Í tilefni dagsins - 1. hluti: svartháfur

Mér duttu allar lýs dauðar úr höfði er ég leit forsíðu Fréttablaðsins í dag, en þar blasti við frétt um ráðleggingar Íslandsmethafans í tapreksti meðalstórra fjármálafyrirtækja varðandi IceSave. Það er með ólíkindum hvernig blaðamanninum tókst að fjalla að því er virtist af fúlustu alvöru um þá meintu ráðgjöf að stærsta myntkörfulántaka Íslandssögunnar sé nauðsynleg forsenda frekari skuldsetningar, og að í því felist einhver lausn á vanda sem stafar af of miklum skuldum.

Svo leit ég á dagatalið og ástæða þessara öfugmæla rann upp fyrir mér.

Enginn fjölmiðill mun samt toppa í dag það sem þakti heilsíðu í Mogganum. Það skelfir mig að einhver gangi laus þarna úti með dómgreind þá sem ráðstafaði hér um bil bílverði í birtingu á þessu furðuverki. Sem andstæðingur ríkisábyrgðar á ókind þessari vil ég þó koma á framfæri þökkum til Áfram hópsins fyrir að hjálpa fólki að ákveða sig.

Enginn hræðsluáróður eða hvað?

  Hákarlinn á myndinn er talinn vera af tegundinni Svartháfur.

Væri ég í einni sæng með honum myndi ég líka þrá að komast undan henni.


mbl.is Fornleifar í Landeyjahöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Af hverju má ekki dagurinn líða án þess að einhverjir skemmi fyir fólki ?

Birgir Guðjónsson (IP-tala skráð) 1.4.2011 kl. 11:36

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Spyrðu hákarlinn á myndinni.

Guðmundur Ásgeirsson, 1.4.2011 kl. 12:08

3 Smámynd: Libertad

Aprílgabbið á visir.is er í leiðara ritstjórans hér.

Libertad, 1.4.2011 kl. 14:10

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Leiðarinn fjallar um lánshæfiseinkunnir matsfyrirtækja.

Forstjórar stóru matsfyrirtækjanna afneituðu því þrefalt frammi fyrir bandarískri þingnefnd haustið 2008, að það væri yfir höfuð nokkuð að marka einkunnir þeirra. Það væri aðeins þeirra eigin geðþóttamat og enginn með fullu viti ætti að leggja það til grundvallar við ákvarðanir um fjárfestingar.

Það versta er samt hversu margir virðast ætla að hlaupa þennan apríl.

Guðmundur Ásgeirsson, 1.4.2011 kl. 14:34

5 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Varstu þú staddur á fyrirlestri Lee Buchheit í Háskóla Íslands í gær?

Matthías Ásgeirsson, 1.4.2011 kl. 17:28

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það passar. Hví spyrðu?

Guðmundur Ásgeirsson, 1.4.2011 kl. 20:32

7 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Ég sé engin skrif frá þér um þann fund og það sem þar kom fram. Sé þig heldur ekkert minnast á svör Buchheit við spurningum þínum.

Matthías Ásgeirsson, 2.4.2011 kl. 11:01

8 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ég sé ekkert heldur á heimasíðu Buchheits um fundinn, né heldur um spurningar mínar til hans. Og hver er punkturinn hjá þér Matthías?

Guðmundur Ásgeirsson, 2.4.2011 kl. 22:30

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Til að upplýsa forvitna lesendur þá er Matthías hér að vísa til opins fyrirlestrar sem Stjórnsýslustofnun Háskóla Íslands hélt þann 31. mars síðastliðinn um IceSave þar sem Lee Buchheit formaður IceSave samninganefndar Íslands flutti framsögu og svaraði spurningum.

Ég fékk hljóðnemann tvisvar. Fyrri spurningin snerist um dómstólaferli vegna hugsanlegrar skaðabótaskyldu verði samningnum hafnað. Þá seinni bar ég fram þegar fundi var við það að ljúka og mælendaskrá tóm, hún snerist um greiðslur fyrir ferðalög og kynningarstarf Buchheits. Af viðbrögðum fundargesta í salnum virtust þeir mjög viðkvæmir fyrir þessu atriði, en Lee virtist ekki taka það nærri sér enda ætti spurningin fullan rétt á sér.

Ef það er áhugi fyrir því að ég geri nánar grein fyrir þessum fundi væri e.t.v. rétt að ég myndi bara skrifa um það sérstaka færslu. Veit einhver hvar hægt er að nálgast upptöku af honum?

Guðmundur Ásgeirsson, 3.4.2011 kl. 01:22

10 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Þú hefur skrifað margar færslur um þetta mál en ekki minnst á fundinn fyrr en nú. Finnst þér það sjálfum ekkert skrítið?

Og hvert var svo svar Bucheit?

Matthías Ásgeirsson, 3.4.2011 kl. 13:16

11 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Matthías, vissulega hef ég skrifað margar færslur um IceSave. Þú virðist vera að fiska eftir því að ég skrifi hérna einhvern texta um þau svör sem ég fékk frá Buchheit við spurningum mínum. Eins og ég tók fram þá hef ég hugleitt að skrifa um það sérstaka færslu. Hinsvegar hef ég ekki haft tök á að koma því í kring, ennþá.

En finnst mér það sjálfum skrítið? Nei alls ekki, ég lít ekki þannig á að það sé neitt einkennilegt við bloggsíðu sem þekur talsvert minna en 100% af hugarheimi höfundarins, þar með talið daglegum upplifunum. Ég fór á fleiri fundi í vikunni sem leið, og bloggaði ekki um hvern og einn. Ég þarf að borða og sofa eins og aðrir, og það er ekki eins og sé á launum hérna.

En Matthías, hvers vegna ert þú að reyna að gefa eitthvað tortryggilegt í skyn? Heldurðu að annarleg sjónarmið ráði því að greinargerð frá mér um fundinn með Buchheit hefur ekki litið dagsins ljós á þessum tímapunkti? Eða fannst þér kannski spurningarnar merkilegar fyrir einhverra hluta sakir? Ef svo er þá gleður mig að þær hafi vakið athygli. Sjálfum fannst mér salurinn í heild leggja fram margar áhugaverðar spurningar, og svör Buchheits voru í flestum tilfellum skýr og oft upplýsandi.

Þetta var opinn fundur fyrir fullum sal, og að fréttamönnum viðstöddum (á launum!). Ég stóð upp og kynnti mig þegar ég lagði fram spurningar, það er ekki eins og ég hafi verið þar í neinum laumuleik. Að loknum fundinum þakkaði ég hr. Buchheit fyrir greið svör og hann kom mér nokkuð á óvart þegar hann heilsaði mér með nafni. Hvað sem öðru líður er Lee augljóslega greindur og töfrandi maður.

Eins og áður sagði væri mjög gagnlegt ef einhver gæti vísað á myndbandsupptöku af fundinum. Til dæmis einhverjir af þessum fréttamönnum sem voru þarna að fá borgað fyrir að miðla þannig efni. Matthías, finnst þér ekkert skrýtið að fjölmiðlar hafi mætt á þennan fund en ekki fjallað um hann?

Guðmundur Ásgeirsson, 4.4.2011 kl. 03:23

12 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

> "Heldurðu að annarleg sjónarmið ráði því að greinargerð frá mér um fundinn með Buchheit hefur ekki litið dagsins ljós á þessum tímapunkti?"

Já, ég held að málflutningur Buchheit hafi ekki hentað sjónarmiðið þínu og því hafir þú ekki hátt um hann.

Matthías Ásgeirsson, 4.4.2011 kl. 10:37

13 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Viltu semsagt meina Matthías, að svör Buchheits hafi þá hentað betur málstað þeirra sem vilja samþykkja IceSave?

Ég stóð í þeirri meiningu að þetta hefði átt að vera hlutlaus kynning á staðreyndum málsins.

Sé svo ekki er það merkilegt út af fyrir sig.

Guðmundur Ásgeirsson, 4.4.2011 kl. 15:42

14 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Hlutlaus kynning á staðreyndum málsins hentar betur málstað þeirra sem vilja samþykkja Icesave. Flóknara er þetta ekki.

Matthías Ásgeirsson, 4.4.2011 kl. 20:06

15 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ég deili reyndar ekki þeirri skoðun með þér. Mér finnst umfjöllun um málið hafa fremur einkennst af misskilningi og ósamræmi heldur en hitt.

Sumir halda ennþá að okkur beri einhver skylda til að ábyrgjast IceSave innstæðuskuldbindingar Landsbankans. Hið sanna er að ekki aðeins skortir lagaskyldu fyrir ábyrgð skattgreiðenda vegna IceSave, heldur skortir beinlínis lagaheimild fyrir því. Evróputilskipun um innstæðutryggingar bannar sérstaklega að þær séu í formi ríkisábyrgðar, þannig að óttist menn stefnu fyrir EFTA dómstól ætti þetta að valda þeim verulegum áhyggjum. Sú afleiðing þess að samþykkja IceSave samningana, að þá fyrst yrðum við brotleg gagnvart EES, hefur ekki verið kynnt fyrir almenningi.

