Almenna leiðréttingu NÚNA!
26.8.2011 | 19:51
Samstarfi íslenskra stjórnvalda og alþjóðagjaldeyrissjóðsins lauk formlega í dag þegar síðasta endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands var samþykkt af stjórn sjóðsins í Washington. Þessu hefðu margir eflaust viljað fagna. En því miður fellur fögnuðurinn í skuggann af skelfilegri stöðu íslenskra heimila sem berjast nú við botnlausa skuldsetningu, og holskefla nauðungaruppboða er í uppsiglingu þar sem þúsundir aðfararbeiðna liggja á borðum sýslumanna og bíða afgreiðslu.
Það kveður nánast við saknaðartón í fyrirsögn fréttatilkynningar forsætisráðuneytisins: "Ísland útskrifast: Samstarf Íslands og AGS um efnahagsáætlun komið á leiðarenda". Margt vekur furðu við lestur tilkynningarinnar, þar er meðal annars fullyrt berum orðum að öll meginmarkmið áætlunarinnar hafi náðst, hvorki meira né minna. Svo eru þau markmið talin upp:
- Efnahagslegur stöðugleiki
- Aðlögun ríkisútgjalda
- Varðstaða um útgjöld til velferðarmála til að milda áhrif kreppunnar
- Endurreisn fjármálakerfisins
- Lausn skuldavanda heimila og fyrirtækja
- Endurreisn trausts á íslenskt efnahagslíf
Í tilefni þessara merku tímamóta er sennilega við hæfi að líta um öxl og skoða hversu vel hefur tekist að ná þessum markmiðum. Efnahagslegur stöðugleiki: það er auðvitað alltaf stöðugleiki í kyrrstöðu ekki satt? Reyndar er verðbólgan aftur á uppleið, sem kemur ekki á óvart þar sem misheppnuð peningastefna og verðrygging hjálpast að við að knýja hana. Ríkisútgjöld: á síðasta ári var ríkissjóður rekinn með 123 milljarða halla, þar af 41 milljarð umfram fjárheimildir, þarf að hafa fleiri orð um það? Um útgjöld til velferðarmála má hafa tvö orð: blóðugur niðurskurður. Endurreisn fjármálakerfisins hefur reyndar heppnast ef svo má segja, það hefur verið endurreist í sömu mynd og fyrir hrun: alltof stórt, óhagkvæmt, gjörspillt og andsamfélagslegt, á kostnað heimilanna og verðmætasköpunar í atvinnulífinu. Lausn á skuldavanda heimilanna: hefur öðru fremur komið fram í formi lífseigrar þjóðsögu um einhverskonar skjaldborg sem enginn hefur nokkru sinni séð með eigin augum. Endurreist traust: ef íslensk fyrirtæki njóta trausts stafar það hugsanlega af því að þau eru að gera góða hluti, og íslenska þjóðin hefur tvisvar sýnt með áberandi hætti andstöðu sína við ábyrgðarleysi í ríkisfjármálum. Sá árangur hefur náðst þrátt fyrir stjórnvöld en hvorki vegna þeirra eða AGS.
Í tilkynningunni er svo gerð nánari grein fyrir hverju þessara atriða, reyndar að einu undanskildu. Þar er ekki að finna stakt orð um meint "útgjöld til velferðarmála til að milda áhrif kreppunnar", sem samræmist reyndar því miður raunveruleikanum. Þar sem fjallað er um "víðtækar aðgerðir til úrlausnar skuldavanda heimila" eru talin upp 110% leiðin, vaxtabætur og niðurgreiðslur. Tökum þessi tvö atriði til nánari athugunar: Meginvandi skuldsettra heimila er yfirverðsetning. 110% veðsetning er líka yfirveðsetning, og verðbólgan sér til þess að þetta verður bráðum 120%, svo 130% o.s.frv. svo í því felst ekki nokkur lausn. Vaxtabætur og niðurgreiðslur eru nákvæmlega það, niðursgreiðslur vaxta, en það hefur engin áhrif á höfuðstól skuldar þó vextirnir séu niðurgreiddir. Meginvandi heimilanna er sá eignarhluti sem hefur færst úr heimilisbókhaldinu yfir á efnahagsreikninga bankakerfisins, og yfirveðsetning sem heldur fasteignamarkaðnum í frosti.
Svo það sé alveg kristaltært þá skal áréttað, að íslensk stjórnvöld hafa hingað til ekki gripið til neinna aðgerða sem hrófla við efnahagsreikningum bankakerfisins í því skyni að leysa skuldavanda heimilanna. Meðal þess sem hefur staðið í vegi fyrir því eru einmitt viljayfirlýsingar stjórnvalda til AGS þar sem því hefur ítrekað verið lofað að ekki yrði gengið lengra í úrræðum fyrir skuldsett heimili en þegar hefur verið gert. Boðskapur fréttatilkynningarinnar er því álíka veruleikafirrtur og flest sem snýr að meintri endurreisn efnahagslífsins.
Okkur eru þó sem betur fer ekki allar bjargir bannaðar. Nú þegar samstarfinu við AGS er formlega lokið, þá eru stjórnvöld væntanlega ekki lengur bundin af áðurnefndum viljayfirlýsingum. Það ætti því ekki að vera neitt til fyrirstöðu að nú verði ráðist í almenna skuldaleiðréttingu til að lagfæra þá ósanngjörnu eignaupptöku sem heimilin hafa orðið fyrir vegna efnahagshrunsins, það eina sem þarf er viljinn.
Nú þegar hafa yfir 25.000 manns tekið þátt í Undirskriftasöfnun Heimilanna, sem verður afhent þegar þing kemur saman í haust. Þangað til má nota lausan tíma til að gera hljóðprufur og finna háværustu búsáhöldin ásamt því að æfa sig að lemja í tunnu. Þeir hörðustu byrja kannski að byggja upp þol fyrir piparúða með heimaæfingum? En umfram allt að fá sem flesta til að skrifa undir, þetta er ekki eingöngu hagsmunamál þeirra sem lentu í hruninu síðast, heldur líka þeirra sem eiga eftir að lenda í því næsta.
Sjáumst í byrjun október.
Samstarfinu við AGS lokið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Verðtrygging, Viðskipti og fjármál | Breytt 27.8.2011 kl. 17:05 | Facebook
Athugasemdir
"Almenna" leiðréttingu núna, segir þú. Þú meinar víst leiðréttingu fyrir þá sem reistu sér hurðarás um öxl á "gróðæristímabilinu" með því að veðsetja sig upp fyrir skorstein.
Og hver á að borga þá "almennu" leiðréttingu? Ekki ætla ég að gera það, svo mikið er víst.
Baldur (IP-tala skráð) 26.8.2011 kl. 20:08
Það liggur í hlutarins eðli að "almenn leiðrétting" myndi ná til allra en ekki bara lítils minnihlutahóps. Þeir sem "reistu sér hurðarás um öxl" losna ekki við öxlina þó hurðarásinn yrði lækkaður, fyrir þá þarf annarskonar úrræði.
Og hver á annars að borga velferðarkerfinu fyrir að taka á móti öllum þeim sem lenda á götunni ef ekkert verður að gert? Eða var kannski hugmyndin að láta þær fjölskyldur í svelti og vosbúð?
Baldur, það ætlast enginn hér til þess að þú borgir krónu meir en þú annars þyrftir að gera. Ef þú óttast að á þig persónulega muni falla einhver kostnaður þó að gerðar séu breytingar í efnahagsreikningum bankakerfisins, þá þýðir það einfaldlega að þú hefur ekki þekkingu á málinu. Slík leiðrétting kostar ekki krónu, því afskriftasvigrúmið fyrir henni hefur verið til staðar í bankakerfinu frá því það var endurreist. Það sem krafan gengur út á er að særa það fram til lántakendanna sjálfra.
Eða viltu frekar að bankar í eigu erlendra aðila fái að hirða þann mismun heldur en samborgarar þínir og meðbræður, Baldur?
Guðmundur Ásgeirsson, 26.8.2011 kl. 20:46
skiptu um mynd af þér!
kristin jonsdottir (IP-tala skráð) 26.8.2011 kl. 22:11
þú ert einsog kvenfélagskona eða ungmennafélagsandi, samankominn í einni manneskju!
kristin jonsdottir (IP-tala skráð) 26.8.2011 kl. 22:15
Ég lít þó allavegana ekki út eins og... öhhh..... fjórir þríhyrningar og jafnmargir ferhyrningar umhverfis stærri ferhyrning???
Heldurðu að myndin sé ekki af mér, eða bara að hún sé svona illa heppnuð? Kannski lít ég bara einfaldlega svona út í alvöru, á ég þá að taka þetta nærri mér eða hvað? You've left me all confused up in here...
Guðmundur Ásgeirsson, 26.8.2011 kl. 23:19
Takk fyrir rétt og góð skrif Guðmundur.
Það er því mipður búið að sóa mestu af þeim peningum sem hefðu átt að koma í flatann niðurskurð í þá sem hvort eð er hefðu farið á hausinn.
Blinda auga Helferðarstjórnarinnar vill nefnilega ekki muna. Fólk fór nefnilega á hausinn fyrir Hrun líka. Þeir sem spenntu bogann hæst og fengu mest að láni fengu mest afskrifað og notaðir þá peningarnir sem við lögðum inn í húsnæðið okkar í stað þess að spenna bogann eins og bjánar.
Jóhrannar byggði upp Helferðarkerfið sem nú með nýrri krossferð á sérfræðinga og lækna ætlar að SKAMMTA læknisjónustu frá þeim sem eru lægstir í útboði til ríkisins. Hinir verða settir út af sakramentinu.
Ísland er eina rísandi kommúnistaveldið í heiminum!
Óskar Guðmundsson, 27.8.2011 kl. 00:01
heyr, heyr
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 27.8.2011 kl. 00:41
Þakka góð skrif Guðmundur.
Staðreyndin er að þegar hefur verið reynt að hjálpa þeim sem "reystu sér hurðarás (burðarás) um öxl". 110% leiðin kom einungis því fólki til hjálpar en þó einungis um stundarsakir. Mun meir þarf til ef hjálpa á því fólki.
Þeir sem fóru varlega og tóku lán sem voru vel viðráðanleg og í takt við tekjur og gjöld og veðsettu einungis hluta eigna sinna er nú komið með greiðslubyrgði langt umfram getu og hefur að auki tapað þeirri eign sem það átti í fasteignum til banka og fjármálafyrirtækja.
Það er þetta fólk sem er komið að endastöð núna. Það hefur klárað sparnað sinn til að geta staðið í skilum, en nú er ekkert eftir lengur. Því mun nú á næstu mánuðum bætast við ný holskefla gjaldþrota. Þau munu bætast við þann vanda sem fyrir er.
Þetta mun leiða til enn frekari flótta frá landinu. Þegar engar eignir eru eftir og einungis frekari kröfur frá þeim sem hirt hafa eignir manns, er framtíðinn vægast sagt svört. Ekki hjálpar skattpíning stjórnvalda til að halda fólkinu í landinu.
Gunnar Heiðarsson, 27.8.2011 kl. 07:41
Það hefur komið fram að endurreisn fjármálakerfisins sé næstum lokið,gott og vel. Endurreisn atvinnulífsins og heimilanna í landinu er hins vegar ekki hafin.
Óskar Aðalgeir Óskarsson, 27.8.2011 kl. 08:17
Takk Guðmundur, fyrir skýr og greinargóð skrif eins og alltaf!
Meðferðin á skuldastabbanum sem heimilin sitja ippi með ásamt þjófnaðinum á eigin fé þeirra er vægast sagt alvarlegt mál.
Ef menn hefðu drattast til að aftengja vísitöluna í oktðober 2008, þá sætum við ekki uppi með þessa svínslegu stöðu.
En, af þessu sést hverjir það eru sem skrifa lögin í landinu. Þeir hafa ekki verið kosnir til eins né neins, en ráða öllu og eiga allt sem hér er.
Kveðja, GK
Guðmundur Kjartansson, 27.8.2011 kl. 10:55
Fín grein um það hversu súrrealísk þessi ríkisstjórn er.
Hrannar Baldursson, 27.8.2011 kl. 22:10
Virkilega góð færsla, Guðmundur. Ástandið er skelfilegt, en Steingrímur og vinir hans hjá fjármálafyrirtækjunum eru hæstánægðir.
Vendetta, 28.8.2011 kl. 22:23
Takk fyrir færsluna Guðmundur, við verðum að raða okkur allt í kringum alþingi í haust þegar það kemur saman ekki bara framanvið heldur allstaðar í og við innganga og bílakallara ásamt flóttaleiðum frá húsinu nú skulu þau svara neiðarkalli okkar af alvöru en ekki bara í flæmingi og aumingjaskap!
Sigurður Haraldsson, 31.8.2011 kl. 13:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.