Hver bar ábyrgð á tryggingakerfinu?
13.3.2012 | 21:04
Steingrímur J. Sigfússon viðskiptaráðherra bar þess vitni fyrir Landsdómi í dag að honum hafi brugðið þegar hann varð þess áskynja hvernig í pottinn var búið með innlánasöfnun Landsbankans undir vörumerkinu IceSave.
Haft er eftir Steingrími að hann "...vissi að þá var íslenska tryggingakerfið ábyrgt fyrir innistæðunum". Í annan stað er hann sagður hafa rökstutt þessa skoðun sína með því að Icesave-reikningarnir hefðu verið í útibúum bankans en ekki í dótturfélagi og því hafi eftirlits- og tryggingarskylda hvílt á landinu þar sem höfuðstöðvar bankans voru.
Þessi ummæli Steingríms gera lítið annað en vekja upp fleiri spurningar. Hvers vegna er ráðherrann af leggja út af einhverju sem er óumdeilt í málinu? Að það hafi verið hinn íslenski Tryggingasjóður Innstæðueigenda og Fjárfesta (TIF) sem hafði það lögboðna hlutverk að tryggja innstæður í bönkum með höfuðstöðvar á Íslandi.
Steingrímur er ekki að bæta við neinni nýrri þekkingu, heldur þvert á móti kemur hann sér hjá svörum við því sem brennur á flestum er hafa látið sig málið varða: Hvers vegna hann hefur lagt svo mikla áherslu sem raun ber vitni á að gera greiðsluþrot sjálfseignarstofnunar gagnvart erlendum kröfuhöfum vegna einkafjármögnunarvanda, að einhverju sérstöku viðfangsefni íslenska ríkisins?
Vissi af ábyrgð Íslands á Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: IceSave | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Guðmundur: Þetta þykir mér gott að sjá og finnst að menn verði að taka mark á þessu sjónarmiði um sjálfstætt starfandi fyrirtækin Landsbankinn, Kaupþing og Glitnir. Þetta voru ekki ríkisbankar og gjaldþrot þeirra hefði með réttu átt að lenda fyrst á hluthöfum, ekki í íslenskum skattgreiðendum.
Hið félagslega öryggisnet sem kennt er við félagshyggju og velferðarríki, er hugsað til þess að bæta hag þeirra sem eiga undir högg að sækja efnalega. Ekki þá sem vaða í milljörðum og berast á eins og greifar í útlöndum!
Flosi Kristjánsson, 13.3.2012 kl. 21:20
gjaldþrot þeirra hefði með réttu átt að lenda fyrst á hluthöfum, ekki í íslenskum skattgreiðendum
Það gerði það. Sem betur fer. Og Ísland er frægt fyrir það um allan heim!
Guðmundur Ásgeirsson, 13.3.2012 kl. 21:36
Guðmundur. Steingrímur J. Sigfússon ber alla vega enga ábyrgð, eða hvað?
Svari hver fyrir sig.
Ég veit hvað mér finnst, en mín skoðun passar kannski ekki fyrir alla mis-jafnrétta íslendinga, sem gefa sig út fyrir réttlæti í mörg ár opinberlega, og snúast svo eins og vindhani, eftir því hvernig peningapyngjan blekkir þá.
Manni ofbýður slíkt svo mikið, að maður verður orðlaus!
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 13.3.2012 kl. 23:02
Ég verð að viðurkenna að ég vissi ekki að Steingrímur væri svona heimskur, eins og ummæli hans benda til. Nú verð ég að lesa hvað hann sagði við Rannsóknarnefnd Alþingis. Getur nokkur alvöru maður verið svona fullkomlega ruglaður ?
Samstaða þjóðar, 13.3.2012 kl. 23:49
Ekki aðeins Tryggingasjóður innstæðueigenda og fjárfesta bar ábyrgð á Icesave-innistæðunum, heldur einnig brezki tryggingasjóðurinn og sá hollenzki (sem var hýstur hjá seðlabanka Hollands). Svo mikið ætti Loftur Þorsteinsson að hafa kynnt fyrir okkur öllum.
Jón Valur Jensson, 14.3.2012 kl. 01:47
HVað meinarðu með "greiðsluþrot sjálfseignarstofnunar" ?
Varð TIF greiðsluþrota? Ég minnist þess ekki að hafa heyrt það. Borgaði TIF út eina einustu krónu (eða Evru eða Pund) í bankahruninu?
