Samtök fjármálafyrirtækja óæskileg...
27.7.2012 | 21:41
... jafnvel álitin skaðleg. Tilefni þessara skrifa er hinsvegar einkennilegt og þversagnakennt orðalag í fyrirsögn hinnar tengdu fréttar, og ekki síður meginmálið sem er ekkert minna en kostulegt.
Íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðirnir eiga rúmlega helming útlána fjármálafyrirtækja til heimila landsins. Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) gagnrýna umsvif opinberra aðila á þessum markaði...
Samtök fjármálafyrirtækja sem eiga tæpan helming útlána fjármálafyrirtækja til heimila landsins, gagnrýna umsvif opinberra aðila vegna þess að þeir eiga hinn helminginn. Samkvæmt þessu mati samtakanna hljóta umsvif aðildarfyrirtækja þeirra sjálfra þá að vera undir sömu gagnrýni sett.
Aðildarfélög samtakanna ráða yfir eignum sem nema tvöfaldri þjóðarframleiðslu og eru stærri en öll önnur fyrirtæki landsins samanlagt. Í skjóli þessarar ráðandi stöðu yfir efnahagslífinu hafa þau framið ítrekuð brot gegn almenningi og viðskiptavinum með ólöglegum lánveitingum, eignaupptöku, markaðsmisnotkun, ólöglegu samráði, persónunjósnum, hótunum, ofsóknum og óhugnaði ýmisskonar, sem er allt saman kirfilega skjalfest í opinberum gögnum.
Að þau skuli nú hinsvegar telja svo yfirgnæfandi stöðu á markaði vera til óheilla, er auðvitað langþráður viðsnúningur í afstöðu. Við hljótum því að bíða í ofvæni eftir að byrjað verði að búta stóru bankana niður í smærri og heilbrigðari einingar.
Samtökin segja að umsvif ríkisins veiki eignasafn annarra...
Já ríkið ætti auðvitað ekki að veikja starfsemi bankanna heldur styrkja hana. Reyndar hefur ríkið gert einmitt það mjög nýlega, og varið til þess hundruðum milljarða af fjármunum skattgreiðenda!
En hvað með fyrirbæri sem veikir eignasafn heimilanna og kallast verðtrygging? Þó að slík starfsemi sé vissulega stunduð hjá Íbúðalánasjóði er það þó í það minnsta ríkinu og þar með skattgreiðendum til hagsbóta, en mun hinsvegar aldrei komast í hálfkvisti við þá veikingu sem þegar hefur orðið vegna afleiðinga af starfsemi aðildarfélaga SFF.
Ef þetta er merki um að SFF telji nú rétt að láta af slíku eru það gleðifréttir.
...lánveitenda á markaði...
Það er allt annað en ljóst hvaða "markað" er átt við. Hinsvegar er morgunljóst að þegar aðildarfyrirtæki SFF fengu útistandandi skuldir heimilanna á hálfvirði var engum öðrum veittur aðgangur að sömu kjörum og buðust á þeim "markaði", hvorki heimilunum sjálfum, Íbúðalánasjóði né öðrum.
Þessi stefnubreyting fjármálafyrirtækja um jafnan rétt til aðgangs að markaðskjörum hlýtur því að vera mikil gleðifrétt fyrir skuldsett heimili landsmanna.
...og auki kostnað sem fellur á ríkið vegna þeirrar áhættu sem stafar af lágu eiginfjárhlutfalli Íbúðalánasjóðs, undanþágu sjóðsins frá flestum opinberum gjöldum og lágri arðsemi eigin fjár sem bundið er í sjóðnum.
Gott og vel berum það þá saman við kostnaðinn sem þegar hefur fallið á ríkið vegna þeirrar áhættu sem hefur raungerst út af lágu siðferðishlutfalli "annara lánveitenda á markaði". Annars vegar eru það nokkrir tugir milljarða í tilviki Íbúðalánasjóðs, en hinsvegar mörg hundruð milljarðar sem veitt hefur verið til aðildarfélaga SFF. Augljóst er á hvora hliðina sá samanburður hallar.
Það er nefninlega einmitt hið lága eiginfjárhlutfall, undanþágur frá opinberum gjöldum, og hófleg ávöxtunarkrafa sem gera Íbúðalánasjóði kleift að lána út með minni tilkostnaði og þar með að bjóða lántakendum betri kjör en annars væri.
Væri kannski betra að hækka arðsemiskröfu Íbúðalánasjóðs og þar með lánskjörin? Það myndi steypa ótöldum fjölda heimila í greiðsluvanda og jafnvel á götuna þar sem þau lenda óhjákvæmilega á framfæri ríkis og sveitarfélaga og auka þannig bæði vandamálið og kostnaðinn. Þegar banki gerir þetta við sína kúnna þarf hann hinsvegar ekki að borga fyrir framfærslu þeirra eftir að þau verða heimislaus, heldur erum það við hin. Er fórnarkostnaðurinn af því tekinn með í "arðsemis"útreikningana? Hver einasti bóndi sem hefur lifað af á Íslandi veit að heilbrigt fé skilar arði en veiklað fé litlum eða engum, og er það því órjúfanleg forsenda rekstraráætlunar hans.
Þannig eru rök SFF ekki rök gegn heldur með félagslegum rekstri lánveitanda á húsnæðismarkaði!
Telja samtökin engin rök til þess að ríkið þurfi að annast almenn íbúðalán í einu ríkasta landi heims.
Vissulega er Ísland ríkasta land í heimi, og sem betur fer liggur mikið af þeim auði enn óhreyfður. En eru þá nokkur rök fyrir því að aðildafélög SFF þurfi eitthvað frekar að annast almenn íbúðalán heldur en "aðrir lánveitendur á markaði"? Ef sú fullyrðing er rétt að við séum svona rík þá hljótum við auðvitað bara að kaupa okkur hús til að búa í frekar en að vera að vesenast að óþörfu að fá lánað fyrir þeim. Annars væri eitthvað rangt við þessa röksemdafærslu, ekki satt?
Þá sé Íbúðalánasjóður íþyngjandi fyrir lánsmat ríkisins.
Aðildarfélög SFF hafa núna í fjögur ár eða lengur fengið þvert gegn gildandi lögum að njóta ókeypis ríkisábyrgðar á stærstum hluta skuldbindinga sinna, hvort sem hún er formleg eða verkleg. Þrjú stærstu aðildarfélög SFF eru hvert um sig á stærð við Íbúðalánasjóð, en í sjóðnum eru hinsvegar mjög litlar skuldbindingar þar sem reynt gæti á ríkisábyrgð því þær eru allar tryggðar með ótakmörkuðu veði í öllum undirliggjandi fasteignum. Megináhættan sem stafar af þeim er þegar verðtryggingin hækkar þau út fyrir veðrýmið og rústar greiðslugetu lántakandans. Ríkisábyrgð á skuldbindingum bankanna við innstæðueigendur er hinsvegar ekki tryggð með veði í nokkrum sköpuðum hlut, og eiginfjárframlag ríkisins til þeirra ekki tryggt nema með hlutabréfum í þeim sem verða hvort sem er verðlaus um leið og vafi stofnast um greiðslugetu þeirra.
Ef það er eitthvað sem er baggi á lánshæfi ríkisins er það ábyrgð þess og eignarhald á skaðræðis bönkum. Þess vegna er gríðarlega ánægjulegt að SFF skuli nú hafa með svona góðum rökstuðningi hafið opinberan málflutning gegn ríkisábyrgðinni, og í leiðinni fyrir afnámi verðtryggingar og leiðréttingu skulda heimilanna!
Fram kemur það mat SFF að æskilegt sé að dregið verði úr þeirri skuggabankastarfsemi sem felist í beinum lánveitingum lífeyrissjóða.
Jafnframt hlýtur þá að vera æskilegt að dregið verði úr þeirri skuggalegu glæpastarfsemi sem felst í framferði SFF til þessa dags, þar á meðal þjófnaði aðildarfélaganna úr lífeyrissjóðum landsmanna og af eignarhlut þeirra í fasteignum sínum.
Yfir þessum boðskap sem virðist vera étinn hrár upp eftir SFF kýs mbl.is þrátt fyrir allt að orða fyrirsögnina sem fullyrðingu um að útlán ríkisins séu óæskileg. Þessu fylgja þó engar skýringar á því hvers vegna bankar setja sér þá sjálfir reglur þar sem ríkisskuldabréf eru skilgreind sem bestu fjárhagslegu eignirnar með áhættustuðulinn núll. Jafnframt er litið algjörlega framhjá þeirri staðreynd að fjármálafyrirtækin og þar með samtök þeirra byggja í reynd tilvist sína að stóru leyti á lánum frá skattgreiðendum, til dæmis samanstendur stofnfé nýju bankanna að mestu leyti af ríkisskuldabréfum. Reyndar má færa gild rök fyrir því að án lánveitinga ríkissjóða væri fjármálakerfi vesturlanda ekki til í núverandi mynd.
Í ljósi allra þessara þversagna getur undirritaður ekki með nokkru móti gert sér grein fyrir því hvort hér er á ferðinni lélegur brandari eða tær snilld, eða jafnvel bæði. Textinn er allavega kostulegur og nánast súrrealískur.
Útlán ríkisins óæskileg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Spaugilegt | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Verðtrygging, Viðskipti og fjármál | Breytt 28.7.2012 kl. 07:19 | Facebook
Athugasemdir
Góð samantekt hjá þér Guðmundur. Var reyndar farinn að halda að einginn ætlaði að koma með alvöru athugasemd við þessa "frétt" frá SFF.
Þetta er auðvitað ekki nein frétt, heldur áróður í anda þess er haldið var uppi af samtökunum á árunum fyrir hrun. Fyrir SFF vakir einungis eitt og það er að koma af markaði hugsanlegum keppinautum og það tóks nánast á sínum tíma, þegar alvarlega var rætt um það á Alþingi að leggja íbúðalánasjóð niður. Sem betur fer varð þó ekkert af því.
Þegar bólan stækkaði sem hraðast, áður en hún sprakk, var útilokað fyrir þá sem bjuggu utan stór Reykjavíkursvæðisins og allra stæðstu byggðarkjarnanna, að fá lán fyrir húsnæði hjá einkabönkum. Það fólk sem bjó utan þessa svæða þurfti að leita til íbúðalánasjóðs, hvort sem því líkaði betur eða verr. Ástæðan var einföld, einkabankarnir töldu ekki næg veð í íbúðarhúsnæði utan þeirra svæða.
Það má kannski segja að þessi stefna bankanna hafi einungis verið af varkárni og væri það þá sennilega eina varkárnin sem þeir sýndu á þeim tíma. Ekkert er nema gott um það að segja, en þá verður líka að vera til eitthvað annað kerfi til að þjóna landsbyggðinni. Það er nefnilega svo undarlegt að þar þarf einnig að byggja ibúðahúsnæði, landsbyggðafólk býr ekki í tjöldum, þó málflutningur sumra gefi í skin að þeir haldi það.
Það fólk sem ákveður að byggja sér húsnæði á landsbyggðinni gerir það nánast undantekningalaust til að búa í því, ekki til að braska með það. Því ber að skoða greiðslugetu þessa fólks, ekki eingöngu söluverðmæti hússins og lána samkvæmt því. Slíkt mat þekktist þó ekki í einkabönkunum fyrir hrun og lítil von til þess að það hafi breyst. Því ber að halda íbúðalánasjóð gangandi.
Hitt er svo annað mál að sjóðnum ber að stjórna af ábyrgð. Sú hringekja fáráðnleikans sem stofnunin tók þátt í með einkabönkunum fyrir hrun, þegar farið var að lána allt að 100% lán var mjög misráðin. Slíkt fjárhættuspil á að láta einkafyrirtækjum eftir, stofnanir ríkisins eiga að halda sig utan vð það.
Um starfsemi SFF má svo skrifa langann og ljótann pistil.
Gunnar Heiðarsson, 28.7.2012 kl. 08:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.