Því hefur til dæmis verið haldið fram að með setningu neyðarlaganna (sem eru sjálf rót mikils misskilnings) hafi réttur innstæðukröfuhafa í Bretlandi og Hollandi einhvernveginn verið skertur, þegar staðreynd málsins er sú með því að setja þá framfyrir kröfuröð fengu þeir 600 milljarða umfram það sem þeir hefðu annars átt möguleika á að endurheimta.

Sumir hafa haldið því fram að á Íslandi sé í gildi ríkisábyrgð á innstæðum, þegar staðreynd málsins er sú að lög um slíkt hafa aldrei verið sett og TIF hefur aldrei fram að þessu greitt út hvorki krónu, pund né evru. Björgun innlendrar starfsemi bankanna gekk meira að segja gagngert út á að koma í veg fyrir að á þetta reyndi. En á þessum misskilningi eru svo byggð allskonar rök um hugsanlegar skelfilegar afleiðingar þess ef Íslandi yrði stefnt fyrir einhverja mismunun sem aldrei átti sér stað.

Fyrsta spurning mín til Buchheits gekk einmitt út á þetta, því allar greiningar sem opinberir aðilar hafa látið gera á hugsanlegum afleiðingum samningsins ganga hreinlega út frá því að hann verði samþykktur. Hinsvegar hefur engum peningum verið varið úr ríkissjóði til að láta gera samskonar greiningu á afleiðingum þess að hafna samningnum. Um það hafa órökstuddar og óttaþrungnar fullyrðingar fengið að vaða uppi.

Ein af afleiðingum þess að samþykkja samninginn er að við það flyst lögsaga í málinu frá Íslandi, undan íslenskum lögum og dómstólum, og undir hollenskan gerðardóm sem skal dæma samkvæmt enskum lögum. Þetta kom fram í spurningu minni til Buchheits, en hann hélt því fram að þetta væri misskilningur hjá mér, slíkt ákvæði hefði verið í gamla samningnum en væri ekki í þeim nýja. Textinn í nýju samningunum (IceSave-III) sem eru birtir á vef fjármálaráðuneytisins segir hinsvegar aðra sögu:

"Lög sem gilda: Samningur þessi og mál, kröfur eða ágreiningur sem rís vegna hans eða í tengslum við hann, hvort heldur er innan eða utan samninga (e. Contractual or non-contractual), skulu lúta enskum lögum og túlkast samkvæmt þeim."

Þetta er samhljóða í grein 10.9 í samningnum við Breta, grein 9.9 í samningnum við Hollendinga og grein 5.6 í hinum vafasama Pari Passu hliðarsamningi við Hollendinga. Lee Buchheit hélt hinsvegar fram því gagnstæða, sem er aðeins hægt að útskýra með tvennu: a) vanþekkingu á innihaldi samningsins, eða b) lygi.

Matthías, ég held að ég sé ekki að gera Buccheit eða þeim sem aðhyllast hans málflutning neinn sérstakan greiða með því að skýra frá þessu. Ég læt lesendum eftir að meta hvort það "hentar sjónarmiði mínu" (sem er NEI) að hafa staðið formann samninganefndarinnar að ósannindum, en kosið að skrifa ekki strax um það (fyrr en nú).

Ég spurði líka um hver borgaði fyrir kynningar og ferðalög Buchheits vegna þeirra. Hann svaraði því að hann tæki þetta að sér pro bono, og uppskar gríðarlegt lófaklapp úr salnum fyrir góðmennskuna! Við hljótum að mega teljast heppin heppin að svona geðveikt fínn gaur skuli vera að standa í þessu stússi fyrir okkur alveg ókeypis.... ekki satt?

En Matthías, fyrst þú ert svona áhugasamur um þetta og heldur að ég sé að fela eitthvað eftir hentugleik til að fegra mitt sjónarmið. Hvers vegna hefur þú ekki sjálfur skrifað neitt um það og flett ofan af mér? Hentar það kannski þínu sjónarmiði að hafa ekki hátt um þetta?

Ég hef ekkert að fela og ítreka ákall mitt um myndband af fundinum. Voru ekki annars allir helstu fjölmiðlar mættir? Heldurðu, Matthías, að það henti kannski þeirra sjónarmiði að hafa ekki hátt um það sem þar fór fram?

Maður hlýtur að spyrja sig.

Guðmundur Ásgeirsson, 5.4.2011 kl. 00:13

16 Smámynd: Libertad

Guðmundur: Af því að dæma sem þú skrifar um tilsvör Buchheits, þá er það hann sjálfur (Buchheit) sem hefur eitthvað að fela. Því varla er hann að semja við Breta og Hollendinga án þess að þekkja innihald hins endanlega samnings, eða hvað?

Þessum manni (Buchheit) er ekki treystandi fyrir 5 aura/centimes. Ég veit ekki hvar Sigfús hefur grafið þennan gaur upp, en eitt er víst að það var löngu farið að slá í hann.

Varðandi greiðslu fyrir kynningarnar, þá held ég að það hafi verið innifalið í þessum tugum milljóna sem hann fékk fyrir að semja af sér.

Libertad, 5.4.2011 kl. 12:12

17 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hann hefði getað svarað seinni spurningunni einfaldlega með því að upplýsa hver skrifar undir ávísanirnar. Þess í stað kaus hann að svara með löngu og flóknu svari, en menn fara yfirleitt ekki fjallabaksleið nema til að fara kringum svæði sem er erfitt yfirferðar.

Greiðsla fyrir kynningarnar var að sjálfsögðu innifalin í þeim ótöldu milljónum sem honum voru greiddar fyrir samningavinnuna. Nú frestar fjármálaráðuneytið því að að upplýsa hversu háar þær voru. Getur verið að það sé vegna þess, að það sé einfaldlega ekki búið að gera upp nýjustu reikningana? Hver sem fjárhæðin er þá er þetta "pro bono" kynningarstarf eftir að ráðningarhlutverki hans lýkur í raun bara jafngilt því að hann veiti afslátt af tímagjaldinu sem hefur þegar verið greitt.

Ég hef hingað til ekki viljað beina spjótum að Buchheit sérstaklega þar sem ég var ekki alltaf viss hvar ég hefði hann og oft á tíðum virkaði hann sannfærandi. En eftir þessi kurteislegu viðskipti okkar sem hér var lýst hef ég hinsvegar tekið þá afstöðu að ég treysti honum ekki.

Mér skilst líka eftir óstaðfestum heimildum að jafnvel fyrir honum, sjálfum formanni samninganefndarinnar, hafi gögnum hugsanlega verið leynt. Reynist það rétt þýðir það að hann hefur brugðist íslensku þjóðinni sem hann segir vera umbjóðendur sína. Ég leyfi mér að giska á að íslenska þjóðin sé orðin þreytt á leynipukri og upplýsingakúgun, og myndi aðspurð ekki sætta sig við að gera þennan samning úr ófullkomnum upplýsingum.

Ég er ekki að segja frá þessu vegna þess að ég vilji ráðast gegn persónu herra Lee Buchheit með nokkrum hætti. Þetta er kurteis og greindur maður, hvað sem öðru líður. Hinsvegar finnst mér margt við þetta skipta máli fyrir "upplýsta umræðu um IceSave" ef slíkt fyrirbæri er á annað borð til.

Guðmundur Ásgeirsson, 6.4.2011 kl. 05:52

18 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

> " Hvers vegna hefur þú ekki sjálfur skrifað neitt um það og flett ofan af mér? Hentar það kannski þínu sjónarmiði að hafa ekki hátt um þetta?"

Ólíkt þér hef ég mjög lítið skrifað um Icesave málið.

> "En eftir þessi kurteislegu viðskipti okkar sem hér var lýst hef ég hinsvegar tekið þá afstöðu að ég treysti honum ekki."

lol - þetta er allt eitthvað samsæri :-)

Matthías Ásgeirsson, 6.4.2011 kl. 08:50

19 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hópur fólks kom saman og hafði samráð um verknað sem er ólöglegur (fullveldisafsal) og reyndu svo að leyna því. Þannig mætti skilgreina samsæri um landráð samkvæmt almennum hegningarlögum, sem er refsivert athæfi.

Hinsvegar fannst mér þetta einfaldlega ótrúverðugt hjá Buchheit, og það eitt og sér dugar mér til að vantreysta honum. Þarf ekki samsæri til.

Guðmundur Ásgeirsson, 6.4.2011 kl. 15:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband