Innan við 5% afskrifta til einstaklinga
6.9.2011 | 15:03
Í gær birti ég færslu þar sem ég gerði tilraun til að bera saman tölur um afskriftir á skuldum heimila (einstaklinga) annars vegar og fyrirtækja hinsvegar. Þar sem tölurnar áttu sér ólíkan uppruna og voru fundnar með ólíkum aðferðum gat ég hinsvegar engu slegið föstu um hversu raunhæfur samanburðurinn væri.
Þegar leið á daginn laut svo allt að vilja mínum, þegar fregnaðist af svari efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar um afskriftir í fjármálakerfinu. Það sem gerir þessar tölur meiri að gæðum en hinar fyrri, er að hér er um að ræða samræmda upplýsingasöfnun fjármálaeftirlitsins beint frá nýju bönkunum sjálfum, án þess að tölur um þrotabú gömlu bankanna blandist þar saman við.
Í svarinu kemur fram að heildarafskriftir þriggja stærstu bankanna (væntanlega Landsbanka, Íslandsbanka og Arion) árin 2009 og 2010 nemi rúmum 503 ma.kr. Þar af séu afskriftir til einstaklinga (heimila) ekki nema rúmir 22 ma.kr. á sama tímabili, eða 1,6% af heildarskuldum heimila og aðeins 4,7% af heildarskriftunum sem þýðir að fyrirtækin hafa fengið tuttugu sinnum meira afskrifað.
Í svarinu eru afskriftir fyrirtækja sundurliðaðar eftir atvinnugreinum. Athygli vekur að undir liðnum "Annað" eru tæpir 346 ma.kr. eða 71,9% af heildarafskriftum. Ekki fylgir sögunni hvað sé innifalið í þessum safnlið en heimildir mínar herma að uppistaðan í því séu meðal annars eignarhaldsfélög sem stofnuð voru utan um lánsviðskipti starfsmanna og vildarviðskiptavina með hlutabréf í fjármálafyrirtækjum.
Hversu nákvæmlega stór hluti þessrar fjárhæðar eru afskriftir hlutabréfalána er ekki ljóst á þessu stigi, en óhætt er að fullyrða að um sé að ræða vænan skerf. Sem dæmi má nefna að bara hjá Kaupþingi námu slík lán hátt í 50 ma.kr., þar af 15 ma.kr. bara hjá bankastjórunum tveimur., og hjá Glitni fengu sjö stjórnendur rúman milljarð á mann. Auk þess má nefna lán til félaga á borð við Stím (20 ma.kr.) eða Q Iceland Finance (25 ma.kr.) og fleiri sem voru ekki í eigu starfsmanna heldur vildarviðskiptavina sem tóku viljugir þátt í braskinu.
Eins og sjá má er þriðjungur skulda heimila til komin vegna áhrifa verðtryggingar og gengistryggingar. Þetta eru hækkanir sem urðu til án þess að nokkuð hafi verið fengið að láni til viðbótar, heldur vegna þess að lánin hækkuðu sjálfkrafa. Við þá hækkun myndaðist fullt af gervieignum inni í bönkunum, sem þeir lögðu til grundvallar stórauknum lánveitingum til hlutabréfakaupa í aðdraganda hrunsins. Þennan reikning sitja heimilin nú uppi með, en bankamennirnir sem eyddu þessum fjármunum í markaðsmisnotkun hafa með skipulegum hætti komið sér undan ábyrgð. Helsti munurinn er samt sá að heimilin voru óviljugir og grunlausir þáttakendur í svikamyllunni.
503 milljarðar afskrifaðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkur: Verðtrygging | Breytt s.d. kl. 19:04 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.