Seðlabankinn er ekki Hæstiréttur
29.12.2012 | 15:22
Nokkur misskilningur kemur fram í fréttaflutningi Morgunblaðsins í dag af málefnum varðandi gjaldeyrishöft og nauðasamninga föllnu bankanna. Þar er stillt upp til samanburðar annars vegar fyrirhuguðum nauðasamningum stóru viðskiptabankanna þriggja sem gætu hlaupið á þúsundum milljarða að stóru leyti í beinhörðum erlendum gjaldmiðlum, og hinsvegar Sparisjóðabankans en kröfuhafar hans eru að mestu leyti innlendir og áætlað er að útgreiðslur í gjaldeyri muni aðeins jafngilda 14 milljörðum.
Fréttaritarar klykkja svo út með eftirfarandi fullyrðingu um hið síðarnefnda tilvik Sparisjóðabankans: "Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins sætir það tíðindum, enda hefur Seðlabankinn lagst gegn þeirri leið vegna þrotabúa Glitnis og Kaupþings. Í Morgunblaðinu í dag segir, að málið gæti því haft fordæmisgildi."
Slík fullyrðing hlýtur að sæta nokkrum tíðindum, því allir sem til þekkja hafa lengstum staðið í þeirri meiningu að fordæmisgildi í hérlendu réttarfari hefðu fyrst og fremst dómar Hæstaréttar Íslands. Þó svo sannarlega megi gera þá kröfu til eftirlitsstofnana að þær gæti samræmis þá skapar slíkt samt ekki fordæmisgildi að lögum.
Til að meta fordæmisgildi þarf að auki að líta til þess hvort um sambærileg atvik er að ræða. Þá hlýtur að þurfa að setja spurningamerki við það hvort hægt sé að líkja saman uppgjörum sem eru annars vegar að mestu leyti utanlands og hinsvegar innanlands, eða hvort hægt sé að jafna saman hagsmunum af svo gjörólíkri stærðargráðu. Ef það skiptir ekki máli hver stærðargráða fjárhagslegra hagsmuna er fyrir fordæmisgildi, þá þurfa yfirmenn í Seðlabankanum líklega að fara vel yfir það atriði með héraðsdómaranum í Reykjavík sem er á öðru máli, svo dæmi sé tekið.
Vilji menn setja fram þá kenningu að einstakar ákvarðanir eftirlitsaðila fjármálakerfisins í sértækum og fordæmalausum kringumstæðum geti verið fordæmisgefandi, þá er ekki heldur víst að mönnum sé ljóst hvað þeir eru nákvæmlega að fara fram á. Það var til dæmis undir eftirliti og með beinu samþykki sömu eftirlitsaðila sem útlán bankakerfisins til heimila landsmanna voru færð yfir í nýjar bankastofnanir á hálfvirði, en heimilin hlytu þá að eiga rétt á sama afslætti fyrst fordæmi hefur skapast.
Hvað þá með fyrirmælin sem gefin voru út um að reikna mætti nýja og hærri vexti á samninga sem voru gerðir með löglegum vöxtum í upphafi? Þá hlytu innstæðueigendur nú að endurreikna nýja og hærri vexti afturvirkt á innstæður sínar og krefja bankana um mismuninn, ef um slíkt gilda fordæmi. Seðlabanki Íslands hefur jafnframt verið iðinn við að láta hirða eignir af fólki þrátt fyrir að það hafi aldrei stofnað til viðskipta við þann banka og eftirlitsaðilar hafa látið stórfellda umboðslausa eignaupptöku óáreitta, jafnvel gefið út fyrirmæli í því skyni. Ef um fordæmisgildi er að ræða, þá hljóta þolendur þessara mannréttindabrota nú að mega labba upp í seðlabanka og ná í sér í hvaðeina sem þeir telja sig eiga rétt á, utan dóms og laga.
Því það er jú búið að setja fordæmi, er það ekki?
Nei, rökvillan felst auðvitað í því að seðlabanki hefur ekki úrskurðarvald í ágreiningsefnum, heldur eru það dómstólar en jafnvel úrskurðir þeirra hafa þó mjög takmarkað fordæmisgildi, nema helst hjá hæstarétti og þó fer sá dómstól sjálfur ekki heldur alltaf eftir sínum eigin fordæmum.
SÍ skoðar að leyfa greiðslu gjaldeyris | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Fjölmiðlar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:29 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.