Forsendurbresturinn glóðvolgur

Ég skrifaði nýlega pistil undir heitinu Forsendubrestur verðtryggðra lána útskýrður sem er vonandi nógu lýsandi út af fyrir sig. Í stuttu máli sagt er þar rakið hvernig bankar valda í raun verðbólgu þegar þeir offramleiða peninga eins og var gert í sívaxandi mæli hér á einkavæðingartímabilinu svokallaða fram að hruninu 2008. Í stað þess að endurtaka útskýringuna er einfaldast að sýna þetta með mynd:

Unnið úr talnagögnum frá Seðlabanka Íslands

Eins og sjá má margfölduðu einkavæddir bankarnir allt peningamagn sem hafði verið framleitt frá upphafi peningaútgáfu á Íslandi, og þar með skuldir líka. Þetta er ekki hollt fyrir neitt myntsvæði, hvað þá þegar slíkar hamfarir ganga yfir á minna en áratug. Með örðum orðum og á sem einföldustu máli þá er þetta til að sýna hvernig bankarnir skemmdu krónuna, skemmdu hagkerfið, og skemmdu vísitölutengdu lánin okkar, sem endaði með ósköpum. Þegar talað er um að krónan sé ónýt er það þetta sem átt er við, það voru bankarnir sem eyðilögðu hana, en það hefur ekkert með það að gera hvort krónan sé góð eða slæm heldur mannlega hegðun sem gekk af göflunum.

Nú hefur verið greint frá því að svokallað verðtryggingarmisvægi Landsbankans nemi 129 milljörðum króna sem eru verðtryggðar eignir (lánasöfn) umfram skuldbindingar (innstæður). Það sem þetta þýðir á mannamáli er að við núverandi aðstæður (6,4% verðbólgu) skapar umframhækkun verðtryggðra eigna helminginn af hagnaði bankans eða 8,3 milljarða á ári. Þennan ávinning fékk bankinn algjörlega ókeypis og sama hvort hann tók góðar eða slæmar ákvarðanir í rekstri sínum.

Reyndar væri ekki alveg sanngjarnt að halda því fram að bankinn hafi ekki gert neitt til að vinna fyrir þessum hagnaði. Hann prentaði nefninlega peningana sem eru notaðir sem verðmælir (eða sinn hluta peningamagnsins) og með offramleiðslu þeirra orsakaði hann verðbólgu eins og er útskýrt í áðurnefndum pistli. Þar sem bankar búa til peninga úr engu (nema pappír) og í þessu tilviki þá hækkuðu verðtryggðu eignirnar við það, má í raun halda því fram að bankinn hafi beinlínis búið sér til þennan hagnað úr engu (nema pappír). Óhófleg peningaprentun er eins og áður sagði hræðileg fyrir alla nema þann sem á prentvélina, og í því felst nákvæmlega sá forsendubrestur sem gjarnan er vísað til í tengslum við skuldavanda íslenskra heimila.

Þessir 8,3 milljarðar á ári fara ekki úr vösum heimilanna til sparifjáreigenda eða lífeyrisþega eins og stundum er reynt að telja fólki trú um svo það finni til samúðar með bankanum. Nei þeir fara inn á hagnaðarreikning bankans, sem þýðir að á endanum skila þeir sér í kaupauka eða arðgreiðslur fyrir bankamenn og/eða kröfuhafa. Þessir fjármunir hafa svo tilhneigingu til að klasast í kringum fjármálakerfið án þess að skila sér nokkurntíma í hendur launafólks, en þetta dregur engu að síður upp laun í þeim geira og þar með launvísitöluna þannig að til skamms tíma er hægt er að telja launþegum trú um að þeir hafi það í raun mjög gott þrátt fyrir að það sé alls ekki raunin.

Þannig er ekki bara ein vísitala misnotuð (viljandi eða óviljandi) til að hlunnfara þorra almennings, heldur tvær, eða þrjár ef gengistenging er talin með sem hefur verið dæmd ólögleg, og fjórar ef húsnæðisvísitalan er talin með, því auðvitað er hún ekki ónæm fyrir þeim verðbólguáhrifum sem hér er lýst. Forsendubrestur er skilgreindur þannig að samningur er gerður á ákveðnum forsendum en svo gerir annar samningsaðilin eitthvað sem brýtur þær forsendur og þá telst samningurinn ekki lengur skuldbindandi fyrir hinn samningsaðilann. Þetta gildir þegar samningsaðilar eru jafnsettir, en í neytendarétti er hinsvegar neytandinn skilgreindur í veikari stöðu og þar af leiðandi eru skilyrði forsendubrests enn þrengri gagnvart veitandanum til að jafna samningsstöðu þeirra.

Hér hefur forsendubresturinn verið sundurgreindur, og hann er margfaldur. En það sem meira er, magnsettur með raunverulegum tölum í raunverulegum tilvikum, svo ekki á að vera hægt að vísa honum á bug. Átta komma þrír er ekki núll, og því fyrr sem horfst er í augu við það þeim mun fyrr getum við áttað okkur á því að þeir samningar sem gerðir hafa verið á grundvelli þessara brostnu forsenda, eru einfaldlega ekki skuldbindandi. Að minnsta kosti er það sagt vera þannig í heilbrigðum réttarríkjum.


mbl.is Landsbanki hagnast mikið á verðbólgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Guðmundur.

Ég verð að nota tækifærið og þakka þér fyrir þennan fróðlega pistil.  Þó maður hafi kannski vitað þetta þá er þetta svo lýsandi framsetning hjá þér, hér að ofan og í pistlinum sem þú linkar á.

Og gleymum því aldrei að verðtryggingin er drottning peningaprentunarinnar.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 30.3.2012 kl. 09:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband