Þingmál nr. 0
8.10.2011 | 17:18
Á fyrstu viku 140. löggjafarþingsins hafa nú þegar verið lögð fram yfir fimmtíu þingmál. Ætlunin var að gera hér grein fyrir því helsta sem varðar efnahagsmál, og fjárhagslega afkomu heimila. Þar sem um yfirgripsmikið efni er að ræða reyndist óhjákvæmilegt að skipta þessu niður í nokkrar færslur sem munu birtast hér næstu daga undir yfirskriftinni Þingmál, og aldrei að vita nema það verði að föstum dagskrárlið.
Þingmál nr. 0
Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana voru venju samkvæmt á dagskrá fyrsta þingfundar við taktfastan tunnuslátt og lúðraþyt annað árið í röð. Þar sem við þetta tilefni er oftast mikið talað en sjaldnast teknar neinar ákvarðanir þá er vel við við hæfi að gefa þessu þingmáli númerið núll hér til málamynda. Í ræðu sinni sagði Jóhanna meðal annars:
Það er ekkert launungarmál að ríkisstjórnin telur að bankarnir þurfi að leggja meira af mörkum til samfélagsins og uppgjör þeirra sýna að þeir eru svo sannarlega aflögufærir. Á sama tíma og heimilin, fyrirtækin og velferðarþjónustan búa við samdrátt í kjölfar hruns fjármálakerfisins er það samfélagsleg skylda bankanna að skila þessum mikla hagnaði aftur til samfélagsins með einhverjum hætti
Margrét Tryggvadóttir þingmaður Hreyfingarinnar svaraði Jóhönnu í eldhúsdagsræðu sinni sem hún birtir í heild á eyjubloggi sínu og benti á hið augljósa, að "bankar eru engar góðgerðarstofnanir, þeir munu ekki skila gróðanum komist þeir upp með annað. Bankar hafa ekki samvisku, það er gagnslaust að reyna að höfða til hennar. Bankar hafa ekki siðferðisvitund og ekki heldur samkennd. Bankar munu ekki hugsa sinn gang eins og forsætisráðherra vonar. Bönkum og eigendum þeirra er alveg sama um okkur. Þeir vilja bara peningana okkar. Arðinn sinn. Og einhver gæti spurt, er eitthvað að því? Og svarið er já, því arðurinn er illa fenginn.
Við hljótum því að krefjast þess að sett verði lög sem kveða á um samfélagslegar skyldur banka. Það ætti að verða eitt af fyrstu verkum forsætisráðherra á nýju þingi. Og ekki ekki veitir af þar sem bankarnir græða en vilja ekki greiða til samfélagsins eins og Smugan segir frá mun nýr skattur á fjármálafyrirtæki nema um 4,5 milljörðum á ári á öll fjármálafyrirtækin samanlagt. ,,Við erum ósátt við þennan skatt, teljum hann illa ígrundaðan og þarfnast endurskoðunar, segir framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja...
Björn Valur Gíslason þingmaður VG segir "einstaka stjórnmálaflokka og skilanefndir ætla að slá skjaldborg um fjármálafyrirtækin til að hindra að þau greiði sitt til endurreisnar landsins, en þau munu þurfa að greiða sitt með góðu eða illu." Ætli ástæðan fyrir því að Björn Valur vill ekki að þetta renni til heimilanna sé að hann vilji fá þetta fé í ríkissjóð í staðinn svo Steingrímur lagsmaður hans fái að úthluta þeim? Líklega væri það þó skárra en að láta arð samfélagsins sitja eftir í bönkunum
Meginflokkur: Þingmál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt 9.10.2011 kl. 02:36 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Guðmundur, gott framtak hjá þér.
Það er annars fyndið að lesa skrif Björns Vals í Smugunni, einkum þau orð hans að "einstaka stjórnmálaflokkar og skilanefndir ætla að slá skjaldborg um fjármálafyrirtækin...". Þessi skjaldborg hefur þegar verið slegin og það af hans eigin flokk og samstarfsflokknum í ríkisstjórn!
Gunnar Heiðarsson, 8.10.2011 kl. 21:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.