Hvorki erlent lán né gengistryggt

Í fréttum að undanförnu hefur gætt nokkurs misskilnings og rangrar hugtakanotkunar þegar lán sem hafa eitthvað með erlenda gjaldmiðla að gera eru til umræðu. Af því tilefni er rétt að skýra þau hugtök sem hér eiga í hlut.

Erlent lán: lán sem er tekið frá erlendum aðila. Í fréttum af dómi um lán félagsins Háttar líkt og þeirri sem þessi pistill tengist er víða ranghermt að um erlent lán sé að ræða, en það er þó alls ekki tilfellið. Dæmi um erlent lán gæti verið ef Marel sem er íslenskt fyrirtæki myndi taka lán hjá Deutsche Bank í Þýskalandi. Slíkt lán gæti svo sem verið í hvaða gjaldmiðli sem er en líklegt má þó telja að lán erlendis frá séu almennt afgreidd í gjaldmiðlum viðkomandi landa. Lántaki getur þá undir eðlilegum kringumstæðum skipt lánsfénu sjálfur í aðra mynt eftir þörfum.

Innlent lán: lán sem er tekið frá innlendum aðila. Lán Háttar í tengdri frétt er einmitt innlent, því það var tekið hjá Kaupþingi og báðir þessir aðilar eru innlendir. Í því sambandi skiptir engu einasta máli í hvaða gjaldmiðli lánið er tekið. Innlent eða erlent segir einfaldlega til um hvort lánsféð komi frá Íslandi eða öðru landi, en innlendum aðilum hefur verið heimilt um árabil að lána hvorum öðrum erlendan gjaldeyri eins og í þessu tilviki. Niðurstaða meirihluta dómsins tekur einmitt mið af því að sannanlega var lánið greitt út í erlendum gjaldmiðlum ásamt því að afborganir til endurgreiðslu lánsins voru millifærðar af gjaldeyrisreikningi lántakandans.

Gjaldeyrislán: lán sem er tekið í erlendum gjaldeyri. Gjaldeyrislán geta verið í hinum ýmsu gjaldmiðlum erlendra ríkja. Gjaldeyrislán eru leyfileg á Íslandi og hafa verið það um árabil, hvort sem um er að ræða innlenda eða erlenda aðila. Eftir hrun fjármálakerfisins var tekið risastórt gjaldeyrislán fyrir Seðlabanka Íslands og höft sett á gjaldeyrisviðskipti annara innlendra aðila, en burtséð frá höftunum er samt ennþá heimilt að lána erlendan gjaldeyri eða þiggja hann að láni frá þeim sem eiga eitthvað af honum.

Gengistryggt lán: lán í íslenskum krónum sem er verðtryggt miðað við gengi erlendra gjaldmiðla. Slíkt lán er eðli málsins samkvæmt veitt í íslenskum krónum en höfuðstólsfjárhæð og þar með afborganirnar líka eru tengdar við gengi erlendra gjaldmiðla og endurgreiddar með íslenskum krónum. Slík lán eru nánast undantekningalaust innlend lán, þar sem erlendir bankar hafa lítið sem ekkert verið að veita lán í íslenskum krónum. Slík lán eru ekki heldur veitt lengur hér innanlands því þau eru ólögleg og enn ríkir ágreiningur um uppgjör þeirra.

Af dómsorðinu í máli Háttar virðist augljóst að lánið sem þar um ræðir sé í raun gjaldeyrislán. Yfirskrift lánsins er "lán í erlendum myntum" og lánsfjárhæð tilgreind í erlendrum gjaldmiðlum, en hugtakið "gengistrygging" virðist hvergi koma fyrir. Breytir þá engu þó fjárhæðir séu einnig gefnar upp í jafnvirði íslenskra króna neðanmáls til viðmiðunar og upplýsinga fyrir lántakanda miðað við þáverandi gengi á lánsfénu. Sönnur voru færðar á að lánið hafi í reynd verið greitt út í erlendum gjaldmiðlum og afborganir greiddar með erlendum gjaldeyri, enda hlýtur bankinn þá að eiga yfirlit og kvittanir sem sýna hinar undirliggjandi gjaldeyrisfærslur. Þannig er ómögulegt að dómurinn geti haft fordæmisgildi fyrir lán sem veitt voru í íslenskum krónum með gengistryggingu.

Eins og gefur að skilja þá kveða samningar við innlenda aðila ekki á um gengistryggingu nema þeir sem eru í krónum, því gengistrygging erlends gjaldmiðils gagnvart sjálfum sér væri markleysa þar sem alltaf eru jafn margar erlendar spesíur skuldaðar hvað svo sem miðillinn heitir. Gengistryggðu lánin voru í raun tilraun til þess að búa til lánveitingu með svipaða eiginleika og gjaldeyrislán, án þess að lána nokkurntíma raunverulega erlenda mynt heldur íslenskar krónur. Grundvallarástæða þess að þetta skiptir máli er að svo hægt sé að lána gjaldeyri þarf sá sem lánar að eiga þann gjaldeyri til að byrja með og láta hann svo af hendi við lánveitinguna, en þegar íslenskur banki veitir lán í krónum eru engir peningar látnir af hendi nema þeir sem verða til við lánveitinguna.

Með því að lána frekar gengistryggðar krónur en raunverulegan gjaldeyri hefðu bankar mögulega getað reynt að öðlast ávinning af lánveitingunum eins og um gjaldeyrislán væri að ræða, án þess þó að þurfa láta raunverulegan gjaldeyri af hendi og að leiðrétta á móti erlenda stöðu sína sem því nemur. Hvort sá gjaldeyrir var nokkurntíma raunverulega til ráðstöfunar hjá lánveitendum er enn ósvöruð spurning. Í opinberum ritum sem birt hafa verið um starfsemi bankanna er hvergi tekið á þessu með heildstæðum hætti.

Ekki fæst annað séð af fyrirmælum seðlabankans um reikningsskil en að bankarnir hafi fengið leiðbeiningar um að bókfæra "gengistryggðar" eignir, sem eru þá krónulán milli innlendra aðila, undir liðnum "erlendar eignir". Þegar bankarnir hrundu gufaði gríðarlega stór hluti meintra erlendu eigna þeirra upp, og er verðugt rannsóknarefni hvort það kunni að stafa af þessari bókfærsluaðferð. Jafnframt er sú spurning áleitin hvort bankarnir kunni að hafa notfært sér "erlenda" eignastöðu sem þeir sýndu á reikningum sínum með þessari aðferð, og lagt til grundvallar eða jafnvel tryggingar fyrir raunverulegri erlendri lántöku í beinhörðum gjaldeyri. Opinber gögn sýna glögglega að erlendu skuldirnar gufuðu ekki upp þó stór hluti meintra "erlendra eigna" virðist hafa gert það.

Ef þessi atvikalýsing á sér stoð er sá verknaður sem hún lýsir ekkert annað en ígildi gjaldeyrisfölsunar sem er alvarlegur glæpur, og ef sá gjaldeyrir kom í raun aldrei inn í íslenska hagkerfið þyrfti að rekja þá slóð í útlöndum. Getur verið að þessir fjármunir sem nema þúsundum milljarða, liggi ef til vill núna á erlendum bankareikningum í eigu vildarviðskiptavina föllnu bankanna sem fengu hann að láni og skömmtuðu sér gegnum eignarhaldsfélög sem eru nú skyndilega orðin eignalaus og gjaldþrota með dularfullum hætti og gríðarlegum afskriftum fyrir kröfuhafa?

Þó aðeins helmingur þessara atvika ætti sér stoð væri líklega samt um að ræða eitt stærsta bankarán sögunnar og jafnframt eina tilvikið sem undirrituðum er kunnugt um þar sem seðlabanki hefur beinlínis verið rændur, í þessu tilviki sá evrópski og jafnvel fleiri! Það vekur líka þá spurningu og rannsóknarefni hvernig þeir gátu látið fara þannig með sig, en vegna orðsporsvanda þessara aðila er ólíklegt að þeir muni hafa frumkvæði að því að upplýsa um eigið gáleysi, og jafnframt þeim mun mikilvægara fyrir hagsmuni íslensku þjóðarinnar að þetta verði upplýst opinberlega. Með því að sækja þann gjaldeyri sem kann að hafa verið stolið og skila honum í hendur meintra tjónþola, yrðu erlendar skuldir þjóðarbúsins og gjaldeyrishöft fljótlega úr sögunni sem sérstök vandamál.

