Ályktað út frá ófullkomnum forsendum

Á Evrópuvefnum er reynt að svara þeirri spurningu hver hlutur Íslands hefði verið í þeim "björgunarpökkum" sem ESB-ríkin hafa þurft að útdeila, ef landið væri fullgildur meðlimur í sambandinu og myntbandalaginu. Það er vissulega erfitt að leggja mat á svona "hvað ef" spurningu um sviðsmynd sem hefði breytt öllum forsendum þeirrar spurningar sem verið er að reyna að svara. Það er reyndar augljóst af svarinu að um hreina hugarleikfimi er að ræða, og Evrópuvefurinn útskýrir vel bæði forsendurnar sem og rökleiðsluna sem leiðir til þeirrar ályktunar sem þar er dregin. Hún er sú að hlutur Íslands hefði verið annað hvort núll ef hér hefði engu að síður orðið efnahagshrun og við hefðum sótt um að fara í einskonar slitameðferð eins og Grikkland. Hinsvegar ef evruaðild hefði gert okkur kleift að forðast efnahagshrun, þá hefði vænt hlutdeild Íslands í sameiginlegum ábyrgðum fyrir lánveitingum til evruríkja í vanda verið jafnvirði 38,4 ma.kr á móti þeim ávinningi.

Þessar niðurstöður eru alls ekki rangar miðað við þær forsendur sem eru gefnar. Það eru hinsvegar forsendurnar sem eru að mörgu leyti ófullkomnar. Með því er ég ekki að halda því fram að farið sé með rangt mál, heldur aðeins að benda á að með ólíkum forsendum er hægt að fá ólíkar niðurstöður.

Meðal gefinna forsenda er að Ísland hefði gerst aðili að sameiginlegu myntsvæði Evrópusambandsins á árunum 1990-2008, sem sagt fyrir efnahagshrunið. Ekki er hinsvegar tekið tillit til þess að svo skilyrðin fyrir slíkri aðild væru uppfyllt hefði þurft að vera löngu búið að ráðast í slíka tiltekt í efnahagsmálum hér á landi, að líkurnar á efnahagshruni af þeirri stærðargráðu sem varð árið 2008 væru hverfandi ef allt væri með felldu. Hefðum við hinsvegar lent í efnahagshruni engu að síður sem hliðstæðurnar í bókhaldsfölsunum hér og í Grikklandi benda til þess að væri alls ekki ólíklegt, þá hefðu afleiðingarnar af því ekkert orðið minni þó við værum í myntbandalaginu og þá hefði sjálfsskuldarábyrgð fyrir 38,4 milljörðum af skuldum annara ríkja í sömu sporum verið sem dropi í hafið hvort sem er.

En gott og vel, göngum útfrá þeirri draumsýn sem margir aðildarsinnar vilja trúa á, að evruaðild virki sem sjálkrafa skjól fyrir efnahagsáföllum og Ísland hefði þannig komist klakklaust gegnum þann alþjóðlega ólgusjó sem geisað hefur á fjármálamörkuðum undanfarin ár, ólíkt öðrum aðildarþjóðum. Þá er ljóst að lágmarkshlutdeild í björgunarpökkunum væri ekki núll heldur 38,4 ma.kr. samkvæmt áðurnefndum forsendum. Þær forsendur eru hinsvegar einnig ófullkomnar að því leyti að þær ná eingöngu til þeirra björgunaraðgerða sem þegar hafa verið samþykktar (Grikkland I, Írland, Portúgal, Grikkland II). Hvergi er tekið tillit til þess að sjálft grundvallarvandamálið er ennþá óleyst og enn sér ekki fyrir endann á því hversu miklar ábyrgðir evruríkin munu endanlega þurfa að undirgangast fyrir hvort annað. Ekki er tekið tillit til fullkominnar óvissu sem ríkir um málalyktir síðasta björgunarpakkans til Grikklands og að ekkert útlit er fyrir að Grikkir nái að komast hjá greiðslufalli án þess að fá enn fleiri björgunarpakka. Og það sem mest er um vert er að hvergi er tekið tillit til þess sem allt stefnir í að Ítalía verði næst og svo annaðhvort Spánn eða Belgía og jafnvel sjálft Frakkland. Þegar það gerist erum við að tala um allt aðrar stærðargráður þar sem efnahagur þessar landa er miklu stærri að umfangi en hinna fyrrnefndu.

Þegar væntur kostnaður við ábyrgðarskuldbindingu er metinn þarf alltaf að gera ráð fyrir bæði besta og versta tilfelli. Besta tillfellið í þessu ímyndaða tilfelli er eins og áður sagði að Ísland hefði komist klakklaust gegnum alþjóðlegt fjármálahrun og undirgengist 38,4 ma.kr. ábyrgð sem hefði aldrei reynt á þar sem núverandi vandi evrusvæðisins myndi leysast snarlega á næstunni og björgunarpakkarnir fást endurgreiddir að fullu. Ólíklegt kannski, en samt ekki alveg út úr kortinu. Versta mögulega tilfellið er hinsvegar að evruvandinn haldi áfram að vinda upp á sig á næstunni sem leiði til þess að fleiri og margfalt stærri ríki þurfi að fá björgunarpakka og hlutdeild Íslands í slíkum ábyrgðum myndi þá fara úr tugum milljarða í hundruðir og jafnvel þúsundir ma.kr. ef landið væri aðili að björgunarsjóðnum. Augljóslega myndi trúverðugleiki slíkrar ábyrgðar bresta á einhverjum tímapunkti slíkrar vegferðar, björgunaráætlanirnar fara út um þúfur og afleiðingin yrði víðtækt greiðslufall á evrusvæðinu. Þegar svo væri komið við sögu myndi einmitt reyna á ábyrgðarskuldbindingar aðildarríkjanna og hugsanlegur kostnaður sem lent gæti á Íslandi vegna þess á sér engin merkingarbær takmörk því þá værum við að tala um stærðir sem væru margfalt stærri en þjóðarbúskapur Íslands gæti nokkurntíma staðið undir.

Í þessari greiningu er heldur ekki tekið tillit til þess að íslenska þjóðin hefur tvívegis hafnað því með afgerandi hætti að axla skuldbindingar annara að ósekju. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að þjóðin myni eitthvað frekar samþykkja að borga skuldir Grikklands og annara evruríkja, heldur en skuldir Landsbankans á sínum tíma. Ég myndi því giska á að líklegasta útkoma úr þessari ímynduðu sviðsmynd væri sú að hlutdeild Íslands í björgunarpökkunum yrði núll, því veitingu ríkisábyrgðar fyrir skuldum hinna evruríkjanna yrði einfaldlega hafnað af þjóðinni. Þar með væri líka björgunarsjóður sem byggir á slíkri samábyrgð útilokaður, Grikkland væri þegar komið í greiðslufall og tilvist evru sem gjaldmiðils heyrði sögunni til.

Versti möguleikinn í sviðsmyndinni væri hinsvegar sá sem áður er lýst, að Ísland yrði meðábyrgt fyrir nánast ótakmörkuðum afleiðingum víðtæks greiðslufalls hinna evruríkjanna, og þar með skiptir í rauninni engu máli hversu efri mörkin eru há, nóg er að vita að þau eru svo há að það yrði banvænt fyrir efnahagslíf Íslands. Í stað þess að segja sem svo að um væri að ræða 0-38,4 ma.kr. hlutdeild í sviðsmynd þar sem evran verður til sem gjaldmiðill til framtíðar, væri því réttara að segja sem svo að um væri að ræða hlutdeild sem væri allt frá því að vera engin upp í að vera ótakmörkuð en í báðum tilvikum endar það með dauðdaga myntbandalagsins og efnahagslegum hörmungum fyrir öll aðildarríkin en ekki bara sum. Þar með talið Ísland sem er í þessari ímynduðu sviðsmynd hluti af myntbandalaginu.

Sem betur fer mun þessi dökka sviðsmynd aldrei verða annað en ímyndun!


mbl.is Hefðum væntanlega ekki greitt neitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vendetta

Sammála þessari færslu. Öll vandamál sem hrundu yfir Íslenzka alþýðu 2008 voru Íslendingum sjálfum að kenna (ekki alþýðunni, þó). Þess vegna (og ég veit ekki hversu oft ég hef skrifað um þetta):

Núverandi kreppu hefði getað verið afstýrt með ábyrgðarfullri efnahagsstefnu (ströngum lögum um fjármálafyrirtæki og eftirlit) og atvinnuvegastefnu (uppbyggingu framleiðsluiðanaðar, líka með erlendu fjármagni).

Ekkert hefði breytzt þótt við hefðum verið í faðmi ESB. Vegna dugleysis allra íslenzkra ríkisstjórna allar götur frá 1950, hefðum við samt verið í djúpum skít. Vegna eigin gjörða. Við skitum sjálf í hreiður okkar og við verðum sjálf að hreinsa til. Án ESB.

Lítum til Norðmanna. Það varð engin kreppa þar. Því að þeir voru ekki með Mickey-Mouse-ríkisstjórnir eins og Íslendingar. Þeir eru með Sviss efnahagslega sterkasta ríkið í Evrópu (miðað við höfðatölu) fyrir utan Þýzkaland (sem stjórnar efnahag ESB). Því að þeir hafa hafnað aðild að ESB. Því að þeir hafa ekki sóað öllu fé úr ríkissjóði (vitræn nízka, saving up for the rainy days). Auk þess voru þeir með ströng lög um hlutabréfaviðskipti og lánveitingar bankanna.

Hvað gerðu Íslendingar? Jú, þeir lifðu í blekkingum og fáfræði í 60 ár, nær allan lýðveldistímann. Og nú hefnist þeim fyrir það. Og sagan mun endurtaka sig eftir nokkur ár. Því að þeir hafa ekkert lært.

Vendetta, 7.9.2011 kl. 21:23

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Forðumst aðild að evrópsku skuldabandalagi.

Guðmundur Ásgeirsson, 7.9.2011 kl. 23:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband