum er það að sjálfsögðu þjóðin.  

Það sem sjallar skilja hinsvegar ekki er að eina leiðin til að losna við verðtrygginguna er að taka upp annan gjaldmiðil.  Krónan er dauð.  Hún er í höftum og þau er ekki hægt að afnema.  Gjaldmiðill í höftum er dauður gjaldmiðill og þeir sem ekki skilja það ættu að fá sér vinnu við að grafa skurði eða eitthvað slíkt.

Óskar, 25.2.2013 kl. 12:52

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Óskar. Afnám verðtryggingar kostar ekki krónu. Höldum því til haga að þó að verðtrygging yrði afnúmin strax, þá hefði það aðeins þýðingu fyrirframtíðina og það hefði enga röskun á núverandi hagsmunum í för með sér.

Leiðrétting lána er annað mál, þareru óneitanlega um að ræða ákveðið inngrip. Þú heldur því fram að þetta inngrip sé óframkvæmanlegt án mikils tilkostnaðar, sem þú og þeir sem þú segist verja halda því fram að sé óbærilegur.

Ég get tekið undir það að kostnaðurinn af völdum verðtryggingarinnar er vissulega óbærilegur. Þess vegna er galið að láta heimilinn bera hann óskiptan, og það er bæði efnislega rangt og beinlínis villandi að halda því fram að það verði ekki líka dýrkeypt að halda þeirri stefnu til streitu.

Það er algjörlega útilokað að það geti kostað einhvern eitthvað úr þessu að framkvæma þá niðurfærslu sem nauðsynleg er. Ástæðan fyrir því er að sú niðurfærsla var framkvæmd þá þegar haustið 2008 þegar lánasöfn voru færð úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju. Það að leyfa bönkunum að innheimta þau á tvöföldu kaupverði mun reynast þeim dýrkeypt sem þurfa að greiða þá hækkun, en það eru heimili landsmanna.

Sumir halda því fram að þessi fjárkúgun sé nauðsynleg til að tryggja endurheimtur af fjárfestingum lífeyrissjóða. Það sem sú röksemdafærsla klikkar hinsvegar á er sú sama og felst í ómöguleika þess að kreista tannkrem úr tómri túpu. Greiðslugeta er takmörkuð auðlind og þegar hún er uppurin skiptir nákvæmlega engu máli hverskonar tegundum fjárkúgunar er reynt að beita, hvort sem það er verðtrygging eða eitthvað annað.

Það að halda áfram með falska loftbóluverðtryggingu, er að pissa í skóinn!

Loks, varðandi krónuna, þá er stærsta vandamál hennar einmitt verðtryggingin. Byrjum á að afnema hana fyrst og þá gætum við farið að tala saman þá fjölmörgu möguleika sem sjálfstæður gjaldmiðill býður upp á.

Guðmundur Ásgeirsson, 25.2.2013 kl. 13:33

6 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Þessi ályktun Flokksins er bara innihaldslaust hjal. Enn og aftur skal hagfræðin taka lögfræðinni fram þegar kemur að ályktunum stjórnmálamanna.

Sanngjarnt þykir að lántaki skuli tapa þó að lánveitandi hafi rangt við því það er svo dýrt að leiðrétta ranglætið.

Lánveitandinn skal hafa heimild til að græða þó það sé ólöglegt af því það er svo dýrt fyrir hann að tapa "gróðanum".

Í þessi landi er aldrei hægt að fara að lögum ef það kostar peninga.

Erlingur Alfreð Jónsson, 25.2.2013 kl. 13:49

7 Smámynd: Samstaða þjóðar

Mikilvægustu ályktanir Landsfundar koma fram í umfjöllun um peningastefnu fyrir Ísland. Landsfundurinn ályktaði að tekið verði upp fastgengi, sem merkir að veðtrygging hefur engan tilgang.

 

http://samstada-thjodar.blog.is/blog/samstada-thjodar/entry/1284783/

 

Ánægjulegust þykir mér sú ályktun Landsfundar, að Seðlabankann skuli leggja niður !

 

Loftur Altice Þorsteinsson.

 

Samstaða þjóðar, 25.2.2013 kl. 14:19

8 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ha? Ályktaði landsfundurinn að taka upp fastgengisstefnu?

Ég er ekki alveg viss um það hafi endilega verið skilningur fundarmanna á því sem þeir hafi verið að samþykkja.

"Kanna þarf til þrautar alla möguleika fyrir Ísland í gjaldmiðla- og gengismálum, þar með talið upptöku alþjóðlegrar myntar."

Reyndar finnst mér merkilegt ef flokkurinn er í alvöru að velta fyrir því fyrir sér að gefa útgáfu sjálfstæðs fullvalda gjaldmiðils upp á bátinn.

Aftur á móti er þessi viðleitni þó snöggtum skárri en auða spjaldið sem aðrir flokkar skila flestir í peningamálum.

Guðmundur Ásgeirsson, 25.2.2013 kl. 16:28

9 Smámynd: Samstaða þjóðar

Ályktanirnar þarf að lesa í því ljósi að Krónugengið er sterkt í flokknum og það mun taka tíma og þolinmæði að sveigja það til rétts vegar. Sjálfstæðisflokkurinn er eins og stórt olíuskip, með fullar lestar. Einnig þarf að lesa málsgreinarnar þrjár í samhengi. Tillögur Efnahags- og viðskiptanefndar, sem lagðar voru fyrir Landsfundinn með miklum fyrirvara, eru auðvitað í samhljóm við ályktanirnar, þótt orðalaginu sé hnikað til.  Loftur Altice Þorsteinsson.

Samstaða þjóðar, 25.2.2013 kl. 17:58

10 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Hversu lengi á almenningur að bíða Loftur?

Þangað til að þið í auðmanna elítuni eru búnir að rústa öllum heimulum landsins?

Þetta er ekkert þolinmæðismál lengur, það eru 6 ár síðan pólitíkusar hafa verið að leika sér að því að rústa heimilum.

Já það byrjaði me (S) og (SF) að fullu október 2008.

Samhengið er ekkert, þetta er KANSKI stefna í verðtryggingar stefnu (S) og þeir hafa engan áhuga að leysa verðtryggingar vandan.

Þessi KANSKI stefna verður til þess að (S) verður í stjórnarandstöðu næsta kjörtímabil, sem betur fer.

En þetta styrkir (F) í það minsta það er ekkert KANSKI í þeirra verðtryggingastefnu.

Til hamingju Sigmundur Davíð með Forsetisráðherrastólinn.

Kveðja frá London Gatwick.

Jóhann Kristinsson, 25.2.2013 kl. 23:02

11 Smámynd: Samstaða þjóðar

Jóhann, þú hefur líklega ekki lesið skrif mín síðustu fjögur ár. Ég er venjulega miklu harðorðari en þú.

Við þurfum að bíða eftir nýrri peningastefnu fram yfir kosningar, að minnsta kosti. Ég bind vonir við að verðtrygging verði dæmd ólögleg og að bankarnir verði að skila einhverju af ránsfengnum.

Að mínu mati er fastgengi eina leiðin til að afnema verðtrygginguna, ef hún verður ekki dæmd ólögleg. Þá horfum við einungis til framtíðar og erum ekki að leiðrétta fortíðina.

Framsókn er því miður hluti af Krónu-genginu, þannig að torvelt getur reynst að semja við Sigmund um ríkisstjórn. Eigum við að láta hann hafa forsætisráðuneytið, ef hann samþykkir alvöru peningastefnu ?

Loftur Altice Þorsteinsson.

Samstaða þjóðar, 25.2.2013 kl. 23:48

12 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Það er nú ekkert að láta Sigmund Davíð hafa Forsetisráðuneytið, það verður hans í Ríkisstjórn (F), (SF) og (BF) bara útaf KANSKI tillögu (S) um verðtryggingu.

Fylgið sem (S) hefur verið með í skoðanarkönnunum undanfarið dettur niður og fylgi (F) eykst samsvarandi hruni (S).

Þetta er enginn leikur lengur heldur er þetta struggle for life hjá stórum hóp heimilana. Önnur 4 ár í bið er out of the question.

Kveðja frá London Gatwick.

Jóhann Kristinsson, 26.2.2013 kl. 06:58

13 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ég átti samtal við sérfræðing á þessu sviði nýlega, og hún taldi að hægt væri að ná fram því sama og ég held að Loftur sé að meina, með því einfaldlega að festa vísitöluna sem lánin miðast við, og hugsanlega færa hana niður til lækkunar (smám saman samkvæmt tímasettri áætlun yfir ákveðið tímabil) til að framkalla þá lækkun sem þarf til að leiðrétta lánin.

Ef vel er að gáð þá er þetta í raun fastgengisstefna. Fyrir verðtryggðu krónuna, það er að segja.

Guðmundur Ásgeirsson, 26.2.2013 kl. 20:16

14 Smámynd: Samstaða þjóðar

Alvöru fastgengi krefst upptöku erlends gjaldmiðils eða myntráðs. Með fastgengi náum við mörgum markmiðum. Meðal annars stöðvað verðbólguna.

Ef við erum bara að hugsa um lánin, þá er hægt að gera það sem þú nefnir Guðmundur, að festa vísitöluna og jafnvel færa hana smám saman niður. Eftir sem áður geta aðrir þættir efnahagskerfisins leikið lausum hala, til dæmis verðbólgan.

Ég mæli ekki með þessari leið "sérfræðingsins". Miklu betra er að festa gengi gjaldmiðilsins, því að svo mörg önnur vandamál verður þá auðvelt að leysa.

Loftur Altice Þorsteinsson.

Samstaða þjóðar, 26.2.2013 kl. 20:38

15 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þar sem gjaldmiðillinn er búinn til úr skuldum þá jafngildir það fastgengisstefnu að festa skuldirnar. Það er þess vegna sem sú aðferð að festa vísitöluna á lánin getur virkað til að koma böndum á þann hluta peningaprentunarinnar sem stafar af verðtryggingunni. Þá er um leið búið að losna við verðbólguhvata sem nemur að meðaltali jafn hárri verðbólgu og hefur verið á ári að meðaltali undanfarin 20-25 ár. Auðvitað er það bara lausn á hluta vandamálsins, en sá hluti er reyndar alveg gríðarlega stór þar sem verðtryggðar skuldir eru um það jafnmiklar og peningamagn í umferð eða um það bil heil þjóðarframleiðsla, sem er alveg rosalega stór prentvél.

Guðmundur Ásgeirsson, 27.2.2013 kl. 22:16

16 Smámynd: Samstaða þjóðar

Það er rétt, að um þessar mundir er Krónan hlaðin erlendum skuldum, hún er sýndar-peningur (fiat money). Torgreindi seðlabankastjórinn (Márinn) ákveður, á hverjum degi og til eins dags, hvort útgefnar Krónur er alvöru ávísun á verðmæti eða halda áfram að vera Snjóhengja.

 

Við þurfum Ríkisdal sem notar erlendan gjaldeyri sem stoðmynt, til dæmis USD eða CAD (Himbriminn). Myntráð tryggir að innistæða er ávallt fyrir hendi til að innleysa útgefna Ríkisdali (ávísanir). Varasjóður myntráðs er hafður 10%-15% stærri en útistandandi skuldir í formi Ríkisdala. Raunverulega þarf Ríkissjóður einungis að leggja fram þessi 10%-15%. Varasjóðurinn í erlendu stoðmyntinni er að öðru leyti fjármagnaður með sölu Ríkisdala (ávísanir á stoðmyntina).

Loftur Altice Þorsteinsson.

Samstaða þjóðar, 28.2.2013 kl. 11:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband