Skýrt brot á fjölmiðlalögum

Fregnast hefur að Stöð 2 hyggist halda umræðufund í Hörpu næstkomandi sunnudagskvöld í tilefni komandi forsetakosninga. Það merkilega er þó sú ákvörðun dagskrárvaldshafa stöðvarinnar að einskorða fundarboð við aðeins tvo frambjóðendur en undanskilja um leið hina fjóra (fimm ef framboð Ástþórs Magnússonar fær vottun).

Vandséð er að þetta fái staðist ákvæði laga um fjölmiðla nr. 38/2011 þar sem segir til dæmis í 26. gr. og veitið nú sérstaka athygli heiti greinarinnar:

26. gr. Lýðræðislegar grundvallarreglur.
Fjölmiðlaveita skal í starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og standa vörð um tjáningarfrelsi. Hún skal virða mannréttindi og jafnrétti auk þess að hafa í huga friðhelgi einkalífs. Fjölmiðlaveita skal gæta þess að uppfylla kröfur um hlutlægni og nákvæmni í umfjöllun sinni um fréttir og fréttatengt efni og gæta þess að mismunandi sjónarmið komi fram, jafnt karla sem kvenna.

Í kvöldfréttum sömu fjölmiðlaveitu núna áðan var því haldið fram í upphafi fréttar að fylgi stærsta stjórnarandstöðuflokksins mældist yfir 40% þegar staðreyndin var nær því að 25% aðspurðra í umræddri könnun hafi lýst yfir stuðningi við þann flokk. Á þessu tvennu er ekki bara magnmunur, heldur líka stigsmunur því yfir 40% fylgi teldist mikið fyrir hvaða flokk sem væri, en 25% er hinsvegar undir sögulegu meðaltali fyrir þann flokk sem hér á í hlut.

Skuli sögulega stærsti stjórnmálaflokkur landsins mælast með dálítið meira fylgi í stjórnarandstöðu en óvinsælasta ríkisstjórn lýðveldistímans, er það einfaldlega engin sérstök frétt. Fréttastofan ákvað hinsvegar að segja ekki hina raunverulegu frétt sem var sú hversu afhuga kjósendur eru gömlu stöðnuðu flokkunum, þó morgunljóst væri af tölum sem fram komu í frásögninni.

Það er ljóst að íslenskir fjölmiðlar eða allavega sumir þeirra, hafa lítið sem ekkert lært á mistökum undanfarinna ára, þegar lýðræðislegar grundvallarreglur eru annars vegar.

Það er líka ljóst að íslenskir kjósendur eiga ýmislegt eftir ólært þegar kemur að skynsamlegri ráðstöfun atkvæða, en það er önnur saga.

P.S. Kvartanir um starfsemi fjölmiðla er hægt að senda á postur@fjolmidlanefnd.is. Í meðfylgjandi viðhengi er sýnidæmi um kvörtunarbréf þar sem fram koma þau atriði sem þarf svo að skilyrði þau sem gefin eru upp á vefsíðu nefndarinnar séu uppfyllt.


mbl.is Telur að Stöð 2 fari vill vegar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sko.. þeir sem taka svona ákvörðun þarna á Stöð 2, þeir hljóta að vera stórskrítnir.. þetta er móðgun við alla íslendinga. Ef ég væri með áskrift að stöð 2 þá myndi ég segja henni upp núna

DoctorE (IP-tala skráð) 31.5.2012 kl. 10:21

2 identicon

Að auki, ef Ólafur og Þóra mæta þarna á þennan fund sem þeim eru einum boðið á.. þá eru þau að sýna okkur öllum að réttlæti og jafnrétti er eitthvað sem þeim er nákvæmlega sama um.

Þannig Óli og Þóra; ef þið mætið.. þá vitum við hvert ykkar innra eðli er

DoctorE (IP-tala skráð) 31.5.2012 kl. 13:17

3 identicon

Fylgi flokka (eða hvað annað sem er verið að mæla með skoðanakönnunum) er alltaf eingöngu útfrá þeim sem taka afstöðu og svara í skoðanakönnuninni þar sem það liggur í hlutarins eðli að einungis atkvæði þeirra sem kjósa eru talin.

Af þessum 40% má fyllilega reikna með að stór hluti sé óákveðinn eða hreinlega vilji ekki gefa upp afstöðu sína - það þýðir ekki að hægt sé að túlka svar þeirra eða skort á slíku sem eitthvert uppgjör eða afneitun á gömlu flokkunum. Það er einungis hægt að álykta það sem er vitað, að fólkið hafi ekki svarað, hver sem ástæðan kann að vera fyrir því.

Fylgi við ný framboð mælist alltaf eitthvað fyrst eftir að þau koma fram og síðan er það spurning hversu langt er til kosninga hvort þau ná að halda einhverju af því fylgi. Mig grunar að reynsla flestra sé að verða sú að það er sóun á orku og tíma að kjósa þessi nýju framboð, hversu góð eða slæm sem þau kunna að vera því þau lifa sjaldnast lengur en einar kosningar.

Gulli (IP-tala skráð) 31.5.2012 kl. 14:22

4 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Jafnrétti og réttlæti, fyrir alla (annars er það ekki jafnrétti), er það eina sem raunverulega er hægt að sætta sig við.

Hvaða menntastofnun kennir þann skilyrðislausa sannleika, sem ekki líðst að afbaka og brengla af fölskum stjórnvöldum?

Heitir sú braut kannski siðferðisbraut? Er til einhver slík braut í skólakerfinu? Spyr sú sem ekki veit.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 31.5.2012 kl. 20:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband