Almenningur hafnar verðtryggingunni
19.2.2013 | 00:28
Heildarútlán Íbúðalánsjóðs í janúar voru samkvæmt upplýsingum á vef sjóðsins 960 milljónir, en uppgreiðslu lána námu 1,5 milljörðum króna. Þetta jafngildir 26% samdrætti frá sama mánuði í fyrra en í morgunkorni Íslandsbanka kemur fram að þetta séu minnstu útlán sjóðsins í a.m.k. 9 ár eða frá janúar 2004. Áður hafði verið greint frá því að útlán sjóðsins hefðu dregist saman um 40% í fyrra eða úr 21,5 milljörðum 2011 í 12,9 milljarða 2012. Það þarf þó líklega ekki að leita langt eftir skýringum á þessu:
Vísir - Almenningur hafnar verðtryggingunni
Nýjar tölur um lán til íbúðakaupa sýna að almenningur hefur hafnað verðtryggingunni nær algjörlega, því langstærstur hluti þeirra er óverðtryggður. ... Um 86% af nýjum lánum inn á íbúðamarkað eru nú óverðtryggð. Íbúðalánasjóður hefur til þessa einungis veitt verðtryggð lán en er nú með á teikniborðinu breytingu í þá veru að byrja að veita óverðtryggð lán.
Það vill nefninlega svo til að flestir bankar bjóða nú óverðtryggð lán. Íbúðalánasjóður hefur aftur á móti ekki enn hafið veitingu óverðtryggðra lána, og má því telja líklegt að þeir sem þangað leiti í viðskipti endurspegli talsverðan hluta þeirra 14% og ört fækkandi sem þó taka enn verðtryggð lán. En hvað þarf þá að gerast svo að hægt sé að hefja veitingu óverðtryggðra lána hjá Íbúðalánasjóði líka?
Þann 21. desember síðastliðinn svaraði velferðarráðherra fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur um óverðtryggð lán Íbúðalánasjóðs:
http://www.althingi.is/altext/141/s/0847.html
Í svarinu kemur fram að lögum hafi þegar verið breytt þannig að Íbúðalánasjóði sé heimilt að veita óverðtryggð lán. En hvar ætli hnífurinn standi þá í kúnni? Þann 22. janúar síðastliðinn svaraði velferðarráðherra fyrirspurn Lilju Mósesdóttur þar sem spurt var nánar út í heimildir Íbúðalánasjóðs til að veita óverðtryggð lán:
http://www.althingi.is/altext/141/s/0909.html
Í svarinu kemur fram staðfesting þess að það eina sem vantar upp á að Íbúðalánasjóður geti hafið að veita óverðtryggð lán, er að gerð verði breyting á 13. gr. reglugerðar um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf, nr. 522/2004.
Með öðrum orðum er það ráðherrann sjálfur sem hefur það í hendi sér hvort hann gerir þessa nauðsynlegu reglugerðarbreytingu og leyfir markaðshlutdeild verðtryggingar að ljúka brotthvarfi sínu af neytendalánamarkaði með náttúrulegum dauðdaga, eða hvort hann heldur henni lengur lifandi í öndunarvél ríkisábyrgðar með raunávöxtun á innrennslispokum og froðu vellandi út úr eyrunum. Látum liggja milli hluta hvora ákvörðunina væri mannúðlegra fyrir velferðarráðherrann að taka, dæmi hver fyrir sig.
Meirihluti þjóðarinnar virðist samt hafa gert upp hug sinn fyrir allnokkru síðan:
80% hlynnt afnámi verðtryggingar - mbl.is
Sem betur fá þá þurfum við þó ekki að deyja ráðalaus frammi fyrir þessu verkefni:
Frumvarp um afnám verðtryggingar
Ekki minni útlán í 9 ár | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Verðtrygging | Aukaflokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 00:38 | Facebook
Athugasemdir
Nýjar tölur um lán til íbúðakaupa sýna að almenningur hefur hafnað verðtryggingunni nær algjörlega, því langstærstur hluti þeirra er óverðtryggður. ...
Í fréttina vantar upplýsingar til að meta hvort þessi fullyrðing, að almenningur hafi hafnað verðtryggingunni, sé rétt. Ingibjörg Þórðardóttir, formaður Félags fasteignasala, sagði nefnilega í viðtali í bítinu á Bylgjunni þ. 7. febrúar, að hún hefði séð þó nokkur dæmi þess að fjárfestar, sem hefðu tekið þátt í gjaldeyrisútboðum Seðlabankans að undanförnu, væru að kaupa fasteignir fyrir það fjármagn sem þeir kæmu með inn í landið. Sumir hefðu jafnvel keypt yfir 100 fasteignir á undanförnum mánuðum.
Mér er því spurn hvort almenningur sé yfirhöfuð nokkuð að kaupa fasteignir í einhverjum mæli og hvort þeir sem selji séu ekki bara að flytja með sér lán á aðrar eignir eða greiða lánin þau upp og fara í staðinn í leiguhúsnæði?
Er þessi fullyrðing því nokkuð marktæk nú um stundir, ef að fasteignamarkaðurinn er drifinn af örfáum fjársterkum aðilum?
Erlingur Alfreð Jónsson, 19.2.2013 kl. 02:27
Ef fullyrðingin er rétt, þá er hún jafn marktæk sama hver orsökin er fyrir því.
Guðmundur Ásgeirsson, 19.2.2013 kl. 03:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.