Aðildarhæfi Hagsmunasamtaka heimilanna staðfest!
15.10.2012 | 23:05
Hæstiréttur Íslands kvað í dag upp dóm í máli nr. 636/2012 sem Hagsmunasamtök heimilanna og Talsmaður Neytenda höfðuðu sameiginlega gegn Landsbankanum. Krafist var lögbanns á innheimtu gengistryggðra lána sem ekki liggur ljóst fyrir hvernig skuli endurreikna eftir að fyrri reikniaðferð var dæmd ógild í febrúar síðastliðnum.
Forsaga málsins er að fyrr á þessu ári leituðu sóknaraðilar lögbanns hjá Sýslumanninum í Reykjavík. Embætti sýslumanns féllst ekki á kröfuna og eftir ítrekaða tilraun var synjuninni vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur sem kvað upp dóm í málinu í september sl. Þrátt fyrir opinbera tilnefningu sóknaraðila sem þar til bærir aðilar til að höfða slíkt mál var ekki fallist á slíkt aðildarhæfi í dómnum. Var því afráðið að kæra þann úrskurð til Hæstaréttar Íslands, en í samantekt dómsins frá í dag segir:
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu H og T um að lagt yrði lögbann við nánar tilgreindum athöfnum L. Talið var að H og T væru bærir til að bera upp kröfu um lögbann hér á landi til að vernda heildarhagsmuni neytenda eftir ákvæðum laga nr. 141/2001. Hins vegar þótti 1. töluliður 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 standa því í vegi að lögbann gæti náð fram að ganga. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Hæstiréttur fellst því miður ekki á lögbannskröfuna. En hitt sem er feitletrað í textanum að ofan er ekki síður mikilvægt sem lýtur að aðildarhæfi sóknaraðila. Þar segir að Hæstiréttur fallist á aðildarhæfi Hagsmunasamtaka heimilanna og Talsmanns neytenda til að höfða slíkt mál. Um algjört nýmæli er að ræða í réttarfari hér á landi, þar sem þetta er fyrsta mál sinnar tegundar sem kemur til kasta Hæstaréttar Íslands þar sem reynir á lög nr. 141/2001 um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda. Reyndar er ekki vitað til þess að tilraunir hafi verið gerðar til að beita slíkri heimild í áratug frá því að lög um hana voru sett, þar til fyrr á þessu ári af hálfu sömu aðila og hafa nú fengið hana óumdeilanlega viðurkennda.*
* Til lögfræðinemans sem ég spjallaði við á djamminu um daginn: "Told.You.So!"
Fljótt á litið er dómurinn afdráttarlaus og vel rökstuddur hvað varðar aðildarhæfið og þvi líklega fordæmisgefandi að þessu leyti, sem er mikill sigur í sjálfu sér þó svo að lögbannskröfunni sjálfri hafi verið synjað. Það sem er ekki síður athyglisvert við dóminn er að í honum virðist í raun vera fallist á að innheimta Landsbankans brjóti gegn þeim tilskipunum sem gilda um neytendalán á EES-svæðinu, enda byggir aðildarhæfi til höfðunar slíks máls beinlínis á því að um slík brot sé að ræða og kæmi annars varla til álita. Þrátt fyrir það er ákvörðun héraðsdóms um þetta staðfest, en samkvæmt henni lítur dómurinn svo á að hugsanlegt tjón neytenda af völdum hinnar ólögmætu innheimtu muni fást leiðrétt síðar, þegar lánin hafa verið réttilega endurreiknuð, en nefnir aðeins yfirlýsingar bankans sjálfs þar að lútandi sem fullnægjandi tryggingu þess. Voru með því höfð að engu sönnungargögn sem sóknaraðilar lögðu fram í málinu og sýndu fram á dæmi um hið gagnstæða, einmitt í tilviki stefnda sjálfs.
Stórfréttin af þessu máli er með öðrum orðum sú að dómurinn féllst á þá meginkröfu sakbornings í málinu, að á grundvelli yfirlýsinga sakborningsins sjálfs, yrði óumdeildum málsatvikum, fyrirliggjandi empirískum sönnunargögnum, og beinlínis veruleikanum eins og við þekkjum hann, vikið til hliðar!
Skyldi það hafa eitthvað með það að gera hver sá seki er?
Lögbann ekki sett á | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Gengistrygging | Aukaflokkar: Fasismi, Viðskipti og fjármál | Breytt 16.10.2012 kl. 02:04 | Facebook
Athugasemdir
Viðurkenning á aðildarhæfinu er stórmerkilegt og um leið ánægjulegt.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 16.10.2012 kl. 00:01
Það veldur vonbrigðum að lögbannið gegn Landsbankanum skyldi ekki ná fram að ganga. Hefur HH einhver áform um að láta reyna nýtt mál, í þetta sinn gegn Lýsingu? Þar á bæ er eindreginn brotavilji og ég tel að Lýsing sé klárlega á brauðfótum eftir síðasta Hæstaréttardóm. Spurning hvort rétturinn mundi meta það svo að ákvæði 24.mgr. væru nægjanlega sterk vernd fyrir gerðarbeiðanda ef líkur væru á og jafnvel hægt að sýna fram á að gerðarþoli, Lýsing, yrði hugsanlega ekki gjaldfær á komandi mánuðum?
Erlingur Alfreð Jónsson, 25.10.2012 kl. 22:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.