Er hagkvæmt að skera grænmeti á iPad?

Að undanförnu hefur sprenghlægileg auglýsing gengið manna á milli í netheimum, þar sem er gert góðlátlegt grín að þeim fulltrúum eldri kynslóða sem ekki hafa náð að tileinka sér allar tækninýjungar samtímans.Í þessu tilviki er það miðaldra pabbi sem hefur fengið algenga tegund spjaldtölvu að gjöf frá dóttur sinni, en sér ekkert notagildi fyrir græjuna annað en að nota hana sem skurðarbretti í eldhúsinu.

Þetta er fyndið vegna þess hversu fáránlegt það er, en ef vel er að gáð þá er þetta kannski eftir allt saman ekki svo galin hugmynd. Vönduð skurðarbretti eru vandfundin í dag innan um ódýrt drasl sem verður strax sundurskorið.

Dýrasti hlutinn á iPad er hinsvegar skjárinn, einmitt vegna þess hve slitsterkur snertiskjár á ferðagræju þarf nauðsynlega að vera. Svo kannski er ekki sá himinn og haf milli gæða og verðs sem ætla mætti?

 

 

 

 

Fyrri týpan kostar 500 kr. hjá IKEA og er eins og áður sagði einnota (eða svo gott sem). Sú seinni kostar 75.000 kr. hjá Epli.is og er öllu vandaðri, býður jafnvel upp á þráðlausa nettengingu. Einfalt reikningsdæmi sýnir að dýrari týpan þarf aðeins að endast í 75.000/500 = 150 skurði til að borga sig. Ég yrði raunverulega hissa ef hún þyldi það ekki þó vissulega yrði skjámyndin sennilega óskýrari með tímanum. *

* Ég mæli samt alls ekki með að dýrara spjaldið fari í uppþvottavélina því þá verður skjárinn alveg óvirkur, leiðbeiningarnar ráðleggja blautan hreinsiklút.

Hérna er komið borðleggjandi markaðssetningarfæri sem engum hefur enn dottið í hug að nýta. Maður getur meira að segja horft á sjónvarpið á skjánum á meðan maður sker grænmetið, bara passa að skera sig ekki í puttana... Jólagjöfin í ár verður auðvitað nýjasti fylgihluturinn: iBand plástur - fyrir örugga tölvunotkun!

Á næsta ári: sérstakur iBlade hnífur með Bluetooth tengingu við aðalgræjuna og forrit fylgir með sem gefur ráðleggingar um betri líkamsbeitingu á meðan þú skerð. ("Vertu beinn í baki og skera en ekki brytja!", heyrist reglulega með nett pirrandi röddu.)

Gleðilega páska.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Áhugaverður samanburður, Gleðilega Páska..

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 7.4.2012 kl. 01:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband