Landsbankinn hf. hagnast á við þann gamla
29.4.2011 | 07:44
Nýji Landsbankinn hefur nú haldið aðalfund og ákveðið að breyta lögheiti sínu úr NBI hf. í Landsbankinn hf. Hætt er við þetta geti valdið einhverjum ruglingi, en til skýringa:
Landsbanki Íslands hf. (LBI) er gamli ríkisbankinn sem var einkavæddur í árslok 2002 fyrir 25 milljarða og fór á hausinn árið 2008, hann er nú í slitameðferð. Á rústum gamla bankans var stofnuð ný kennitala með lögheitið NBI hf. sem tók upp markaðsheitið Landsbankinn og hefur nú ákveðið að gera það að lögheiti sínu.
Landsbankinn hf. (NBI) er semsagt nýji ríkisbankinn, sem var formlega stofnaður í desember 2009 með 122 milljarða eiginfjárframlagi ríkisins og útgáfu 300 milljarða skuldabréfs inn í eignasafn gamla bankans sem mun líklega allt renna upp í IceSave kröfurnar. Með öðrum orðum eru Bretar og Hollendingar hinir raunverulegu eigendur bankans í augnablikinu, og íslenska ríkið hyggst kaupa sinn 81% hlut alls þrisvar á næstu 10 árum til að eignast hann að lokum, en aðeins ef ekkert fer úrskeiðis í millitíðinni eins og að bankanum mistakist að útvega 47 milljarða í erlendum gjaldeyri.
Svo ég fái lánað orðalag úr notkunarskilmálum matsfyrirtækja, þá er þessi pistill EKKI FJÁRMÁLARÁÐGJÖF heldur aðeins mit PERSÓNULEGA ÁLIT sett fram á forsendum tjáningarfrelsis. Ég ber enga ábyrgð á öðru fullorðnu fólki og ákvörðunum sem það tekur.
Að lokinni þessari hringferð á eignarhaldi bankans frá ríkinu í einkaeigu og aftur til baka í ríkiseigu, er áfallinn kostnaður skattgreiðenda vegna afleiðinga af einkavæðingu Landsbankans nú þegar kominn yfir 500 milljarða króna eða einn þriðja af vergri þjóðarframleiðslu (33% GDP 2010). Þeir sem voru hvað ákafastir að vilja samþykkja ríkisábyrgð vegna IceSave hafa haldið því fram að málið hafi bakað okkur tjón upp á hundruðir milljarða sem mætti bæta við þessa summu og slagar þá áætlað tjón í hálfa til heila þjóðarframleiðslu (50-100% GDP 2010).
Enn er ótalið 2.108 milljarða tap almennra kröfuhafa gamla bankans og 144 milljarðar sem gætu vantað upp á fullar endurheimtur vegna IceSave innstæðna, miðað við nýjustu áætlanir frá skilanefndinni. Samtals nemur því tjónið sem einkavæðing þessa eina banka hefur haft í för með sér, á bilinu 2.700-3.000 milljörðum eða allt að tvöfaldri þjóðarframleiðslu (200% GDP 2010). Það samsvarar nokkurnveginn markaðshlutdeild Landsbankans sem hlutfall af áætlaðri heildarstærð íslenska bankahrunsins 2008.
Á meðan Landsbankinn var í einkaeigu á árunum 2003-2008 skilaði hann samtals 150 milljarða króna hagnaði (10% GDP 2010), sem þó er óljóst hvað varð um. Margt bendir til að stór hluti fjárins hafi farið gegnum Luxemborg og þaðan áfram til "money heaven" sem er hugsanlega á einhverri aflandseyjunni. Þó það sé líklega algjör tilviljun er merkilegt hversu svipuð þessi upphæð er þeirri sem vantar upp í IceSave kröfurnar miðað við endurheimtuspá...
Núna að undanförnu hafa nýju bankarnir verið að birta afkomutölur síðasta árs, og það hefur vakið nokkra athygli að þeir virðast skila svipuðum hagnaði og fyrir hrun. Landsbankinn er engin eftirbátur, skoðum afkomutölurnar frá og með einkavæðingu:
LBI
2003 3,0 ma.kr.
2004 12,7 ma.kr.
2005 25,0 ma.kr.
2006 40,2 ma.kr.
2007 39,9 ma.kr.
2008H1 29,4 ma.kr.*
------------------------
Alls: 150,2 ma.kr.
Meðal: 26,1 ma.kr.
NBI
2008Q4 -6,9 ma.kr.*
2009 14,5 ma.kr.
2010 27,2 ma.kr.
------------------------
Alls: 34,8 ma.kr.
Meðal: 15,5 ma.kr.
*Í tölum ársins 2008 er auðvitað undanskilið yfir 2000 milljarða tap kröfuhafa og hluthafa við gjaldþrot og endurskipulagningu bankans, en þessar tölur sem fengnar eru úr opinberlega aðgengilegum gögnum eru notaðar til að gefa samanburðarhæfa mynd af rekstrarafkomunni fyrir og eftir hrun. Reyndar verður að taka flestar tölur fyrir hrun með nokkrum fyrirvara, hvernig getur t.d. hálfsársuppgjör 2008 þegar bankinn var kominn að fótum fram, sýnt fram á methagnað án þess að um sé að ræða stórfellda fölsun? Athyglisvert er að hagnaður ársins í fyrra var meiri en áætlaður meðalhagnaður á einkavæðingartímabilinu, þrátt fyrir að stærð nýja efnahagsreikningsins sé aðeins þriðjungur af þeim gamla og mikill samdráttur hafi orðið í þjóðfélaginu.
Hefði ríkisábyrgð vegna IceSave verið samþykkt væri hlutdeild ríkisins í hagnaði síðasta árs farin fyrir lítið og gott betur, en þó að því glapræði hafi verið afstýrt er samt varla nema hófleg ástæða til bjartsýni um framtíðarhorfur "banka allra landsmanna". Rúm 60% af hagnaðinum eru 16,9 milljarðar af froðu vegna "virðishækkunar útlána", eða með öðrum orðum búnir til með engu nema pennastriki. Sköpunargleðin í bókhaldinu virðist lítið hafa dvínað við hrunið, til dæmis ber afkomukynningin vott um að áhrif ólögmætis gengistryggingar séu stórlega vanmetin og eiga þar ýmis kurl eftir að koma til grafar enn. Loks má nefna að greiðslur af höfuðstóli skuldabréfsins til LBI munu hefjast árið 2014 og nema yfir 50 milljörðum á ári í erlendum gjaldeyri. Samkvæmt áætlun bankans sjálfs mun hann ekki eiga gjaldeyri fyrir nema fjórum af þessum fimm afborgunum, og þarf því að kaupa mismuninn á gjaldeyrismarkaði.
Þeir sem eiga innstæður í Landsbankanum verða því treysta á að bankinn muni eiga 47 milljarða á lausu og að nægt framboð verði af gjaldeyri á sama tíma og Seðlabankinn losar um gjaldeyrishöftin og skilanefnd gamla Landsbankans greiðir út IceSave kröfurnar. Þetta er sérstaklega athugunarvert í ljósi þess að þann 1. júni næstkomandi er fyrirhugað að fella úr gildi yfirlýsingar stjórnvalda um fulla tryggingu innstæðna. Eftir það verða allt að 16 milljónir tryggðar hjá hverjum reikningseiganda og engin ríkisábyrgð. Við það bætist að 300 milljarða skuldabréfið við skilanefnd LBI er tryggt með veði í hálfu útlánasafni NBI, og hefur þannig forgang sem því nemur umfram innstæður ef einhverntíma reynir á tryggingarnar.
Á mannamáli þýðir þetta allt saman að frá og með sumri verður engin innstæða yfir örfáum milljónum örugglega geymd í Landsbankanum. Formaður bankaráðs virðist hinsvegar hafa lagt á það áherslu á aðalfundinum að þrefalda þyrfti laun bankastjórans. Kannski eru ofurlaun fyrir bankastjóra einmitt ráðið til að leysa öll vandamál í hagkerfinu.... Hvað segið þið er búið að reyna það? Já alveg rétt og það virkaði ekki, en hvað veit ég svosem, eins og stendur efst þá er þetta EKKI fjármálaráðgjöf.
Áhyggjur af launamálum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 12:31 | Facebook
Athugasemdir
Mér finnst það móðgun við almenning í landinu, að bankinn skuli áfram kenna sig við Landsbankann. Landsbanki Íslands setti þjóðfélagið á hliðina 7. október 2008, þegar í ljós kom að hann réð ekki við að greiða breskum Icesave-innstæðueigendum út innstæður sínar, þegar áhyggjufullir innstæðueigendur vildu fá peningana sína. Ef bankinn hefði ekki verið svona ákafur í að lána eigendum sínum og nokkrum vildarviðskiptavinum háar upphæðir og haldið þessum peningum í varasjóði, eins og tilhlíðilegt er, þá hefði hann getað greitt fólki út innstæður sínar í nægilegu magni til að hrynda af sér "áhlaupinu". Að hann siðan dirfist að viðhalda nafninu sýnir að hann er ekki að leita sáttar við almenning.
Marinó G. Njálsson, 29.4.2011 kl. 11:07
Nýi bankinn stefnir harðbyri í að verða nákvæm eftirmynd af þeim fyrri.
Ég átti nýlega leið í útibú Landsbankans og rak augun í auglýsingaefni sem er svosem ekki í frásögur færandi. En þar á meðal vöktu athygli mína nokkur eintök af bók sem var prentuð á þykkan glanspappír og lá frammi í mörgum eintökum innan um þynnri bæklinga.
Þar sem þetta var veglegasta prentverkið í sjónfæri datt mér í hug að það hlyti að vera kynningarefni um nýja stefnu ("bankinn þinn") eða siðasáttmála sem bankinn hefur verið að auglýsa af krafti sem hluta af því að endurnýja ímynd sína og reyna að sækja traust að nýju.
Þegar ég lyfti bókinni upp og sá að þetta var matreiðslubók með grilluppskriftum ætluðu dauðar lýs að detta mér úr höfði. Í hugskoti mínu skutu upp kollinum myndir af grillsvuntum og -hönskum, flíspeysum, teppum, töskum, heilu fjalli af næfurþunnum handklæðum og allskonar misjafnlega ómerkilegu drasli merktu gömlu bönkunum.
Á framhlið grillbókarinnar var jú merki Landsbankans, en þegar betur var að gáð kom í ljós innan á kápunni að bókin var framleidd árið 2008. Ég fylltist ónotatilfinningu og leit ósjálfrátt í kringum mig til að ganga úr skugga um að það væri örugglega árið 2011 og mig væri ekki að dreyma (martröð).
Þá rann upp fyrir mér á hvaða sviði "bankinn okkar" getur náð samkeppnisforskoti á Arion og Íslandsbanka: með því að endurnýta allt gamla stöffið. Það geta hinir ekki því þeir eru búnir að breyta um nöfn eða liti eða bæði þannig að það gamla myndi stinga í stúf. Fyrst það var talið borga sig að viðhalda þessu handónýta vörumerki hljóta að vera einhversstaðar vöruskemmur troðfullar af auglýsingavarningi merktum Landsbankanum.
Nú hlýtur aðeins að vera tímaspursmál hvenær fótboltaauglýsingin með Björgólfi birtist á eftir kvöldfréttum sjónvarps. Ég meina hún kostaði hellings pening, það þarf að reyna að endurheimta fjárfestinguna.
Nýju bankarnir eru ekki bankar heldur innheimtustofur kröfuhafa.
Guðmundur Ásgeirsson, 29.4.2011 kl. 12:30
Sæll Guðmundur,
Ég man eftir því, sennilega 2007, að 3 stærstu íslensku bankarnir skiluðu meiri hagnaði heldur er Bank of America, stærsti bankinn hér í Bandaríkjunum (JPMorgan er að skila meiri hagnaði en BoA en BoA er með meiri eignir, taldar eitthvað rúmar 2 trilljónir dollara 2010). Ég skil ekki alveg hvernig bankarnir eru að sýna þennan hagnað. Það kæmi mér ekkert á óvart ef þeir sýna hagnað fyrir þetta ár sem næmi hátt í milljarði dollara! Er þetta "raunverulegur" hagnaður eða er þetta hagnaður eins og fyrir hrun, tölur á blaði, sem ekkert eiga skylt við raunveruleikann? Maður bara spyr.
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 30.4.2011 kl. 05:55
Sælir það er komið á daginn nákvæmlega það sem ég hef alltaf sagt frá hruni bankarnir eru ekkert annað en stór mafía sem sogar allt fjármagn úr kerfinu eins og fyrir hrun! Þar verða ekki til peningar og munu aldrei verða þetta skilja ekki stjórnendur bankana því ætti að lækka laun þeirra niður í raunhæf laun hins almenna borgara ekki krónu meira!
Sigurður Haraldsson, 1.5.2011 kl. 10:36
Arnór: "Ég skil ekki alveg hvernig bankarnir eru að sýna þennan hagnað. Er þetta "raunverulegur" hagnaður eða... tölur á blaði...?"
Hagnaður stóru bankana 2010 var af stóru leyti vegna"endurmats lánasafna". Með öðrum orðum froða sem var búin til með pennastriki.
Samanlagt högnuðust þessir þrír bankar um 68,9 ma.kr. og þar af voru 44,8 ma.kr. vegna endurmats lánasafna eða 65% af heildarhagnaðinum.
Verg landsframleiðsla árið 2010 var 1.539 ma.kr. skv. tölum Hagstofu Íslands. Þar af var hagnaður bankanna þriggja 4,5% og endurmat lánasafna þeirra nemur 2,9% af VLF. Til samanburðar var fjármálaráðherra himinlifandi yfir hagvaxtarspám upp á 2-3% á þessu ári.
Steingrímur gæti því allt eins verið að blása loftbólur.
Guðmundur Ásgeirsson, 1.5.2011 kl. 17:33
Tókuð þið eftir því allur hagnaður Arion banka í fyrra var tilkominn vegna "endurmats". Ef áhrif þessu væru tekin út úr ársreikningnum hefði hann verið rekinn með 1,1 milljarða tapi.
Endurmatið svokallaða er líka í raun ekki vegna þess að neitt undirliggjandi hafi breyst, nema hvað glæpir bankans í fortíðinni og sömu starfsmanna hjá forvera hans Kaupþingi, voru lögleiddir með afar vafasömum hætti. Eftir stendur að gengisbundnu lánin sem voru uppfærð eru ennþá jafn ólögleg, og greiðslugeta viðskiptavina bankans hefur ekki aukist.
Þetta eru samskonar falsanir og viðgengust fyrir hrun, og því ekki við öðru að búast en sömu afleiðingum. Rétt eins og þá eru nýju bankarnir löngu gjaldþrota, þeim er bara haldið lifandi með fölsunum.
Guðmundur Ásgeirsson, 2.5.2011 kl. 00:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.