SFF = Samsæri fjármálafyrirtækja?
13.2.2013 | 13:22
Samtök fjármálafyrirtækja hafa brugðist ókvæða við nýri skýrslu Samkeppniseftirlitsins, þar sem hár rekstrarkostnaður bankanna er gagnrýndur auk þess sem varað er við samþjöppun og hættu sem stafar af einsleitni sem einkennir íslenskan fjármálamarkað.
Gagnrýni SFF snýr einkum að útreikningum og mati á hinum háa rekstrarkostnaði bankanna, og hafa samtökin til að byrja með gengist upp í að láta málið snúast um það, frekar en hitt sem er mikilvægara, að á Íslandi er ekki raunveruleg samkeppni á bankamarkaði. Miklu nær væri að tala um klíkuskap í því samhengi.
Samkeppniseftirlitið hefur réttilega svarað þessari gagnrýni með því að benda á að viðbrögð SFF styðji einmitt þær vísbendingar sem uppi eru um að samkeppni sé áfátt! :)
Af þessu tilefni er kannski rétt að rifja upp það samráð sem fjármálafyrirtækin áttu með sér á síðasta ári vegna úrvinnslu mála er varða gengislán. Hagsmunasamtök heimilanna óskuðu eftir að fá sömu aðkomu að samráðsferlinu og SFF, en á það var ekki fallist heldur voru í staðinn sett skilyrði um að bankarnir mættu eiga með sér samstarf og SFF væri óheimil bein þáttaka í því, auk þess sem umboðsmanni skuldara var falið að taka þátt og hafa eftirlit með starfsháttum samráðshópsins.
Um það bil sem samráðshópurinn var að ljúka sínum störfum óskuðu HH eftir að fá aðgang að þeim gögnum sem samráðshópnum var gert að halda um störf sín, en þeirri beiðni var synjað af hálfu UMS fyrir hönd samráðshópsins. Eftir 6 mánaða langt gagnaöflunarferli sem lauk með úrskurði nefndar um upplýsingamál á grundvelli kæru HH á synjuninni, fengust gögnin loks afhent.
Skemmst er frá því að segja að þau sýndu merki þess að SFF hafi virt að vettugi skilyrði Samkeppniseftirlitsins fyrir undanþágu til samráðsins, tekið þar virkan þátt í heimildarleysi og verið jafnvel ráðandi aðili í samstarfinu. Til að mynda tók SFF að sér að varðveita öll gögn um samráðið og þau prófmál sem valin voru á grundvelli þess, þar á meðal persónulegar upplýsingar um skuldara í viðkomandi málum. Með þessu móti var upplýsingum um prófmálin haldið leyndum fyrir HH og augum almennings í hálft ár!
Gögn sýna vafasama starfshætti samráðshóps vegna gengislána
Ný gögn staðfesta enn frekar vafasama starfshætti samráðshóps vegna gengislána
Síðasta útspilið í því sem er æ meir farið að líkjast þaulskipulögðu samsæri fjármálafyrirtækja gegn hagsmunum heimila og almennings, er samningur sem SFF hefur gert við menntamálaráðuneytið um að fjármagna gerð námsefnis og kennslu í fjármálalæsi á grunnskólastigi og í framhaldsskólum. Af skjölum um málið sem HH hafa nú fengið afhent í samræmi við upplýsingalög, má ráða að til þessa samstarfs hafi verið stofnað einkum að frumkvæði SFF. Með slíkum samningi gefst heildarsamtökum fjármálafyrirtækja einstakt tækifæri til að hafa áhrif á væntanlega viðskiptavini á landsvísu og neytendur framtíðarinnar.
Þetta skýtur ekki síst skökku við í ljósi þeirrar gagnrýni sem kom fram í skýrslu rannsóknarnefnar Alþingis um orsakir og afleiðingar falls viðskiptabankanna, varðandi óeðlileg áhrif hagsmunaaðila á kennslu og rannsóknir. Margir aðilar sem vinna sérstaklega fyrir hagsmuni neytenda á þessu sviði væru sjálfsagt betur til þess fallnir að stuðla að bættu fjármálalæsi, en slík sjónarmið virðast því miður hafa gleymst í dansi ráðuneytisins eftir höfði SFF í málinu.
Fyrirkomulag sem þetta er auðvitað jafn óæskilegt, eins og ef sælgætisframleiðendur fjármögnuðu námsefni og kennslu í næringarfræði. Vonandi þarf ekki að útskýra fyrir neinum svo augljós sannindi, en lesa má nánar um málið á vefsíðu HH auk þess sem þar má sjá afrit af viðkomandi samningi og lista yfir önnur málsgögn sem ættu að hjálpa hverjum sem vill kynna sér málið og taka til þess afstöðu.
HH gagnrýna harðlega samning ráðuneytis við SFF um kennslu í fjármálalæsi
Síðastliðið mánudagskvöld var haldinn borgarafundur í Iðnó á vegum stjórnmálasamtakanna Dögunar, en meðal frummælenda var formaður HH Ólafur Garðarsson og flutti hann erindi undir yfirskriftinni "Stríðið gegn heimilunum". Nú er ljóst að samsærið og stríð fjármálafyrirtækjanna gegn hagsmunum heimila og almennings, hefur færst á nýjar vígstöðvar: inn í skólanna þar sem börnin okkar hljóta menntun og stóran hluta síns uppeldis.
Er það virkilega svona sem við viljum hafa þetta? Við höfum unnið nokkrar orrustur, en þessu stríði er hvergi nærri lokið og svikarar leynast enn víða í áhrifastöðum. Hvenær er kominn tími til að snúa vörn í sókn? Sá tími er kominn núna!
Blásið hefur verið til sóknar með málaferlum á grundvelli laga um neytendalán, sem ekki virðast hafa verið virt af lánveitendum hér á landi og eru því lán sem það á við um líklega flestöll ólögleg fyrir vikið. Náist sigur í málinu kann það að hafa víðtækt fordæmisgildi til hagsbóta fyrir langflest skuldsett heimili. Lesa má nánar um málsóknina, og sérstakan málskostnaðarreikning fyrir þá sem hafa áhuga á að styðja baráttuna, á heimasíðu samtakanna: Málshöfðun gegn verðtryggingu
SFF á villigötum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkar: Fasismi, Stjórnmál og samfélag, Verðtrygging | Facebook
Athugasemdir
Ráðuneytið gerir samning við SFF þannig að öll fjármálafyrirtæki sitja við sama borð. Rétt væri að benda STEF á þetta. Það sama ætti auðvitað að gilda um tónskáld og textahöfunda. Og í rauninni alla þá sem vilja selja börnum vörur sínar og þjónustu.
http://www.mbl.is/folk/frettir/2011/12/08/biophilia_i_grunnskolana/
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 13.2.2013 kl. 14:21
Eins og ég skrifaði:
Fyrirkomulag sem þetta er auðvitað jafn óæskilegt, eins og ef sælgætisframleiðendur fjármögnuðu námsefni og kennslu í næringarfræði.
Við ættum kannski að biðja SMÁÍS að fjármagna kennslu í ofstækistrú á höfundarrétt og hvernig sé best að skjóta sig í fótinn á internetinu? :)
Guðmundur Ásgeirsson, 13.2.2013 kl. 15:33
Alveg eins. Ekkert sem bannar það. Líklega eru alls konar aðilar úti í bæ í stöðu til að breyta því. Ekki stjórnin sem dansar út í eitt. Styð þig í baráttunni við fjármálafyrirtækin.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 13.2.2013 kl. 16:51
Viðskiptablaðið - Smærri fjármálafyrirtæki mjög ósátt við tilkynningu SFF
Hahaha. Klúður að fá svona tilkynningu frá sínum eigin aðildarfélögum!
Guðmundur Ásgeirsson, 14.2.2013 kl. 02:09
Umræður eru ekki klúður. Þessi samningur vekur upp ótal spurningar sem snúast ekki bara um fjármálafyrirtæki.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 14.2.2013 kl. 09:45
Það er alveg rétt hjá þér Elín.
Guðmundur Ásgeirsson, 14.2.2013 kl. 14:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.