Verðtryggingin ER hinn undirliggjandi vandi

Forystumenn [Sjálfstæðisflokksins] voru sammála um að bann við verðtryggingu lána leysti engan vanda heldur þyrfti að bregðast við undirliggjandi vanda í efnahagskerfinu sem skapaði þann vanda sem verðtryggingunni væri ætlað að bregðast við.

Vesalingarnir elta skottið á sér enn eitt árið í röð. Einhliða verðtrygging fjárskuldbindinga er alls ekki lausn á neinum vanda, heldur er hún þvert á móti orsök þess vanda sem henni er (algjörlega ranglega) ætlað að bregðast við, sem er verðbólga.

Það er verðtryggingin sjálf sem er hinn undirliggjandi vandi!

Þetta er í rauninni alls ekkert flókið:

Verðtryggð lán hækka -> hagnaður banka eykst -> peningamagn eykst -> verðbólga -> verðtryggð lán hækka -> (hér erum við komin í hring).

Sá eini sem græðir á þessu er augljóslega bankinn. Þangað til allir fara á hausinn.

Ástæða þess að ég læt orsakasamhengið byrja á því að verðtryggða lánið hækki er vegna þess að það er nákvæmlega það sem verðtryggð lán gera án undantekninga á fyrsta mánuði, en til að mynda þá er 20 milljón króna lán strax rúmri hálfri milljón hærra daginn eftir að það hefur verið tekið, vegna lántökugjalds og stimpilgjalds. Þannig er lánakerfið beinlínis hannað með frumhvata sem veldur hækkun láns frá byrjun og svo tekur verðtryggingin við, sem svo leiðir til verðbólgu, sem hækkar verðtrygginguna, o.s.frv. sem vindur upp á sig eins og snjóbolti. Hér má merkja áhrif peningaprentunarinnar:

Áhrif verðtryggingar á skuldir heimila

 

Sjá nýútkomnar rannsóknarniðurstöður:

Cornell University Library, arXiv: [1302.4112] An examination of the effect on the Icelandic Banking System of Verðtryggð Lán (Indexed-Linked Loans) 

Abstract (helstu niðurstöður, ísl. þýð. undirritaðs):

Rannsókn á myntrænum áhrifum verðtryggingar

Árið 1979 í kjölfar áratugslangrar óðaverðbólgu voru innleidd á Íslandi svokölluð verðtryggð lán, með neikvæða eignamyndun og höfuðstólstengingu sem hækkar höfuðstól lánanna til jafns við verðbólgu. Þessi tegund lána voru hluti af opinberru stefnu stjórnvalda um að koma böndum á óðaverðbólguna. Þrátt fyrir að almenn verðtrygging hafi síðan þá verið afnumin að talsverðu leyti er hún enn til staðar á fjárskuldbindingum, og meirihluti íslenskra húsnæðislána eru enn verðtryggð. Þó að því sé enn stundum haldið fram að verðtryggð lán hafi reynst gott ráð við óðaverðbólgunni, eru rökin fyrir því oftast byggð á yfirborðslegri þjóðhagfræðilegri túlkun á íslensku efnahagslífi, en aldrei hefur tekist að bera kennsl á neina sérstaka þætti í því gangverki sem styðja slíkar kenningar. Í þessari ritgerð tökum við öndverða nálgun, og setjum fram nákvæma greiningu á þeim peningalegu ferlum sem búa að baki slíkum lánveitingum eins og þær endurspeglast í tvíhliða bókhaldi bankakerfisins.

Greining þessi leiðir í ljós að engar sannanir eða orsakasamhengi eru fyrir hendi sem gætu stutt þá kenningu að verðtryggð lán hjálpi til að koma böndum á verðbólgu. Þvert á móti sýna rannsóknir okkar að sú aðferð sem notuð er við bókfærslu þessara lánveitinga innan bankakerfisins ýtir beinlínis undir myntþenslu bankakerfisins, og því hafa verðtryggð lán þau áhrif að auka verðbólguna sem þau eru tengd við, frekar en að draga úr henni. Þannig skapa þau vítahring innan bankakerfisins sem hefur bein áhrif á sjálfan gjaldmiðilinn. Þar sem þessi vítahringur útþenslu peningamagns myndast aðeins þegar verðbólga fer yfir u.þ.b. 2%, þá leggjum við til lausn sem fælist í því að festa vöxt peningamagns í umferð við 0%, og við veltum upp ýmsum aðferðum til þess að ná því fram með breytingum á svokölluðum Basel reglugerðarramma sem er grundvöllur íslenska bankakerfisins.


Unnið úr talnagögnum frá Seðlabanka Íslands

mbl.is Engin lausn að banna verðtryggingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Takk

Gunnar Heiðarsson, 23.2.2013 kl. 02:36

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Næsta svona rannsókn gæti svo heitið:

Áhrif verðtryggingar á fjármálastöðugleika

Hvað var það sem raunverulega olli hruni íslenska fjármálakerfisins?

Hér áður fyrr gerðist það með beinni penningaprentun = gengisfellingu.

Síðan þá hefur verðtrygging séð um að prenta sjálfvirkt. Hvað ætli gerist þá?

Svarið virðist liggja ljóst fyrir en væri þess vert að rannsaka almennilega.

Guðmundur Ásgeirsson, 23.2.2013 kl. 03:19

3 Smámynd: Óskar

Ef við hefðum ekki handónýta mynt þá þyrftum við ekki verðtryggingu.  KRÓNAN er orsök flestra okkar efnahagsvandræða, þmt. verðbólgu og verðtryggingin er því miður nauðsynlegt tæki meðan við höfum þenna handónýta gjaldmiðil í höftum. 

Óskar, 23.2.2013 kl. 05:53

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Hvar á þessi Króna heima Óskar, svo við getum kíkt á hana og spurt hana að því afhverju hún er svona vond við efnahaginn.

Gætum skoðað hárgreiðslu hennar í leiðinni, og já athugað hvort hún sé skyld Grýlu.

En takk enn og aftur Guðmundur.

Þennan pistil á að feisa um allar jarðir, og miðin líka.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 23.2.2013 kl. 09:06

5 Smámynd: Samstaða þjóðar

Verðtryggingin er vandamál, en ekki það eina. Gjaldeyrishöft, Snjóhengja, eignabruni, skuldasöfnun, torgreindur seðlabanki og verðbólga eru ekki síður vandamál. Það vill svo til, að fastgengi leysir strax flest þessara vandamála og önnur verða auðleyst við fastgengi.   Sjálfstæðisflokkur hefur ekki getu til að leysa neitt þeirra vandamála sem þjóðin er að glíma við. Af því leiðir að vandamálin munu verða óleyst um langa framtíð. Staðreyndin er sú, að forusta Sjálfstæðisflokks endurnýgjar sig með jafn vanhæfu fólki og hrökklast burt.  Vandamál Sjálfstæðisflokks kristallast í ummælum Illhuga Gunnarssonar: “Aðeins er um tvær leiðir að ræða. Annars vegar að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru en hins vegar að halda sig við krónuna. Sjálfur vildi hann síðarnefnda kostinn.” Hvað er í höfðinu á fólki sem talar svona heimskulegu ? 

Loftur Altice Þorsteinsson.

 

Samstaða þjóðar, 23.2.2013 kl. 13:37

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Óskar, þetta eru öfugmæli hjá þér.

Ástæðan fyrir því að við höfum handónýta mynt er verðtrygging.

Það er rökleysa að segja að verðtrygging sé einhverskonar afleiðing af sjálfri sér. Hið rétta er að hún er mannanna verk, ákvörðun sem var tekin, og hún er orsakavaldur á gjaldmiðilinn en ekki nein afleiðing af öðru en heimsku.

Það er augljóst hvað þarf að gera til að laga gjaldmiðilinn:

Númer 1. Afnema verðtrygginguna.

Hún veldur eitrun í myntkerfinu og eina leiðin til að læknast af áhrifum eitrunar er að hætta að taka inn eitur. Það er engin önnur leið til þess.

Guðmundur Ásgeirsson, 23.2.2013 kl. 14:45

7 Smámynd: Samstaða þjóðar

Guðmundur, þú segir:

»Ástæðan fyrir því að við höfum handónýta mynt er verðtrygging.«

Verðtrygging var tekin upp 1979, með Ólafslögunum 13/1979. Hægt er að fullyrða að Krónan var jafn ónýt fyrir 1979, eins og hún hefur verið frá þeim tíma og allt til dagsins í dag. Með hvaða rökum styður þú fullyrðingu þína?

Að mínu mati er vandamálið við verðtrygginguna það, að einungis hluti fjárskuldbindinga er verðtryggður. Einfaldasta leiðin til að allar fjárskuldbindingar verði verðtryggðar, er að taka upp erlendan gjaldmiðil. Tæknilega þróaðra afbrigði fastgengis er innlendur gjaldmiðill undir stjórn myntráðs.

Loftur Altice Þorsteinsson.

Samstaða þjóðar, 23.2.2013 kl. 15:56

8 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Fyrst hlýtur að þurfa að skilgreina hvað telst vera "handónýt mynt".

Svo er líka afar mikilvægt að gera grein greinarmun á gjaldmiðli annars vegar og fjárskuldbindingum hinsvegar sem eru skráðar í þeim gjaldmiðli.

Loks hljótum við að þurfa að byggja umfjöllun okkar á staðreyndum.

Ef við skilgreinum handónýta mynt þannig að hún haldi illa verðgildi sínu þá þurfum við jafnframt að skilgreina við hvað skal miða þegar talað er um hækkandi eða lækkandi verðgildi gjaldmiðils og gagnvart hverju.

Þetta er nefninlega allt afstætt.

EN það sem fólk er oftast að tala um varðandi vanda krónunnar er hin króníska háa verðbólga sem leiðir til mjög hárrar ávöxtunarkröfu.

Það sem hin nýja rannsókn leiðir í ljós er að það er einhliða verðtrygging fjárskuldbindinga sem orsakar megnið af verðbólgunni sem mælist þegar verð hækkar eins og það er mælt í lögeyrinum þ.e. nafnkrónunni.

Þetta útskýrist af því að þegar verðtryggðu lánin hækka þá orsaka þau peningaprentun sem ýtir undir verðbólgu og vaxtaspíralinn.

Eins og Loftur bendir réttilega á var mikil verðbólga líka vandamál fyrir upptöku verðtryggingar. Það þýðir ekki að fyrri fullyrðingin um verðtryggingu sem orsakavald verðbólgu sé röng, heldur þýðir það einfaldlega að útskýra þarf orsök verðbólgu fyrir upptöku verðtryggingar.

Það kemur þá í ljós að hún er sú sama: peningaprentun.

Það virðist nefninlega vera sem stjórnmálamenn hér á Íslandi hafi fyrr á árum verið svo skelfilegir vanvitar í stjórn peningamála, að þeir virðast hafa brotið flest þau lögmál sem um slíkt gilda. Þar með talin eru dæmi um að þeir hafi beinlínis prentað fyrir fjárlagahallanum eftir að vera núnir að setja ríkissjóð á hausinn! Þá var gjarnan talað um að "nú yrði að fella gengið" og allir létu eins og það væri eitthvað ytra áfall sem enginn gæti ráðið við.

Þetta apaspil hefur auðvitað aldrei þjónað neinum tilgangi nema til að breiða yfir þá heimsku sem leiddi menn út í þessi öngstræti til að byrja með.

Hér áður fyrr voru það stjórnendur peningamála og efnhagsmála hér á landi sem sáu alfarið um að eyðileggja gjaldmiðilinn með því hvernig þeir umgengust hann. Það eina sem breyttist árið 1979 í raun og veru var að þetta ferli var sjálfvirknivætt með nokkru sem kallast verðtrygging. Bæði fyrir og eftir var samt aðeins einu um að kenna: peningaprentun.

Guðmundur Ásgeirsson, 23.2.2013 kl. 19:31

9 Smámynd: Samstaða þjóðar

Ég skilgreini "handónýta mynt" sem gjaldmiðil sem reynslan sýnir að hefur sveiflast mikið og öðruvísi en erlendir viðmiðunar gjaldmiðlar. Það er ekki betra að innlendur gjaldmiðill hækki í verði, en að hann lækki.

Mér finnst ótrúlegt að verðtrygging einhvers hluta fjárskuldbindinga í landinu valdi verðbólgu. Við sjáum til dæmis, að ef  verðbólga er 0% getur verðtrygging ekki valdið neinni verðbólgu. Hækkun verðtryggingar kemur líka í kjölfar verðbólgu. Þótt greiðslur vegna verðtryggingar fari frá skuldara til lánveitanda, er ekki líklegt að afleiðingin verði verðbólga.

Við vitum að óhófleg peningaprentun leiðir til verðbólgu, en þótt greiðslur vegna vísitölu-tryggingar fari úr einum vasa í annan, er erfitt að sjá að þær leiði til verðbólgu.

Líklega eru langflestir landsmenn orðnir andvígir verðtryggingu, enda er hún líklega ólögleg. Bezta leiðin til að afnema verðtrygginguna er með upptöku fastgengis. Sjálfstæðisflokkur átti tækifæri til að verða samferða almenningi, en Landsfundur flokksins virðist ekki hafa nægilegt vit til þess.

http://samstada-thjodar.blog.is/blog/samstada-thjodar/entry/1284624/

Loftur Altice Þorsteinsson.

Samstaða þjóðar, 23.2.2013 kl. 23:28

10 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Loftur, þér finnst kannski ótrúlegt að verðtrygging fjárskuldbindinga valdi verðbólgu, en það er nú samt raunin.

Eins og þú réttilega nefnir þá leiðir óhófleg peningaprentun einmitt til verðbólgu. Þú segir jafnframt að þótt greiðslur vegna vísitölutryggingar fari úr einum vasa í annan leiði það ekki til verðbólgu. Þetta er allt rétt hjá þér.

Gallinn á þessari röksemdafærslu liggur einmitt í því að það er einmitt ekki svo einfalt að þetta séu bara "greiðslur úr einum vasa í annan". Þetta er einmitt það sem ofangreind rannsókn leiðir í ljós, að bókfærsluaðferðin sem notuð er við framkvæmd verðtryggingar á Íslandi er alls ekki hlutlaus gagnvart peningamagni (money supply neutral) heldur eykur hún það. Hægt er að sýna fram á að það eina sem þarf að gerast er að seðlabankinn nái markmiði sínu um 2,5% verðbólga og þá fer í gang verðbólguspírall sem verðtryggingin sér sjálf um að viðhalda. Og þá er ekki tekið tillit til annara þensluvalda.

Áhrifin af þessu þekkja allir, þau sjást á nánast öllum línuritum af fjármálamörkuðum árið 2008, til dæmis þeim hér að ofan. Það eina sem er nýtt er að núna hafa verið borin kennsl á eina frumorsökina, sem er sú að tiltekin bókfærsluaðferðsem notuð er við framkvæmdina jafngildir peningaprentun. Hvort þetta er vísvitandi gert eða einfaldlega villa skal ósagt látið, en afleiðingarnar eru að minnsta kosti bersýnilegar.

Þetta gerir líka í reynd ekkert nema styðja þau rök að verðtrygging, í það minnsta þegar hún er framkvæmd með þessum hætti, hljóti að teljast vera ósanngjarn samningsskilmáli og þar með ólögleg.

Það kann að virðast fásinna að þetta geti verið rangt, og hafi verið það hér um árabil, en þá vil ég bara minna á að það sama átti við um gengistryggingu. Einnig kann þetta að skýra ummæli annars bankastjóra eins af stóru viðskiptabönkunum fyrir hrun á þá leiða að besta tekjulind íslenskra banka væri verðtryggingin. Eðlilega, fyrst hún er bókstaflega peningaprentvél.

Guðmundur Ásgeirsson, 24.2.2013 kl. 01:05

11 Smámynd: Samstaða þjóðar

Skýrslan eftir Jacky Mallet er athyglisverð og gefur tilefni til að verðtryggingin verði skoðuð miklu betur en gert hefur verið. Til dæmis væri áhugavert að rannsakaður yrði bakgrunnur upptöku verðtryggingar og síðar niðurfellingar verðtryggingar launa.

 

Getur verið að frá upphafi hafi verið ætlunin að verðtryggja lán, en það hafi ekki tekist af pólitískum ástæðum, nema verðtrygging launa fylgdi með ? Síðar hafi komið tækifæri til að afnema verðtryggingu launa og eftir stóð upphafleg áætlun um verðtryggingu lána. (Djöfulleg ráðagerð, ef tilgátan er sönn).

 

Einnig hefur því verið haldið fram að útreikningur vísitölunnar sé vísvitandi falsaður !

 

Loftur Altice Þorsteinsson.

Samstaða þjóðar, 24.2.2013 kl. 09:12

12 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það er líka minnst á það í rannsóknarritgerðinni að reiknireglan sem notuð er, sé einmitt ekki það sem kallast "stærðfræðilega hlutlaus" heldur hefur hún innbyggða tilhneigingu til að "læsa inni" hækkanir en meira þarf hinsvegar til að valda því að lækki. Sem passar vel við að fæstir greiðendur sem hafa beina reynslu af hegðun þessara lána þekkja neitt annað en hækkanir á þeim.

Guðmundur Ásgeirsson, 24.2.2013 kl. 14:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband