Kemur Sheikh Al-Thani evrunni til "bjargar"?

Tilkynnt var í dag um fyrirhugaða sameiningu tveggja grískra banka og endurfjármögnun svo úr verður stærsti banki suðausturhluta álfunnar: Alpha Eurobank. Fjórðungur hlutfjárframlagsins og jafnframt 16% eignarhlutur í hinum nýja banka er sagður muni tilheyra olíusjóði furstadæmisins Qatar, sem er stjórnað af H.E. Sheikh bin Jassim Al Thani, forstætisráðherra og frænda emírsins af Katar. Al Thani fjölskyldan á reyndar flest sem máli skiptir í þessu litla landi þar sem hún hefur ráðið ríkjum frá 1825 og efnast mjög á olíuviðskiptum á seinni hluta valdatímans.

Al Thani nafnið gæti hljómað kunnuglega í eyrum Íslendinga, enda kemur það meðal annars fyrir á nokkrum stöðum í Rannsóknarskýrslu Alþingis, þar sem fjallað er um lánveitingar Kaupþings til félagsins Q Iceland Finance fyrir kaupum á rúmlega 5% hlut í bankanum. Í fundargerð lánanefndar Kaupþings frá 11. september 2008 er bókað: "...Raunverulegur eigandi Q Iceland Holding ehf. er HH Sheikh Mohammed Bin Khalifa Al-Thani, bróðir emírsins af Qatar." en um svipað leyti var svo frændi hans forsætisráðherrann og yfirmaður olíusjóðsins gerður meðstjórnandi í félaginu.

Í næsta mánuði verða liðin þrjú ár frá þessum sýndarviðskiptum þar sem almennt er talið að Al Thani hafi í reynd aðeins verið leppur fyrir milligöngu Ólafs Ólafssonar. Á þeim tíma rétt eins og nú, var gríðarlegur óróleiki á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og ástandið eins og púðurtunna sem bíður þess að springa í loft upp. Þá voru uppi efasemdir um stöðugleika íslensku bankanna, rétt eins og hafa verið um grísku bankana að undanförnu. Rétt eins og gert var áhlaup á íslensku bankana 2008 hefur hljóðlátt bankaáhlaup verið að eiga sér stað í Grikklandi að undanförnu og hefur þurft að veita bönkum þar aðgang að lausafjárfyrirgreiðslu til þrautavara.

Þetta vekur upp áleitnar spurningar. Hafa þessir ágætu menn ekkert lært? Gera þeir sér ekki grein fyrir hversu galin fjárfesting grískur banki er um þessar mundir? Hvað þá sá stærsti sem um leið yrði verður sá fyrsti til að falla ef þegar gjaldþrot Grikklands verður óumflýjanlegt? Eða er kannski ekki allt sem sýnist? Getur verið að þessir ágætu menn viti nákvæmlega hvað þeir eru að gera? Eru þeir kannski nú sem fyrr að koma fram sem leppir fyrir leynilegt gervibeilát með annara manna lánsfé handa bankakerfi á vonarvol? Að minnsta kosti eru hliðstæðurnar merkilegar og ekki síst tímasetningin.

Til upprifjunar þá fullyrti Sigurður Einarsson fyrrum stjórnarformaður Kaupþings við yfirheyrslur hjá Rannsóknarnefnd Alþingis, að skuldatryggingaviðskipti sem Al Thani fléttan var liður í hafi verið að frumkvæði Deutsche Bank og í þeim tilgangi að hafa áhrif á skuldatryggingarálag Kaupþings. Með öðrum orðum markaðsmisnotkun. Ef það skyldi ekki liggja í augum uppi nú þegar, þá á Deutsche Bank einmitt gríðarlegra hagsmuna að gæta þegar þróun mála á evrusvæðinu er annars vegar.

Er þetta jafnvel bara allt saman liður í stórfelldri markaðsmisnotkun sem er fjarstýrt frá Brüssel Berlín til þess að reyna að veggfóðra yfir grískt bankahrun sem mun hafa keðjuverkandi áhrif út um allt evrusvæðið? Ég skal ekki fullyrða um það, en bið hinsvegar lesendur að mynda sér sjálfstæða skoðun á því hvort arabískt ættarveldi sem hefur tekist að halda völdum í tvær aldir á harðbýlu svæði og yfir eftirsóttum olíuauðlindum, séu svo miklir afglapar að henda peningum í ónýtar fjárfestingar, eða hvort líklegra sé að athafnir þeirra séu úthugsaðar og skipulagðar?

Það stefnir í að haustið verði viðburðaríkt.


mbl.is Grískir bankar sameinast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband