Vísitölutenging höfuðstóls er ólögleg
2.12.2012 | 23:27
Að vísitölutengja höfuðstól lána brýtur í bága við löggjöf Evrópusambandsins, segir Elvira Mendez Pinedo, prófessor við Háskóla Íslands og sérfræðingur í Evrópurétti, sem hefur rannsakað verðtrygginguna undanfarið. Hún hyggst senda eftirlitsnefnd EFTA og framkvæmdastjórn ESB fyrirspurn vegna málsins.
RÚV.is: http://www.ruv.is/frett/visitolutenging-hofudstols-er-ologleg
Elvira var jafnframt í löngu viðtali í Silfri Egils í dag, þar sem hún fjallaði um þetta og ýmislegt fleira, til dæmis þörfina fyrir heildarendurskoðun fjármála- og peningakerfisins. Viðtalið hefst þegar 52 mínútur eru liðnar af þættinum.
Silfur Egils: http://www.ruv.is/sarpurinn/silfur-egils/02122012-1
Meginflokkur: Verðtrygging | Aukaflokkar: Evrópumál, Fjölmiðlar, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:29 | Facebook
Athugasemdir
Ekki skal ég verja vísitölutengd lán en við erum ekki í hinu rangnefnda ´Evrópu´-sambandi og heyrum ekki undir Brusselveldið og miðstýringu þess. Verður alþingi ekki að taka upp lög frá EES sjálfviljugt?
Elle_, 3.12.2012 kl. 07:40
Þessar reglur voru innleiddar í lög um neytendalán nr. 121/1994:
http://www.althingi.is/lagas/nuna/1994121.html
Það gerði Alþingi sjálfviljugt.
Guðmundur Ásgeirsson, 3.12.2012 kl. 12:46
Jón Steinsson bendir á það á Eyjunni að ólögmæti verðtryggingar á grundvelli þess að neytendur vissu ekki hver höfuðstóllinn væri, sé vafasamt vegna þess að í verðbólgu og engri verðtryggingu þá sé líka mikil óvissa um téðan höfuðstól. Þetta má vel vera.
Stökkbreyting lánanna stafaði af kerfisvillu. Best væri ef sú kerfisvilla væri leiðrétt sem slík en ekki með lagabrellum sem eiga ekki alveg við. Verðtryggingin er slæm aðalega vegna þess að hún er bundin við vísitölu sem er að mæla atriði sem eiga ekki að koma verðtryggingunni við svo sem erlendar hækkanir og skattahækkanir ríkisins. Verðtryggingin þarf ekki að vera slæm í sjálfu sér hvað þetta verðar ef rétt væri reiknað. Á hinn bóginn er hún líka gölluð af því að hún dregur úr "bitinu" í vaxtastýringunni og hún dregur líka úr ábyrgðarkend lánveitenda gagnvart þenslu.
Auðvitað á að stýra þessu hagkerfi þannig að engin sé verðbólgan (stöðva peningaprentun bankanna og mikið aðhald á henni gagnvart ríkinu) og afnema verðtrygginguna en nota einfaldlega krónuna.
Að treysta á lagaflækjur ESB er nú ekki vænleg framtíðarsýn en kanski illskárra en ekki neitt!
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 3.12.2012 kl. 13:36
Bjarni, þessi misskilningur sem þú hefur eftir hagfræðingnum stafar hugsanlega af langdvölum hans á erlendri grundu þar sem verðbreytingar á höfuðstól neytendalána þekkjast einfaldlega ekki. Þar tíðkast hinsvegar víða breytilegir vextir sem taka mið af einhverri opinberri vísitölu, gjarnan með föstu fyrirfram umsömdu hámarki. Ef sú vísitala miðast við verð á einhverju má einmitt kalla það verðtryggingu miðað við upphaflega merkingu hugtaksins í íslensku tungumáli.
Það er ekkert í lögum eða tilskipunum um neytendalán sem bannar verðtryggingu sérstaklega, sérstaklega ekki ef hún er í því formi sem áður er lýst, með breytilegum vöxtum. Það er meira að segja sérstaklega gert ráð fyrir breytilegum vöxtum í umræddum lögum og reglum, og mælt fyrir um með hvaða hætti skuli veita upplýsingar um kostnað vegna þeirra. Þetta er líka hægt að gera þó að þú kallir hluta breytilegu vaxtanna verðbætur og miðir þær við verðbólgu, en þá þarf líka að veita upplýsingar um vaxtabyrðina þegar lánið er tekið.
Vanræksla íslenskra lánveitenda felst í því að þeir hafa sett fram greiðsluáætlanir sem taka mið af því að verðbólga á lánstímanum verði engin. Eða hafa jafnvel sett fram engar greiðsluáætlanir, eða sem innihalda ekki heildarlántökukostnað eða árlega hlutfallstölu kostnaðar. Það sem lögin segja í þeim tilvikum er einfalt, að þá er óheimilt að innheimta þann kostnað sem ekki voru veittar upplýsingar um með réttum hætti. Það þýðir að ef ekki var gerð grein fyrir greiðslubyrði vegna verðbóta þá er óheimilt að innheimta verðbætur. Það sama gildir um vexti, fyrir því eru fyrirliggjandi allnokkur viðurkennd dómafordæmi frá Evrópudómstólnum.
Engan er hægt að skylda til að greiða óheimilan kostnað og skiptir þá engu hvort það er vegna kerfisvillu eða einhverskonar annarar vanrækslu og hefur heldur ekkert með hagfræði að gera. Það eru heldur ekki lagaflækjur að ætlast til að farið sé að skýrum ákvæðum laga sem hafa gilt um árabil. Þessi lög hafa einfaldlega verið brotin, og það hefur ákveðnar afleiðingar í för með sér.
Ef þú ferð yfir á rauðu ljósi þá fylgir því jafnan sekt, alveg sama hvað þú reynir að færa góð hagfræðileg rök fyrir hinu gagnstæða. Tilgangur sektarinnar er að letja fólk frá því að brjóta lögin í þeim tilvikum hættan á að valda slysum eða tjóni dugar ekki til þess ein og sér. Það sama á við um neytendalán, þar sem framferði lánveitanda getur valdið neytendum tjóni ef óvarlega er farið. Í þessu felst hin margumtalaða neytendavernd, að neytendur sem heild hafi öflug vopn til að verjast og svara fyrir sig þegar á þeim er brotið, en skilyrði þess að hún virki er að eftir þessu sé farið, annars eru neytendur varnarlausir.
En ég er auðvitað sammála þér Bjarni um að verðtryggingarfyrirkomulagið sé meingallað, og það er líka ekki heldur hægt að skilja umræðu um verðtryggingu algjörlega frá umræðu um verðtryggingu. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að þetta sé eins og hænan og eggið, það er að segja að alveg eins og verðtryggingin hækkar lánin gegnum verðtrygginguna, að þá valdi hún sjálf jafnframt verðbólgu gegnum virðisaukningu verðtryggðra fjármagnseigna. Alveg eins og hænan og eggið þá skiptir nákvæmlega engu máli hvort kom á undan, þegar bæði eru komin í gang þá munu óhjákvæmilega verða fleiri hænur sem verpa fleiri eggjum. Þennan dauðaspíral eru hinsvegar flestir Íslendingar algjörlega blindir á vegna genetískt áunninnar peningaglýju gegnum margra kynslóða uppeldi í einu vísitölubundnasta samfélagi jarðar.
Guðmundur Ásgeirsson, 3.12.2012 kl. 19:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.