Vönduð rannsókn á málinu gæti varpað skýrara ljósi á ýmsa bakgrunnsþætti þeirrar atburðarásar sem vakið hefur furðu hjá mörgum í tengslum við uppgjörsmál í kjölfar bankahrunsins. Fullnaðarrannsókn er hvergi nærri lokið og reyndar vandséð að til standi að hún fari fram ef tekið er mið af skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis þar mál eru hvergi færð í þetta samhengi. Jafnframt má dæma af fréttaflutningi um rannsóknir Sérstaks Saksóknara að þær virðast allar snúast um einstök og þröngt afmörkuð innlend mál í stað þess að nálgast þau heildstætt á raunsæan hátt í samræmi við tilefnið, sem eru vísbendingar um stórfellda alþjóðlega og þaulskipulagða glæpastarfsemi.

Nánari umfjöllun: Stórfelld fölsun þjóðhagsreikninga - bofs.blog.is


mbl.is Erlent lán dæmt lögmætt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður pistill.

Ég bind auðvitað vonir við það að ný stjórn sem tekur væntanlega við á næsta ári setji af stað rannsókn á þessu máli. 

Hvað Seðlabanka Íslands varðar þá lítur aðkoma hans að þessu óneitanlega skuggalega út. Ef að sá sérstaki fylgir ekki eftir þeim ábendingum sem hann hefur nú þegar fengið um þetta mál (t.d. frá Gunnari Tómassyni) þá hefði ég kosið að hann skýrði það út hvernig hann mögulega getur komist að þeirri niðurstöðu að þarna hafi ekkert misjafnt átt sér stað.

Seiken (IP-tala skráð) 16.6.2012 kl. 16:59

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sérstakur saksóknari er búinn að gefa út niðurstöðu sem lýtur að þeim hluta lánveitinganna sem snýr að neytendahliðinni.

Hagsmunasamtök heimilanna kærðu þá niðurstöðu nú í vor.

Ríkissaksóknari vísaði þeirri kæru frá fyrr í þessum mánuði.

Hvorugur taldi ólöglegu lánveitingarnar fela í sér saknæmt athæfi.

Enginn talar um kerfishliðina á athæfinu, sem er stærsti glæpurinn.

Fölsun gjaldmiðils annars ríkis er almennt álitin mjög óvinveitt aðgerð.

Miðað við afleiðingarnar sem þetta hafði í för með sér er alls ekkert fjarstæðukennt að kalla það landráð, heldur er það nákvæmlega samkvæmt skilgreiningu hugtaksins, þegar eitthvað er gert sem er til þess fallið að orsaka milliríkjadeilu og aðförað hagsmunum íslenska ríkisins.

Meðal afleiðinganna var sú að gullforði heillar þjóðar gerður upptækur með pennastriki, og í fyrsta skipti í mannkynssögunni án blóðsúthellinga.

Guðmundur Ásgeirsson, 16.6.2012 kl. 18:17

3 identicon

Ég geri mér grein fyrir að neytendur eru utan áhugasviðs sérstaks saksóknara.  Öll hans svör við umleitunum eru þess eðlis að hann vill augljóslega enga truflun frá einstaklingum í sínum störfum.

Ég velti því fyrir mér hvort að það sé einmitt vegna þess að hann sé að skoða stóra samsærismálið eða hvort að hann ætlar bara að ná mönnum á smáhlutunum. Í því samhengi þá heftaði ég mig við að hann bætti við sig miklum mannskap þegar hann fékk rannsóknarskýrslu alþingis í hendurnar. Ég man eftir því að hafa skilið eftir mig athugasemd á eyjunni á þeim tíma um stærðargráðan á fjölgun starfsmanna benti til þess að maðurinn væri að fara að rannsaka hrun bankanna sem skipulagða atlögu að efnahagskerfi landsins.  Það þarf ekki 100-200 manns til þess að koma Exeter liðinu á bak við lás og slá en kannski þarf bara allt þetta lið til þess að fara í öll þessi afmörkuðu mál.  Ég veit það svo sem ekki. 

Og svarið er klárlega já.  Ef það er rétt að gerð hafi verið þessi atlaga að þjóðinni þá eru það hrein landráð.  Mér er alveg sama þó að menn í SÍ hafi talið sig vera að bjarga málunum með þessari vitleysu. Ef þeir hafa tekið þátt í þessu þá þýðir það bara 16 ár á vatni og brauði í mínum heimi.

