Ríkisábyrgðarleiðin út úr kreppunni

Það er með öllu óskiljanlegt að lánshæfismatsfyrirtækið Moody's skuli boða ruslflokkun ef Icesave málið tapast. Reyndar er venja hjá fyrirtækinu að hafa rangt fyrir sér, eins og til dæmis þegar það gaf út lánshæfismat íslensku bankanna kortéri fyrir fullkomið hrun þeirra, svo það er ekkert til að kippa sér upp yfir. En fyrst svo er þá má kannski rekja í stuttu máli hvað myndi nú gerast í raun og veru ef Icesave málið myndi tapast?

Til að byrja með er rétt að geta þess að dómur EFTA dómstólsins getur ekki haft í för með sér neina greiðsluskyldu, þar sem dómstóllinn er ekki til þess bær að dæma um skaðabætur. Kæmist hann þó að þeirri niðurstöðu að brot hafi átt sér stað, stæði það mótaðilunum næst að láta reyna á bótakröfur fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, og eftir atvikum Hæstarétti Íslands hvers úrskurður yrði endanlegur og bindandi fyrir málsaðila.

Með öðrum orðum fengjum við að "njóta heimavallarins" ef svo má segja, í stað þess að þurfa að "keppa á útivelli" í Hollandi eftir breskum lögum eins og Icesave samningarnir hefðu leitt af sér ef þeir hefðu verið samþykktir. Í slíku máli myndi líklega reyna á þá grundvallarforsendu skaðabótaskyldu að sýnt sé fram á tjónsábyrgð, sem hvílir reyndar að stóru leyti á öðrum mótaðilanum í málinu, þ.e. breskum stjórnvöldum sjálfum!

Það sem gæti aftur á móti orðið óvænt en velkomin hliðarverkun af bindandi úrskurði um ríkisábyrgð er að þá hlytu væntanlega að gilda um hana lög nr. 121/1997 um ríkisábyrgð: http://www.althingi.is/lagas/nuna/1997121.html

Samkvæmt þeim væri slík ríkisábyrgð líklega óheimil, eða takmörkuð við hluta skuldbindingarinnar. Í öllu falli þyrfti að meta hana á grundvelli sjónarmiða á borð við mat á greiðsluhæfi skuldara (sem er ljóst að dugar ekki fyrir skuldinni) og framlagðra trygginga (sem eru engar). Þannig má telja líklegt að ef ríkisábyrgð vegna innstæðna stæðist á annað borð þessi lög sem vel að merkja eru þremur árum nýrri en lög um innstæðutryggingar, þá hlyti sú ábyrgð með réttu að falla í hæsta mögulega áhættuflokk og bera því hæsta lögleyfða ríkisábyrgðargjald eða 4%.

Krafa ríkissjóðs á bankana og þrotabú þeirra sem myndi stofnast vegna ríkisábyrgðargjaldi teldist vera gjaldfallin fyrir löngu síðan og komin í alvarleg vanskil, en samkvæmt lögunum skal greiða ríkisábyrgðargjaldið fyrirfram. Þar sem um kröfu vegna opinberra gjalda er að ræða kann hún að teljast vera lögveðskrafa og koma þar með framar innstæðum í kröfuröð við slitameðferð. Jafnvel þó hún teldist jafnstæð innstæðum myndi það samt sem áður þýða að endurheimtur úr þrotabúunum myndu skiptast í samsvarandi hlutföllum milli Íslands, Bretlands og Hollands.

Reyndar eru fleiri breytur í þessari sviðsmynd heldur en kröfuröðin: Annars vegar skiptir máli hvort ábyrgðin dæmist á alla fjárhæð innstæðna eða eingöngu viðmiðunarfjárhæð lágmarkstryggingar 20.887 evrur. Sá hluti ríkisábyrgðargjalds félli líklega á tryggingasjóð innstæðueigenda (TIF) sem inniheldur rúmlega 22 milljarða og auk þess kröfu upp á 675 milljarða í þrotabú Landsbankans sem ríkið gæti innheimt fyrir ríkisábyrgðargjaldi svo dæmi sé tekið. Ef ábyrgðin dæmist á heildarfjárhæð innstæðna stofnast svipuð krafa, nema beint í þrotabúið vegna þess hluta sem er umfram viðmiðunarfjárhæðina. Hinsvegar skiptir máli hvort dæmt er að ríkisábyrgð nái einnig yfir vexti af kröfum vegna innstæðna, en í því tilviki vex hvor krafa um sig sem því nemur.

En hversu háar fjárhæðir gætum við verið að tala um þessu sambandi? Í stuttu máli sagt eru það engir smápeningar. Miðað við þá sviðsmynd að ríkisábyrgð dæmist á svokallaða lágmarkstryggingu gæti krafan sem stofnast á TIF og þrotabú Landsbankans orðið um 150 milljarðar króna uppreiknuð með viðmiðunarvöxtum Seðlabanka Íslands lögum samkvæmt, til næstu áramóta sem eru eftir rúman mánuð. Ef ríkisábyrgð dæmist á heildarfjárhæð innstæðna yrði gjaldið nær tvöföld sú fjárhæð. Einfaldir útreikningar leiða í ljós að yrði niðurstaðan þessu lík myndu væntar endurheimtur Bretlands og Hollands lækka úr 114% í á bilinu 90-105% eftir því hvernig kröfur raðast. Það jafngildir á bilinu -10% til +5% nafnávöxtun í fjögur ár sem er ekki beinlínis mikið, en íslenska ríkið gæti aftur á móti hagnast um 150-300 milljarða eða 10-20% af VLF á einu bretti.

Þar að auki væri bindandi dómsúrskurður um þetta líklega fordæmisgefandi, og þá myndu stofnast sambærilegar kröfur á önnur fjármálafyrirtæki sem notið hafa ríkisábyrgðar. Þar sem innstæður í Kaupþingi og Glitni voru minni að umfangi eða um 550 milljarðar króna og slitastjórnir luku uppgjöri þeirra frekar snemma, er fjárhæð ríkisábyrgðargjalds líklega lægri og vaxtatímabil er styttra. Safnast þó þegar saman kemur og þarna gætu e.t.v. fallið til allt að 25 milljarðar eða ca. 1,5% af VLF.

Fordæmisgefandi dómur hlyti jafnframt að gilda fyrir nýju bankana líka. Uppreiknað ábyrgðargjald af innstæðum hjá þeim með vöxtum til næstu áramóta nemur 137 milljörðum króna eða 8,5% af VLF miðað við lágmarkstryggingu en 385 milljarðar eða 24% af VLF miðað við fulla tryggingu sbr. ýmsar yfirlýsingar stjórnmálamanna þar að lútandi. Sem betur fer þá vill svo til að nýju bankarnir eiga fyrir þessu að mestu leyti og þá rynni sá hagnaður líka ekki til dularfullra nafnleysingja í erlendum skálkaskjólum eins og sumir óttast að verði reyndin að óbreyttu.

Dómsniðurstaða um ríkisábyrgð vegna innstæðutrygginga gæti þannig haft þær óvæntu hliðarverkanir að afrakstur málshefjenda, Breta og Hollendinga, verði umtalsvert lakari af málarekstrinum heldur en ef þeir hefðu einfaldlega fallist möglunarlaust á niðurstöður æðsta löggjafarvalds á Íslandi, íslensku þjóðarinnar, og sótt kröfur sínar í þrotabúið sem stefnir nú í 114% endurheimtur. Jafnframt þyrftu þeir að bókfæra hærri ríkisábyrgðir vegna innstæðna í sínum eigin heimalöndum, heldur en ríkissjóðir þeira munu nokkru sinni hafa greiðslugetu til, og færu þá evrópsku þjóðríkin jafnvel í raðgjaldþrot.

Hliðarverkanirr af þessu gætu hinsvegar reynst afar hagstæðar fyrir íslenska þjóðarbúið, sem er nú þegar búið að endurreisa bankakerfi sem yrði þá með þeim stöðugri í allri álfunni. Innheimta ríkisábyrgðargjalds gæti skilað samanlagt á bilinu 280-710 milljörðum króna eða 17-44% vergrar landsframleiðslu sem svarar jafnframt til 45-118% af árstekjum ríkissjóðs. Þennan ávinning mætti svo nota til að ráðast í leiðréttingu á skuldum heimila, fjárhagsstöðu ríkissjóðs, sveitarfélaga og opinberra fyrirtækja. Þessi búhnykkur gæti jafnvel bætt að miklu leyti fyrir það tjón sem bankarnir ollu með "svokölluðu" hruni sem stafaði í raun af stórfelldri skipulagðri glæpastarfsemi.

Þannig gætum við farið ríkisábyrgðarleiðina út úr kreppunni.


mbl.is Segja helstu áhættuþættina vera þrjá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

og í beinu framhaldi af því

Hversvegna þarf Íbúðalánasjóður að fá GEFINS 13 miljarða

þegar betur fer að ganga þá mun hann aftur geta látið einkabankana fá þá peninga til "ávöxtunar"

5% reglan er í REGLUGERÐ það er hægt að breyta henni vegna "óvenjulegra" aðstæðna

Grímur (IP-tala skráð) 27.11.2012 kl. 15:02

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Íbúðalánasjóður þarf að fá 13 milljarða gefins í viðbót við 33 í hitteðfyrra, vegna þess að hann er gjaldþrota.

Ekki nóg með að sjóðurinn sé gjaldþrota heldur eru lántakendurnir eru það líka. En það er ekki við þá að sakast því það er einfaldlega ekki endalaust veðrými í stensteypu til fyrir síhækkandi vísitölutengdum höfuðstól.

Sjóðurinn er eina fjármálastofnun landsins sem byggir viðskiptamódel sitt fullkomlega og að öllu leyti á verðtryggingu.

Þannig er slæm staða hans í raun empirísk sönnun þess að að einhliða verðtrygging leiðir óhjákvæmilega til gjaldþrots.

Eina afrekið er hversu lengi tókst þrátt fyrir allt að láta rekaldið fljóta.

Guðmundur Ásgeirsson, 2.12.2012 kl. 22:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband