Forsendur kjarasamninga þverbrostnar
15.6.2011 | 13:13
Nú er verðbólga að hefja sig aftur á flug og Seðlabankinn lætur í veðri vaka að líkur séu á vaxtahækkun á næstunni. Þar með er ljóst að forsendur nýgerðra kjarasamninga eru með öllu brostnar. Þær voru reyndar aldrei mjög raunhæfar, gerðu meðal annars ráð fyrir að krónan myndi rísa á undraskömmum tíma í það gengi sem hún var á fyrir hrun og að Seðlabankanum myni takast að setja Íslandsmet í árangursríkri peningamálastefnu.
Við gerð kjarasamninganna gekk ASÍ út frá spá hagdeildar sinnar upp á 8,5% verðbólgu á samningstímabilinu öllu eða að jafnaði 2,5-3% á ári, og jafnvel þó að sú spá stæðist myndi kaupmáttur launafólks með meðaltekjur lækka um ca. 2%. Á þessu stigi virðist flest benda til þess að við munum sjá meiri verðbólgu en það bara á þessu ári, og þar með er ávinningur af samningunum fokinn í veður og vind strax við upphaf samningstímabilsins. Samningarnir voru hinsvegar kynntir undir þeim formerkjum að þeir fælu í sér kaupmáttaraukningu, sem augljóslega var hrein og klár lygi.
Það er ekki eins og enginn hafi reynt að vara við því glapræði að skrifa undir samninga á þessum forsendum. Ég sat kynningarfund stærsta stéttarfélagsins, VR, um samningana, þar sem formaður félagsins og hagfræðingur ASÍ mæltu ásamt öðrum fyrir ágæti samninganna. Ég skýrði þeim frá niðurstöðum mínum (reiknuðum aftan á servíettu á fundinum) og spurði þá hvort þeir teldu í alvöru talað ábyrgt að mæla með samningum sem byggðu á svo hæpnum forsendum, og hvort þeir teldu þær í alvöru talað raunhæfar. Þeir héldu því allir fram fullum fetum að svo væri.
Maður spyr sig óhjákvæmilega hvort nokkuð sé að marka þessa hagfræðinga, þegar tölvugrúskari utan úr bæ er með raunsannari mynd af veruleikanum aftan á sinni servíettu, byggða á engu nema einfaldri stærðfræðikunnáttu. Þar sem ég er aðeins sjálfmenntaður í efnahagsmálum, þá hlýtur þetta að vera áfellisdómur yfir stöðu hagfræðinnar sem vísindagreinar. Þeir sem lokið hafa námi á því sviði virðast búa í einhverjum allt örðum veruleika en við hin venjulega fólkið.
Þess er skemmst að minnast þegar sjálfur forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands barðist af miklum móð fyrir því í tvígang að sannfæra íslensku þjóðina um ágæti þess að setja landið í svipaða stöðu og við sjáum Grikkland í núna, en þá er ég auðvitað að tala um IceSave. Heimsendirinn sem var spáð í tvígang ef við myndum ekki skrifa undir arfaslæma samninga, hefur sem betur fer látið á sér standa.
Í flestum fyrirtækjum og stofnunum þar sem fagleg vinnubrögð eru í heiðri höfð væru menn í sérfræðistöðum sem hefðu svo illilega og ítrekað verið gerðir afturreka með sérvizku sína, verið löngu búnir að stíga til hliðar eða að öðrum kosti gert að láta af störfum. Það er hinsvegar orðið fullljóst að þegar hagfræði er annars vegar á Íslandi þá er eitthvað allt annað sem ræður för en fagleg vinnubrögð. Það er spurning hvort ekki er rétt að fram fari rannsókn á því hvort og þá hvaða annarleg sjónarmið það eru sem ráða för í þessari stétt manna, því hinn kosturinn er lítið skárri, að hagfræðingar séu einfaldlega upp til hópa fáráðlingar.
Hver svo sem skýringin er að þá hlýtur að vera ljóst að stjórnvöld sem styðjast við "speki" þessara manna við hagstjórn munu sigla þjóðaskútunni aftur í strand. Það mun gerast þeim mun fyrr því meira sem hlustað er á svona menn sem kalla sig hagfræðinga, en eru í raun aðeins að misnota hugtakið.
Launahækkanir samræmast ekki verðbólgumarkmiðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:35 | Facebook
Athugasemdir
Því miður þetta er ekki svona einfalt allar greinar sem eru í útflutningi hafa efni á þessum kjarasamningum en verslun og þjónusta hafa það ekki. Þá er spurningin á að semja eins og gert er á ekki að semja eftir getu starfsgreina. Eða þá að skattleggja þarf sérstaklega útflutningsgreinar og taka þar jöfnuð.
Ef samið er eftir starfsumhverfi hverrar stéttar þá koma hærri skattar af háum launum og lægri skattar af lágum launum
Jón Ólafur Vilhjálmsson, 15.6.2011 kl. 13:47
Jú þetta er mjög einfalt. Almennt launafólk og heimilin í landinu hafa ekki efni á þessum samningum, og þau eru hvorki í innflutningi, útflutningi, verslun eða þjónustu. Vandamálið liggur ekki í sköttum eða launum, heldur því að við búum við ósjálfbært og þar af leiðandi óstöðugt peningakerfi. Þetta verður ekki leiðrétt með kjarasamningum, því þó að þeir gefi einhverja prósentuhækkun að nafnvirði þá étur verðbólgan upp kaupmáttinn jafnharðan. Á meðan ekki er ráðist að grundvallarrótum vandamálsins þá er launþegahreyfingin bara eins og hundur sem eltist við skottið á sér.
Guðmundur Ásgeirsson, 15.6.2011 kl. 14:05
Góð grein hjá þér. Ég er lærður í hagfræði en ég tek ekki gagnrýni þína á starfstéttina nærri mér því margir í henni virðast ekki hafa tekið fag sitt alvarlega, enda vinn ég við tölvuforritun og hönnun í dag.
Við erum í klemmu hér á Íslandi. Vandi okkar felst í því að yfirvöld vilja ekki horfast í augu við vandann eða þora að takast á við hann. Á meðan enginn í ríkisstjórn eða á Alþingi þorir að segja eitthvað og/eða aðhafast eitthvað þá munum við sigla í dýpri innanlandskreppu en almenningur á skilið. Vandi okkar núna er innbyrðis sem þjóð.
Erlendis eru menn að tala um djúpa heims-efnahagslægð á næstunni og jafnvel kreppu á vesturlöndum! Þá er verið að tala um horfurnar á næstu árum.
Guð hjálpi okkur ef það gerist með okkar núverandi stjórnmálamenn við stjórn! Þá þurfum við að bæta erlendum vandamálum ofan á okkar innbyrðis vandamál.
Sumarliði Einar Daðason, 15.6.2011 kl. 22:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.