Seiken (IP-tala skráð) 16.6.2012 kl. 20:23

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ég sá nýlega myndrit sem sýnir glögglega hvernig raunveruleg erlend staða byrjaði að hrynja um áramótin 2006-2007 þegar svokölluð "mini-krísa" reið yfir og gengi krónunnar byrjaði að gefa eftir. Um vorið hefðu þeir líklega verið farnir á hausinn, ef reglum um útreikning eiginfjárgrunns þeirra hefði ekki verið breytt í mars og slakað á þeim, auk þess sem bankarnir réðust í stórfellda innlánasöfnun á erlendri grundu til að afla lausafjár svo standa mætti í skilum með þær erlendu skuldbindingar sem voru að falla á gjalddaga. Í kjölfarið varð stóraukning á veitingu gengistryggðra lána og verðbólga fór á skrið fyrir alvöru, enda var þetta ígildi mikillar innlendrar peningaprentunar.

Á þessum tíma gat nánast hver sem er labbað inn af götunni og fengið bíl eða hús án innborgunar, vegna þess að þá voru bankarnir í fullkominni örvæntingu að reyna allt sem þeir gátu til þess að koma áhættunni yfir á næsta mann, það er að segja mig og þig. Þessi svikamylla gekk í nokkra mánuði þar til heimili lántakenda voru orðin yfirveðsett og kostnaðarhækkanir voru byrjaðar að hrinda þeim í 90 daga vanskil með tilheyrandi lækkunaráhrifum á gæði lánasafna bankanna. Á miðju ári 2008 féll eiginfjárgrunnurinn einfaldlega saman eins og misheppnað súkkuklaðifrauð og þrátt fyrir 20 stunda vinnudag í september við árshlutauppgjör þriðja ársfjórðungs tókst stjórnendum bankanna hreinlega hvorki að finna fleiri svikaholur né bókhaldsbrellur.

Meira og minna allt sem var falsað á þessu tímabili varð á endanum að tapi.

P.S. Þetta með 20 stunda vinnudagana hef ég eftir traustum heimildum.

Guðmundur Ásgeirsson, 16.6.2012 kl. 21:50

5 identicon

Já ég hef lengi lýst eftir yfirliti sem sýnir umfang á gengistryggðum útlánum sem fall af tíma.  Það blasir við að það varð gríðarleg aukning í þeim á árunum 2006 og 2007.  Ábending Gunnars Tómassonar til sérstaks saksóknara snýr einmitt að því að bankarnir hafi meðvitað verið að koma vanda bankakerfisins yfir á almenna lántakendur með því að ljúga því að krónur væru erlendur gjaldeyrir eftir mínikrísuna.

Lánin voru ekki keyrð í gegnum reiknistofu bankana eftir því sem ég best veit og þegar þau voru gefin út þá var stofnaður sérstakur innlánsreikningur sem upphæðin var "lögð inn á". Sú innistæða var þá væntanlega bara hreinn tilbúningur ef ég hef skilið það rétt hvernig peningar myndast í nútíma bankakerfum.

Ég held ég leyfi mér að vitna í Nigel Farage frá því fyrr í vikunni; "You couldn´t make it up, could you!"  Þetta er einfaldlega lyginni líkast. 

Seiken (IP-tala skráð) 16.6.2012 kl. 22:12

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þú hefur skilið það jafn "rétt" og hver annar hvernig þetta á sér stað, þar með talið svokallaðir sérfræðingar. Í hagfræðibókum stendur yfirleitt mjög lítið um hvernig peningar eru búnir til og ef það er þá má auðveldlega finna margar mismunandi útskýringar á því sem ber engan veginn saman.

En niðurstaðan sem kemur út úr því er samt alltaf sú sama eins og hún lítur út á efnahagsreikningi bankans. Hann endar uppi með fullt af "gengistryggðum eignum" (krónulán til innlendra aðila) á annar hlið efnahagsreikningsíns. Á móti því á hinni hliðinni er hann svo með alvöru erlendar skuldir vegna lána sem hann hefur tekið hjá erlendum bönkum og sjóðum.

Spurning er einfaldlega þessi: Hvað varð um alvöru gjaldeyrinn sem hann fékk lánaðan erlendis en var aldrei lánaður út úr bankanum? Eitthvað hlýtur hann að hafa farið, og það er ekki nema tæmandi fjöldi löglegra leiða til þess að taka fjármuni út úr banka. Spurning hvort þeir hafi kannski bara labbað í rólegheitum með hann út um bakdyrnar í ferðatöskum upp í einkaþoturnar sínar og beina leið úr landi, það væri svosem eftir öllu...

P.S. Yfirlitið sem þú auglýsir eftir er hugsanlega til hjá seðlabankanum.

Guðmundur Ásgeirsson, 17.6.2012 kl. 01:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband