Nostalgía: Financial Times og þýzka markið

Fjármálaráðherrar Evruríkjanna sautján samþykktu í dag að moka enn meiri fjármunum skattgreiðenda sinna í botnlausa hít. Þessi frétt hefur reyndar verið endurtekin svo oft og svo reglulega í marga mánuði samfleytt, að kjósendur hafa fyrir löngu misst skynbragð á hvenær er um að ræða framhaldsumfjöllun eða hvort einhver ný útgjöld eru fyrirhuguð. Í skjóli þessarar þoku gerist margt furðulegt. Rétt er að halda því til að hvað sem líður gasprinu frá Merkozy þá hefur hingað til aðeins einn alvöru björgunarpakki verið afgreiddur til Grikklands, hinir eru allir í pípunum að kljást við hinar ýmsu stíflur. Þessi pínlegheit eru orðin svo áberandi að fjölmiðlar geta ekki lengur hunsað það.

Hér má sjá forsíðu helgarblaðs þýzku útgáfu Financial Times, þar er slegið upp mynd af hinu gamla þýzka marki og fullyrt að björgunarleiðangurinn hafi snúist upp í algjöran farsa. Eins og venja er þá er verð blaðsins í lausasölu prentað á forsíðuna, en athygli vekur að það er gefið upp í þýzkum mörkum með samsvarandi verð í evrum innan sviga. Gengið er það sama og þegar markinu var skipt út fyrir evru á sínum tíma: 1,95

smellið til að stækka


mbl.is 8 milljarðar evra til Grikkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vendetta

Þá hlýtur að vera hægt að kaupa blaðið í lausasölu og borga með þýzkum mörkum. Þ.e.a.s. ef einhver á þannig myntir/seðla.

Hvenær álítur þú, að Grikkir muni taka sig til og endurlífga drökhmuna að eigin frumkvæði? Og þá á hvaða gengi? 1:1? Og hvað mun þá gerast með evruskuldirnar?

Er raunhæft fyrir Grikki að lýsa yfir gjaldþroti? Adenauer gerði það eftir stríðið og þá féllu allar skuldir niður (amk. stríðsskuldir). En ef Grikkir gera þetta þá er auðvitað hætt við því að lánshæfi Grikklands falli úr ruslflokki alla leið niður í ruslflokk mínus.

Vendetta, 22.10.2011 kl. 13:11

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Lánshæfi schmánshæfi, varstu ekki búinn að frétta að nú stendur til að banna birtingu á lánshæfismati á evrusvæðinu. En það er auðvitað bara fyrsta skrefið, í Kína eru þetta orðið svo þróað að þeir reka sitt eigið matsfyrirtæki sem birtir aðeins "rétt" mat, þ.e.a.s. aðeins það sem miðstjórn kommúnistaflokksins telur að rétt sé að birta. Það er væntanlega aðeins tímaspursmál hvenær miðstjórn Evrópusambandsins innleiðir slíka uppfærslu.

En ég hef samt aldrei skilið tilganginn með því að fá þriðja aðila til að meta fyrir sig fjárfestingu. Ég hef alltaf skilið kapítalisma þannig að þú leggur sjálfur mat á gæði og áhættu fjárfestinga og uppskerð samkvæmt því. Ef við gefum okkur að matið sé rétt eða nálægt því, þá er óskiljanlegt hvers vegna þessi fyrirtæki eru ekki að nota þá þekkingu sína til eigin fjárfestinga og stórgræða á því. Ef ég teldi mig þess umkominn að leggja svo gott mat á hlutina þá myndi ég ekki láta öðrum eftir að hirða af því allan gróðann. Besta leiðin fyrir mig til að græða í þeirri aðstöðu væri einfaldlega að nota réttu upplýsingarnar fyrir mínar eigin fjárfestingar, en láta eitthvað fólk úti í bæ fá allt aðrar upplýsingar til að villa um fyrir þeim, þannig að ég haldi mínu samkeppnisforskoti. Ef grannt er skoðað er það einmitt þetta sem matsfyrirtæki gera, þess vegna eru þeir flón sem taka mark á þeim. Að byggja alþjóðlegan fjármálamarkað á slíkri vitleysu er hinsvegar meira en flónska, það er snargalið og stórhættulegt.

Og ég held að Þjóðverjar muni fyrr yfirgefa myntbandalagið en Grikkir.

Guðmundur Ásgeirsson, 23.10.2011 kl. 18:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband