Stórfelld fölsun þjóðhagsreikninga

Í febrúar gaf Seðlabankinn út 4. tbl. í ritröð sinni um Efnahagsmál sem innihélt grein eftir nokkra starfsmenn bankans, þar á meðal sjálfan aðstoðarseðlabankastjóra, undir yfirskriftinni "Hvað skuldar þjóðin?". Höfundarnir höfðu gert tilraun til að finna út raunverulega erlenda stöðu þjóðarbúsins að undanskildum þrotabúum gömlu bankanna, og ef fólk væri ekki almennt orðið hálfdofið fyrir stjarnfræðilegum upphæðum hefðu niðurstöðurnar líklega þótt sláandi. Á kynningarfundi sem bankinn hélt var meðal annars spurt hvort sú mikla skekkja sem virtist vera fyrir hendi þýddi ekki einfaldlega að opinberar heildartölur væru marklausar? Þó reynt væri að þræta fyrir það gátu viðmælendur ekki þvertekið fyrir að svo væri og virtist það koma fáum á óvart.

Núna hafa opinberar tölur verið uppfærðar með tilliti til þessa og þá kemur í ljós að erlend staða þjóðarbúsins er í raun og veru talsvert verri en áður var talið. Eftir að lánastofnanir í slitameðferð hafa verið teknar út fyrir sviga kemur í ljós að erlend staða þjóðarbúsins er í raun neikvæð um 827 ma.kr. en ekki 434 eins og áður var haldið fram. Mismunurinn, tæpir 400 milljarðar, jafngildir rúmum fjórðungi landsframleiðslu.

Seðlabankinn hefur útskýrt þessa reikniskekkju með því að haldbærar upplýsingar um erlendar eignir innlánsstofnana í slitameðferð hafi ekki legið fyrir fyrr en undir árslok 2010. Þá skýringu verður þó að taka með þeim fyrirvara að fjárhagsupplýsingar skilanefndanna hafa verið aðgengilegar hverjum sem er frá fyrri hluta ársins 2009:

Ætli Seðlabankamenn kunni ekki að lesa ársreikninga? Eða eiga þeir ef til vill ennþá eftir að tileinka sér nýjustu framfarir á sviði upplýsingatækni (veraldarvefinn)? Rétt er að taka fram að kröfuhafar föllnu bankanna hafa í raun og veru miklu meiri aðgang að upplýsingum um stöðu þeirra heldur en almenningur. Seðlabankinn er eftir því sem ég best veit í hópi kröfuhafa, og ætti auk þess í ljósi stöðu sinnar sem æðsta stofnun bankakerfisins að geta hæglega kallað eftir nauðsynlegum upplýsingum frá skilanefndum og slitastjórnum. Allt er þetta hið undarlegasta, ekki síst í ljósi þess að hinar vafasömu tölur voru meðal þess sem notað var til að telja Íslendingum trú um að við myndum ráða vel við að borga IceSave. Hvergi í þeirri umræðu kom hinsvegar fram að þetta mat væri háð allt að 100% skekkjumörkum og þar með gagnslaust.

En eftir á að hyggja kemur þetta kannski ekki svo á óvart. Seðlabanki Íslands á sér nefninlega langan feril á sviði bókhaldsfölsunar. Í lýsigögnum um gjaldeyrisjöfnuð bankastofnana skilgreinir Seðlabankin hugtakið gjaldeyriseignir þannig: "Eignir í erlendum gjaldmiðlum og aðrar gengistryggðar eignir." Í aðdraganda bankahrunsins voru þessar "erlendu" eignir sagðar gríðarmiklar þegar raunin var sú að stór hluti þeirra voru skuldabréf í erlendri mynt útgefin af skúffufélögum skráðum erlendis sem íslenskir aðilar stóðu í rauninni á bakvið, og (ólögleg) gengistryggð lán til íslenskra heimila og fyrirtækja. Þar sem þessir aðilar höfðu flestir litlar sem engar erlendur tekjur, þá höfðu tölulegar upplýsingar um gjaldeyrisjöfnuð enga samsvörun við raunverulega stöðu þjóðarbúsins. Slíkir gjörningar geta einungis haft í för með sér eignatilfærslu á milli innlendra aðila, en hafa einir og sér lítil sem engin áhrif á raunverulega ytri stöðu.

Þessar eignir bókfærði Seðlabankinn hinsvegar sem erlendar, jafnvel þó honum og viðskiptabönkunum hafi mátt vera ljóst að sú var ekki raunin, og hjálpaði þannig við fölsun erlendrar stöðu bankakerfisins. Þegar bankarnir hrundu þurfti að færa þessar eignir niður um meira en helming, eins og kemur fram í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna. Upplýsingar frá Seðlabankanum sjálfum sýna glögglega hvernig erlendu eignirnar skruppu saman við endurskipulagningu bankakerfisins en skuldirnar ekki, heldur voru þær skildar eftir í þrotabúum hinna föllnu banka.

Stærstur hluti "erlendra" eigna og skulda þjóðarbúsins fyrir hrun var til kominn vegna stóru bankanna þriggja, en það var fyrst og fremst þessi falska eignastaða sem gerði þeim kleift að þenja út efnahagsreikninga sína með síaukinni erlendri skuldsetningu, á grundvelli "skotheldra" (falsaðra!) lánshæfiseinkunna. Ef grannt er skoðað sést að útþenslan á "erlendu" hliðinni hófst fyrir alvöru 2006 og fór svo sívaxandi fram að hruninu haustið 2008. Kenning mín er sú að þegar hin svokallaða "mini-kreppa" reið yfir haustið 2006 hafi þessir þrír bankar í raun og veru rambað á barmi greiðsluþrots í erlendri mynt. Framburður starfsmanna Seðlabankans við yfirheyrslur RNA gefur þetta líka sterklega í skyn þó að þeir tímasetji það reyndar vorið 2007.

Til þess að bjarga sér út úr þeirri stöðu þurfti tvennt að gerast: 1) stórauknar lánveitingar í "gengistryggðum" krónum til þess að framleiða jákvæða "erlenda" stöðu í bókhaldinu og 2) stórfelld innlánasöfnun á erlendri grundu til að útvega lausafé svo standa mætti skil á afborgunum raunverulegra erlendra skuldbindinga. Þróun innlána í bankakerfinu rennir stoðum undir þetta eins og sjá má á meðfylgjandi mynd frá DataMarket:

Ég held því fram fullum fetum að þessi skipti íslensku bankanna á beinhörðum erlendum gjaldeyri fyrir innlenda froðupappíra sem þeir prentuðu sjálfir, hafi í raun verið hreinræktuð fjárplógsstarfsemi og ígildi stórfelldrar peningafölsunar. Hvort þetta var gert að yfirlögðu ráði með vitund og vilja, eða í það minnsta þegjandi samþykki Seðlabankans, skal ósagt látið. Hinir möguleikarnir eru vissulega fyrir hendi, að fordæmalaus sofandaháttur og óvitaskapur hafi þar ráðið för, en ekki væri það mikið skárra. Þessir snillingar báru og bera sumir enn ábyrgð á að stjórna útgáfu gjaldmiðilsins sem okkur er gert skylt að nota, og hafa þannig úrslitaáhrif á kaupmátt almennings.

Reyndar er enn mikið af eignum ranglega skráðar sem "erlendar", Seðlabankinn byrjaði til dæmis ekki að flokka gengistryggð lán heimilanna sem innlendar skuldbindingar fyrr en eftir að dómur féll um ólögmæti þeirra. Tilmæli FME og SÍ um ný vaxtaviðmið, sem dómstólar staðfestu í trássi við skuldbindingar Íslands gagnvart EES-samningnum, höfðu fyrst og fremst þau áhrif að auka verðmæti eignasafna nýju bankanna frá því mati sem lá til grundvallar við yfirtöku þeirra (hálfvirði). Þetta endurmat lá til grundvallar meira en helmingnum af heildarhagnaði stóru bankanna árið 2010. Þetta skiptist auðvitað misjafnlega milli þeirra þriggja, til dæmis var allur hagnaður Arion banka í fyrra vegna þessa endurmats og gott betur, svo án þess hefði sá banki líklega verið rekinn með tapi. Þar sem enn hefur ekki fallið fordæmisgefandi dómur um fyrirtækjalánin, þá eru þau enn skráð sem erlendar eignir en þó líklega á niðurfærðu verði eða allt niður í 35% af nafnvirði. Réttmæti þess mun líklega ráðast af dómsniðurstöðu í hinu svokallaða Motormax máli, sem nú er beðið í ofvæni sökum víðtæks fordæmisgildis.


mbl.is Óvissan alltaf verið mikil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Mótormaxdómi fagnað en áhrif sögð lítil - mbl.is

"Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum voru lánin sem Hæstiréttur dæmdi ólögleg færð inn sem erlend eign þegar samningar voru gerðir um útgáfu gengistryggðs skuldabréfs sem Landsbankinn gaf út til þrotabúsins árið 2009."

Krónulán til innlends fyrirtækis með tekjur í krónum skráð sem "erlend eign". Þarna eru komnar fram mikilvægar sannanir fyrir umsvifamiklum fölsunum. Í öðrum fréttum af málinu hefur komið fram að bankinn telji um 16 milljarða í húfi, sem þýðir að lán sem eru sambærileg þessu og væntanlega bókfærð á sama hátt nema talsvert hærri upphæðum eða tugum milljarða. Og þetta er bara það sem bankinn hefur nú þegar gengist við sjálfur. Guð má vita hversu miklu meiri falsanir kæmu upp úr krafsinu ef þetta yrði rannsakað.

Guðmundur Ásgeirsson, 11.6.2011 kl. 17:57

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hér eru fleiri dæmi um hugsanlegar falsanir þegar komnar fram:

Mat íbúðarhúsnæðis hækkar um 9% - bofs.blog.is 

Guðmundur Ásgeirsson, 23.6.2011 kl. 20:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband