Forstjóri FME kærður fyrir brot á bankaleynd!

Stjórn Fjármálaeftirlitsins hefur sagt forstjóra stofnunarinnar upp störfum. Í yfirlýsingu stjórnarinnar segir meðal annars: "...að í gær bárust stjórn FME ábendingar um Gunnar kynni að hafa brotið af sér í starfi með því að afla sér trúnaðarupplýsinga úr bankakerfinu með ólögmætum hætti. Stjórn FME kærði málið til lögreglu í morgun og Gunnar hætti störfum þegar í stað."

Það er svo sem stórfrétt að sjálfur forstjóri Fjármálaeftirlitsins verið kærður fyrir brot á einhverjum helgustu véum sem stofnuninni er ætlað að standa vörð um: það er að segja leynd innherja- og trúnaðarupplýsinga (bankaleynd). Fréttastofa Ríkisútvarpsins kveðst hafa heimildir fyrir því að um sé að ræða gögn um tiltekin viðskipti þingmannsins Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, sem starfsmaður Landsbankans hafi fært Gunnari á heimili hans í fyrradag. Hvaðan fréttastofan hefur þessar heimildir fylgir ekki sögunni, en í það minnsta staðfestir lögregla að mál af þessu tagi sé í rannsókn.

Hinsvegar finnst mér tilefni til að vekja máls á nokkru sem farið hefur fyrir ofan garð og neðan í þessari umræðu. Það er aðild Gunnars ásamt Arnóri Sighvatssyni aðstoðar-seðlabankastjóra og eins þriggja stjórnarmanna Fjármálaeftirlitsins að útgáfu tilmæla þann 30. júní 2010 þar sem því var beint til fjármálafyrirtækja að hlunnfara íslenska lögaðila um fjárhæð sem Gunnar játar í inngangi sínum að ársskýrslu FME 2011 að nemi allt að 350 milljörðum króna. Gjörningar þessir sem þeir kumpánar hvöttu til og beinlínis þrýstu á um, komst hæstiréttur að þeirri niðurstöðu í máli 600/2011 þann 15. febrúar síðastliðinn að væru ólöglegir og fælu meðal annars í sér stjórnarskrárbrot.

Brotastarfsemin stendur ennþá yfir eins og ekkert hafi í skorist, en til þess að setja fjárhæðina sem um ræðir í samhengi, þá jafngilda 350 milljarðar:

  • Liðlega 70% prósent af ársveltu ríkissjóðs
  • Um 22% af vergri landsframleiðslu (VLF)
  • Eða um 22% af öllu peningamagni í umferð
  • Rúmlega fjórðung af öllum IceSave innstæðukröfum
  • Meira en milljón á hvert einasta mannsbarn á Íslandi

Enn á eftir að reyna á skaðabótaskyldu sem útgáfa tilmælanna kann að hafa skapað ríkissjóði gagnvart neytendum, sem áttu allan tímann betri rétt og skýlausa kröfu samkvæmt lögum um neytendalán um að allur vafi sem upp kæmi væri túlkaður þeim í hag, en svo var ekki gert.

Við skulum halda því til haga að sú stjórn sem er nú að segja Gunnari upp störfum er ekki laus ábyrgðar á þessu, þriðjungur stjórnarmanna (Arnór) er vottfastur beinn þáttakandi og aðrir stjórnarmenn kunna að bera ábyrgð enda hljóti þeir að hafa verið meðvitaðir um atburðarásina en kosið að aðhafast ekkert til að afstýra þessu stórfellda tjóni á fjárhagslegum hagsmunum íslenska ríkisins. Slíkum brotum er tekið á í eftirfarandi greinum almennra hegningarlaga.

22. gr. Hver sá maður, sem með liðsinni í orði eða verki, fortölum, hvatningum eða á annan hátt á þátt í því, að brot samkvæmt lögum þessum er framið, skal sæta þeirri refsingu, sem við brotinu er lögð.

121. gr. Hver, sem opinberlega hvetur menn til refsiverðra verka, skal sæta fangelsi allt að 2 árum, eða sektum, ef málsbætur eru, nema brot hans varði þyngri refsingu að lögum.

138. gr. Nú hefur opinber starfsmaður gerst sekur um refsilagabrot með verknaði, sem telja verður misnotkun á stöðu hans, og við því broti er ekki lögð sérstök refsing sem broti í embætti eða sýslan, þá skal hann sæta þeirri refsingu, sem við því broti liggur, en þó svo aukinni, að bætt sé við hana allt að helmingi hennar.

139. gr. Hafi opinber starfsmaður, í öðrum tilfellum en lýst er hér að framan, misnotað stöðu sína sér eða öðrum til ávinnings eða til þess að gera nokkuð það, sem hallar réttindum einstakra manna eða hins opinbera, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

175. gr. a. Sá er sammælist við annan mann um að fremja verknað sem varðar að minnsta kosti 4 ára fangelsi og framkvæmd hans er liður í starfsemi skipulagðra brotasamtaka skal sæta fangelsi allt að 4 árum, nema brot hans varði þyngri refsingu samkvæmt öðrum ákvæðum laga þessara eða öðrum lögum.
Með skipulögðum brotasamtökum er átt við félagsskap þriggja eða fleiri manna sem hefur það að meginmarkmiði, beint eða óbeint í ávinningsskyni, að fremja með skipulegum hætti refsiverðan verknað sem varðar að minnsta kosti 4 ára fangelsi, eða þegar verulegur þáttur í starfseminni felst í því að fremja slíkan verknað.

Þetta er ekki tæmandi upptalning á því sem mögulega kann að eiga við, en það er að sjálfsögðu úrlausnarefni fyrir rannsakendur, saksóknara, og dómstóla. Fjölmiðlar hafa hinsvegar á einhvern undarlegan hátt ákveðið að hunsa þetta sem líklega er stærsta efnahagsbrot lýðveldistímans.


mbl.is Gunnar kærður til lögreglu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Mér finnst þú Guðmundur gera of mikið úr ábyrgð sem þú telur Gunnar beri.

Tilmæli Fjármálaeftirlitisins 30.6.2010 eru byggð á meðalhófsreglu þar sem lagt er upp úr að reikna lægstu vexti. Hvað finnst þér vera að því?

Í ársskýrslu Fjármálaeftirlitisins 2010 (þú nefnir 2001 sem er væntanlega ásláttarvilla) eða orðrétt:  Gunnar játar í inngangi sínum að ársskýrslu FME 2001 að nemi allt að 350 milljörðum króna. Gjörningar þessir sem þeir kumpánar hvöttu til ....

Í þessu fullyrðir þú að Gunni „játi“ e-ð sem er rangt. Hins vegar væri rétta orðið að Gunnar hafi bent á, eða vakið athygli á þessari staðreynd.

Að nota orðið „kumpánar“ ertu að ýja að einhverju sem kann að varða við lög. Af hverju ekki að nota orðið „samstarfsmenn“ eða í e-ð í þá áttina þar sem ekki kemur fram huglægt mat þitt.

Að vísa í tilteknar hegningarlagagreinar átta eg mig ekki á tilgangi þínum enda eiga þær vafalaust ekki við í þessu máli.

Hér ertu að hagræða staðreyndum sem ekki er gott.

Vinsamlegast

Guðjón Sigþór Jensson, 1.3.2012 kl. 14:57

2 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Hvað með Ríkisstjórnina, á ekki að senda inn kæru á hana líka. Ég man ekki betur en að Gylfi Magnússon hafi lagt þetta til þegar hann var ráðherra.

Á ekki að gæta jafnræðis eða á eingöngu að hengja einn.

Eggert Guðmundsson, 1.3.2012 kl. 15:29

3 identicon

Ríkisstjórnin er búin að gefa tóninn hún verður dregin fyrir landsdóm á pólitískum forsendum eins og þessir kommúnistar eru að gera við Geir Haarde. Gs

Guuðlaugur (IP-tala skráð) 1.3.2012 kl. 15:52

4 identicon

Þetta mál er stöðugt að gerast athyglisverðara, sérstaklega hvað varðar sjálfstæðismenn.  Svo mætti halda að það séu einmitt sjálfstæðismenn sem halda í taumana á stjórnarformönnum fjármálaeftirlitsins.

Nýjustu fréttir herma að Gunnar var í því að rannsaka Guðlaug Þór Þórðarson, og Guðlaugur segist koma af fjöllum um þetta mál :)

J.

Jonsi (IP-tala skráð) 1.3.2012 kl. 20:46

5 identicon

Sammála þér Guðmundur Ásgeirs.  Það þarf ekki að gráta brottför þessa manns úr embætti. Hann tók þátt í árás stjórnvalda á heimili landsmanna.

Fréttir dagsins um ríkisábyrgð á lánasafni Dróma eru stórtíðindi. Þá er væntanlega komin skýring á því af hverju stjórnkerfið fór á taugum yfir fyrsta gengislána dómnum og reyndi í framhaldinu, að koma þeim skilboðum til Hæstaréttar hvaða vexti væri æskilegt að fá á þessi lán.

Seiken (IP-tala skráð) 1.3.2012 kl. 20:58

6 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Guðmundur. Hvaða mál eru komin til sérstaks saksóknara? Hvers vegna þessi ótti og viðbrögð allt í einu núna? Það þarf að setja hlutina i samhengi, og muna eftir því að stórhættuleg mafía hefur stjórnað Íslandi í fleiri ár en þú hefur lifað.

Uppgjörið verður ekki réttlátt, ef horft er framhjá stærsta kúgaranum, sem eru íslenskir háttsettir hvítflibba-dópsalar, sem hafa plantað sér í alla flokka.

Sannleikurinn ratar upp á yfirborðið að lokum, sama hvað hver reynir að þagga hann niður.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 1.3.2012 kl. 22:19

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Guðjón Sigþór, ég hagræði engu, heldur þvert á móti vísa ég til heimilda fyrir öllu sem hér kemur fram sem ekki eru beinlínis persónulegar skoðanir.

Tilmæli Fjármálaeftirlitisins 30.6.2010 eru byggð á meðalhófsreglu þar sem lagt er upp úr að reikna lægstu vexti. Hvað finnst þér vera að því?

Því er auðsvarað. Meðalhófsregla gildir ekki um neytendalán, heldur tilskipanir sem hafa verið innleiddar í 36. gr. samningalaga og með lögum um neytendalán. Samkvæmt þeim ber að túlka allan vafa um lögmæti samningsákvæða í hag, ekki samkvæmt meðalhófi heldur til hins ítrasta, geri viðskiptavinurinn kröfu um það eins og hann hefur skýlausan rétt á eftir að á honum hefur verið brotið.

Ég hvet þig til að lesa þessi lög og tilskipanir um neytendasamninga. Sem sérlög skilgreina þau ákveðin réttindi sem ganga framar almennum lögum um vexti, verðtryggingu og samninga í þeim tilvikum þegar um er að ræða neytendalán.

Guðmundur Ásgeirsson, 1.3.2012 kl. 22:52

8 Smámynd: Samstaða þjóðar

Ég bendi á að með lögbrotum þeim sem Seðlabankinn, FME og ríkisstjórnin frömdu og var sannað með dómi Hæstaréttar frá 15. febrúar 2012, var ekki verið að verja hagsmuni ríkissjóðs heldur erlendra vogunarsjóða. Ríkisstjórnin óttast ekkert meira en að vogunarsjóðirnir þurfi að skila einhverju af þeim 1000 milljörðum sem þeir fengu í morgungjöf frá ríkisstjórninni, í formi nýgju bankanna.  Loftur Altice Þorsteinsson. 

Samstaða þjóðar, 2.3.2012 kl. 20:59

9 identicon

Sammála Eggert Guðmundssyni og Önnu Sigríði Guðmundsdóttur. Hagsmunasamtök heimilanna virðast vera málpípur stjórnvalda. Þangað leitar klárinn ... Líklega mun blessuð bikkjan drukkna í eigin skuldafeni. Það eru makleg málagjöld.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 3.3.2012 kl. 09:42

10 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Elín. Ég er, eftir því sem ég best veit, skráð í Hagsmunasamtök Heimilanna, og styð þar af leiðandi að sjálfsögðu þau samtök og góðum verkum þeirra.

Ég var ekki að hallmæla þeim ágætu samtökum, í minni athugasemd, og biðst ég afsökunar ef ég hef tjáð mig svo óskýrt, að það hafi virkað þannig.

Það er bara lífsnauðsynleg þörf á opinberri og réttlátri umræðu um öll neytendamálin á Íslandi. Þannig umræða fer ekki fram á aftöku-vígvelli pólitískra gamalla klíkuflokka, sem eru mannaðir með pólitískum föngum mafíunnar.

Guðmundur Ásgeirsson er eins og svo margir í grasrótinni, bæði víðsýnn og fróður. Hann er einn af þeim mörgu frábæru og þroskuðu persónum sem ég hef séð til, í þessari baráttu við óréttlætið síðustu 3 árin.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 3.3.2012 kl. 20:04

11 identicon

Guðmundur þakka þér þessi skrif þín, það er rétt að samkvæmt lögum og Stjórnarskrá eru fjármálafyrirtækin að brjóta þessi lög, en gleymum því ekki að Ríkisstjórn landsins hefur ákveðið að það sé þeim heimilt. Á sama hátt hefur þessi vanhæfa Ríkisstjórn beðið ESB um að setja upp Áróðursskrifstofuna EVRÓPUSTOFA og Sendirað til þess að hjálpa þeim við að breiða út áróður hér á landi sem er líka ólöglegt. Ég vil benda á að Samstaða þjóðar hefur kært þessa framkvæmd og má sjá öll gögn um það á bloggsíðu okkar. Ennfremur vil ég benda á greinar og upplýsingar sem Loftur hefur sett inn á bloggsíðuna viðvíkjsandi ásókn ESB í Íslenska lögsögu og hvernig þeir krefjast breytinga á lögum svo þeir geti keypt orkuverin okkar og fjárfest í fiskveiðum. Í þessum skjölum er einnig hægt að sjá að ESB krefst þess að ríkisstjórnin sjái til þess að við greiðum öllum innistæðu eigendum ICESAFE allar þeirra innistæður með vöxtum.

Gangi okkur öllum vel að upplýsa svik stjórnmálamanna og eigendur gömlu flokkanna.

Pétur

Pétur Valdimarsson (IP-tala skráð) 3.3.2012 kl. 23:20

12 Smámynd: Samstaða þjóðar

Tilmæli Seðlabankans og FME voru ólögleg, eins og var staðfest með dómunum frá 16. júní 2010. Tilmælin og þó frekar ummæli Arnórs afhjúpa djúptæka spillingu hjá hinu torgreinda eftirlitskerfi. Um þetta fjallaði ég hér:

http://samstada-thjodar.blog.is/blog/samstada-thjodar/entry/1224303/

Loftur Altice Þorsteinsson.

Samstaða þjóðar, 5.3.2012 kl. 09:40

13 identicon

Anna Sigríður Guðmundsdóttir. Þegar Hagsmunasamtök heimilanna ákváðu að rjúfa samstöðuna og efna til mótmæla á Austurvelli á sama tíma og alþjóðleg samstöðumótmæli voru á Lækjartorgi þá afhjúpuðu þau sig illlilega. Hef enga samúð með málpípum stjórnvalda.

http://mbl.is/frettir/innlent/2011/10/15/motmaelt_i_951_borg_i_82_londum/

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 5.3.2012 kl. 13:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband