Ályktunin ógild? Eða bara ráðgefandi...
25.5.2012 | 15:35
Þingsályktunartillaga um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs, var afgreidd á Alþingi í gær. Við afgreiðslu málsins á þingfundi var uppi sú sérstaka staða að þingkonan Jóhanna Sigurðardóttir var forfölluð og sat varamaður hennar Baldur Þórhallsson því fundinn og greiddi atkvæði um málið í hennar stað. Samtímis sat forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, blessunarlega forfallalaus í ráðherrasæti sínu.
Sem einum af vinnuveitendum og launagreiðendum bæði þingmanna og ráðherra þá verð ég samt að segja að mér þykir þetta ekki alveg viðunandi framkoma. Ég veit ekki til þess að almennt teljist í lagi að láta sjá sig nærri vinnustað hafi maður sleppt vinnu vegna forfalla. Þar sem Alþingi er reyndar enginn venjulegur vinnustaður þá gilda þar sérreglur, en við skulum einmitt athuga hvað lög um þingsköp segja um tilvik sem þessi:
60. gr. 1. mgr.: Skylt er þingmönnum að sækja alla þingfundi nema nauðsyn banni. Forföll skal tilkynna forseta svo fljótt sem unnt er og metur hann nauðsynina. Ákvæði þessarar málsgreinar gilda þó ekki um fyrirspurnafundi.
60. gr. 2. mgr.: Ef þingmaður forfallast svo að nauðsyn krefji að varamaður hans taki sæti hans á meðan skal hann tilkynna forseta það bréflega og jafnframt gera grein fyrir í hverju forföllin eru fólgin og hversu lengi þau muni vara. Forseti kynnir þinginu bréfið. Þegar varamaður tekur sæti í forföllum þingmanns skal hann ekki sitja skemur en tvær vikur nema þingið hafi áður verið rofið eða því frestað. Þingmaður nýtur ekki þingfararkaups meðan varamaður hans situr á þingi nema fjarvist sé vegna veikinda eða þingmaður sé fjarverandi í opinberum erindum.
71. gr. 2. mgr.: Skylt er þingmanni að vera viðstaddur og taka þátt í atkvæðagreiðslu nema hann hafi lögmæt forföll eða fararleyfi.
Það væri afar forvitnilegt að fá að vita hvað stendur í bréfinu sem þingkonan Jóhanna Sigurðardóttir hlýtur að hafa sent þingforseta þar sem hún gerir grein fyrir því í hverju forföll sín felist, og jafnframt hvers vegna það ástand sem um ræðir eigi ekki að sama skapi við ráðherrann Jóhönnu Sigurðardóttur.
Einnig væri gagnlegt að fá það staðfest frá skrifstofu Alþingis hvort Jóhanna hafi fengið eða muni fá greitt þingfararkaup fyrir þáttöku sína í þingstörfum þennan dag, en eins og fram kemur á vef Alþingis var hún fyrsti ræðumaður á mælendaskrá þessa dagskrárliðar fundarins og tók til máls klukkan 11:07. Á meðfylgjandi upptöku úr þingsal má sjá ráðherrann Jóhönnu enn sitjandi í sæti sínu eftir að atkvæðagreiðslur um breytingartillögur voru hafnar klukkan 13:08, um leið og varamaður þingkonunnar Jóhönnu gerir grein fyrir atkvæði sínu með breytingartillögu nefndarmeirihluta.
Á upptöku úr þingsal sést svo Jóhanna pakka saman skjölum sínum, standa upp og yfirgefa þingsalinn klukkan 13:25 að loknu máli þingmannsins Péturs Blöndal. Endanleg atkvæðagreiðsla um þingsályktunina með samþykktum breytingum fór loks fram tæpri klukkustund síðar að Jóhönnu fjarverandi, bæði þingkonu og forsætisráðherra.
Það verður spennandi að sjá núna hversu langt eða skammt mun líða þar til lögspekingar úr röðum andstæðinga ríkisstjórnarinnar byrja að véfengja lögmæti ályktunarinnar. Þess er skemmst að minnast þegar það var gert við kosningarnar til stjórnlagaþings sem enduðu með því að verða ógiltar í Hæstarétti svo skipun ráðgefandi stjórnlagaráðs á grundvelli skoðanakönnunar varð að þrautalendingu.
Það má auðvitað reyna að halda því fram að það skipti engu máli hvort atkvæðagreiðslan á Alþingi í gær sé lagalega bindandi þar sem þingið eigi hvort sem er aðeins að vera ráðgefandi í málinu, enda var ekki verið að ákveða neitt nema að ráðast í gerð enn einnar ráðgefandi skoðanakönnunar. Þá kemur sér auðvitað vel að varamaðurinn sem um ræðir skuli vera stjórnmálafræðingur og ætti því að hafa þetta allt á hreinu.
Ég held samt í sannleika sagt að þau þurfi á annarsskonar ráðgjöf að halda!
Alvarleg mistök að gefa Jóhönnu orðið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Spaugilegt | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:42 | Facebook
Athugasemdir
Guðmundur - Þetta er mjög góð greinagerð hjá þér - hver ætti að fá hana í hendur sem kvörtun - það þarf að koma þessu þangað sem eitthvað er gert með málið.
Benedikta E, 25.5.2012 kl. 21:45
Benedikta, svo ég vitni í sjálfan mig:
"Það verður spennandi að sjá núna hversu langt eða skammt mun líða þar til lögspekingar úr röðum andstæðinga ríkisstjórnarinnar byrja að véfengja lögmæti ályktunarinnar. Þess er skemmst að minnast þegar það var gert við kosningarnar til stjórnlagaþings sem enduðu með því að verða ógiltar í Hæstarétti"
Gættu þess svo bara að taka ekki þátt í ólöglegri þjóðaratkvæðagreiðslu.
Guðmundur Ásgeirsson, 26.5.2012 kl. 12:35
Þetta er það sem menn vissu og óttuðust. Þetta er ástæðan fyrir því að fólk fær ekki að kjósa.
Jón Steinar Ragnarsson, 26.5.2012 kl. 15:34
Sæll Mummi,
ef við gerum svolítið grín þá er Jóhanna orðin eitt af húsgögnunum á Alþingi og forseti tók bara ekki eftir því að hún væri á staðnum.
Segðu mér annars, ef Jóhanna brýtur vinnulöggjöf og þiggur laun samtímis og varamaður þiggur laun gerir það öll störf í þingsalnum ólögleg, eða er ég að misskilja þig.
Gunnar Skúli Ármannsson, 28.5.2012 kl. 19:36
Nei, það gerir varamanninn ólögmætan, þar sem engin raunveruleg forföll var um að ræða af hálfu þingkonunnar / ráðherrans. Og þar sem það var hann sem greiddi atkvæði fyrir hönd Jóhönnu, þrátt fyrir að hún væri viðstödd, þá var í það minnsta það atkvæði ógilt burtséð frá öðrum.
Þar sem þau voru hinsvegar bæði á mælendaskrá í sama málinu á sama fundi, og þingmeirihlutinn þannig manni fleiri en eðlilegt geti talist á þeim tiltekna fundi, mætti jafnvel álíta það forsendu til ónýtingar málsins í heild út kjörtímabilið sökum vanhæfis þingsins þar til kosið hefur verið á ný.
Svipað og sami dómstóll má ekki dæma tvisvar um sama mál og ef í ljós kemur síðar meir að dómarinn var spilltur þá er ekki um annað að ræða en að sleppa manninum úr fangelsi sem þar situr ranglega dæmdur. Honum má ekki halda í fangelsinu þar til annar sökudólgur finnst, bara vegna þess að einhver þurfi að sitja af sér dóminn. Og síst af öllu myndum við treysta sama dómaranum til að rétta yfir öðrum um sama mál. Sama með þingið, ef það getur ekki farið að lögum í einu máli þá er ekki hægt að treysta því í neinu máli og getur því ekki afgreitt það með trúverðugum hætti.
Það er nú þegar til hópur fólks í samfélaginu sem álítur stjórnlagaráð hafa verið umboðslaust og ætlar þar af leiðandi ekki að virða neinar tillögur þaðan. Þessi hópur mun ekki minnka eftir ofangreind afglöp Alþingis við meðferð málsins og undirbúning skoðanakönnunar, heldur þvert á móti stækka. Svo mun auðvitað koma fram klofningshópur líka sem álítur þjóðaratkvæðagreiðsluna sjálfa ólöglega, burtséð frá tillögum stjórnlagaráðsins. Og allskyns samsetningar af þessum graut.
Til hamingju Samfylking. Ykkur er að takast að búa til nýja stjórnarskrá, sem enginn mun heldur virða, frekar en hina fyrri. Það er ákveðið afrek.
Guðmundur Ásgeirsson, 29.5.2012 kl. 07:58
Sæll Mummi,
ég tek undir með þér að þetta atvik á Alþingi með varamann Jóhönnu þarf að rannsaka, það er óþolandi að hafa einhverja óvissu.
Mín afstað til stjórnarskrárinnar er að núverandi þing mun aldrei búa til nýja stjórnaskrá. Það hefur ekki í hyggja að sleppa almenningi neitt nær völdunum. Ef eitthvað er búið til þá er það bara til að styrkja framkvæmdavaldið. Þess vegna finnst mér öll umræða um stjórnaskránna af hinu góða því það heldur málinu vakandi.
Gunnar Skúli Ármannsson, 29.5.2012 kl. 19:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.