Reglur gera ráð fyrir því að ef TIF geti ekki greitt út tryggingar, þá geti sjóðurinn tekið lán. Reyndi á það? Var því nokkurn tímann VELT UPP hvort TIF gæti fengið lán hjá ríki/Seðlabanka, ef um það væri beðið?
Ég held ekki.
Einar Karl, 14.3.2012 kl. 10:33
,,Hver bar ábyrgð á tryggingakerfinu?"
Svar: Ísland.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 14.3.2012 kl. 11:12
Einar Karl: þá geti sjóðurinn tekið lán. Reyndi á það?
Bretar og Hollendingar komu í veg fyrir að á það reyndi, með því að kaupa kröfurnar af innstæðueigendum (veittu TIF í raun óumbeðið lán), og frömdu þannig sjálfir brot á tilskipun um innstæðutryggingar með því að grípa inn í eðlilega slitameðferð og útborgun. En þannig er ekki heldur um að ræða að brotið hafi verið á neinum einasta innstæðueiganda, þeir fengu sína peninga strax. Bretar komu líka í veg fyrir að á það reyndi hvort eðlileg slitameðferð hefði skilað ámóta niðurstöðu, þegar þeir beittu hryðjuverkalöggjöf og haldlögðu eignir íslenska ríkisins, Landsbankans og Kaupþings Singer & Friedlander. Þar brutu þeir gegn grunnstoð EES-samningsins um frjálst flæði fjármagns.
Ómar Bjarki: Ísland
Ef það er að þínu mati ótvírætt að svo sé, ættirðu ekki að eiga í neinum vandræðum með að sýna okkur hvar það stendur í íslenskum lögum að sjálfseignarstofnunin TIF skuli njóta ríkisábyrgðar. Teljirðu það skora ég einfaldlega á þig að rökstyðja þá kenningu með tilvitnun í þau lög sem kveða á um slíka ábyrgð.
Í þessi 2-3 ár sem þú hefur verið að tjá þig um þetta hefurðu aldrei nokkurntímann sýnt fram á þetta sem þú heldur fram. Sem er reyndar mjög miður því ef fram kæmi sannfærandi rökstuðningur væri það stórfrétt um alla Evrópu. Að ríkissjóðir álfunnar væru ábyrgir fyrir hærri fjárhæðum en þeir gætu staðið undir, og hafi vanrækt að færa það til bókar í ríkisreikningum sínum.
Það yrði sko fjör á evrusvæðinu ef þetta væri málið, og þú mættir gjarnan eiga heiðurinn af uppgötvuninni óskiptan Ómar Bjarki.
Guðmundur Ásgeirsson, 14.3.2012 kl. 12:12
Góður pistill hjá þér og orð að sönnu. Það er alveg ömurlegt að horfa uppá þennan skrípaleik í boði helferðarstjórnarinnar, þegar sökudólgarnir bera vitni gegn þeim sem saklausastur er og komið hefur í ljós að bjargaði hagkerfinu frá hruni. Svo er alveg merkilegt hvað þessi Ómar er búin að vera duglegur í þessi ár að koma með "upphrópanir" á síðum margra og aldrei geta rökstutt eitt né neitt nema þá að bulla sig út úr vitleysunni.
Sigurður Kristján Hjaltested (IP-tala skráð) 14.3.2012 kl. 16:09
Tryggingarkerfið á Íslandi hafði fengið fína einkunn hjá bæði OECD og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, þannig að ekki brást íslenzka ríkið í því efni, enda segir Sveinn Valfells í sinni frábæru grein* um málið í Mbl. í dag: "Fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis að innistæðutryggingakerfi á Íslandi var með svipuðum hætti og í mörgum öðrum Evrópulöndum, jafnvel betra en í sumum."
Ómar Bjarki getur því beint gagnrýni að sínu heittelskaða Evrópusambandi í stað þess að vera sífellt í þessari aumu Bretaþjónkun sinni** í málum sem snerta Ísland.
* Sveinn Valfells, eðlisfræðingur og hagfræðingur: Icesave og traust Alþingis, Mbl. 14.3. 2012, hægra megin í leiðaraopnu blaðsins (sjá einnig HÉR!).
** Eru þessi endalausu niðurrifsskrif þín kannski vel borguð, Ómar Bjarki? Eða á hverju lifirðu þarna í utanverðum Seyðisfirði? Á Eyjuskrifum?
ÞJÓÐARHEIÐUR - SAMTÖK GEGN ICESAVE, 14.3.2012 kl. 16:50
Obbs, þetta átti að vera skrifað í MÍNU NAFNI.
Jón Valur Jensson, 14.3.2012 kl. 16:52
Grein Sveins er hægt að lesa hér:
Icesave og traust Alþingis - Steingrím J. Sigfússon fyrir Landsdóm
Loftur Altice Þorsteinsson.
Samstaða þjóðar, 14.3.2012 kl. 17:33
,,Ef það er að þínu mati ótvírætt að svo sé, ættirðu ekki að eiga í neinum vandræðum með að sýna okkur hvar það stendur í íslenskum lögum að sjálfseignarstofnunin TIF skuli njóta ríkisábyrgðar."
það er beisikklí irrelevant að þvarga eilíflega um ,,ríkisábyrgð á TIf". Á ekki að hugsa þetta þannig. Á aðhugsa þetta á þann hátt að Ísland skuldbatt sig í gegnum milliríkjasamning að innstæður væru tryggðar samkv. ákveðnu lágmarki. Um er að ræða sameiginlegan samning á EES Svæðinu.
Samkvæmt Evrópu laga og regluverki er Ísland skuldbundið til að sjá svo um að nefnt lágmark sé greitt í samræmi við þar til gert dírektíf og innan þess tímaramma sem dírektífið kveður á um. það er no way að komast hjá því.
Með aðild að EES Samning verður Evrópu laga og regluverk hlti að íslensku aga og regluverki.
Núna er mál ykkar komið fyrir Efta dómsstólinn. Mér finnst upplegg ykkar afar veikt fyrir dómsstólnum. Afar veikt. Samt fenguð þið mnn að bresku bergi brotnu til að leiða ykkur fram fyrir dómsstólinn.
Eg er mest forviða yfir snúningi ykkar á Frankóvítsdóminum sem þið setjið fram í ykkar vörnum. það er í raun það eina nýja í vörnum ykkar. Öllum öðrum atriðum hefur ESA marghafnað með skynsamlegum rökum og tilvísun í laga og regluverk.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 14.3.2012 kl. 18:20
Nei það er ekkert í tilskipuninni sem segir að ríkið eigi að ábyrgjast greiðslu innstæðutryggingar, heldur að innstæðutryggingakerfið eigi að gera það. Svo einfalt er það, það var TIF sem bar ábyrgð á því að greiða þetta, samkvæmt tilskipuninni, en þar er ekkert sem segir að því fylgi einhvern bakábyrgð af hálfu ríkisins. Íslensk lög eru ennþá skýrari hvað þetta varðar, með því að kveða sérstaklega á um að sjóðurinn sé sjálfseignarstofnun, og Ríkisendurskoðun hefur gefið út álit um að þar með sé engin ríkisábyrgð fyrir hendi. Ég er ekki að skálda þetta upp heldur eru þetta staðreyndir.
Guðmundur Ásgeirsson, 15.3.2012 kl. 18:25
Meira að segja ríkisstjórnin er farin að segja þetta sama í svari til EFTA-dómstólsins og Árni Páll Árnason ráðherra á undan henni.
Ómar Bjarki Kristjánsson er jafn-andíslenzkur í Icesave-predikunum sínum eins og texti hans, málfræðilega séð, í 2. klausunni í þessu innleggi hans í gær kl. 18.20. Ómar á metið í mínum huga í ljótum enskuslettum.
Jón Valur Jensson, 15.3.2012 kl. 20:40
Öllum í ESB er ljóst að engin ríkisábyrgð er á innistæðutryggingum. Það var þess vegna sem mörg ríki ESB sóttu um til Framkvæmdastjórnarinnar að fá leyfi til að veita ríkisábyrgð. Þessi staðreynd hefði mátt vera greinilegri í málsvörn Íslands. Þar vantaði nokkur önnur atriði, sem hefðu átt að koma fram. Hvers vegna er ekki öllum rökum telft fram ???
Samstaða þjóðar, 15.3.2012 kl. 20:59
Gott hjá Samstöðu þjóðar!
Jón Valur Jensson, 17.3.2012 kl. 02:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.